19.11.1958
Sameinað þing: 10. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í D-deild Alþingistíðinda. (2257)

172. mál, endurheimt íslenskra handrita

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Skömmu eftir að núv. ríkisstj. var mynduð, eða í ágúst 1956, átti ég erindi til Svíþjóðar. Fór ég þá einnig til Kaupmannahafnar í því skyni að ræða handritamálið við sendiherra Íslands í Danmörku, dr. Sigurð Nordal, og forsrh. Dana, H. C. Hansen.

Okkur sendiherranum kom saman um, að tími væri til þess kominn fyrir Íslendinga að hreyfa handritamálinu að nýju við dönsk stjórnarvöld. En það hafði legið niðri um hríð, eftir að Alþ. Íslendinga og ríkisstj. höfnuðu uppástungu í málinu, sem danska ríkisstj. bar fram að frumkvæði þáv. menntmrh., Bomholts.

Ég átti viðræðu um málið við H. C. Hansen forsæts- og utanrrh. Sagði ég honum, að ég hefði mikinn áhuga á því, að málið yrði tekið upp aftur, en vildi gjarnan hafa samráð um það við dönsk stjórnarvöld, í hvaða formi það yrði gert, þar eð ég teldi mestar líkur á jákvæðri niðurstöðu, ef samkomulag væri um form þeirra viðræðna, sem eðlilegt væri að færu fram. Varpaði ég fram við hann þeirri hugmynd, að komið yrði á fót sameiginlegri nefnd Íslendinga og Dana til viðræðna um málið og teldi ég fyrir mitt leyti heppilegast, að sú n. yrði skipuð stjórnmálamönnum. Kvaðst forsætis- og utanrrh. skyldu hugleiða málið og ræða það við starfsbræður sína.

Hinn 31. maí 1957 samþ. Alþ. einum rómi þál., þar sem skorað var á ríkisstj. í samræmi við fyrri samþykktir um endurheimt íslenzkra handrita úr dönskum söfnum að beita sér fyrir því við dönsk stjórnarvöld, að skilað verði aftur hingað til lands hinum íslenzku handritum, sem geymd eru í dönskum söfnum.

Skömmu síðar, eða í júní 1957, komu menntmrh. Norðurlanda saman til fundar í Stokkhólmi, en slíkir fundir eru haldnir annað hvert ár. Notaði ég þar tækifærið til ýtarlegra viðræðna við menntmrh. Dana, Jörgen Jörgensen, um handritamálið. Í þeirri ferð kom ég einnig til Kaupmannahafnar og átti þar viðræður bæði við hann og aðra ráðh. í dönsku stjórninni sem og sendiherra Íslands í Danmörku. Áður en ég fór í þessa ferð, var málið rætt í ríkisstj., og voru menn þar á einu máli um, að heppilegt væri, að málið yrði tekið upp við dönsk stjórnarvöld í því formi, að Íslendingar æsktu þess, að skipuð yrði nefnd Dana og Íslendinga til þess að fjalla um málið og gera um það tillögur til ríkisstjórnanna.

Ég ræddi málið einnig við formann þingflokks Sjálfstfl., Bjarna Benediktsson, fyrrv. menntmrh., og skýrði honum frá þessari hugmynd. Mun hann hafa rætt málið við flokk sinn og tjáði mér síðan, að hann hefði ekkert við þessa málsmeðferð að athuga, og mundi Sjálfstfl., ef til kæmi, nefna fulltrúa af sinni hálfu í nefndina.

Í viðræðum þeim, sem við sendiherra Íslands í Danmörku áttum við danska ráðh. í þessari ferð, kváðust þeir mundu beita sér fyrir því fyrir sitt leyti, að slík n. yrði skipuð, og létu í ljós þá skoðun, að það mundi flýta mjög fyrir lausn málsins.

Hinn 25. júlí 1957 skrifaði menntmrh. utanrrn. svo hljóðandi bréf:

„Hér með er þess beiðzt, að utanríkisráðuneytið riti ambassador Íslands í Kaupmannahöfn svo hljóðandi bréf:

Hinn 31. maí s.l. samþ. Alþ. með shlj. atkv. þál., þar sem ríkisstj. er falið að taka upp viðræður við dönsk stjórnarvöld um afhendingu íslenzkra handrita úr dönskum söfnum. Íslenzka ríkisstj. leyfir sér hér með að óska þess, að slíkar viðræður verði teknar upp, t.d. í því formi, að skipuð verði n. Dana og Íslendinga til þess að fjalla um málið og gera um það till. til ríkisstjórnanna og skipi hvor ríkisstjórnin um sig sinn hluta nefndarinnar.“

Hinn 2. ágúst barst utanrrn. svo hljóðandi símskeyti frá sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn:

