11.05.1959
Sameinað þing: 48. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1782 í B-deild Alþingistíðinda. (2341)

Almennar stjórnmálaumræður

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Ég vil byrja á því, að spyrja hæstv. fjmrh., hvernig hann ætlar að fara að, þegar hann er búinn að eyða tekjuafgangnum frá s.l. ári. Ætli hann eða eftirmaður hans þurfi þá ekki að fara að afla nýrra tekna?

Hæstv. ráðh. sagði, að í fjárlagafrv. hefði verið gert ráð fyrir vísitölunni 183 stig og þess vegna kæmi prósentlækkunin ekki til greina, þar sem nú væri vísitalan orðin 175 stig. En hér er því við að bæta, að grunnkaupið hefur hækkað, síðan fjárlagafrv. var samið, svo að kaupgjaldið í landinu er hærra nú en þá.

Hæstv. ráðherra sagði, að við framsóknarmenn hefðum ekki fylgt sparnaðartill. ríkisstjórnarliðsins. Hvernig áttum við að fylgja sparnaðartill., sem voru ekki bornar fram? Það komu engar sparnaðartill. fram frá stjórnarliðinu. Um ábyrgðarleysi mun ég ræða betur síðar.

Hv. 2. landsk. þm., Karl Guðjónsson, var að tala um greiðsluafganginn s.l. ár og sagði, að ástæðan til stjórnarslitanna í fyrra hefði verið sú, að ríkisafkoman hefði verið góð, en Framsfl. hefði ekki viljað viðurkenna það. Það var einhver talnaruglingur í kollinum á hv. þm., þótt hann ætlaði það frekar öðrum, þegar hann var að ræða hér um greiðsluafganginn áðan. Hann er, eins og fram hefur verið tekið, 26 millj. nettó. En það sýnir bezt málflutning þessara manna, að næstur á eftir þessum þm. kom hv. þm. G-K., Ólafur Thors, og sagði: Það, sem er að, það er viðskilnaður fyrrv. ríkisstj. Ekki bar nú þessu saman.

Annars var aðeins eitt merkilegt í ræðu hv. þm. G-K., og það var það, að hann sagði, að ríkisstj. hefði staðið við allt, sem hún hefði lofað Sjálfstfl., svo að þar með er það staðfest, að þeir bera í einu og öllu ábyrgð á efnahagsmálum og fjárlagaafgreiðslu ríkisstj.

út af því, sem hv. þm. Snæf., Sigurður Ágústsson, var hér að tala um áðan, vil ég segja það, — hv. þm. var að ráðast á útflutningssjóðslögin: Er hann búinn að gleyma því, þessi hv. þm., að Sjálfstfl. sagði, þegar hann ætlaði að fara að mynda ríkisstj. s.l. haust, að það, sem þyrfti að gera, væri að koma kaupgjaldinu niður á þann grundvöll, sem útflutningslögin hefðu gert ráð fyrir, þá væri vel fyrir efnahagsmálunum séð? En af hverju afnema sjálfstæðismenn ekki yfirfærslugjald af rekstrarvörum landbúnaðarins, fyrst það er þeim svona mikið kappsmál? Þeir eiga ekki að vera með þetta gugt, eins og með niðurgreiðslu á áburðinum; þeir eiga að gera þetta dálítið myndarlega og afnema yfirfærslugjaldið. Og eftir hverju eru þeir þm. Snæf. og aðrir sjálfstæðismenn að bíða með að afnema tekjuskattinn á sjómönnum? Nú geta þeir ráðið þessu. Alþfl. vill afnema tekjuskatt að öllu leyti. Hvað er það, sem tefur þessa hv. þm.? Það væri gott fyrir hv. þm. Snæf. að athuga það.

Eins og kunnugt er, hafði Sjálfstfl. forustuna um kauphækkanir í tíð vinstri stjórnarinnar. Hann gekk þar jafnvel svo langt að bjóða þær fram, ef annað brást, eins og gert var í Iðju. Hins vegar hafði Sjálfstfl. aldrei hugsað sér það sem kjarabætur handa verkafólki, heldur sem tæki í sinni valdabaráttu. Það var því eðlilegt, að hann kvæði upp úr með það eftir fall vinstri stjórnarinnar, að nú skyldu þær innheimtar aftur, eins og hann gerði í till. frá 19. des. s.l.

