19.11.1958
Sameinað þing: 10. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í D-deild Alþingistíðinda. (2258)

172. mál, endurheimt íslenskra handrita

Fyrirspyrjandi (Pétur Ottesen):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir þá skýrslu, sem hann hefur gefið um gang þessa máls. Það er sýnt, að sú tilraun, sem hann gerði til þess að leysa þetta mál með nýrri nefndarskipun, hefur algerlega farið út um þúfur. Hún hefur ekki fengið þær undirtektir í Danmörku, sem hæstv. ráðh. gerði sér von um, enda kom það brátt í ljós, þegar farið var að ræða í Danmörku um till. um nýja nefndarskipun, að þá voru andstæðingar Íslendinga í þessu máli ekki lengi að láta orð falla að því, að nú væru Íslendingar, ef til vill farnir að slaka nokkuð til — eða nefndarskipunin benti til þess — frá því, þegar þeir höfðu algerlega vísað á bug till. um helmingaskipti þessara dýrmætu fjársjóða. Þetta mun nú hafa verið leiðrétt þannig, að framkoma þessarar till. benti ekki til neins undansláttar af hálfu Íslendinga. En hugmyndin um nefndarskipun hefur ekki leitt til neins framdráttar í málinu, eftir því sem fram er komið.

Það liggur fyrir skýrsla eða skrár um öll handrit og skjöl, sem Íslendingar eiga í dönskum söfnum. Þessar skrár hafa þeir gert Hannes Þorsteinsson þjóðskjalavörður og dr. Jón Þorkelsson þjóðskjalavörður, svo að af okkar hálfu er þarna fullur leiðarvísir um það, hvers okkur ber að krefjast af þessum dýrmætu fjársjóðum vorum, að þeir fluttir verði aftur til landsins. Og það virðist því, eins og málin standa nú, verða að hefja sóknina aftur að nýju á grundvelli þessara heimilda, og verður ríkisstj. í því efni að fylgja fast eftir samþykkt Alþingis í þessu máli og vilja allra Íslendinga um það, að oss takist að fá handritin aftur flutt til landsins. Mér dettur í hug í þessu sambandi, hvort ekki væri þess vert að taka til athugunar, að stjórnmálaflokkarnir legðu til sinn manninn hver í nefnd, sem ásamt hæstv. menntmrh. færi á fund dönsku ríkisstj. og bæri fram af hálfu Íslendinga þessa kröfu. Það er a.m.k. nýtt form af okkar hálfu til beitingar í þessu máli, og ég tel, að það mundi fela í sér, sem raunar er vitað áður og ekki heldur dylst dönskum stjórnarvöldum, að fullkominn einhugur meðal Íslendinga ríkir í sókn þessa máls og að þeir muni aldrei af láta þessari sókn, fyrr en þeir hafa fengið þessari sanngirniskröfu sinni á hendur danskra stjórnarvalda fullnægt.