11.05.1959
Sameinað þing: 47. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í D-deild Alþingistíðinda. (2222)

169. mál, framkvæmdir í raforkumálum

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður og ekki misbjóða þolinmæði hæstv. forseta. — Þetta mál bar á góma við afgreiðslu fjárl. og það ekki að ástæðulausu. Hæstv. forsrh. sagði þá það sama og hann segir í dag, að till. þessar séu ekki frá sér eða hæstv. ríkisstj., heldur frá raforkumálastjóra og rafveitustjóra. Ég vil nú spyrja: Eru það þeir, sem ráða því, hvort slíkar gerbreytingar séu gerðar á raforkuáætluninni, eða er það hæstv. ríkisstj.? Ég hef litið svo á hingað til, að þessir embættismenn hafi ekki vald til að gera slíka umturnun á þessari áætlun og þar hljóti hæstv. ríkisstj. að koma til. Það getur því ekki verið hægt að skrifa þetta á reikning þeirra, heldur hæstv. ríkisstj.

Þá sagði hæstv. forsrh. áðan, ég held alveg orðrétt, að þessi breyting sé gerð án þess, að nokkur maður, er njóta á rafmagnsins, missi nokkurs í. Út af þessu vil ég minna á það, sem ég sagði við fjárlagaumr., að samkv. tíu ára áætluninni átti að leggja rafmagnslínu frá Þverárvirkjun í Steingrímsfirði til Króksfjarðarness og þaðan út um nágrannasveitirnar. Eftir þeirri áætlun átti að framkvæma þetta á árunum 1958, 1959 og 1960, og þá átti þessu að vera lokið. Mér er kunnugt um, að á árinu 1958 var nokkurri upphæð varið til efniskaupa í þessu skyni. Síðan átti að framkvæma þetta á yfirstandandi ári og næsta ári. Ég spurði hæstv. forsrh. um daginn að því, hvort ætti að hætta við að leggja rafmagnslínuna frá Þverárvirkjun í Króksfjarðarnes. Hann svaraði því, að hann væri ekki nógu kunnugur og gæti ekkert sagt um þetta. En hann er kannske orðinn svo kunnugur nú, að hann gæti sagt mér þetta. Í öðru lagi spurði ég að því, hvort fólkið í þessum sveitum mundi fá rafmagnið eins og áætlunin gerði ráð fyrir eða á árinu 1960. E.t.v. gæti hæstv. ráðh. svarað þessu þá núna. Það er ekki viðkunnanlegt að koma til þessa fólks og geta ekki einu sinni sagt því svör hæstv. ráðh. um það, hvernig þetta muni verða framkvæmt. Og ég vil því endurtaka þessar spurningar nú aftur: Verður rafmagnslínan frá Þverárvirkjun í Steingrímsfirði lögð til Króksfjarðarness, eða verður hún ekki lögð? Og í öðru lagi: Fær þetta fólk í nágrannasveitum Króksfjarðarness rafmagn á árinu 1960, eins og tíu ára áætlunin gerir ráð fyrir, eða fær það það ekki eða einhvern tíma seinna? Ef hæstv. ráðh. getur ekki fullyrt neitt um það, að þetta fólk og þessi héruð fái rafmagnið samkv. áætluninni, þá veit ég ekki, hvernig er hægt að standa við þau orð, að fólkið missi einskis í. Ég held, að það fólk missi sannarlega nokkurs í, ef það á að bíða í nokkur ár og enginn veit hvað mörg ár, hvorki ég né hæstv. ráðh.