Það kom sér vel fyrir Sjálfstfl. að geta fengið Alþfl. til að innheimta kauphækkunarreikninginn, svo sem gert var með lögunum um lækkun verðlags og launa, ekki sízt þar sem innheimtulaunin áttu ekki að vera önnur, en smágreiði eða að leyfa fjórum Alþfl.-mönnum að sitja í ráðherrastólum stutta stund. Síðan hefur þeim sjálfstæðismönnum að vísu orðið það ljóst, að verkefnið var ekki svo auðvelt sem þeir hugðu, því að þegar betur var að gáð, kom í ljós, að verðbólgan, sem Sjálfstfl. hafði dyggilega magnað í tíð vinstri stjórnarinnar, reyndist þeim félögum erfiðari, en ráð var fyrir gert.

Samkvæmt samningum þeim, sem ríkisstj. gerði við útvegsmenn, hækkuðu útflutningsbætur um 82 millj. kr. Þó er enn ósamið við síldarútveginn. Ekki voru þar með allar þrautir leystar. Jafnhliða þessum samningum hóf ríkisstj. niðurgreiðslur á vöruverði á innlendum markaði. Þær kosta um 117 millj. kr. Þegar hér var komið, var fjárþörfin, sem ríkisstj. var búin að stofna til, orðin 199 millj. kr.

Niðurgreiðslur á vöruverði í stórum stíl eru varhugaverð leið. Hér hefur verið gengið of langt á þeirri braut. Niðurgreiðslur leyna verðbólgu, en eyða henni ekki. Það út af fyrir sig deyfir áhuga almennings fyrir baráttu gegn henni. Það er mikil hætta í því fólgin fyrir framleiðendur, þegar vörur eru seldar neytendum fyrir mun lægra verð, en raunverulegt verð þeirra er. Út yfir tekur þó, þegar framleiðendur verða sjálfir að neyta framleiðslu sinnar fyrir hærra verð, en aðrir neytendur, eins og nú á sér stað, þar sem dilkakjöt í heilum skrokkum kostar kr. 17.80 kg, en skráð framleiðsluverð er kr. 21.34, mjólkurlítrinn er seldur á kr. 2.95, en skráð framleiðsluverð er kr. 3.79. Þegar niðurgreiðslurnar eru orðnar mikill hluti af verði vörunnar, er hættan mikil fyrir framleiðendur, ef ekki er séð fyrir tekjum til að inna greiðslurnar af hendi. Ofan á þetta bætist, að ausa verður í niðurgreiðsluhítina þrotlaust, án þess að nokkuð sjáist eftir. Nú er svo komið, að yfir 250 millj. kr. er varið í þessu skyni, og hefur upphæðin nærri tvöfaldazt í tíð núverandi ríkisstj.

Sjúkrasamlagsgjöld eru greidd niður í 1.4 vísitölustig. Það kostarríkissjóð 15.8 millj. að greiða þau niður í 10 mánuði. Það er álíka fjárhæð og varið er til nýrra þjóðvega, ef frá eru teknir millihéraðavegir. Þessi upphæð sparar einstaklingnum þó ekki nema 13 kr. á mánuði eða 130 kr. á þessu ári. Hvaða vit er í slíkri ráðstöfun?

Niðurgreiðslur á nýjum fiski hafa verið auknar um rúmlega 1 vísitölustig, það kostar 6.3 millj. Það er álíka fjárhæð og varið er til að byggja ríkisspítalana, fávitahæli og heilbrigðisstofnanir í Reykjavík samkvæmt fjárlögunum nú. Og niðurgreiðslur á kartöflum eru 17 millj. kr. eða 2.7 millj. kr. hærri upphæð, en framlag til raforkumála á fjárlögunum.

Núverandi ríkisstj. hefur hækkað framlag til niðurgreiðslna um álíka háa fjárhæð og á fjárlögum er varið til byggingar nýrra þjóðvega, brúa, hafna, skóla og allra verklegra framkvæmda á 20. gr. fjárlaga, þar með talið atvinnuaukningarfé.

Það er ljóst af því, sem ég hef hér sagt, að ekki tekur langan tíma að þurrka út af fjárlögunum fé til framkvæmda, ef áfram verður haldíð á þeirri braut, sem stjórnarliðar eru nú byrjaðir að fara: að henda framkvæmdafé í verðbólguginið, sem hefur svo ekki frekari áhrif á stöðvun dýrtíðar, en deyfilyf á skæðan sjúkdóm.

