07.01.1959
Sameinað þing: 19. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í D-deild Alþingistíðinda. (2263)

69. mál, yfirlæknisembætti Kleppsspítala

Fyrirspyrjandi (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fyrrv. heilbrmrh. fyrir svar hans, og með því að fsp. hefur verið skýrð og henni svarað, er tilgangi hennar í raun og veru náð. Hann var fyrst og fremst sá, að fram kæmu þær skoðanir, sem uppi hafa verið um þetta, og þær ástæður, sem eru fyrir því, að sú stefna var tekin, sem tekin var.

Ég hygg, að það, sem fyrir landlækni vakti í sambandi við till. hans, hafi verið þetta, að um leið og fyrir lá að skipa nýjan mann í þetta yfirlæknisembætti, gæfist mjög gott tækifæri til þess að gera slíka breyt., og um leið, að það væri brýn þörf á því að gera allt, sem hægt væri, til þess að efla geðlækningar og auka þar svið læknisfræðinnar hér á landi. Hitt er að sjálfsögðu rétt, sem á var bent, að það eru fleiri svið en þetta, þar sem læknastéttin er þeirrar skoðunar, að mjög æskilegt væri að fá prófessorsstóla við háskólann, og munu þar koma til greina ekki aðeins þau, sem nefnd voru, heldur, að því er mér skilst og jafnvel fremst í augum lækna, kvensjúkdómar og fæðingar.

Ég vil endurtaka þakkir mínar fyrir svarið og tel, að komið hafi hér fram með þessari fsp. það, sem rétt var að fram kæmi um þetta mál.