26.11.1958
Sameinað þing: 11. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1888 í B-deild Alþingistíðinda. (2342)

Fríverslunarmálið

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hinn 18. febr. s.l. flutti ég hinu háa Alþingi skýrslu um þær umræður, sem nú um alllangt skeið hafa átt sér stað innan Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu um stofnun fríverzlunarsvæðis þeirra 17 landa, sem að Efnahagssamvinnustofnuninni standa. Enn fremur gerði ég nokkra grein fyrir samningi þeim, sem 6 Evrópuríki, Frakkland, Þýzkaland, Ítalía, Holland, Belgía og Lúxembúrg, höfðu gert með sér í Rómaborg 25. marz 1957 um stofnun sameiginlegs markaðar eða tollabandalags sín á milli, en þessi samningsgerð og hugsanlegar afleiðingar hennar fyrir viðskipti milli aðildarríkja Efnahagssamvinnustofnunarinnar varð meginundirrót þess, að hugmyndin um fríverzlunarsvæði kom fram. Í skýrslunni leitaðist ég einnig við að gera grein fyrir þeirri þýðingu, sem stofnun tollabandalags sexveldanna, sem nú er raunar farið að nefna efnahagssamsteypu Evrópu, hefði fyrir utanríkisviðskipti Íslendinga, og þeim rökum, sem mæltu með því og móti, að Íslendingar gerðust aðilar að fríverzlunarsvæðinu, ef af stofnun þess yrði, — því hagræði, sem aðild að fríverzlunarsvæðinu gæti fært Íslendingum, og þeim erfiðleikum, sem hún hefði í för með sér, þeim skilyrðum, sem aðild Íslendinga hlyti að vera háð, og þeirri sérstöðu, sem nauðsyn væri að viðurkennd yrði.

Ég tel rétt að láta nú Alþingi í té greinargerð um hið helzta, sem í þessu máli hefur gerzt á því hálfu öðru missiri, sem liðið er, síðan ég flutti þessa skýrslu, og gera nokkra grein fyrir því, hvert er viðhorf þessara mála nú.

Það er, sem kunnugt er, megintilgangur með stofnun efnahagssamsteypu sexveldanna, að smám saman skuli allir tollar og öll innflutningshöft þeirra á milli afnumin, en tekinn upp sameiginlegur tollur í öllum löndunum gagnvart ríkjum utan efnahagssamsteypunnar, sem næst meðaltali núgildandi tolla, og skal tolltekjum siðan skipt milli landanna í ákveðnum hlutföllum. Á þetta að gerast á næstu 12–15 árum, og á framkvæmd þessara ákvæða að hefjast 1. janúar n.k.

Þegar samningur þessi var gerður í marz 1957, vakti það eðlilega nokkurn ugg hjá hinum öðrum 11 aðildarríkjum Efnahagssamvinnustofnunarinnar. Það var augljóst, að samkeppnisaðstaða framleiðenda innan efnahagssamsteypunnar mundi batna stórlega, miðað við aðstöðu framleiðenda utan hennar, en samkeppnisaðstaða framleiðenda í hinum 11 löndunum versna að sama skapi. Framleiðendur innan efnahagssamsteypunnar nytu góðs af tollalækkunum við sölu til annarra landa efnahagssamsteypunnar, en keppinautar þeirra utan efnahagssamsteypunnar yrðu áfram að yfirstíga tollmúra og jafnvel verða að sætta sig við hækkaða tolla á sumum sviðum. Svipuðu máli gegndi um innflutningshömlur.

Það var því mjög eðlilegt, að tekið væri að ræða um ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir slíkt misrétti í viðskiptum milli aðildarríkja Efnahagssamvinnustofnunarinnar. Áttu Bretar mestan þátt í að móta þá tillögu, sem verið hefur grundvöllur þeirra umræðna, er síðan hafa farið fram um þetta efni, en hún var sú, að öll aðildarríki Efnahagssamvinnustofnunarinnar skyldu mynda með sér svonefnt fríverzlunarsvæði, sem nú er raunar farið að nefna Efnahagsbandalag, þannig að öll 17 aðildarríki Efnahagssamvinnustofnunarinnar skyldu smám saman afnema tolla og innflutningshöft í viðskiptum sín á milli, en hins vegar ekki taka upp sameiginlega tolla gagnvart öðrum ríkjum, elns og ríki efnahagssamsteypu sexveldanna ætla að gera, heldur skyldi hvert hinna 11 ríkja áfram geta haft þá tolla gagnvart ríkjum utan fríverzlunarsvæðisins eða Efnahagsbandalagsins, sem því sýndist, þótt tollar og viðskiptahömlur milli hinna 17 ríkja innbyrðis skyldu afnumdar.