En hefur ekki ríkisstj. og stuðningslið hennar lækkað vöruverð í landinu með þessum og öðrum ráðstöfunum, kann einhver að spyrja? Athugum það nokkru nánar.

Hinn 18. marz s.l. heyrðu vegfarendur á götum Reykjavíkur, að blaðsölumenn hrópuðu hástöfum: „Vísir með nýjustu fréttum. Ólafur Thors segir þjóðinni sannleikann.“ Þá hafa menn það, — þetta gat hann líka. En það kom ekki fram í ræðu hv. þm., Ólafs Thors, hér áðan, að hann segði þjóðinni sannleikann. Stórfrétt var þetta talin í blaði Sjálfstfl., Vísi, að formaðurinn hefði nú sagt þjóðinni satt. En hvað sagði svo Ólafur Thors, þegar hann sagði þjóðinni satt? Hann sagði þetta, með leyfi hæstv. forseta: „Allar aðalverðlækkanirnar stafa af því, aðríkissjóður greiðir verðið niður. Þær niðurgreiðslur kosta um 100 millj. kr. Allt það fé á fólkið sjálft eftir að greiða ýmist með nýjum sköttum eða minnkandi framkvæmdum hins opinbera í þágu almennings.“ Þetta sagði hv. þm. Ólafur Thors um framkvæmdir hæstv. ríkisstj. og Sjálfstfl. í efnahagsmálum, þegar hann sagði þjóðinni satt. Svo leyfir hæstv. ríkisstjórn og stuðningslið hennar sér að smjatta á því, að verðbólgan hafi verið stöðvuð, þegar slíkum skottulækningum er beitt og ekki einu sinni séð fyrir tekjum til að standa straum af þeim aðgerðum, sem þeir sjálfir hafa ákveðið.

Afgreiðslu fjárlaga var að þessu sinni veitt sérstök athygli. Ástæðan til þess var sú, að nú um nærri áratug hefur Eysteinn Jónsson gegnt störfum fjmrh. og markað stefnu um fjármálastjórn ríkisins. Á þessu tímabili hafa skuldir ríkisins lækkað, en framlög til atvinnu-, félags-, heilbrigðis- og menningarmála stórkostlega aukizt, beinir skattar lækkað, greiðsluafgangi ríkissjóðs verið varið til uppbyggingar í landinu. Fyrirhyggja og framsýni hefur ríkt í meðferð ríkisfjár.

Þegar frv. til fjárlaga fyrir 1959 var til 1. umr. hér á hæstv. Alþingi, sagði núverandi hæstv. forsrh., þegar hann ræddi um hækkun fjárlaga: „Þessi þróun er uggvænleg og stefnir greinilega í fullkomið óefni.“ Fjárlög þau, sem ríkisstj. Emils Jónssonar og Sjálfstfl. afgreiddi nú fyrir nokkrum dögum, eru þó þau hæstu, sem nokkru sinni hafa verið afgreidd hér á hæstv. Alþ., nema meira en 1 milljarði, en framlög til verklegra framkvæmda eru þó lækkuð yfir 20 millj. Svona tókst nú til um þetta atriði, að í fullkomið óefni stefnir að dómi hæstv. forsrh. sjálfs.

Hvað er svo um fjárlagaafgreiðsluna að segja hjá þessu nýja forustuliði fjármálanna, Sjálfstfl. og Alþfl.? Tekjuáætlunin hefur verið hækkuð um 68 millj. kr., og t.d. er tekju- og eignarskattur hækkaður um 16 millj. frá því, sem hann reyndist s.l. ár. Verðtollur er hækkaður um 44 millj. frá reynslu s.l. árs, svo að dæmi séu nefnd. Á hverju byggist svo þessi hækkun á tekjuáætluninni? Hún byggist fyrst og fremst á óskhyggju, en í öðru lagi á því, að stjórnarliðið hefur gert nýja áætlun um greiðslujöfnuð og innflutning á árinu 1959, eins og hæstv. fjmrh. sagði frá hér áðan. Um þá áætlun segir svo í grg., er henni fylgir, með leyfi hæstv. forseta: „Stefna þessar áætlanir m.a. að því að tryggja nógu mikinn innflutning hágjaldavöru á árinu 1959.“ Menn taki eftir: að tryggja nógu mikinn innflutning hágjaldavöru á árinu 1959, — og til viðbótar síðar: „Enginn möguleiki hefur verið til þess, að tekjur mættu gjöldum, nema innflutningur hátollavara væri svo hár.“ Sjá hér allir, hvert stefnir, þegar innflutningur á brýnustu neyzluvörum og rekstrarvörum er minnkaður og þó sérstaklega á fjárfestingarvörum, úr honum er dregið yfir 20%. Hins vegar er hátollavöruinnflutningur aukinn um 30 millj. kr. Hér er hvort tveggja til að dreifa, að stefnt er í algera ófæru að ætla sér að byggja afkomu ríkissjóðs og atvinnuveganna á stórfelldum innflutningi hátollavara, einmitt þeim vörum, sem við getum helzt verið án. Á hitt er svo að benda, að verð á hátollavörum er orðið svo hátt, að takmörk eru fyrir því, hvað hægt er að selja af þeim.

