11.05.1959
Sameinað þing: 47. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í D-deild Alþingistíðinda. (2219)

169. mál, framkvæmdir í raforkumálum

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 2. þm. N-M., þm. Barð., 1. þm. S-M. og þm. N-Þ. að bera fram till. til þál. um framkvæmdir í raforkumálum, og er till. svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að haga framkvæmdum í raforkumálum þannig, að auk þeirra sveita- og kauptúnaveitna, sem áformað er að koma upp árið 1959, verði einnig á þessu ári unnið við þær rafstöðvabyggingar og aðalorkuveitur, sem 10 ára áætlunin mælir fyrir um. Í framhaldi af því verði á næstu fjórum árum unnið að því að ljúka framkvæmdum samkv. áætluninni, eins og til var ætlazt.“

Ástæður fyrir því, að við flm. þessarar till. hreyfum nú þessu máli hér á þennan hátt, eru þær, að við 2. umr. fjárlaga, sem fram fór í síðari hluta aprílmánaðar, lögðu stuðningsmenn ríkisstj. í fjvn. fram till. um að lækka fjárframlög úr ríkissjóði til raforkuframkvæmda á þessu ári um rúmlega 10 millj, kr., og sú till. var samþykkt af stuðningsflokkum hæstv. ríkisstj. Við 2. umr. fjárlaga var þess þó getið af þeim, sem þessa till. báru fram og hana samþykktu, að með því ætti ekki að stofna til þess að draga úr framkvæmd rafvæðingaráætlunar strjálbýlisins, heldur ætti að kosta þær framkvæmdir af lánsfé og þætti sýnt, að auðið væri að tryggja nægilegt fjármagn í þessu skyni. En við 3. umr. fjárlaga kom í ljós, að hér var meira í húfi en það, sem gerð var grein fyrir við 2. umr. fjárlaganna. Þá kom í ljós á lokastigi fjárlagaafgreiðslunnar, að búið var að breyta 10 ára áætluninni frá 1953 eða 1954 í verulegum atriðum og til þess stofnað að gera í ýmsum greinum gerbreytingar á framkvæmdum í raforkumálum frá því, sem áætlað hafði verið.

Okkur flm. virðist, að samkvæmt hinni nýju áætlun ríkisstj, sé ráðgert að hætta við a.m.k. í bili og e.t.v. að fullu, sums staðar að tengja saman rafveitukerfi á milli héraða, eins og áætlað hafði verið, en auka í þess stað dísilstöðvar. Þá mun vera ráðgert að fella niður framkvæmdir, sem fyrirhugaðar voru samkv. 10 ára áætluninni og munu nema að ég ætla yfir 100 millj. kr. samtals.

Þeir, sem að þessari áætlun standa, segja að sönnu, að hér sé um frestun á framkvæmdum að ræða. En í öðru orðinu er þó talað um, að af þessu eigi að leiða mikinn sparnað á þessu sviði. Ef það er nú svo, að hér er einungis um frestun á framkvæmdum að ræða, þá virðist tæplega hægt að tala um hreinan sparnað í framkvæmdum, heldur aðeins um tilfærslu útgjalda milli ára, því að eins og þróun verðlagsmála er hér á landi, þá hygg ég, að enginn geti staðhæft það nú, að verðlag verði hagstæðara eftir nokkur ár og þær framkvæmdir, sem nú á að fella niður, en kynnu að verða gerðar síðar, kosti minna fjármagn þá heldur, en nú. En ef það er ætlunin að fella þessar framkvæmdir niður fyrir fullt og allt, þá er með meiri rétti hægt að segja, að af því leiði sparnað.

Okkur virðist, flm. þessarar till., að fyrirhugað sé með þeim breytingum, sem ég geri hér að umtalsefni, að skera niður fjárframlög til raforkumála á þessu ári um 30–40 millj. kr. frá því, sem orðið hefði, ef 10 ára raforkuáætluninni hefði að öllu leyti verið fylgt. Og okkur virðist enn fremur, að í hinni nýju áætlun sé ráðgert að fella úr gildi samninginn við bankana um lánsfé til þessara framkvæmda, en sá samningur var grundvallaratriði frá upphafi í sambandi við 10 ára raforkuáætlunina. Af þessu má sjá, að hér er stofnað til mjög veigamikilla breytinga í þessu efni.

