28.01.1959
Neðri deild: 65. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í B-deild Alþingistíðinda. (223)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti, góðir áheyrendur. Ég trúði varla mínum eigin eyrum, þegar ég heyrði hv. 7. þm. Reykv., Hannibal Valdimarsson, hér rétt áðan tala um leikbrúður, sem stjórnað væri af öðrum og ætla þessu að vera spaug um aðra. Hver skyldi það vera hér á Alþ., sem nú dansar fimlegast eftir því, hvernig kippt væri í spottann? Skyldi hv. þm. í raun og veru ekki vita, að það hanga margir spottar aftan úr honum og skyldi hann virkilega ekki finna, hverjir kippa í þá? En þjóðin veit það — og nóg um það.

Vandi sá, sem nú er við að etja í íslenzkum efnahagsmálum, er ekki nýr af nálinni. Hann hefur ekki skapazt skyndilega um þessi áramót, og hann er ekki heldur síðan í fyrra eða hittiðfyrra. Í aðalatriðum er um að ræða sama vandamálið og glímt hefur verið við allar götur síðan í stríðslok. Stundum er sagt, að undirrót erfiðleikanna sé, að fjárfesting hafi verið of mikil. Stundum er sagt, að orsökin sé sú, að þjóðin hafi tamið sér of góð lífskjör. Hvorugt er rétt út af fyrir sig og þó er nokkur sannleikur í hvoru tveggja.

Vöxtur þjóðarteknanna síðan í stríðsbyrjun hefur verið svo mikill, að þjóðin hefði með eðlilegum og heilbrigðum hætti getað létt sér þau lífskjör, sem hún hefur notið, ef hún hefði ekki jafnframt viljað verja jafnmiklu til fjárfestingar og gert hefur verið. Hún hefði einnig getað haft fjárfestinguna jafnmikla og hún hefur orðið án þess að stofna til verðbólgu, ef hún hefði viljað sætta sig við nokkru lægri lífskjör. En hitt hefur verið ómögulegt: að gera hvort tveggja samtímis, að njóta sömu lífskjara og við höfum notið og halda uppi sömu fjárfestingu og hér hefur verið framkvæmd, nema þá efna til mikillar verðbólgu, eyða gjaldeyrisforða og stofna til mikilla lausaskulda og svipta þannig atvinnu- og viðskiptalífið traustum og heilbrigðum grundvelli og valda öryggisleysi um afkomu bæði framleiðenda og launþega. Það er einmitt þetta, sem hefur gerzt.

Í sannleika sagt hefur verðbólgan og söfnun lausaskulda síðan í stríðslok þó verið minni, en búast hefði mátt við með tilliti til neyzlu þjóðarinnar og fjárfestingar hennar og er ástæðan sú, að á árunum 1948–53 nutum við mikillar erlendrar fjárhagsaðstoðar. Síðan hafði þjóðin um skeið mjög miklar óvenjulegar gjaldeyristekjur og um nokkur ár hefur hún fengið óvenjumikið af föstum erlendum lánum til langs tíma. Ef gera á annað hvort, að stöðva verðbólguna eða draga út notkun erlends lánsfjár, að ég ekki tali um, ef gera ætti hvort tveggja, þá verða menn að horfast í augu við, að það er alls ekki hægt að halda hvoru tveggja óbreyttu, fjárfestingunni og neyzlunni. Annað hvort eða hvort tveggja verður að minnka. Ég er þeirrar skoðunar, að fyrst og fremst fjárfestingin eigi að minnka og að það sé hægt að halda neyzlu þjóðarinnar eins og hún er nú, óbreyttri með heilbrigðum hætti. En þá verða menn að hafa kjark til þess að draga mjög verulega úr fjárfestingunni, einkum þeirri, sem ekki verður talin arðbær og stendur ekki í sambandi við útflutningsframleiðsluna.

Þetta verður að sama skapi auðveldara sem framleiðsla þjóðarinnar er í örari vexti. Sem betur fer, hefur vöxtur hennar verið ör undanfarin ár, og allt bendir til þess, að sá vöxtur geti haldið áfram, ef engin óhöpp koma fyrir og okkur tekst að stjórna efnahagsmálunum sæmilega. En sá vöxtur getur aldrei orðið svo mikill, að hann leysi allan þennan vanda, heldur getur hann aðeins gert hann auðveldari viðfangs.

