05.11.1958
Sameinað þing: 7. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í D-deild Alþingistíðinda. (2244)

18. mál, smíði 15 togara

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Hæstv. sjútvmrh. virtist það einkennilegt atferli, að hv. 2. þm. Eyf. (MJ), hv. fyrirspyrjandi, skyldi í síðari ræðu sinni lesa nokkuð upp úr blöðum. Þetta virtist koma ákaflega illa við hæstv. sjútvmrh. Það virðist þó líta harla einkennilega út, að einmitt það, að lesið er upp úr hans eigin málgagni, ummæli þess um þetta mál, sem hér um ræðir, skuli koma sérstaklega illa við hann. Það verður að álítast, að mjög illa sé komið fyrir hæstv. sjútvmrh., ef hann er þá sárreiðastur, þegar yfir honum eru lesin ummæli hans eigin málgagns.

Hæstv. ráðh. sagði, að unnið hefði verið með „fyllsta hraða“ að undirbúningi að smíðum hinna 15 togara. Staðreyndirnar tala greinilegustu máli um þennan hraða. Það eru tæp tvö ár liðin, síðan hæstv. ráðh. og ríkisstj. í heild var veitt heimild til þess að láta þá þegar semja um smíði 15 togara og taka lán til þeirra, en öllum hv. þingheimi er það ljóst af upplýsingum hæstv. ráðh. nú, að ekkert hefur verið gert í þessu máli annað, en það að skipa nefndir, sem síðan hafa annazt einhvern tæknilegan undirbúning, sem þó er ekki vitað hvar er á vegi staddur.

Hæstv. ráðh. fullyrti hér fyrir ári, að n. væri á förum „næstu daga“ til þess að semja um smíði skipanna, eftir að hinum tæknilega undirbúningi væri lokið. Hæstv. ráðh. kemur nú hér fram og viðurkennir, að ekkert lán hafi verið tekið, ekkert lán hafi fengizt, ekki hafi verið samið um smíði eins einasta skips, en svo bætir hann við, að unnið hafi verið að undirbúningi málsins af „fyllsta hraða“ og „á næstunni“ muni verða snúizt að því, væntanlega með „atómhraða“, að semja um smíði skipanna.

Það er ekki mitt aðalerindi upp í ræðustólinn að þessu sinni að herja frekar á hæstv. sjútvmrh., enda hefur hv. fyrirspyrjandi gert málinu góð skil. En ég vildi aðeins leyfa mér að bera fram viðbótarfyrirspurnir, sem eru þess eðlis, að ég veit, að hæstv. ráðh. mun eiga létt með að svara þeim í sambandi við þetta mál.

Hæstv. forsrh. sagði í umræðum hér fyrir nokkrum dögum, þegar rætt var um kaup á nýju varðskipi, að hann teldi, að sá dráttur, sem hefði orðið á að framfylgja heimild Alþingis til ríkisstj. um að kaupa nýtt varðskip, hefði ekki haft í för með sér aukinn kostnað við smíði nýs varðskips, byggingarkostnaður hefði farið heldur lækkandi á skipum erlendis. Nú vildi ég spyrja hæstv. sjútvmrh., hvort það sé skoðun hans, að hinir 15 togarar, sem stjórninni var heimilað að semja um kaup á fyrir tæpum tveimur árum, muni verða ódýrari, eftir því sem lengra líður.

Í framhaldi af þessari fsp. vildi ég mega spyrja ráðh. um, hve mikið kaupverð hvers einstaks togara muni hækka vegna 55% yfirfærslugjaldsins eins, sem á var lagt á s.l. vori. Mér virðist nefnilega af þeirri ástæðu einni saman, að skipakaup hljóti að verða allmiklu dýrari en verið hefur á undanförnum árum.

Í þriðja lagi vildi ég leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh. að því, hve mikið hvert einstakt hinna tólf 250 tonna skipa, sem nú er verið að ljúka smíði á, muni kosta.

Hæstv. ráðh. hlýtur að eiga mjög auðvelt með að upplýsa þetta, þar sem vitað er, að tvö þessara skipa verða afhent nú næstu daga, og ég vil láta í ljós ánægju mína yfir því, að það atriði löggjafarinnar frá 1956 hefur verið framkvæmt.

Þessum fyrirspurnum leyfi ég mér að óska að hæstv. ráðh. svari.