Sérstakur þáttur þessa máls snýr að því kjördæmi, sem ég er fulltrúi fyrir, AusturSkaftafellssýslu, og þó að ég hafið gert þann þátt nokkuð að umtalsefni áður í sambandi við afgreiðslu fjárlaga, þá get ég ekki komizt hjá í sambandi við þessa till. að víkja enn að þeim þætti málsins.

Þegar 10 ára raforkuáætlunin var samþ. af þáverandi ríkisstj. og stuðningsflokkum hennar og framkvæmdir hafnar samkv. áætluninni, var gert ráð fyrir því, að virkjanir yrðu reistar og þær látnar sitja í fyrirrúmi á Vestfjörðum og á Austurlandi. En nú er þessum virkjunum lokið. Þær eru fullgerðar, að ég hygg. Næst á eftir þessum virkjunum var ráðgert að virkja Smyrlabjargaá í Suðursveit fyrir meginhluta Austur-Skaftafellssýslu, og samkv.

10 ára áætluninni áttu þær framkvæmdir að fara fram á árunum 1958–60. Á árinu 1958 var þegar byrjað á þessum framkvæmdum að því leyti, að keypt var nokkuð af efni til virkjunarinnar fyrir þau fjárframlög, sem þá voru lögð fram. Héraðsbúar töldu því, að þetta mál væri í raun og veru leyst, það væri komið á framkvæmdastigið. Nú virðist okkur flm. þessarar till., að í hinni nýju áætlun, sem við höfum séð og var gerð að umtalsefni við 3. umr. fjárl., sé gert ráð fyrir því að fella niður þessa framkvæmd, virkjun Smyrlabjargaár, a.m.k. fyrst um sinn, a.m.k. til ársins 1963 eða 1964, en í þess stað sé fyrirhugað að reisa nýja dísilstöð í Hafnarkauptúni og leiða orku frá henni a.m.k. á næstu bæ eða eitthvað inn í héraðið. Þetta er gert án nokkurs samráðs við héraðsbúa, og það hefur enginn maður í héraði óskað eftir því, að raforkumál héraðsins yrðu leyst á þann hátt að reisa nýja dísilstöð í Hafnarkauptúni. Fyrirhugað hefur verið öll þau ár, sem þetta mál hefur verið til umr., að láta gömlu dísilstöðina, sem látin er enn nægja sem orkugjafi fyrir kauptúnið, vera áfram varastöð með vatnsaflsvirkjuninni. Hér er því um gerbreytingu að ræða frá því, sem ákveðið var í samræmi við 10 ára áætlunina og byrjað var að framkvæma af fyrrverandi ríkisstjórn.

Eftir að þessi tíðindi spurðust héðan frá hæstv. Alþingi, hafa hreppsnefndir á því svæði, sem hér á hlut að máli, haldið fund um þetta mál, og þær hafa einróma komið sér saman um áskorun til hæstv. Alþ. og hæstv. ríkisstj. út af þessu máli. Vil ég leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér upp þessa áskorun hreppsnefndanna.:

„Samkv. tíu ára rafmagnsáætlun ríkisins var ákveðið að virkja Smyrlabjargaá í Suðursveit til rafmagnsnota fyrir a.m.k. fjóra hreppa Austur-Skaftafellssýslu. Höfðu loforð verið gefin um, að framkvæmdir við virkjunina skyldu hefjast á þessu ári. Hefur í því sambandi verið flutt í vetur nokkuð af efni á virkjunarstaðinn og hafin vegarlagning þangað. Nú höfum við frétt, að umræddar framkvæmdir muni ekki verða hafnar í sumar og að dráttur muni um óvissan tíma kunna að verða á, að byrjað verði á virkjuninni. Leyfum við undirritaðir hreppsnefndarmenn oss að mótmæla í nafni héraðsbúa slíkum drætti, þar sem með honum er gengið á bak gefinna loforða og það án þess að hafa um það nokkur samráð við forsvarsmenn héraðsins. Teljum við, að slíkar vanefndir geti ekki til greina komið, enda beri íbúum þessa héraðs sami réttur og öðrum landsmönnum í framkvæmdum á rafvæðingaráætlun landsins. Af framansögðu krefjumst við þess, að haldið verði áfram framkvæmdum á þessu ári og virkjuninni lokið á tilsettum tíma árið 1960.

