21.01.1959
Sameinað þing: 23. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í D-deild Alþingistíðinda. (2273)

80. mál, rafveitulína frá Hvolsvelli til Vestmannaeyja

Fyrirspyrjandi (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég ætla, að þessi fsp. hafi þann grundvöll fyrir sér, að ég og hv. 2. landsk. þm. fluttum um það þáltill. á síðasta þingi, að framkvæmd á lagningu rafveitulínu frá Hvolsvelli til Vestmannaeyja væri hraðað. Okkur var ljóst, að áætlun liggur fyrir um að koma þessum Suðurlandsrafveitumálum í kring á árinu 1960, og teljum, að það sé nauðsynlegt, að allur útbúnaður á landi sé þá tilbúinn, t.d. að minnsta kosti rafveitulínan frá Hvolsvelli og fram í sand, hvað sem öðru líður, og helzt að sjólínan væri þá þegar keypt, til þess að ekki þyrftu að tefjast framkvæmdir fram yfir þá áætlun, sem höfð hefur verið í huga af raforkumálastjórninni á undanförnum árum, fyrir það, að ekki væri hafizt handa í tíma til þess að afla þeirra leiðslna og lagninga, sem til heyra. Það er vitanlegt, að hvað varðar sjólínuna sjálfa frá Landeyjarsandi og út til Eyja, þá er búið að rannsaka botninn. Það hefur farið fram mjög jákvæð rannsókn á botnlaginu með tilliti til þess, að línan verði lögð milli lands og Eyja. Hitt er svo líka mikið verk, að koma rafveitulínunni það austur á bóginn á landi, sem nauðsynlegt er í þessu efni.

Ég hef í seinni tíð átt nokkrar viðræður við raforkumálastjórnina um þetta mál og hef komizt að því, að hún hefur áhuga fyrir því að mega kaupa inn það efni, sem þarf í þessa lögn, ég held helzt allt í einu eða sem næst því, en telur sig enn skorta heimildir viðkomandi stjórnarvalda í því efni.

Raforkuveita á þessu svæði er hvað Vestmannaeyjar snertir orðin ákaflega aðkallandi, og mundi þá sú raflögn, sem þar er fyrir hendi. verða eins og hjálparhella eða rafstöð til vara, ef eitthvað skyldi á bjáta með hina reglulegu rafveitulínu, þegar fram í sækir.

Á síðasta þingi var ekki borin fram opinberlega fsp. um þetta efni. En ég gerði þó nokkrar tilraunir og býst við, að hv. 2. landsk. þm. hafi fyrir sitt leyti reynt að gera hið sama, til að komast eftir því og hvetja til þess, að keyptir væru þeir nauðsynlegu strengir til þessarar veitu. En ég fyrir mitt leyti hef ekki getað hrósað happi yfir því, að þær viðræður hafi fleygt málinu fram, svo sem þörf er á og svo sem ég vænti. Fyrir því þykir mér hlýða að bera fram þessa fsp. til hæstv. ríkisstj. Hún mun nú hafa verið lögð fram, áður en stjórnarskiptin urðu, en sjálfsagt er eitthvert rn. enn þá til, sem annast um framkvæmd raforkumálanna, og vænti ég að geta úr þeirri átt fengið þær upplýsingar, sem um er beðið í fsp.

Þál., sem samþ. var á Alþingi 16. apríl 1958, hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hraða svo sem unnt er lagningu rafveitulínu frá Hvolsvelli til Vestmannaeyja samkv. heimildarlögum nr. 65 1956, sbr. l. nr. 53 1954 og l. nr. 5 1956.“

Öll þessi lög leggja grundvöllinn fyrir því, að framkvæmd geti orðið á því að tengja Vestmannaeyjar við landið hvað rafveitu snertir.

Ég vil svo mælast til þess, að hæstv. ríkisstj. upplýsi, hversu þessu máli horfir nú við og hvað hefur verið gert til þess að framkvæma þál. frá 16. apríl.