Að öðru leyti er vandamálið nú við þessi áramót tvíþætt. Þegar efnahagsmálalöggjöfin var samþ. í maí s. l., var í raun og veru frestað að gera ráðstafanir vegna 10 stiga vísitöluhækkunar, sem vitað var að verða mundi. Um það leyti var rætt opinskátt um það í þáv. ríkisstj. og stuðningsfl. hennar, að þessi 10 vísitölustig væru vandamál, sem ræða þyrfti við stéttasamtökin um að leysa. Þess vegna var málinu skotið á frest. Með hliðsjón af þessu er það í rauninni alveg eðlilegt, að hv. 7. þm. Reykv., Hannibal Valdimarsson, skuli hafa gert það að till. sinni í grein í Vinnunni, að launþegar ásamt bændum og öðrum framleiðendum gæfu eftir nokkur vísitölustig og að hann skuli hafa látið þau ummæli falla í ræðu á Alþýðusambandsþingi, að til greina kæmi, að launþegar afsöluðu sér 10–15 vísitölustigum.

En vandamálið jókst mjög á síðari hluta nýliðins árs, eins og raunar er alkunnugt. Vegna 6–9% grunnkaupshækkunar þeirrar, sem varð síðari hluta ársins og 2 stiga hækkunar á vísitölu var kaupgjaldið í nóv. s. l. orðið 7–11% hærra, en það kaup, sem bætur til útflutningsframleiðslunnar voru miðaðar við í maí s. l. 1. des. varð síðan enn hækkun á kaupgjaldi vegna hækkunar á kaupgjaldsvísitölu um 17 stig, þannig að við síðustu áramót var kaupgjald orðið 17–21% hærra, en gert var ráð fyrir, þegar rekstrargrundvöllur útflutningsframleiðslunnar var ákveðinn fyrir s. l. ár.

Þessi einfalda staðreynd hlýtur að opna augu sérhvers skynsams manns fyrir því. í hvert fjarstæðukennt óefni framleiðslu- og fjármál þjóðarinnar voru komin um síðustu áramót. Á 6 mánuðum hafði krónutala þess kaups, sem launþegar fengu í hendur, vaxið um 17–21%. Enginn heilvita maður getur trúað því, að þjóðarframleiðslan hafi á s. l. ári vaxið um 17–21%, þannig að lífskjör þjóðarinnar geti í raun og veru batnað sem þessu nemur. Hvert mannsbarn hlýtur að skilja, að jafnstórkostlegar breytingar á krónutölu kaups hljóta að langmestu leyti að leiða til samsvarandi hækkunar á verðlagi, þannig að breytingin er sú ein, að fleiri krónur fari um hendur manna en áður.

Til lausnar á þeim vanda, sem við blasti um áramótin, er í raun og veru aðeins um tvær aðalleiðir að ræða. Hin fyrri er sú að fara eins að og gert hefur verið um mörg undanfarin ár, þ. e. hækka bætur til útflutningsframleiðslunnar svo mikið sem nauðsynlegt reynist til þess að gera henni kleift að standa undir sannarlegum kostnaðarauka og afla síðan fjár til þess að greiða þessar bætur með nýjum álögum á landsmenn. Þetta mætti kalla hækkunarleiðina. Hin leiðin er sú að lækka tilkostnað útflutningsframleiðslunnar með niðurfærslu kaupgjalds og verðlags svo mikið, að hægt sé að halda aðalútflutningsbótunum, þ. e. þeim, sem greiddar eru á útflutningsverðmæti, óbreyttum og komast þannig hjá því að hækka yfirfærslu- og innflutningsgjöldin. Þetta mætti kalla lækkunarleiðina.

