04.03.1959
Sameinað þing: 31. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í D-deild Alþingistíðinda. (2303)

174. mál, niðurgreiðsla vöruverðs

Menntmrh. ( Gylfi Þ. Gíslason ):

Herra forseti. Hér er um mjög viðamiklar fsp. að ræða, sem nokkurn tíma tekur að svara, og svarið verður að langmestu leyti fólgið í lestri talna. Hjá því verður að sjálfsögðu ekki komizt, það er eðli fsp., og bið ég því þingheim velvirðingar á því, að hér verður að mestu leyti um að ræða talnalestur.

Þá bætti þm. við tveimur fsp., sem líka eru nokkuð viðtækar, þ.e. hvort vísitalan væri nú komin niður í 202 stig og hvaða ráðstafanir væru fyrirhugaðar, til þess að svo yrði, og hvað þær ráðstafanir þá mundu kosta. Ég hef hér í fórum mínum tölur til þess að svara þessum fsp. líka að mestu leyti, að ég hygg, og mun því gera það.

Fyrsta fsp. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Um hve mörg stig lækkar framfærsluvísitalan vegna áhrifa laga um niðurfærslu kaupgjalds og verðlags?“

Lækkun framfærsluvísitölunnar vegna áhrifa þessara laga, sú lækkun, sem fram var komin 6. febr. 1959, var 6.4 stig. Gera má ráð fyrir, að það eigi eftir að koma fram lækkun, sem nemur 0.3 stigum, og verður þá heildarlækkun vísitölunnar vegna ákvæða þessara laga 6.7 stig. En þess verður þó að geta, að niðurfærsla sú, sem hér um ræðir, hefur ekki aðeins bein áhrif, sem því nemur, sem ég hef nefnt, til lækkunar á vöruverði, heldur hefur löggjöfin einnig mjög mikil óbein áhrif á þann hátt, að hún hefur komið í veg fyrir hækkanir, sem hefðu orðið, ef niðurfærslan hefði ekki átt sér stað. Lækkun vísitölunnar hefði m.ö.o. orðið allmiklu meiri, ef búið hefði verið að færa allt verðlag í landinu til samræmis við hækkun kaupgreiðsluvísitölu og grunnkaups á s.l. ári.

Önnur fsp. hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Hvaða vörutegundir eru nú greiddar niður, og hve miklu nemur niðurgreiðslan á hverri vörutegund miðað við kg eða lítra?“

Ég skal fyrst lesa skrá yfir þær vörutegundir, sem nú eru greiddar niður, en þær eru þessar:

Dilka- og geldfjárkjöt, ærkjöt, ull og gærur, nýmjólk, smjör, skyr, mjólkurostur, mysuostur, nýmjólkurduft og undanrennuduft, kartöflur, smjörlíki, saltfiskur, ýsa og þorskur.

Þá skal ég lesa upp, hversu miklu niðurgreiðslan nemur á einingu hverrar þessarar vörutegundar um sig, og jafnframt geta þess, hve niðurgreiðslan veldur lækkun á mörgum stigum í vísitölunni. Niðurgreiðsla á dilka- og geldfjárkjöti nemur kr. 10.51 á magnseiningu — og miða ég hér við niðurgreiðs)una frá 1. marz s.l. alls staðar á eftir. Niðurgreiðsla á ærkjöti er kr. 4.20. Niðurgreiðslan á öllu kjöti, dilka-, geldfjár- og ærkjöti, veldur 101/2 stigs lækkun á vísitölunni. Niðurgreiðslan á nýmjólk frá mjólkurbúum nemur kr. 2.44 á lítra og veldur 11.61 stigs lækkun á vísitölunni. Niðurgreiðsla á miðalausu smjöri nemur kr. 8.66 á kg og veldur 0.73 stiga lækkun á vísitölunni. Viðbótarniðurgreiðsla á smjöri gegn miðum, skömmtunarseðlum, nemur kr. 27.60 á kg og veldur 2.32 stiga lækkun á vísitölunni. Niðurgreiðsla á skyri nemur 65 aurum á kg og veldur 0.11 stiga lækkun á vísitölunni. Niðurgreiðsla á mjólkurosti nemur kr. 4.45 og veldur 0.13 stiga lækkun á vísitölunni. Niðurgreiðsla á mysuosti nemur kr. 1.90 á kg og veldur 0.04 stiga lækkun á vísitölunni. Niðurgreiðsla á kartöflum nemur kr. 2.40 á kg og veldur 5.86 stiga lækkun á vísitölunni. Niðurgreiðsla á smjörlíki nemur kr. 6.36 á kg og veldur 1.93 stiga lækkun á vísitölunni. Á saltfiski nemur niðurgreiðslan kr. 6.30 á kg, lækkun vísitölu 2.38 stig. Niðurgreiðsla á ýsu nemur kr. 1.50 á kg og veldur lækkun á vísitölunni um 1.29 stig. Og á þorski nemur niðurgreiðslan kr. 1.37 og veldur 0.56 stiga lækkun á vísitölunni.