Í innflutningsáætluninni er gert ráð fyrir meiri notkun erlends lánsfjár, en nokkru sinni fyrr. Það væri hollt fyrir Sjálfstfl.-menn að lesa sin eigin skrif um lánsfjármálin í sambandi við þessa ákvörðun. Við Framsfl: menn í fjvn. bentum á það í nál. okkar, að með öllu væri vonlaust, að tekjuáætlun fjárlaga gæti staðizt. Stjórnarliðið hefur ákveðið að hækka leyfisgjald af bifreiðum úr 160% í 300%. Álögur á bifreiðar eru þó orðnar svo háar, að óhugsandi er að halda lengra á þeirri braut, nema gera þá almennum borgara ókleift að eignast slíkt þarfatæki sem bifreiðin þó er, þar sem allt verðlag á bifreiðum í landinu hækkar við þessa ráðstöfun. Þá fer hér sem fyrr, að svo langt er gengið í áætlun tekna, að óhugsandi er, að það fái staðizt. Tvær atvinnustéttir verða sérstaklega hart úti við þessar ráðstafanir. Það eru atvinnubifreiðarstjórar, sem verða að bera nýjan skatt, eða verðlag á akstri hækkar og veldur öðrum verðhækkunum í landinu. Flugmenn og farmenn hafa samkv. sínum vinnusamningum rétt á frjálsum gjaldeyri og eiga að fá að nota hann eftir almennri reglu, en ekki eins og um væri að ræða hálfgert sektarfé, eins og hér er stefnt að.

Áfram varð stjórnarliðið að halda í leit sinni að fjármunum til að ausa í niðurgreiðsluhítina. Nú varð fyrir þeim greiðsluafgangur ríkissjóðs frá s.l. ári. Eins og ég hef þegar tekið fram, hefur greiðsluafgangur ríkissjóðs síðustu ár verið notaður til uppbyggingar í landinu. Við Framsfl.-menn lögðum til, að helmingnum af honum á s.l. ári yrði varið á sama hátt, þannig að byggingarsjóður ríkisins fengi 15 millj. kr., byggingarsjóður Búnaðarbankans 5 millj. og veðdeild Búnaðarbankans 5 millj. Allir þessir sjóðir höfðu mikla þörf fyrir þetta fjármagn og miklu meira þó. Hús standa hálfsmiðuð, og eigendur þeirra geta ekki rönd við reist vegna fjárskorts. Sjálfstfl. gerði miklar kröfur til aukins fjármagns til húsnæðisbygginga, meðan vinstri stj. sat. Þá var þó unnið að lausn þessa máls og byggingarsjóði ríkisins fengnir tekjustofnar. Nú fellir stjórnarliðið þessar till. okkar Framsfl.-manna. Framlagið, sem við fórum fram á í byggingarsjóð ríkisins, nægir þó ekki til þess að greiða niður 1,4 vísitölustig í sjúkrasamlagsgjöldum í 10 mánuði. Ég spyr ykkur, áheyrendur góðir: Hvort teljið þið hyggilegra að lána fé til að koma áfram íbúðabyggingum eða losna við að greiða 130 kr. í sjúkrasamlagsgjöld, eins og stjórnarliðið ætlar ykkur? Ég efast ekki um svar ykkar. En svar ykkar hefur ekki gildi, nema þið fordæmið slíka stefnu með atkvæði ykkar á kjördegi.