Ég skal nú reyna að bera þessar leiðir saman í sem stytztu máli. Ef hækkunarleiðin væri farin, hefur verið áætlað, að fjárþörf útflutningssjóðs og ríkissjóðs yrði um 400 millj. kr., svo að afla hefði þurft þessarar upphæðar, hvorki meira né minna en 400 millj. kr., með því að leggja ný gjöld á landsmenn. Svo gífurleg hækkun yfirfærslu- og innflutningsgjalda hefði auðvitað haft í för með sér mjög mikla hækkun á verðlagi. Bæði kauphækkunin 1. des. og þessi hækkun innfluttrar vöru hefði hækkað innlent verðlag í jan. og febr. mjög verulega. Í mánuðunum des., jan. og febr. hefðu launþegar því þurft að búa við mjög ört hækkandi verðlag, en óbreytt kaup. Kauphækkunin 1. des. hefði þannig smáeyðzt í hækkandi verðlagi. 1. marz hefði kaupið hins vegar hækkað aftur, en í mánuðunum marz, apríl og maí hefði farið á sömu leið og í mánuðunum des., jan. og febr. Verðlagið hefði stöðugt hækkað og án efa örar og örar, því að gera má ráð fyrir, að bændur hefðu krafizt þess að fá afurðaverði sínu breytt til fulls samræmis við þær öru kaupgjaldsbreytingar. Svona hefði þetta haldið áfram. Kaupgjald og verðlag hefði enn hækkað um 25% á einu ári. Kaupgjaldið hefði breytzt á 3 mánaða fresti, en hver kauphækkun hefði fuðrað upp í verðbólgueldi, sem magnazt hefði með hverjum mánuðinum sem leið. Í fyrsta lagi hefðu launþegar alltaf þurft að bíða eftir að fá verðhækkunina jafnaða, í öðru lagi hefðu orðið hækkanir á gjöldum, sem alls ekki er tekið tillit til í gamla vísitölugrundvellinum, svo sem á við um skatta og útgjöld og í þriðja lagi hefði orðið mikil hækkun á verði ýmissar vöru, sem of lítið tillit er tekið til í gamla grundvellinum, vegna þess, hve þýðingarlítil hún var í neyzlunni, þegar sá grundvöllur var fundinn.

Af þessum sökum er hækkunarleiðin launþegum tvímælalaust óhagkvæm, jafnvel séð frá þrengsta sérhagsmunasjónarmiði þeirra. Þar við bætist, að hækkunarleiðin hefði leitt yfir þjóðina stórkostlegri, örari verðbólguþróun en nokkru sinni fyrr með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir vöxt og viðgang atvinnulífsins í landinu, auk þess sem hún hefði brennt upp til agna fjórðung af sparifé manna, ungra og gamalla.

Ef hins vegar væri farin lækkunarleiðin, hafa athuganir sýnt, að kaupgjaldsvísítala þarf að komast niður í 175 stig, til þess að ekki þurfi að hækka hinar almennu útflutningsbætur og þar með ekki yfirfærslu- og innflutningsgjöldin. Það svarar til 13% lækkunar á því kaupi, sem mönnum hefði verið greitt í des. og jan. Það er þó að sjálfsögðu stórkostleg og raunar augljós blekking, að þessi 13% lækkun á krónutölu kaups, eins og hefur verið í tvo mánuði, jafngildi 13% kjaraskerðingu. Kaupgjald lækkar að krónutölu sem svarar til 17 vísitölustiga. Verðlag ýmist hefur lækkað eða mun lækka sem svarar 17 vísitölustigum, svo að það, sem er gert ráð fyrir að launþegar, bændur og allar aðrar stéttir gefi eftir af kaupi sínu eða tekjum, getur aldrei orðið meira, en sem svarar 10 vísitölustigum eða 5.4% af kaupgjaldinu eða tekjunum. En það er líka rangt að tala um þessa lækkun kaupgjalds sem 5.4% kjaraskerðingu, eins og hv. 2. þm. S-M., Lúðvík Jósefsson, gerði í ræðu sinni áðan. Allar tölur, sem vitnað hefur verið í af hálfu málsvara og blaða Alþb. um svo mikla kjaraskerðingu vegna þessa frv., eru byggðar á því, að launin hefðu getað haldið þeim kaupmætti, sem þau höfðu eftir síðustu kauphækkun, 1. des. s. l. En hvert mannsbarn á að vita, að þetta er ekki rétt. Strax fyrstu dagana í des., þ. e. þegar í stað eftir kauphækkunina, var verðlag byrjað að hækka vegna kauphækkunarinnar og kaupmátturinn þannig að rýrna aftur, krónufjölgunin tekin að brenna á verðbólgubálinu. Sá eldur hefði magnazt. Ef hægt væri að sýna fram á, að unnt hefði verið að stöðva alla hækkun alls verðlags eftir 1. des. s. l. þrátt fyrir kauphækkunina, sem þá var orðin eftir 1. júní, mætti segja, að ráðstafanir þessa frv. hefðu í för með sér kjaraskerðingu, miðað við það ástand. En hver einasti maður á Íslandi veit, að þessu er ekki svo farið og þar með er grundvellinum kippt undan öllum tölunum, sem menn hafa heyrt og hafa séð hampað um svo og svo mikla kjaraskerðingu af völdum ráðstafana þessa frv.

