19.11.1958
Sameinað þing: 10. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í D-deild Alþingistíðinda. (2247)

18. mál, smíði 15 togara

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég hafði kvatt mér hljóðs, þegar þetta mál var hér síðast til umr. fyrir réttum hálfum mánuði, en þá þurfti að slíta fundi, áður en ég fengi orðið. Það er að vísu nú hálfur mánuður umliðinn og því sumt í gleymsku fallið, sem þá var um rætt, en þó eru nokkur atriði, sem ég vildi víkja að.

Hið fyrsta er, að hæstv. sjútvmrh. skýrði þá frá, að aðalbankastjóra Seðlabankans hefði verið falið að afla lána til þessara togarakaupa og hann hefði unnið að málinu þá undanfarið, og hæstv. sjútvmrh. bætti því við, að ef málið leystist ekki á næstu dögum, yrði að grípa til annarra úrræða. Eitthvað svipað þessu hygg ég að hæstv. ráðh. hafi mælt.

Nú vildi ég af þessu tilefni og þar sem hálfur mánuður er liðinn frá fyrri hluta umr. spyrja hæstv. ráðh., hvort nokkuð hafi gerzt í málinu siðan. Fjórtán dagar eru þó nokkur tími, og þar sem seðlabankastjórinn mun hafa verið að vinna að málinu allan þennan tíma, að því er manni skilst, þá verður að búast við því, að málið liggi nú eitthvað ljósara fyrir en það gerði fyrir tveimur vikum. Ég vildi því biðja hæstv. ráðh. um að svara því afdráttarlaust, hvort lausn sé nú fengin á málinu.

Þá vildi ég spyrja hæstv. ráðh. í sambandi við þetta, hvar aðalbankastjóri Seðlabankans hafi leitað fyrir sér um þessar lántökur. Það var svo að skilja orð hæstv. ráðh. eins og bankastjórinn hefði fyrst og fremst verið í Vestur-Þýzkalandi, en auk þess skauzt það upp úr honum, að nokkrar umleitanir hefðu átt sér stað bæði í Hollandi og Belgíu.

Um hitt gat ráðh. ekki, að Seðlabankastjórinn var einmitt, þegar hann gaf skýrslu sína, staddur í Bandaríkjunum og hafði farið þangað þeirra erinda að leita ásjár utanríkisráðherra Bandaríkjanna um enn nýja lánveitingu til Íslands.

Nú vildi ég spyrja hæstv. ráðh.: Hefur verið leitað eftir þessu láni á öllum þessum stöðum og e.t.v. fleiri stöðum á undanförnum vikum? Hvað víða hefur seðlabankastjórinn farið í lántökuerindum, frá því að hann hvarf fyrir allmörgum vikum síðast brott frá Íslandi? Hversu lengi hefur hann dvalizt í hverju landi, og hvar er hann nú niður kominn? Þetta skiptir allt töluverðu máli, til þess að átta sig á því, sem hér er um að ræða. Og þá vildi ég einnig spyrja hæstv. ráðh.: Hver eru þau önnur úrræði, sem hann telur að komi til greina, ef málaleitanir aðalbankastjórans takast ekki? Hæstv. ráðh. gat þess, að það væru í tilteknu landi, sem hann nefndi ekki, einhverjir möguleikar til lántöku. Ég vildi spyrja hæstv. ráðh.: Hvert er það tiltekna land, sem ekki mátti nefna við síðustu umr., og eru þær ástæður, sem þá voru þess valdandi, að hæstv. ráðh. tók til orða á svo dularfullan hátt, nú fallnar niður? Hann gat þess einnig þá, að innan ríkisstj. væri litið ólíkum augum á, hvar lán skyldi taka og hvar hagkvæmast væri að taka lánið. Ég tel nauðsynlegt, að hæstv, ráðh. skýri afdráttarlaust, í hverju þessi skoðanamunur er fólginn og hverrar skoðunar hver einstakur ráðh. er, ekki sízt vegna þess, að hæstv. ráðh. beindi því til okkar sjálfstæðismanna, hvort við mundum verða með lántöku í þessu tiltekna landi, ef alger samstaða fengist um það, — en samstaða milli hverra? Fyrst þarf ríkisstj. að gera upp sinn hug og skýra Alþ. frá því, hvað þarna er á ferðum. Alþingi á að fá vitneskju um, hvert landið er og með hvaða kjörum hægt er að fá lánið, áður en hægt er að ætlast til þess, að alþm. svari því, hvort þeir geti haft algera samstöðu við einhverja aðra. Og ríkisstj. getur ekki vænzt algerrar samstöðu þingheims, meðan það eitt er vitað um stöðu sjálfrar stjórnarinnar í málinu, að hún kunni að geta fengið eitthvert lán í einhverju tilteknu landi, sem ekki er nefnt, og það eitt er sagt um stefnu stjórnarinnar í málinu, að hún líti ólíkum augum á, hvar eigi að taka lánið og hvar hagkvæmast sé að taka það.

Öll þessi atriði er nauðsynlegt að fá upplýst, til þess að menn geti gert sér grein fyrir þeim atriðum, sem hér er um að ræða, og ég efast ekki um, að svo skilríkur maður sem hæstv. sjútvmrh. er hafi af því mikla ánægju að skýra Alþingi afdráttarlaust frá þeim spurningum, sem ég hef hér borið fram.