Fleira þurfti að koma til, þessi fyrningastabbi nægði þeim ekki. Óinnheimtir voru tollar á Sogsvirkjuninni, og gert er ráð fyrir að selja skuldabréf til að greiða þessa tolla. Þeir nema 30 millj, kr., og þeim er líka ætlað að lenda í gin verðbólgunnar. Allt er þó enn óvíst um sölu bréfanna, en á tekjuáætlun eru þeir samt teknir.

Ég hef nú með nokkrum orðum lýst tekjuáætlun fjárlaganna. Þessu næst mun ég snúa mér að gjaldahliðinni. Þar verður auðvitað fyrst fyrir sparnaðurinn.

Við 1. umr. fjárlaga í haust sagði hv. 2. þm. Eyf., Magnús Jónsson, þetta m.a., með leyfi hæstv. forseta: „Það er áreiðanlega hægt að spara á mörgum sviðum, en það þarf réttsýni og kjark til þess að gera slíkar ráðstafanir á viðunandi hátt. Án einbeittrar forustu fjmrh. á hverjum tíma er þess ekki að vænta, að andi sparnaðar og hagsýni ráði í ríkisrekstrinum.“ Það þarf engan að undra, þó að beðið væri eftir því með nokkurri óþreyju að sjá sparnaðartill. stjórnarliðsins. Það var gullið tækifæri fyrir þá að fletta nú ofan af sukkinu og óreiðunni. Þá skorti ekki kjark né réttsýni, hæstv. fjmrh. og hv. 2. þm. Eyf., til þess að spara á viðunandi hátt. Hver er svo árangurinn af þessu sparnaðarhjali þeirra?

Það á að lækka framlög til verklegra framkvæmda á fjárlögum um 23 millj., þ. á m. til raforkuframkvæmda um nærri 11 millj. Stjórnarliðið er víst að útrýma sukki og óhófseyðslu, þegar það lækkar framlög til þeirra. En hér er þó aðeins byrjunin, því að hugsunin er að lækka þessi framlög um 113 millj., eins og hæstv. ráðh. talaði um áðan. Ég hafði dálítið gaman af því, þegar hæstv. ráðh. var að tala um dísilstöðvarnar, hvað það væri miklu ódýrara að koma þeim upp á sveitaheimilum, heldur en rafmagni frá orkuveri. Jú, það er miklu ódýrara, þegar ekki eru ætlaðir neinir fjármunir til þess, eins og hugsað er af hæstv. núverandi ríkisstjórn.

Atvinnuaukningarfé hefur orðið mikil lyftistöng í atvinnulífi ýmissa kauptúna og kaupstaða víðs vegar um landið. Ekki er atvinnumálum þessara staða það vel á veg komið þrátt fyrir þetta, að þess vegna væri hægt að draga að sér höndina. En fjárveitingin er lækkuð um 3.5 millj. án tillits til þess.

Framlag til Skipaútgerðar ríkisins er lækkað um 6 millj. kr., þó að forstjóri benti á það með rökum, að fjárveitingin væri hófleg, en allt kom fyrir ekki, — það þótti handhægt að grípa í þennan lið.

Til byggingar á jörðum ríkisins er lækkað um 500 þús., enda þótt fyrir lægi, að öll fjárveitingin á fjárlögum er lofuð, og vitað væri um knýjandi nauðsyn á meiri fjárveitingu. Styrkur til að kaupa jarðræktarvélar, 2 millj., er hreinlega strikaður út. Fyrir lá þó yfirlýsing um, að þörfin væri 3.2 millj.

Safnað hefur verið til byggingar á stjórnarráðshúsi síðan á 50 ára afmæli heimastjórnarinnar og geymt fé 7–8 millj. kr. Nú er þessi liður, 1 millj., þurrkaður út, þótt vitað sé, að það er stórsparnaður fyrir ríkissjóð að byggja yfir sig. Sömu og svipaða útreið fengu menntaskólarnir og sjómannaskólinn í Reykjavík. Ekki er nú rausnin mikil hjá stjórnarliðinu.

Á fjárlögunum 1957 var framlag til íþróttasjóðs hækkað um 400 þús. Þá var fjárþörf sjóðsins 8.4 millj. kr. Sjálfstæðismenn höfðu þá uppi hróp mikil um of litla fjárveitingu til sjóðsins, sem hún raunar var, og fluttu till. um 2 millj. kr. hækkun. En nú, þegar fjárþörf íþróttasjóðs er 13.1 millj. kr., standa þeir að því að lækka framlagið um 80 þús. og renna frá sinni eigin till. um nokkra leiðréttingu.

