11.05.1959
Sameinað þing: 47. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í D-deild Alþingistíðinda. (2221)

169. mál, framkvæmdir í raforkumálum

Eysteinn Jónsson:

Með tilliti til þess, sem hæstv. forseti sagði núna síðast, skal ég vera mjög stuttorður um þetta mál, sem annars er mjög mikið stórmál og ástæða væri til þess að ræða ýtarlega, en þetta hefur nú áður verið nokkuð rætt í sambandi við fjárlögin. Ég skal þess vegna fara inn á örfátt eitt af því, sem ég annars vildi segja, því að ég álít, að það sé aðalatriðið, að það fáist úr því skorið með atkvgr. á hæstv. Alþ., áður en því er slitið, hvort Alþ. fellst á þær breyt., sem stjórnin hefur hugsað sér að gera á tíu ára áætluninni, eða ekki.

Ég vil fyrst aðeins nota þetta tækifæri til þess að mótmæla algerlega þeirri höfuðbreytingu, sem nú er ráðgerð á framkvæmdum í Suður-Múlasýslu frá því, sem verið hefur, þar sem ég fæ ekki betur séð, en ætlunin sé að hætta við að leggja háspennulínu suður á Djúpavog, Stöðvarfjörð og Breiðdalsvík og nálægar sveitir og taka í þess stað upp dísilstöðvastefnuna á þessu svæði. Ég vil harðlega mótmæla þessari breytingu og tel þetta alveg svik við það, sem búið var að heita í sambandi við setningu tíu ára áætlunarinnar.

Hæstv. forsrh. sagði, að hér væri aðeins um það að ræða að framkvæma verkið ódýrar, en áður hefði verið gert, og hefur hæstv. ráðh. farið aftur með röksemdafærslur frá því, sem var í fjárlagaumr., því að þar viðurkenndi hann hreinlega, að hér væri um frestun á stórframkvæmdum að ræða.

En út af því, sem hér stendur til, og því, sem talað hefur verið um rök fyrir því og tekniskar ástæður, þá vil ég greina frá því hér, að í haust kom frá forráðamönnum raforkumálaskrifstofunnar álitsgerð til atvmrn., það mun hafa verið í nóv., — sem sýndi, að þeir höfðu haft til athugunar ýmsar breyt. eða niðurskurð á tíu ára raforkuáætluninni sjálfri hjá sér, og þá skilst mér miðað við einhverjar áhyggjur af þeirra hendi um, að það mundi ekki vera auðvelt að útvega nægilegt fjármagn til þess að framkvæma áætlunina. Í þessu skjali, sem þeir sendu þá til ríkisstj., segja þeir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Leyfum við okkur að gera till. um niðurskurð samkv. viðfestu fylgiskjali á framkvæmdum næsta árs frá því, er tíu ára áætlunin gerir ráð fyrir. Eins og sést á fskj., eru margar veitur skornar alveg niður í bili, en í stað þeirra koma minni verk, sem sum hver út af fyrir sig eru mjög hæpin, en þó sett fram til þess, að eitthvað komi í staðinn fyrir það, sem skorið er niður.“

Það er nú ekki hærra risið á þessari álitsgerð, sem þá kemur frá tekniskum forráðamönnum raforkumálanna. Sem sagt, það eru mjög hæpin minni verk, sem eiga að koma í staðinn fyrir það, sem skorið er niður, til þess að menn fái eitthvað í staðinn. Síðan segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Er þó leitazt við að fækka sem minnst þeim býlafjölda, er fái rafmagn, og jafnframt að forðast, að til nokkurs skorts komi. Í þessu skyni er lagt til, að aukið verði við nokkrar dísilstöðvar og nýjar sveitarlínur á nokkrum stöðum tengdar við dísilstöðvar kauptúna, hins vegar aðallínum og virkjunum frestað um sinn.“

Hér er hvergi nokkurs staðar minnzt á nokkurn sparnað eða nokkra framkvæmd, sem hefði verið óþörf í tíu ára áætluninni, heldur á það eitt að skera hana niður, fresta framkvæmdunum og láta menn fá eitthvað í staðinn, jafnvel þó að það sé hæpið. Og það, sem fylgdi með þessu skjali, er efnislega að miklu leyti samhljóða því, sem ég sé að hæstv. ríkisstj. hefur nú tekið upp á sína arma og að því er virðist stjórnarflokkarnir. Þetta er lýsing sérfræðinganna á þessu nýja plani, sem mönnum er nú boðið upp á og í öðru orðinu er kallað stórfelldur sparnaður og talað um, að þetta sé aðeins ný leið til þess að gera framkvæmdirnar ódýrari. Við vitum líka, að hér er um allt aðra áætlun að ræða, því að tíu ára áætlunin gerði ráð fyrir að tengja byggðirnar yfir höfuð saman við vatnsaflsvirkjanirnar eða koma upp vatnaflsvirkjunum, en hér á að hverfa frá því um óákveðinn tíma og tjasla í staðinn upp á dísilstöðvarnar. Og þar með er kippt grundvellinum undan þeirri útbreiðslu rafmagnsins í vissum landshlutum, sem átti að verða frá þessum aðallínum.

