12.11.1958
Sameinað þing: 9. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í D-deild Alþingistíðinda. (2233)

37. mál, hafnargerðir o. fl.

Fyrirspyrjandi (Ásgeir Sigurðsson):

Herra forseti. Eins og hv. alþm. er kunnugt, var á síðasta þingi samþ. till. til þál. um, að fram skyldi látin fara rannsókn á hafnargerðum og hafnarstæðum á landinu í samráði við vitamálastjóra og skyldi þá gerð tíu ára framkvæmdaáætlun um hafnargerðir og hafnarbótasjóðslögin skyldu einnig endurskoðuð. Tilgangurinn með till. skyldi vera að stuðla að öryggi og aukinni útflutningsframleiðslu. Til þess að fá fregnir af þessu merka máli, er fsp. til hæstv. ríkisstj. borin fram. Því leyfi ég mér að spyrja hæstv. ríkisstj. að því, hvernig málum líði, hvort þessi athugun hafi átt sér stað, hvort áætlun hafi þegar verið gerð, en það er, eins og allir vita, mjög þýðingarmikið atriði, að þar sé rétt á málinu haldið í upphafi.

Það þarf ekki að lýsa því, að þegar samgöngur í lofti og á landi gerast ótryggar, þá er treyst á samgöngur á sjó. En eins og öllum má ljóst vera, veltur mjög á því, að hafnirnar séu góðar og öruggar, svo að öryggi skapist, bæði fyrir þá, sem í sjávarþorpunum og kauptúnunum búa, og fyrir aðliggjandi sveitir.

Það leiðir af sjálfu sér, að svo bezt er hægt að byggja á hvers konar iðnaði á umræddum stöðum, að samgöngur séu öruggar. Til þess að skipunum sé óhætt í höfnunum í hvers konar veðrum, þurfa hafnirnar að vera öruggar skipum og hafnirnar vel staðsettar. Það er því eigi um neitt smámál að ræða í þessu efni. Vandinn er að hefja verkið með fyrirhyggju á traustum grunni. Því þarf að athuga, hvort hyggilegra sé fyrir langa framtíð, að endurbót á gömlum og oft lélegum mannvirkjum eigi sér stað eða ný séu gerð. Er vert að hafa t huga till., er áður hafa komið fram á hinu háa Alþingi um rannsókn á vissum hafnarstæðum og lúkningu ýmissa hafna, sem mjög lengi hafa verið í byggingu og ekki er lokið. Er ekki ástæða, nema sérstakt tilefni gefist til, að fara að nefna þau sérstaklega, því að öllum alþm. munu nöfn þeirra kunn.

En góðar hafnir eru frumskilyrði fyrir öryggi og bættum hag fólksins, sem úti á landsbyggðinni býr. Það er mælt, að forfeður vorir hafi verið fundvísir á góð og fögur bæjarstæði. Eins voru þeir fundvísir á góðar hafnir fyrir þá tíma. Margar víkur og hafnir, er þeir gáfu nöfn, eru enn bezta skjól, sem völ er á fyrir skip hérlendis, þegar þær svonefndu hafnir, er nútímamenn hafa valið sér, veita ekkert skjól. Það er því að mínu viti nauðsynlegt, áður en endanlega er frá málinu gengið í þessu efni, að veita þessari hlið málsins fulla athygli, láta athugunina einnig snúast um það að velja beztu staðina.

Það fer ekki á milli mála, að um er að ræða lífsspursmál fyrir margar byggðir landsins. Eins er víst, að það, að atvinnuöryggi skapist á stöðunum við bætt hafnarskilyrði, mundi einnig stuðla mjög að hinu margumrædda og æskilega jafnvægi í byggð landsins. Væri æskilegt að fá góðar fregnir af framkvæmd þessa máls. Fyrir því hef ég leyft mér að leggja þessa fsp. fram.

Ég vil svo ekki orðlengja meira um þetta að sinni.