„Orðsending afhent. Ákvörðun um birtingu óskað bíði nánari athugunar.“

Í ágúst 1957 sótti ég ásamt menntmrh. hinna Norðurlandanna 12. norræna skólamótið í Helsingfors. Þar ræddi ég málið enn við menntmrh. Dana, og varð það að ráði, að ég skyldi koma til Kaupmannahafnar á heimleið og ræða málið nánar við hann og forsrh. Kváðust þeir þá mundu leggja orðsendingu íslenzku ríkisstj. fyrir fund í utanrmn., sem halda æti síðar í mánuðinum. Eftir þessar viðræður okkar gaf forsætis- og utanrrh. út tilkynningu, þar sem skýrt var frá orðsendingu íslenzku ríkisstj. um nefndarskipunina og því bætt við, að danska stjórnin væri hugmyndinni fylgjandi og mundi mæla með henni við þingflokkana. Hinn 29. ágúst 1957 skýrði forsrh. og utanrrh. síðan í utanrmn. danska þingsins frá óskum íslenzku ríkisstj. um skipun nefndar til þess að fjalla um handritamálið og lýsti því þar yfir, að danska stjórnin vildi verða við þessum tilmælum, en óskaði álits þingflokkanna. Fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna í utanrmn. töldu sig verða að ræða málið við sína þingflokka, en það væri ekki hægt að gera fyrr, en eftir að danska þingið væri saman komið í októberbyrjun.

Hugmyndin um þessa nefndarskipun fékk misjafnar undirtektir í dönskum blöðum. Sum voru henni fylgjandi, en önnur andvíg. Þegar danska þingið kom saman, kom í ljós, að andstöðuflokkar ríkisstj., Íhaldsflokkurinn og

Vinstri flokkurinn, kváðust ekki vilja tilnefna fulltrúa af sinni hálfu í n. samkv. uppástungu íslenzku ríkisstj.

Í janúar s.l. fór ég til Parísar á fund um fríverzlunarmálið. Kom ég þá við í Kaupmannahöfn og hitti danska ráðherra. Kváðust þeir harma það, að ekki hefði tekizt að koma n. á laggirnar, en sögðu, að stjórnin hefði málið enn til athugunar. Að vísu væri innan stjórnarinnar sjálfrar ágreiningur um afstöðuna til málsins, svo að stjórnarandstöðuna eina væri ekki um að saka, að málið væri ekki komið lengra áleiðis, en raun bæri vitni.

Þegar ég var á leið til Parísar á fríverzlunarfundinn í síðasta mánuði, kom ég enn til Kaupmannahafnar og ræddi málið við þá Jörgen Jörgensen menntmrh., hinn nýskipaða utanrrh., Jens Otto Krag, og Viggo Kampmann fjmrh., sem gegnir störfum forsrh. í veikindaforföllum hans. Létu þeir í ljós mikil vonbrigði yfir því, að ekkert hefði í málinu gerzt af hálfu danskra stjórnarvalda. Niðurstaða þessara viðræðna varð sú, að dönsku ráðherrarnir kváðust mundu taka málið upp að nýju innan dönsku ríkisstj. og ræða það við stjórnarandstöðuna. Þeir töldu ekki líklegt, að stjórnarandstöðuflokkarnir mundu breyta afstöðu sinni til nefndarskipunarinnar, svo að telja yrði þá hugmynd úr sögunni. Hins vegar mundi danska stjórnin ræða efni málsins sjálft, og mundi það ekki dragast lengi, að unnt yrði að skýra ríkisstj. Íslands frá því, hverjar yrðu niðurstöður umræðnanna.

Þeir danskir ráðh., sem ég hef rætt við um þetta mál, hafa haft staðgóða þekkingu á málstað Íslendinga í málinu, skilning á rökum þeirra og einlægan vilja til þess að leysa málið. Hins vegar er alkunna, að innan danska þjóðþingsins er ágreiningur um málið. Hér á hinu háa Alþ. hefur hins vegar verið og er enn alger eining um málið. Íslenzka þjóðin í heild er þeirrar skoðunar, að þau íslenzk handrit, sem varðveitt eru í dönskum söfnum, eigi heima hér á Íslandi. Núv. ríkisstj., eins og þær, sem á undan hafa farið, telur það sjálfsagða skyldu sína að vinna að því, að handritin komi aftur til Íslands. Ég get fullvissað hið háa Alþingi um, að núv. og fyrrv. ríkisstj. hafa gert ríkisstj. Danmerkur óskir Íslendinga og rök þeirra í þessu máli ljós. Ráðamenn í Danmörku þekkja sjónarmið Íslendinga í málinu. Þessi sjónarmið eru hafin yfir allar flokkadeilur hér á Íslandi. Þau eru ekki aðeins sjónarmið allra alþm., heldur og allra Íslendinga. Íslenzka þjóðin er öll að baki óskinni um það, að þetta mál, eina deilumálið, sem enn er óútkljáð milli tveggja norrænna vinaþjóða eftir aldalanga sambúð þeirra, verði sem fyrst til lykta leitt í anda skilnings á því, sem er liðið, gagnkvæmrar virðingar fyrir þeim sjónarmiðum, sem eiga rætur sínar í heilbrigðri þjóðernisvitund, og þeirrar viðleitni, að sambúðin í framtíðinni verði sem bezt og vináttan sem traustust.

Milli Dana og Íslendinga eru mikil og góð samskipti, svo sem vera ber um frændþjóðir, sem jafnmikið eiga sameiginlegt í menningu, þjóðháttum og stjórnarfari. Það er einlæg ósk Íslendinga, að þetta deilumál verði sem fyrst úr sögunni með þeim hætti, að báðum þjóðunum verði til gagns og sóma.