21.01.1959
Sameinað þing: 23. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í D-deild Alþingistíðinda. (2268)

76. mál, fjárfestingarþörf opinberra stofnana

Fyrirspyrjandi (Eggert Þorsteinsson):

Herra forseti. Fsp. sú, sem hér um ræðir og ég hef leyft mér að flytja, hefur verið fyrir alllöngu útbýtt og var að sjálfsögðu beint til hæstv. fyrrv. ríkisstjórnar. En ég hef ekki séð ástæðu til þess að draga þessa fsp. til baka og vonast til þess þrátt fyrir stjórnarskiptin, að hin tiltölulega nýja ríkisstj. sjái sér fært að svara henni.

Þann 5. marz s.l. var samþykkt hér á hæstv. Alþingi hin umrædda þál., er ég flutti, um athugun á fjárfestingarþörf opinberra stofnana. Í framsöguræðu fyrir till. gat ég þess, að hin síðari ár hefðu orðið æ háværari raddir um það meðal almennings, að fjárfesting þess opinbera væri ekki á þann veg sem skyldi. Þessu til sönnunar er mjög á það bent, að af hálfu ríkisvaldsins hafi þörfin fyrir aukið húsrými þess oft verið leyst á þann hátt, að ríkið hafi varið geysilegum fjárhæðum í fyrirframgreidda húsaleigu til einstaklinga eða fyrirtækja í stað þess að byggja og eiga þessar byggingar sjálft. Niðurstaða slíkra ráðstafana hefur svo orðið sú, að hinir óopinberu aðilar, einstaklingar og fyrirtæki, hafa með þessum fyrirframgreiðslum ríkisins byggt þessar fasteignir og að tiltölulega skömmum tíma líðnum eignazt þær, á sama tíma sem hvorki gengur né rekur um fullnægjandi byggingar fyrir stjórnarráð og opinber fyrirtæki. Ef eitthvað er hæft í þessum orðrómi, er illa farið. Af eðlilegum ástæðum kemur almenningi slík ráðabreytni spánskt fyrir sjónir, að hægt sé að leggja fram fjárfúlgur af almannafé til að byggja á vegum óopinberra aðila, á sama tíma sem það opinbera telur sig vegna fjárhagsörðugleika ekki geta varið fé til nauðsynlegra bygginga fyrir sig sjálft.

Till., sem hér um ræðir og samþ. var hinn 5. marz s.l., var svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta framkvæma rannsókn á fjárfestingarþörf opinberra stofnana til byggingar nauðsynlegs húsnæðis fyrir starfsemi þeirra. Jafnframt sé athugað, hve margar opinberar stofnanir hafi þurft á s.l. 10 árum að kaupa eða leigja nauðsynlegt húsnæði af einstaklingum, félögum eða öðrum opinberum aðilum og þá með hvaða kjörum. Niðurstaða rannsóknarinnar verði lögð fyrir Alþingi svo fljótt sem kostur er.“

Af till., sem samþ. var einróma, er ljóst, að Alþingi vildi láta fram fara ýtarlega rannsókn á fjárfestingarþörf þess opinbera, til þess m.a. að mögulegt sé að gera sér grein fyrir, hvert beri að stefna í fjárfestingu þess í byggingarmálum, og að það fé, sem hverju sinni er ákveðið að verja til slíkra framkvæmda, fari til þess að auka og bæta eignir ríkisins sjálfs.

Ástæðan til þess, að fsp. þessi er nú fram borin, er sú, að ekkert hefur um framkvæmd till. heyrzt, síðan hún var samþykkt.

Það er von mín, að skýr og greið svör fáist við fsp. frá hæstv. ríkisstj.