07.01.1959
Sameinað þing: 19. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í D-deild Alþingistíðinda. (2264)

69. mál, yfirlæknisembætti Kleppsspítala

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég skal ekki blanda mér í það, hvort skynsamlegt er að verða við till. landlæknis eða ekki, og engan veginn víta hæstv. fyrrv. heilbrmrh. fyrir að gera það ekki. Til þess skortir mig þekkingu, og ég hef ekki haft kost á því að kynna mér málið. En ég var nokkuð hissa á orðum hv. fyrirspyrjanda, að hann taldi málinu lokið með svari hæstv. fyrrv. heilbrmrh. Mér skilst, að það hljóti að skipta öllu máli, hvaða skoðun núv. hæstv. heilbrmrh. hefur á þessu máli. Að því er ég bezt veit, er ekki enn þá búið að veita þetta embætti, þannig að hafi hæstv. fyrrv. heilbrmrh. farið rangt að, þá er enn þá fullkomið tækifæri fyrir núv. hæstv. heilbrmrh. til þess að laga þau mistök, sem fyrirrennari hans kann að hafa gert sig sekan um. Ég hefði búizt við því, að hv. fyrirspyrjandi mundi beina því til núv. hæstv. heilbrmrh., að hann veitti ekki þessa stöðu, fyrr en hann hefði gerkynnt sér, hvort ákvörðun fyrirrennara hans væri rétt. Úr því að hv. fyrirspyrjandi hefur ekki borið fram þessa áskorun, þá vildi ég láta það koma fram af minni hálfu, að mér finnst það eðlilegt, úr því að hér er um auðsjáanlegt vandamál að ræða, að það verði betur skoðað ofan í kjölinn, því þó að margt gott megi segja um hæstv. fyrrv. heilbrmrh., eins og sagt er, að um þá dauðu skuli ekkert sagt nema gott, þá er þó víst, að ekki geta menn fallizt á, að hans úrskurðir séu óbrigðulir.