Vegaviðhaldið er lækkað um rúmlega 2 millj. kr. Þörfin hefur aukizt jafnt og þétt fyrir viðhald þjóðvega vegna vaxandi umferðar og lengingar á þeim. Sömu örlög fengu verkamannabústaðir og framlög til heilsuspillandi íbúða. Það þóttu þó einu sinni ekki góðir hlutir að draga úr fjárveitingu þangað. Þegar farið var að auka hana, þá var talið, að hún væri of lítil.

Í fyrra var lækkað framlag til iðnskólans í Reykjavík, af því að skólinn hafði ekki þurft að nota alla sína fjárveitingu. Þá var það kallað árás á Reykjavík. En nú átti að strika framlagið út. Það hefur vafalaust verið stuðningur við Reykjavík, því að sjálfstæðismenn ætluðu að gera það.

Öllum þeim fjárhæðum, sem ég hef hér nefnt, á að fleygja í niðurgreiðsluhítina, og það er aðeins smádropi til að byrja með.

En bezta dæmið til þess að sýna vinnubrögðin hjá stjórnarliðinu í afgreiðslu fjárlaga er till. um að lækka alþingiskostnaðinn um 1/2 millj., vegna þess að þinghaldið verði styttra, og hældi hæstv. fjmrh. sér af þessu hér áðan. Alþingi stendur hálfum mánuði skemur núna, en í fyrra, en það hófst strax eftir áramótin í vetur, en kom ekki saman fyrr en í byrjun febrúar 1958. Nú á að verða aukaþing í sumar, og þar kemur til ferðakostnaður og fleira. Það er vægast sagt að gera gys að sjálfum sér að bera fram svo fráleita till. Kostnaðurinn við þinghaldið verður greiddur og enginn eyrir sparaður, þó að tölum hafi verið hagrætt. Þetta veit stjórnarliðið. En fjárlögunum þurfti að krækja saman að nafninu til.

Það vekur þó mesta athygli, að í till. stjórnarliðsins, sem kallaðar eru sparnaður, eru aðeins lækkanir á verklegum framkvæmdum og breytingar á áætluðum greiðslum frá veruleikanum. Sparnaður fyrirfinnst enginn, og allt tal þeirra um sukk og óreiðu reynist ómerkilegt skvaldur, sem þeir eru nú berir að. Það er furðulegt, að þeir, sem standa að því að afgreiða fjárlög á jafngersamlega ábyrgðarlausan hátt og hér hefur verið lýst, skuli leyfa sér að tala um ábyrgðarleysi annarra, eins og hæstv. fjmrh. gerði hér áðan, og sat þó sízt á honum.

Stjórnarliðar hafa reynt að gera tilraun til þess að tala um ábyrgðarleysi okkar Framsfl.- manna, af því að flokkurinn fylgdi nokkrum till. til hækkunar á verklegum framkvæmdum, eftir að búið var að skera þær niður um 23 millj. kr. Þær till. munu nema samtals um 2 millj. kr., sem við greiddum atkvæði með við 3. umr. Þó skal það tekið fram, að við fulltrúar flokksins í fjvn. fylgdum ekki þessum till. til hækkunar í þeim málaflokkum, sem samkomulag var um í n. Okkur kom það mjög á óvart, þegar styrkir til lamaðra og fatlaðra voru felldir niður þrátt fyrir samkomulag; það var sannarlega að ráðast á garðinn þar, sem hann er lægstur.

