21.01.1959
Sameinað þing: 23. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í D-deild Alþingistíðinda. (2270)

76. mál, fjárfestingarþörf opinberra stofnana

Fyrirspyrjandi (Eggert Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir þessi svör og þær upplýsingar, sem í þeim fólust, þó að ég verði jafnframt að harma það, að svo lengi skuli hafa dregizt að stofna til þessarar rannsóknar, sem í till. felst. Ég álít, að hér sé um svo veigamikið mál að ræða, þegar jafnmikið er rætt um þarfa og óþarfa, fjárfestingu þess opinbera eins og gert er um þessar mundir, að það hefði verið æskilegt, að slíkri rannsókn, sem í till. felst og skorað er á ríkisstj. að láta fara fram, hefði verið lengra á veg komið. En ég verð þrátt fyrir þann drátt, sem orðið hefur á því að láta, þessa rannsókn fara fram, að fagna því, að hún skuli þó vera hafin, og beini þeirri áskorun til hæstv. núv. ríkisstj., að hún láti hraða þessari athugun, svo sem kostur er á, þannig að þær upplýsingar, sem til var ætlazt með ályktuninni að færa Alþingi og þjóðinni allri, megi sem fyrst fyrir liggja.