04.03.1959
Sameinað þing: 31. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í D-deild Alþingistíðinda. (2304)

174. mál, niðurgreiðsla vöruverðs

Fyrirspyrjandi (Eysteinn Jónsson):

Ég þakka hæstv. ráð. fyrir þessar greinagóðu upplýsingar, sem hann gaf og gefa mjög skýra mynd af þessu merkilega máli. Ég mun ekki nota þetta tækifæri til að draga nokkrar ályktanir af þessum upplýsingum hæstv. ráðh., en þessar upplýsingar sýna vitanlega, hversu geigvænlegt vandamál þessar niðurgreiðslur eru orðnar, og þær hafa margar afleiðingar, sem sumar hverjar eru mjög varhugaverðar. En hvernig við þetta er að fást orðið, má dálítið sjá á því m.a., að síðasta skrefið, sem nú er verið að stíga í þessum málum, að greiða niður sjúkrasamlagsiðgjöldin, skilst mér að muni kosta um 11 millj, kr. stigið, 11 millj. kr. af opinberu fé að greiða niður eitt stig.

Það eru mörg vandamál, eins og ég gat um, í sambandi við þetta. Ég hef í öðru sambandi getið t.d. alveg sérstaklega um það vandamál, sem snýr að bændunum. Það er ekki nokkur vafi á því, að það er stórlega á þá hallað með svona mikilli niðurgreiðslu. En ég skal ekki fara út í það hér, því að ætlunin var ekki að stofna til neinna kappræðna um þetta mál, heldur aðeins að fá upplýsingar. En ég vil spyrja hæstv. ráðh. um eitt, sem ég minntist á áðan, hvort hann mundi geta upplýst, hversu mikið þær niðurgreiðslur kosta, sem núv. stjórn hefur efnt til, og hversu mörgum vísitölustigum þær eigi að mæta. Þetta var það eina, sem hann ekki kom inn á, en annars svaraði hann skriflegu fsp. út í æsar og tveimur af þeim, sem ég bætti við munnlega. Ef hann hefði þessar tölur hjá sér, mundi það skýra heildarmyndina, ef hann vildi góðfúslega gefa okkur þær upp.