Þetta verður raunar einnig augljóst, þegar bornar eru saman meðalárstekjur ýmissa stétta á s. l. ári og væntanlegar tekjur þeirra í ár, miðað við að kaupgreiðsluvísitala verði 175 frá 1. febr. Árið 1958 hafði Dagsbrúnarverkamaður, sem vann 8 tíma á dag og alla virka daga og 5 tíma á viku í eftirvinnu, 56.100 kr. í árslaun. En miðað við kaupgreiðsluvísitölu 175 frá 1. febr. n. k. og út árið, munu árslaun hans 1959 verða 58.700 kr. eða um 2.600 kr. hærri, en þau voru í fyrra. Kaup járniðnaðarmanns mun í ár, miðað við sömu forsendur, verða 71.100 kr., en var í fyrra 70.800. Opinber starfsmaður í 7. launafl, mun nú í ár fá 74.600 kr. í laun, en hafði í fyrra 73.500. Opinber starfsmaður í 10. launafl. hafði í fyrra 60.100 kr. í laun, en mun nú í ár fá 61.000 kr. í laun. Laun allra þessara starfsstétta munu því í ár verða nokkru hærri, en þau voru á s. l. ári, þótt kaupgreiðsluvísitala verði aðeins 175 frá 1. febr. Meðalframfærsluvísitalan var 1958 201 stig, en yrði 203 stig 1959, ef miðað er við óbreytt verðlag frá 1. marz, eins og miðað var við óbreytt kaup frá sama tíma í launatölunum, sem ég nefndi áðan. Hækkun árstekna verður því frá 0.4–4.6%, en hækkun á framfærsluvísitölu aðeins 1%. Það er því mikil blekking, að þetta frv. geri ráð fyrir lækkun á árslaunum manna, miðað við árið 1958. Þess vegna er það á röngum forsendum byggt, þegar reynt er að vekja ugg hjá þeim, sem á síðustu árum hafa stofnað til skulda til þess að koma upp yfir sig húsnæði og telja þeim trú um, að nú muni þeir missa íbúðir sínar, vegna þess að skuldirnar standi í stað, en launin lækki. Það, sem lagt er til í þessu frv., er alls ekki að lækka árstekjur manna frá því, sem var á síðasta ári, heldur hætta við framkvæmd kauphækkunar, sem enginn raunhæfur grundvöllur er fyrir, heldur hefði aukið snúningshraða verðbólguhjólsins svo gífurlega, að beinn voði hefði verið að.