Þetta vildi ég aðeins taka fram út af því, sem hér hefur verið sagt um það, að þessi áætlun væri að einhverju leyti betri en sú, sem á að fleygja til hliðar.

Þá segir hæstv. forsrh., að það verði að umturna þessu, vegna þess að það sé svo stórfelldur rekstrarhalli, sem stofnað sé til með áætluninni, eins og hún hefur verið, og samkv. þeim upplýsingum, sem gefnar voru um daginn, fékk maður þann skilning, að það ætti að muna 5 millj. eða svo á ári eða 25 millj. á fimm árum. Það var sá skilningur, sem ég fékk um daginn.

Ég vil nú ekki véfengja þetta neitt. En ég vil bara segja það, að þegar við skoðum það, hverjar ráðstafanir eru gerðar yfir höfuð í efnahagsmálum þjóðarinnar, þá skil ég ekki þennan hugsunarhátt, og allra sízt skil ég þennan hugsunarhátt hjá mönnum, sem hafa t.d. aukið niðurgreiðslur um 114 millj. á nokkrum mánuðum án þess að tala við þingið, að þeim vaxi svona gífurlega í augum 55 millj. kr. munur á raforkuverði til landsmanna, rekstrarhalli á öllum raforkuveitum ríkisins, að þess vegna þurfi að hætta við rafvæðingaráætlunina, tíu ára áætlunina, — ég skil það ekki. Þessar 5 millj. kr. munu vera u.þ.b. einn þriðji af því, sem það kostar bara að greiða niður einn fjórða hluta sjúkrasamlagsiðgjaldsins eins, eitthvað 1/3 af þeirri fjárhæð, og ég skil ekki þennan hugsunarhátt.

Ég skal svo ekki tefja þetta mál, þó að mér fyndist nauðsynlegt að segja þetta út af því, sem hæstv. forsrh. tók fram. En ég vil skora á hæstv. forseta að haga meðferð málsins þannig, að það komi fram þingviljinn um þetta, það tel ég höfuðatriðið. Og mér finnst ekki nauðsynlegt að vísa þessu máli til n., nema þá því aðeins, að hæstv. forseti setti þá ákveðinn frest, þannig að það væri öruggt, að þetta kæmi á dagskrá aftur, hvort sem n. lyki störfum fyrir þann tíma eða ekki, að öllu leyti, því að við sjáum, að ef einhver hluti n. t.d. vildi reyna að koma í veg fyrir það, að þingviljinn kæmi fram um málið, þá gæti hann dregið að skila áliti. En ég treysti hæstv. forseta vel til þess, ef hann lýsir því yfir að taka málið á dagskrá, þó að vantaði álit frá einhverjum slíkum minni hluta, og mundi það þá fá þinglega afgreiðslu. En ef ekki er hægt að fá einhverja slíka tryggingu fyrir því, að málið verði tekið aftur á dagskrá, þá finnst mér, að það sé ástæða til að fara fram á, að það héldi hér áfram nefndarlaust. Og ég sé ekki, að það sé nokkur hlutur athugaverður við það, vegna þess að hv. þm. eru þessi mál mjög vel kunnug, og mér finnst, að það sé sízt ástæða til þess fyrir ríkisstj. að finna að því, því að ég skil satt að segja ekkert í því, að ríkisstj., sem er bráðabirgðastjórn, eins og þessi hefur lýst yfir að hún væri, skuli geta hugsað sér það að gerbreyta raforkuáætluninni án þess að hafa þingviljann að baki sér. Mér er alveg ómögulegt að skilja þann hugsunarhátt, að slíkt skuli geta komið til mála, að bráðabirgðastjórn skuli hugsa sér að leggja út í slíkt. Ég skil það ekki. Mér finnst þess vegna, að hvernig sem á þetta mál er litið, þurfi endilega að stuðla að því, að þingviljinn um þetta komi fram, og ég er alveg sannfærður um það, að hv. þm. eru yfirleitt reiðubúnir til þess að láta í ljós skoðun sína um þetta. Og ég vil skora á hæstv. forseta að sjá til þess, að atkvgr. geti farið fram um málið endanlega, hvernig svo sem hann hagar að öðru leyti meðferð þess í einstökum atriðum.