07.01.1959
Sameinað þing: 19. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í D-deild Alþingistíðinda. (2261)

69. mál, yfirlæknisembætti Kleppsspítala

Fyrirspyrjandi (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Þessi fsp. var borin fram í tíð fyrrv. ríkisstj. og er þar af leiðandi beint til þáv. heilbrmrh. og ekki þess að vænta, að núv. heilbrmrh. geti svarað henni. Hins vegar þykir mér rétt, af því að fsp. skýrir sig ekki sjálf að fullu leyti og þar sem hún er fram komin, að gera örstutta grein fyrir því, um hvað hún snýst. Jafnframt getur þá fyrrv. ráðh., ef hann sér ástæðu til, sagt þar um nokkur orð.

Fyrirspurnin er þess efnis, að spurt er, hvers vegna fyrrv. heilbrmrh. hafi ekki sinnt tillögum landlæknis um breytta skipan á embætti yfirlæknis á Kleppsspítala. Það, sem í þessari fsp. felst, er í mjög stuttu máli þetta: Landlæknir mun fyrir alllöngu hafa gert þá tillögu til ráðherra, að þessu yfirlæknisembætti yrði breytt og það gert jafnframt að prófessorsembætti í geðsjúkdómum við háskólann. Að baki þessari till. mun liggja það, að með þróun nútíma þjóðfélags á síðustu áratugum hefur athygli manna beinzt mjög í vaxandi mæli að geðsjúkdómum og þeir eru taldir vera mjög vaxandi vandamál, hvort sem það kann að stafa af því, að nútímaaðstæður hafa gert geðsjúkdóma algengari, eða hinu, að nútíma þróun læknavísinda hefur orðið til þess að beina meiri athygli að þeim en áður. Og mér skilst, að þessi till. landlæknis, sem hann mun hafa gert með meðmælum bæði læknadeildar háskólans og Læknafélagsins, sé hugsuð þannig, að hún ætti að verða eitt skref í þá áttina að sýna þessum málum aukna rækt, skapa meiri veg fyrir þessa grein læknisfræðinnar og verða eitt af fleiri skrefum til þess að auka þá áherzlu, sem hér á landi yrði lögð á þetta svið heilbrigðismálanna. — Þessa skýringu vildi ég gefa á fyrirspurninni, en tek það aftur fram að, að sjálfsögðu getur núv. heilbrmrh. ekki um þetta sagt, vegna þess að till. kom fram, en var ekki afgreidd í tíð fyrrv. ráðherra.