Það er alkunna, að fyrrv. stjórnarsamstarf rofnaði vegna ágreinings um efnahagsmálin. Í raun og veru er enginn grundvallarmunur á þeim till., sem á sínum tíma voru lagðar fram um þessi mál af hálfu Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl. Tillögur Alþb. hafa hins vegar því miður frá upphafi verið sumpart óraunhæfar og sumpart óljósar. Alþb. lagði til, að niðurgreiðslur yrðu auknar um 15 stig, án þess að benda á nægilegar tekjur. Þetta var óraunhæft. Alþb. áætlaði bótaþörf útflutningsframleiðslunnar tvímælalaust allt of lága. Þetta var líka óraunhæft. En það, sem ávallt var óljóst hjá Alþb., var, hversu mikla eftirgjöf vísitölustiga hjá launþegum og bændum það vildi samþykkja. Ég segi með ráðnum hug: hversu mikla, því að í samningunum um endurreisn fyrrv. stjórnar sögðu málsvarar Alþb. beinlínis, að þeir væru til viðtals um eftirgjöf 6 vísitölustiga og væri það raunar ekki síðasta orðið. Þetta varpar auðvitað undarlegu ljósi á hina hörðu gagnrýni flokksins á þá 10 stiga eftirgjöf, sem nú er gert ráð fyrir. Ég nefni þetta hér til þess að geta látið þess getið, að meðal ráðamanna Alþb. eru áreiðanlega menn, sem í raun og veru gera sér fulla grein fyrir kjarna þeirra vandamála, sem við er að etja og að skynsamlegast er að taka í aðalatriðum á þeim eins og nú er gert ráð fyrir. Ég held í sannleika sagt, að þetta eigi við um báða fulltrúa Alþb. í fyrrv. ríkisstj. og fleiri menn í þingflokki þeirra. Á hinn bóginn er flokkurinn sem heild og blaðakostur hans á valdi manna, sem hugsa allt öðruvísi og vilja breyta út frá allt öðrum forsendum, manna sem í einu og öllu aðhyllast lífsviðhorf hins alþjóðlega kommúnisma og hafa því í rauninni annaðhvort vantrú eða fyrirlitningu á öllum tilraunum til þess að hafa skynsamlegt vit í efnahagskerfi auðvaldsskipulags. Þeim finnst, að það geti hvort eð er ekki verið annað, en ranglátt og heimskulegt og gleyma þó alveg að taka tillit til þess, að efnahagskerfið á Íslandi nú er mjög ólíkt því auðvaldsskipulagi, sem bæði jafnaðarmenn og kommúnistar deildu fastast á, þegar fræðikenningar þeirra mótuðust í upphafi. Út frá sjónarmiði slíkra manna er það að vissu leyti rökrétt að vera alltaf neikvæður. Því fyrr sem auðvaldsskipulagið verður gjaldþrota, því betra, hugsa þeir. Það er þess vegna í samræmi við innsta eðli og allar grundvallarskoðanir slíkra manna að vera ávallt neikvæður, ávallt í andstöðu, þangað til byltingin hefur orðið sigursæl og þeir sjálfir eru komnir til valda, bera aldrei ábyrgð á jákvæðum ráðstöfunum í þjóðskipulagi, sem þeir eru andvígir. Þeir blátt áfram kunna það ekki, geta það ekki. Það kom ávallt í ljós, þegar taka þurfti mikilvægar ákvarðanir um efnahagsmál í fyrrv. ríkisstj., að slík öfl voru afar sterk í Alþb. Stundum urðu þau að lúta í lægra haldi, en þegar mest á reyndi, urðu þau ofan á og það var höfuðorsök þess, að stjórnarsamstarfið rofnaði.

Ég álít þessa staðreynd vera eitt meginvandamál íslenzkra stjórnmála nú í dag, þá staðreynd, að einn af fjórum þingfl. þjóðarinnar, flokkur, sem hefur á að skipa 8 þingsætum, skuli í raun og veru reynast á valdi manna, sem annaðhvort vilja ekki eða geta ekki tekið jákvæða afstöðu til efnahagsvandamálanna, en kjósa heldur neikvæða gagnrýni, þótt umbjóðendum þeirra sé með því augljóslega ekki unnið gagn, heldur tjón.

Alþfl. hefur nú undir þessum erfiðu kringumstæðum ekki viljað taka sams konar afstöðu. Hann gerir sér ljóst, að í efnahagsmálunum er þjóðin nú stödd á krossgötum. Ég vil engan veginn segja, að það sé auðvelt eða þrautalaust, hvorki fyrir þjóðina í heild, einstakar stéttir hennar né stjórnmálaflokkana, að halda út á rétta braut. Til slíks þarf oft bæði áræði og ábyrgðartilfinningu og það á nú við. En Alþfl. hefur talið það skyldu sína að flýja ekki erfiðleikana, að vera jákvæður. Í þeim vanda, sem nú steðjar að þjóðinni, vill hann kappkosta að segja henni satt. Þau stjórnarstörf, sem hann hefur nú tekizt á hendur um stundarsakir, mun hann kappkosta að framkvæma heiðarlega og vonar, að sem stærstur hluti þingmanna beri gæfu til þess að sameinast um ráðstafanir í efnahagsmálum, sem þjóðinni í heild megi verða til heilla.