Höfn, 4. maí 1959.

Hreppsnefnd Hafnarhrepps,

Knútur Þorsteinsson,

Ásgrímur Halldórsson,

Guðmundur Jónsson,

Benedikt Þorsteinsson,

Ársæll Guðjónsson.

Hreppsnefnd Nesjahrepps,

Jón Björnsson,

Bjarni Bjarnason,

Sigurður Hjaltason.

Hreppsnefnd Mýrahrepps,

Sigurjón Einarsson,

Þórhallur Sigurðsson,

Guðjón Jónsson,

Elías Jónsson,

Benedikt Bjarnason.

Hreppsnefnd Borgarhafnarhrepps,

Stefán Þórarinsson,

Ari Jónsson,

Jóhann Björnsson,

Benedikt Þórðarson,

Steinþór Þórðarson.“

Af kynnum mínum við Austur-Skaftfellinga, sem eru bæði mikil og góð, veit ég það raunar, að hér er hópur manna, sem eru forustumenn í héraði í liði þriggja stjórnmálaflokka, sem nokkurt fylgi eiga í héraðinu. En ég mæli ekki hér til þess að greina eða skipta Austur-Skaftfellingum í flokka, enda ætti það sízt við í sambandi við þetta mál. Þetta mál skiptir Austur-Skaftfellingum ekki í flokka. Hér talar samstilltur hópur manna í umboði allra héraðsbúa. Austur-Skaftfellingum öllum er það vel ljóst, að hin nýja áætlun felur í sér slíka gerbreytingu á framkvæmd raforkumála í héraðinu, að þeir geta ekki við unað. Þeir skilja vel, að samkv. hinni nýju raforkuáætlun ríkisstj. á að vanefna fyrirheit, sem gefið hafði verið um virkjun Smyrlabjargaár á þessu ári og hinu næsta, — fyrirheit, sem ástæða var til að ætla að mætti treysta, m.a. vegna þess, sem fyrrv. stjórn hafði unnið í málinu.

Ég mótmæli þessum aðgerðum þeirra, sem fara með stjórn raforkumála og fjármála. Ég tel þá starfsaðferð vítaverða að ætla að koma fram slíkri gerbreytingu á framkvæmdum í raforkumálum í Austur-Skaftafellssýslu án nokkurs samráðs við héraðsbúa, en þeim gersamlega að óvörum og rétt í þann mund, sem hefja átti virkjun Smyrlabjargaár. Vegna allra Austur-Skaftfellinga og í umboði þeirra ber ég fram hér á hæstv. Alþ. þá kröfu til hæstv. ríkisstj., að þegar í stað verði horfið frá að framkvæma þau launráð, sem brugguð hafa verið á þeim tíma, sem núverandi ríkisstj. hefur setið að völdum, gagnvart raforkumálum héraðsins, en í þess stað verði tíu ára áætluninni fylgt í framkvæmd.

Með flutningi þessarar till. er reynt að afstýra því, að stigið verði það óheillaskref að hverfa frá framkvæmd tíu ára áætlunarinnar. Lagt er til, að þingið feli ríkisstj. að láta vinna á þessu ári að þeim framkvæmdum, sem tíu ára áætlunin mælir fyrir um, og í framhaldi af því verði ályktað, að á næstu fjórum árum verði unnið að því að ljúka framkvæmdunum, eins og til var ætlazt samkv. tíu ára áætluninni.

Nú er liðið mjög að þinglokum, og ákveðin er aðeins ein umr. um þessa till. Vegna þess, hve stutt er eftir af þingtímanum, mun ég ekki gera till. um, að málinu verði vísað til n., heldur afgreitt nú þegar á þessum fundi.