04.03.1959
Sameinað þing: 31. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í D-deild Alþingistíðinda. (2312)

175. mál, réttindi vélstjóra

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hv. þm. sagðist líta svo á, að Alþingi hafi ætlazt til þess, að endurskoðun þessara tveggja laga í stjórnarráðinu færi fram samtímis með tillögugerð til Alþingis um það, hvernig lögin skyldu verða endurskoðuð. Auðvitað væri hægt að láta vinna samtímis að þessum málum báðum í stjórnarráðinu. En ég held, að það mundi ekki flýta fyrir endanlegri lagasetningu um réttindamálið, þótt svo yrði gert, vegna þess að augljóst er, svo augljóst, að ég skýri það ekki nánar, að ný lagaákvæði um réttindi vélstjóranna hljóta að fara mjög eftir því, hver niðurstaða verður um nýja lagasetningu um menntun þeirra.

Það væri auðvitað hægt að gera frv. að lögum í réttindamálinu, sem væri í samræmi við þær till., sem menntmrn. væntanlega mun, gera í menntunarmálinu. En með hliðsjón af því, hve mikill ágreiningur er um það, hvernig sú lagasetning endanlega eigi að vera, er réttindamálið ekki komið hætishóti lengra áleiðis, þótt frv. hafi verið samið í réttindamálinu í samræmi við frv. menntmrn. um menntunarmálið. Ef Alþingi, sem endanlega tekur ákvörðun um málið, tekur aðra stefnu í menntunarmálinu, heldur en mörkuð er í frv. menntmrn., þyrfti hvort eð er að endurskoða frv. um réttindamálið, og sú endurskoðun yrði þá líklega að vera það gagnger, að hún mundi ekki fara fram í þingnefnd eða vera gerð af hálfu þingmanna, heldur mundi verða gerð á vegum ráðuneytis. En það get ég fullvissað hv. þm. um, að málin bæði eru svo þrautrædd í menntmrn. og samgmrn., að það verður ekki nema örlítið verk að gera frv. í réttindamálinu í samræmi við þá niðurstöðu, sem endanlega verður hér á Alþingi að því er snertir menntunarmálið. Þó að þessi háttur verði hafður á, sem ég gerði grein fyrir áðan, þarf það alls ekki að þýða nokkra töf á því, að réttindamálið hljóti afgreiðslu hér á hinu háa Alþingi, enda engan veginn tilætlunin, að svo verði.