Þjóðinni er nú ljóst, að alger stefnubreyting er orðin í afgreiðslu fjárlaga. Í staðinn fyrir fyrirhyggju og ábyrgð er komin óreiða og ábyrgðarleysi, og hafin er hin nýja fjárfestingarstefna um niðurskurð á verklegum framkvæmdum. Þegar vinstri stjórnin tók við völdum, var það eitt af trompum Sjálfstfl., að hún mundi hvergi hafa tiltrú erlendis til lántöku, — öðruvísi væri því varið, ef þeir sjálfstæðismenn væru í stjórn. En þegar þessi spádómur reyndist rangur, voru lánin bara mútur og sníkjulán og fóru öll í eyðslu, og hv. þm. G-K. leyfði sér að smjatta á þessu hér áðan. En hvað skeður? Nú á að nota meira erlent lánsfé, en nokkru sinni fyrr. Það er fengið eftir sömu leiðum og fyrr. En nú er hvorki talað um mútur né sníkjur, hvað þá hættuleg eyðslulán. Hvað hefur breytzt? Sjálfstfl. er við málið riðinn. Það er öll breytingin og annað ekki. Þá falla stóryrði niður. Hvað finnst þjóðinni um svona vinnubrögð? En það vekur athygli, að þegar slíku stórláni er skipt sem á að fara að taka, þá er fiskveiðasjóði ekki ætlaður einn einasti eyrir af því, þó að hann hafi mikla þörf fyrir fé til uppbyggingar í sjávarútvegi. Framsfl. lagði til, að 25 millj. af láninu gengju í fiskveiðasjóð. Það var fellt af stjórnarliðinu. Ekki skortir á myndarskapinn! Til ræktunarsjóðs er of lítið og til raforkuframkvæmda er fjármagnið eðlilegt til framkvæmda í ár, en ekki til tveggja ára, eins og stjórnarliðið ætlar.

Þegar hæstv. ríkisstj. tók til starfa, birti hún þjóðinni þann boðskap, að hún mundi leysa þau verkefni, er fyrir lægju í efnahags- og fjármálum, án þess að leggja á þjóðina nýjar álögur. Á þeim stutta tíma, sem ríkisstj. hefur setið, hefur almennt kaupgjald í landinu lækkað með lögum og niðurgreiðslum um 13.4%. Tekjur bænda hafa þó verið lækkaðar tiltölulega meira vegna tilhögunar á niðurgreiðslu. Nýjar álögur hafa verið á lagðar, sem gefa í tekjur 60 millj. kr. Eignir hafa verið uppétnar, sem eiga að nema 55 millj. kr. Verklegar framkvæmdir hafa verið lækkaðar um 23 millj. kr. 20 millj. kr. halli er viðurkenndur á útflutningssjóði. Ofan á þetta bætist stórkostlegur halli, sem mun verða bæði á fjárlögum og á ríkisrekstrinum og útflutningssjóði, svo sem ég hef hér lýst. Hér er aðeins hugsað um það eitt að fleyta sér áfram í nokkra mánuði. Eftir þann tíma flæðir dýrtíðarflóðið fram með enn meiri þunga en nokkru sinni fyrr, því að þá verður einnig að mæta því, sem vanreiknað er nú, og þeim óreiðuhala, sem nú er að skapast. Það þarf því meira ,en litla óskammfeilni til, þegar Alþýðublaðið leyfir sér þann 25. apríl að segja svo, með leyfi hæstv. forseta: „Dýrtíðarflóðið hefur verið stöðvað. Hættunni var afstýrt.“

Þann 1. maí s.l. endursagði Morgunblaðið frásögn af fundi í Alþýðuflokksfélagi Reykjavíkur, sem hafði birzt í Alþýðublaðinu, þar sem rakin var ræða hæstv. menntmrh. Menntmrh. sagði samkv. frásögn blaðsins: „Drap hann á meginverkefnin þrjú, sem núverandi ríkisstj. tókst á hendur að leysa, efnahagsmálin, kjördæmamálið og fjárlögin. Kvað ráðh. þetta engin smáverkefni á 4–5 mánaða tímabili og alls ekki ofmælt, að engin ríkisstj. hefði leyst jafnmörg stórmál á jafnskömmum tíma. Sagði hann, að í dag væri ánægjulegt til þess að vita, að séð væri fyrir endann á þeim öllum.“ Morgunblaðið bætti við frá eigin brjósti: „Miklir menn erum vér Hrólfur minn: “ Í þessum orðum Morgunbl. felst mat Sjálfstfl. á því, hvernig til hefur tekizt með framkvæmd stjórnarliða í efnahagsmálum og fjármálum ríkissjóðs. Sjálfstfl. er háð um sín eigin verk ekki of gott. En það mun Sjálfstfl. fá að sanna, að þjóðin telur hann bera fulla ábyrgð á þessu tímabili. Án hans hefði ríkisstjórnin ekki orðið til. Allar hennar framkvæmdir eru ýmist undan hans rifjum runnar eða með hans góða samþykki gerðar, og þjóðin sér sannarlega ekki eftir því, þó að Sjálfstfl. reyni að glotta að sínu eigin lánleysi.