Þá er 3. fsp. Hún hljóðar svo: „Hvað er áætlað að niðurgreiðsla á hverri vörutegund nemi miklu samtals á yfirstandandi ári?“

Hér er að sjálfsögðu um áætlaðan kostnað að ræða. Niðurgreiðsla á dilka- og geldfjárkjöti mun kosta 72 millj. 300 þús., á ærkjöti 1 millj. 400 þús. Enn fremur er greiddur geymslukostnaður kjöts, 5 millj. og 200 þús., og geymslukostnaður á ull og gærum 3 millj. 400 þús. Kostnaður við niðurgreiðslu á nýmjólk frá mjólkurbúum nemur 77 millj. 500 þús., en á nýmjólk, sem seld er beint til neytenda, 9 millj. 750 þús. Niðurgreiðs)a á smjöri kostar 30 millj. 500 þús., á skyri 1 millj. 235 þús., á mjólkurosti 2 millj. 800 þús., á mysuosti 80 þús., á nýmjólkurdufti 270 þús., en undanrennudufti 150 þús. Niðurgreiðsla á kartöflum kostar 17 millj., en greiddur geymslukostnaður á þeim 900 þús. Á smjörlíki kostar niðurgreiðslan 10 millj. 500 þús., á saltfiski 5 millj. 670 þús., á ýsu og þorski samtals 7 millj. 900 þús. Áætlaður kostnaður af niðurgreiðslum á yfirstandandi ári nemur því 246 millj. 555 þús. kr.

Með þessu ætla ég, að fsp. hv. 1. þm. S-M. sé að fullu svarað.

En þá eru fsp., sem hann bar fram í ræðu sinni áðan. Í sambandi við þær skal ég gefa eftirfarandi upplýsingar:

Samkv. áætlun hagstofunnar þarf að greiða framfærsluvísitöluna niður um 3.8 stig, til þess að hún verði 202 stig 1. marz 1959. Hinar auknu niðurgreiðslur frá og með 1 marz 1959, sem þegar hafa komið til framkvæmda, lækka vísitöluna um 2.4 stig, og þarf því enn viðbótarniðurgreiðslur, sem svarar 1.4 stigum, til þess að vísitalan verði 202 stig 1. marz. Viðbótarniðurgreiðslur til 1. marz námu 2.4 stigum, og eftir eru því 1.4 af þessum 3.8. En í sambandi við það hefur ríkisstj. ákveðið að gera þær ráðstafanir, sem ég skal nú greina frá:

Gert hefur verið ráð fyrir því, að sjúkrasamlagsgjöld verði greidd niður frá og með 1. marz s.l., eins og með þarf, til þess að brúa þetta bil, þ.e. til þess að lækka vísitöluna um 1.4 stig. Niðurgreiðsla mánaðarlegs sjúkrasamlagsgjalds í Reykjavík mundi þannig þurfa að verða um 13 kr., ef áætlun hagstofunnar um vísitöluna 1. marz reynist rétt, en úr því mun fást skorið allra næstu daga. Þessi niðurgreiðsla samsvarar því, að u.þ.b. 29% af iðgjaldi sjúkrasamlagsmeðlima í Reykjavík sé greitt niður, og er gert ráð fyrir því, að hlutfallslega sama niðurgreiðsla verði ákveðin á meðlimaiðgjaldi allra sjúkrasamlaga á landinu. Árlegur kostnaður við þessa niðurgreiðslu er áætlaður 15.6 millj. kr., og kostnaðurinn á þessu 10 mánaða tímabili, sem eftir er af árinu, mun þannig nema 13 millj. kr.

Ef tekið er tillit til þessara upplýsinga, sem ég nú hef bætt við, mun heildarkostnaður af niðurgreiðslum á árinu 1959 verða 259 millj. 555 þús. kr., þ.e. 246 millj. 555 þús., sem ég skýrði frá áðan, og þessar 13 millj. kr. í niðurgreiðslu á sjúkrasamlagsiðgjaldi til viðbótar. Með þessu vona ég, að fsp. sé fullsvarað, bæði þeim prentuðu og þeim, sem hv. þm. bar fram til viðbótar.