19.11.1958
Sameinað þing: 10. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í D-deild Alþingistíðinda. (2249)

18. mál, smíði 15 togara

Ásgeir Sigurðsson:

Herra forseti. Við erum víst allir á eitt sáttir um, að það er nauðsynlegt að viðhalda og endurnýja togaraflotann, meðan togveiðar eru stundaðar, og eigi hvað sízt fyrir fiskveiðiþjóð eins og Íslendinga, sem á eins mikið undir fiskveiðum og við. Við höfum einnig heyrt það og líka séð á prenti á undanförnum tveimur árum rúmlega, að við eigum von á að fá 15 nýja togara í viðbót við þessa 12 litlu, sem eiga að koma frá Austur-Þýzkalandi. En við höfum einnig heyrt, að allt væri í óvissu um það enn þá, hvenær við fengjum þessi skip, hvar lánin yrðu tekin og hvar skipin yrðu smíðuð. Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. viðskmrh. að því í fyrsta lagi: Er nefnd sú, sem skyldi vera ríkisstj. til ráðuneytis um smíði þessara skipa, enn starfandi, eða hefur hún lokið störfum, og hverjar eru þá niðurstöður hennar? Hvers konar skip eru þessi 15 skip, sem við eigum að fá? Hversu miklu stærri eru þau en litlu skipin? Eru það skip, sem eiga að vera búin dísilvélum og eru talin hagkvæmari en þau, sem brenna lítt hreinsaðri olíu, eins og margir af þeim togurum, sem við eigum nú? Ég vil enn fremur spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort þetta eiga að vera skip eins og stærstu skipin, sem eru í eigu Íslendinga nú, eða minni — eða stærri. Og ég vil spyrja að því, hvort það eigi að vera skip, sem eigi að taka inn vörpuna á hliðinni, eins og þau skip, sem við eigum nú, þannig að þeir, sem vinna að því að draga inn vörpuna og setja hana út og gera að aflanum, standa opnir fyrir ágjöf og vindi, eins og nú tíðkast, eða eiga það að vera yfirbyggð skip og togarar, sem kallaðir eru skuttogarar, ellegar hve mörg af þessum 15 skipum eiga að vera þannig búin, ef einhver þeirra eiga að vera þannig?

Skuttogarar eru það, sem draga inn vörpuna á skutnum eða að aftan, eins og hvalskurðarskipin, sem draga inn hvalina á þennan hátt. Þaðan er fyrirmyndin tekin, og þau eru algerlega yfirbyggð, svo að þeir, sem eiga þar að vinna að verkunum á þilfarinu, eru í skjóli fyrir ágjöf og hvers konar veðri sem er.

Þeir íslenzkir fiskimenn, sem hafa veitt athygli þeim skuttogurum, sem þegar eru komnir á miðin, hafa talið, að þar sé um framtíðarskipin að ræða til fiskveiða á úthöfunum, en eins og hv. alþm. mun vera kunnugt, þá eru nokkrar þjóðir þegar byrjaðar að nota þessa skuttogara. Þar skal fyrst telja Sovétríkin. Þau hafa stóra skuttogara, sem eru allt upp í 2.500 smálestir og eru fullkomnar verksmiðjur, þar sem algerlega er unnið úr aflanum um borð í skipinu, þannig að hann kemur flakaður og fullunninn til lands. Þá eru Bretar einnig með um 2.500 smálesta togara af þessari gerð, og þeir fullvinna einnig a.m.k. allt það, sem kemur fyrri hluta fiskveiðiferðarinnar, um borð í skipinu. Skipshafnir á þessum skipum eru 80–100 manns. Svo eru það Þjóðverjarnir, sem hafa þessa skuttogara, sem eru eitthvað um 700–1.000 smálestir. Þeir hafa að vísu ekki fullkomnar verksmiðjur um borð eins og hinir, en þeir hafa flökunarvélar og flaka fyrst framan af ferðinni og hraðfrysta svo hitt. En íslenzkir fiskimenn, sem hafa veitt þessum skipum athygli, telja, að þarna séu skip framtíðarinnar, og meira að segja get ég upplýst það, að á einum af þessum brezku togurum er íslenzkur stýrimaður, sem hefur látið í ljós þá skoðun sína, að það væru tvímælalaust skipin, sem framtíðin krefðist.

Ég vil að lokum spyrja hæstv. viðskmrh. um það, hvort nokkuð hafi verið hugsað fyrir því í sambandi við þessi 15 skip, að eitt þeirra skyldi vera fiskileitarskip, eins og minnzt hefur verið á hér á hinu háa Alþingi áður. En eins og öllum hv. alþm. má ljóst vera, þá er það mikil nauðsyn, að leitað sé nýrra fiskimiða, þegar þau, sem nær liggja, bregðast. Það er ekki heppilegt, að öll skipin eða allur togaraflotinn sé að leita á sama tíma, og því mun betra, ef til þess væri byggt eitt sérstakt skip, sem þyrfti ekki að vera mikið öðruvísi, en aðrir togarar að öðru leyti en því, að þar þyrfti að vera íbúð fyrir fiskifræðing og nokkur útbúnaður, til þess að hann gæti framkvæmt rannsóknir.

Ég vil leyfa mér að biðja hæstv. ráðh. að svara þessum spurningum.