29.01.1959
Efri deild: 59. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í B-deild Alþingistíðinda. (234)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Forseti (BSt):

Út af ummælum hæstv. forsrh. til mín að flýta málinu sem mest, þá skal ég þegar taka það fram, að mér er ljóst, að þetta mál, ef það á fram að ganga á annað borð, þarf helzt að fá afgreiðslu fyrir mánaðamót og mun ekki standa á mér að reyna að greiða fyrir því, að svo geti orðið. En á það vil ég benda, að þessari hv. d. er ekki gefinn ýkja mikill tími til þess að afgreiða málið fyrir mánaðamót. Hv. Nd. hefur nú haft málið til meðferðar í viku, en okkur hér eru ætlaðir í hæsta lagi 2 dagar til þess.

Það er að vísu rétt, sem hæstv. ráðh. gat um, að fjhn. þessarar d. vann með fjhn. Nd. að athugun málsins, gerði það yfir helgi og flýtir það að sjálfsögðu fyrir. En það verður samt töluverður aðstöðumunur deildanna til þess að fjalla um málið.