11.05.1959
Sameinað þing: 47. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í D-deild Alþingistíðinda. (2223)

169. mál, framkvæmdir í raforkumálum

Forsrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hv. þm. Barð.

Það er alveg rétt, sem hann sagði, að valdið til þess að ákveða, hvernig að skuli unnið, er ekki hjá raforkumálastjóra eða rafveitustjóra ríkisins, það er hjá ríkisstj., og hún ber þess vegna ábyrgðina á framkvæmdinni. En hitt er jafnskylt að taka fram um leið, að það gerir auðvitað hver einasta ríkisstj. að hlusta á þær till., sem embættismenn og trúnaðarmenn ríkisstj. leggja fyrir hana, og það er það, sem gerzt hefur í þessu máli. Raforkumálastjórnin hefur að fenginni þessari fimm ára reynslu af framkvæmd áætlunarinnar tekið upp hjá sér að endurskoða planið, og niðurstaðan hefur verið lögð fyrir ríkisstj., og hún er sú, sem ég hef nú lýst, stórfelldur sparnaður á kostnaði, bæði stofnkostnaði og rekstrarkostnaði, og það hefur þess vegna verið fallizt á sjónarmið þessara manna af ríkisstj.

Hann hefur það eftir mér, hv. þm., að ég hafi átt að segja við 2. um., eða 3. umr. fjárlaga, að við þessa breyt. missti enginn í, og það er rétt út af fyrir sig, svo langt sem það nær. Það missir enginn í, þegar planið er tekið í heild. En eins og ég lýsti þá greinilega og eins og hv. þm. mjög greinilega veit, þýðir þetta það, að sumir verða settir eitthvað fram, aðrir kunna að verða settir eitthvað aftur, en þegar heildin verður tekin í lok tíu ára plansins, þá eiga allir að hafa fengið sitt.