04.03.1959
Sameinað þing: 31. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í D-deild Alþingistíðinda. (2294)

121. mál, innflutningur véla og verkfæra

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það var vikið að því hér í þessum umræðum, að ég hefði á sínum tíma í fyrrv. ríkisstj. rekið nokkuð fast á eftir því, að inn væru fluttar hátollavörur, og það, sem hér væri nú verið að lýsa yfir af núv. hæstv. ríkisstj. um stefnu hennar í þessum málum, væri í rauninni aðeins framhald af því, sem hefði verið í tíð fyrrv. ríkisstj., sem hefði lagt mikið kapp á það að flytja inn hátollavörur. — Ég hef svo veitt því athygli í þessum umræðum, sem hér hafa farið fram, að það virðist vera, að menn hafi ekki gert sér grein fyrir því, hvaða vörur hér er um að ræða, sem eru kallaðar hátollavörur. Það er fjarri því, að allar þær vörur, sem flokkast undir hátollavörur, séu ónauðsynlegar vörur eða vörur, sem auðvelt er að komast af án í okkar þjóðarbúskap. Ég ætla t.d. ekki, að neinn maður haldi því fram, að hægt sé að komast af án þess að flytja inn nokkra varahluta í allar þær bifreiðar, sem landsmenn eiga, en þetta er einmitt ein sú vörutegundin, sem er hvað hæst í hópi þessara hátollavara. Vitanlega verður að flytja inn þessar vörur. Engum manni í landinu kemur það til hugar, að hægt sér að komast af án þeirra. Einnig vita menn, að það er mjög mikið af almennum byggingarvörum í hópi þessara svonefndu hátollavara. Það er með engu móti hægt að ljúka við þær fjölmörgu byggingar í landinu, sem yfir standa, án þess að flytja inn nokkuð af þessum vörum. Það er því vitanlega ekki hægt að tala eins og hv. 1. þm. Reykv. gerði hér nú síðast, þannig, að sá aðili, sem stendur fyrir innflutningi á hátollavörum, sé að vinna hér eitthvert ódæði, og það fer vitanlega alls fjarri því, að í tíð fyrrv. ríkisstj. hafi verið flutt meira inn af hátollavörum, en í tíð annarra ríkisstj, Í tíð þeirrar ríkisstj., sem hér fór með völd á undan vinstri stjórninni, þeirri stjórn, sem hv. 1. þm. Reykv. tók þátt í, voru t.d. árið 1956 fluttar inn hátollavörur fyrir 264 millj. kr., en árið 1957, ár vinstri stjórnarinnar, ekki nema fyrir 174 millj. kr. í gjaldeyri. Hér var því um stórkostlega minnkun að ræða á innflutningi þessara vara. Það er því algerlega rangt að ætla að stilla þessum málum þannig, að það sé út af fyrir sig röng stefna að gera ráð fyrir eðlilegum innflutningi á þessum vörum ýmsum. Slíkt er vitanlega alveg óhjákvæmilegt. Þegar í tíð fyrrverandi ríkisstj. var gerð áætlun um innflutning, var sú áætlun að sjálfsögðu gerð þannig, að allir, sem að því stóðu, gerðu sér grein fyrir því, að hér var aðeins um áætlun að ræða, eins og við, sem þá höfðum með innflutningsmálin að gera, gerðum okkur grein fyrir, að það varð óhjákvæmilega vegna rekstrar þjóðarbúsins að flytja inn nokkuð af hátollavörum, ef ekki ætti að verða um stöðvun að ræða, — ekki aðeins vegna hagsmuna ríkissjóðs og hagsmuna útflutningssjóðs, heldur bara vegna hins almenna rekstrar í landinu, varð að tryggja ákveðinn innflutning í þessum efnum. En vitanlega var okkur það ljóst, að ýmsar vörur í hópi hátollavara urðu að víkja, hvað sem öllum áætlunum leið, fyrir nauðsynlegasta innflutningi til landsins. Það er því fyllilega rétt, sem hv. 1. þm. S-M. hefur sagt hér. Vitanlega var það skoðun allra aðila í fyrrverandi ríkisstj., að áætlunin, sem gerð var, yrði að víkja fyrir brýnasta innflutningi til landsins, og eins verður þetta vitanlega að vera á þessu ári. Ég fullyrði, að það er ekki á valdi þeirra manna, sem semja nú áætlanir, að segja nákvæmlega fyrir um það, hvað þarf að flytja mikið inn af veiðarfærum t.d. til útgerðarinnar í landinu á árinu, það geta þeir ekki, og það getur enginn, eins og nú standa sakir. Slíkar tölur geta sveiflazt um meira, en heilan tug milljóna, og vitanlega verður slíkur innflutningur að fá að eiga sér stað, og þá verður vitanlega heldur að skera niður þann hlutann af hátollavörunum, sem helzt er hægt að láta bíða.

Málið liggur vitanlega þannig fyrir, að áætlun er gerð í þessum efnum, en það er fjarstæða að lýsa því yfir, að sú áætlun gagnvart hátollavörum verði að standa, hvernig sem allt snýst. Vitanlega verður hún að víkja, eins og reyndar allir áætlunarliðir verða að víkja, miðað við það, sem þörfin krefur á hverjum tíma. Það er alveg óhjákvæmilegt annað. Hér getur ekki verið um neitt annað, en áætlun að ræða. Hins vegar er mín skoðun, að án þess að það segi mjög tilfinnanlega til sin í rekstri þjóðarbúsins, verði ekki auðveldlega komizt af með minni innflutning á svonefndum hátollavörum, en 179 millj. kr., eins og var á s.l. ári. Það mun verða mjög örðugt. Það er því síður en svo, að þau tvö ár, sem ég hafði með að gera í þessum efnum, árin 1957 og 1958, þegar innflutningur var 174 millj. annað árið og 179 millj. hitt árið, eða miklum mun lægri, en árin á undan, í þessum sömu vöruflokkum, hafi verið eitthvað sérstaklega rekið á eftir því fremur venju eða að óþörfu, að innflutningur ætti sér stað í þessum vöruflokkum, eða að í tíð fyrrv. ríkisstj. hafi verið hér allt önnur stefna um innflutning í þessum efnum, en áður var, — það er vitanlega með öllu rangt.