19.11.1958
Sameinað þing: 10. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í D-deild Alþingistíðinda. (2256)

172. mál, endurheimt íslenskra handrita

Fyrirspyrjandi (Pétur Ottesen):

Herra forseti. Það er nú liðið nokkuð á annað ár, síðan till. okkar flm. þessarar fsp. um endurheimt íslenzkra handrita, sem geymd eru í dönskum söfnum, var samþ. hér á Alþ. Sú samþykkt var, eins og kunnugt er, gerð einum rómi alls þingheims og rík áherzla á það lögð, að ríkisstj. sækti þetta mál af fyllsta kappi. Þegar okkur flm. till. um endurheimt íslenzkra handrita í Danmörku þótti sýnt á síðasta þingi, að ríkisstj. eða ráðh. sá í ríkisstj., sem mál þetta hefði verið falið alveg sérstaklega, mundi ekki gefa að fyrra bragði þinginu skýrslu um, hvernig málið stæði, þá fluttum við fsp. um þetta efni, þegar nokkuð var liðið á síðasta þing. Þeirri fsp. var þá ekki svarað og höfðum við flm. þá talað um það við hæstv. menntmrh., áður en við bárum fsp. fram, að við mundum spyrjast fyrir um málið. Nú höfum við endurtekið þessa fsp. okkar, og því hefur nú verið lýst yfir, að hæstv. ráðh. ætli nú að svara henni og gefa skýrslu um málið.

Því þarf ekki að lýsa, að það er ríkjandi mjög sterkur áhugi fyrir því, að þeir dýrmætu bókmenntafjársjóðir vorir, sem mjög varða sögu vora og héðan voru fluttir á mestu niðurlægingartímum þjóðar vorrar, eins og kunnugt er, verði fluttir heim aftur, það af þeim, sem enn er varðveitt í Danmörku. En eins og kunnugt er, var höggvið mjög stórt skarð í þessa bókmenntaauðlegð vora, í fyrsta lagi þegar skip, sem flutti mikið af handritum og ýmiss konar gömlum munum, sem Kristján V. hafði látið safna saman hér á landi, fórst á leið til Danmerkur; í öðru lagi, þegar kviknaði í safni Árna Magnússonar og mikill hluti þess brann. Það er vitað, að Íslendingum er, eins og ég áður tók fram, mikið kappsmál að fá þessar dýrmætu bókmenntir vorar fluttar aftur heim til landsins og að þær verði teknar til varðveizlu og hagnýtingar í æðstu menntastofnun lands vors, háskólanum. Þar er þeim búin varðveizla. Háskólinn er miðstöð allra íslenzkra fræða, og öll gögn til iðkana þeirra þurfa þess vegna að vera geymd og varðveitt í æðstu menntastofnun vorri, háskólanum.