12.11.1958
Sameinað þing: 9. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í D-deild Alþingistíðinda. (2234)

37. mál, hafnargerðir o. fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Þegar þessi þáltill. var samþykkt og eftir að þingi lauk s.l. vor, átti ég tal um þetta mál við hafnarmálastjóra og bað hann að byrja að vinna að undirbúningsvinnu í þessu efni, eftir því sem honum væri unnt. Hann kom strax inn á, að það mundi vera nauðsynlegt að gera ýmiss konar allumfangsmiklar tæknilegar athuganir, áður en hægt væri að gera slíka áætlun sem í þál. var um rætt. Bað ég hann að fara strax að vinna að því að gera sér grein fyrir því, hver þessi undirbúningsvinna þyrfti að vera, og framkvæma það af henni, sem hann teldi sér fært að gera sjálfur með sinu liði. Jafnframt sagði ég honum, að ég gerði ráð fyrir því að gera í þessu efni frekari ráðstafanir, sem hann fengi þá fljótlega að vita.

Síðan, eftir að hafa athugað þetta mál nokkru nánar, tók ég þá ákvörðun að fela atvinnutækjanefnd að vinna að þessu máli og gera í samráði við vita- og hafnamálastjóra áætlun þá, sem greinir í þáltill., og framkvæma endurskoðun þeirra l., sem þar er rætt um. Þetta þótti mér að athuguðu máli sjálfsagt að gera, þar sem mér var kunnugt um, að atvinnutækjanefnd hafði þá þegar unnið allmikið einmitt að athugun hafnarmála víðs vegar um landið og gert nokkur drög að áætlun um þau efni varðandi suma landshluta. Þótti mér því einsýnt að fela þessari n. ásamt vita- og hafnamálastjóra að vinna að framkvæmd áætlunarinnar.

Mér er kunnugt um, að n. hefur þegar haldið fundi með vita- og hafnamálastjóra og vinna við tiltekin rannsóknarefni er hafin, sem ákvörðun hefur verið tekin um af n. í samráði við hann.

En ég kem að því aftur að lokum, sem vita og hafnamálastjóri lagði talsvert mikla áherzlu á í sumar er leið, og það var, að það yrðu að fara fram all umfangs miklar verkfræðilegar athuganir á vissum stöðum, ef þessi áætlun ætti að hafa verulega þýðingu. Og ég hef fengið upplýsingar um, að þetta muni liggja eitthvað gleggra fyrir núna, þó að ég þekki það ekki í einstökum atriðum, að slíkar athuganir verði að fara fram á ýmsum stöðum næsta sumar til viðbótar við það, sem þegar hefur verið gert í þessu efni. En að því leyti, sem ekki þarf að fá þannig nýjar upplýsingar með rannsóknum, verður byggt á þeim gögnum og þeirri þekkingu, sem fyrir hendi er á vitamálaskrifstofunni. Það er að sjálfsögðu samkomulag um það á milli ráðuneytisins, nefndarinnar og vita og hafnamálastjóra, að vitamálaskrifstofan annist verkfræðileg störf í sambandi við áætlunina.

Ég skal svo taka það fram að lokum, að í sambandi við þetta kom það í ljós í sumar, þegar ég ræddi þessi mál við hafnamálastjóra, að það mundi skorta ýmis nauðsynleg tæki, til þess að rannsóknir í þessu efni gætu verið eins góðar og vera þyrfti, og var af því tilefni sett á fjárlagafrv. fjárveiting til þess að kaupa ný tæki til þess að rannsaka botn á ýmsum stöðum, þar sem hafnargerðir koma til greina.

Sem sagt, í þessu mál] hafa þegar ráðstafanir verið gerðar, og tel ég það vera í fullum gangi.