Með þessu móti mundu öll 17 ríki Efnahagssamvinnustofnunarinnar, sem hafa um 285 millj. íbúa, smám saman verða eitt markaðssvæði, án þess að til þess væri ætlazt, að efnahagstengsli milli landanna væru mjög náin, og án þess að frelsi hinna 11 ríkja til þess að framfylgja sjálfstæðri viðskiptastefnu gagnvart ríkjum utan fríverzlunarsvæðisins væri skert. En það er einmitt þetta, sem ýmsir, einkum innan efnahagssamsteypu sexveldanna, hafa talið torvelt. Þeir hafa sagt, að sameiginlegur markaður geri það nauðsynlegt, að um mjög náin efnahagstengsl milli landanna sé að ræða, og að tollar út á við þurfi að vera sameiginlegir, svo sem Rómarsamningurinn um efnahagssamsteypu sexveldanna gerir ráð fyrir. Þar verður um sameiginlegan markað landa með um 160 millj, íbúa að ræða.

Í febrúar 1957 var fundur haldinn í ráðherranefnd Efnahagssamvinnustofnunarinnar, og var þar ákveðið samkv. tillögu Breta, að reynt skyldi að koma á fót slíku fríverzlunarsvæði. Ég hafði ekki getað sótt þennan fund. Þegar mér barst vitneskja um niðurstöðu hans, skipaði ég nefnd sérfræðinga hér til þess að vera ríkisstjórninni og mér til ráðuneytis um þessi mál, og áttu sæti í henni ráðuneytisstjórarnir Þórhallur Ásgeirsson og Sigtryggur Klemenzson og hagfræðingarnir dr. Jóhannes Nordal og dr. Benjamín Eiríksson. Nú hefur Jónas H. Haralz ráðuneytisstjóri tekið sæti Þórhalls Ásgeirssonar í nefndinni. Þeir dr. Jóhannes og Þórhallur kynntu sér málið nokkuð í París um sumarið.

Í okt. 1957 var síðan boðað til ráðherrafundar í Efnahagssamvinnustofnuninni um fríverzlunarmálið, og sótti ég þann fund ásamt dr. Jóhannesi Nordal. Auk okkar sátu fundinn þeir Hans G. Andersen, sem er ambassador Íslands hjá Efnahagssamvinnustofnuninni, og Níels P. Sigurðsson sendiráðsritari, sem einnig fjallar um þessi mál í París. Á þessum fundi var ákveðið að stofna sérstaka nefnd ráðherra aðildarríkjanna, sem eingöngu skyldi helga sig þessu máli, og var brezki ráðherrann Maudling kjörinn formaður nefndarinnar.

Í nóv. 1957 hélt þessi nefnd tvo fundi. Sótti dr. Jóhannes Nordal annan þeirra, en fulltrúi Íslands hjá Efnahagssamvinnustofnuninni í París sótti þá að sjálfsögðu báða.

Í jan. 1958 var síðan enn boðað til fundar, þar sem viðskiptin með landbúnaðarvörur, að fiski meðtöldum, voru á dagskrá. Þann fund sóttum við dr. Jóhannes héðan að heiman, ásamt fastafulltrúanum í París. Á þeim fundi var ákveðið samkv. sameiginlegri ósk okkar íslenzku og norsku fulltrúanna að greina umræður og ákvarðanir um sjávarafurðir frá umræðum og ákvörðunum um landbúnaðarafurðir og jafnframt fallizt á, að formaður ráðherranefndarinnar skipaði sérfræðinganefnd til þess að athuga nánar vandamál varðandi verzlun með sjávarafurðir, áður en þau mál yrðu rædd, sérstaklega í ráðherranefndinni. Var Íslendingum og Norðmönnum heitið fulltrúum í þessari nefnd. Formi hennar var breytt á fundi í lok marz, og voru henni þá sett ákveðin fyrirmæli um starfssvið.

Þar eð augljóst er, að viðskipti með landbúnaðarvörur verða áfram háð margvíslegum hömlum, jafnvel þótt af stofnun fríverzlunarsvæðis verði, var þessi ákvörðun janúar-fundarins um að greina vandamálin varðandi fiskverzlunina frá landbúnaðarvandamálunum mjög mikilvæg.

Í febrúar var síðan enn fundur, tveir í marz og einn í júlí. Á þessum fjórum fundum hefur dr. Jóhannes Nordal mætt ásamt fastafulltrúanum í París. Fundir voru ekki haldnir frá byrjun apríl þar til seint í júlí, þar sem fulltrúum efnahagssamsteypu sexveldanna hafði ekki tekizt að marka skýra stefnu gagnvart fríverzlunarhugmyndinni, og var almennt talið, að þá tregðu bæri fyrst og fremst að rekja til afstöðu Frakka og ástandsins í Frakklandi.

Franskur iðnaður hefur notið mikillar tollverndar. Það var því ekki létt verk fyrir frönsku stjórnina á sínum tíma að fá samþykki franska þingsins fyrir aðild að efnahagssamsteypunni og þar með afnámi tolla gagnvart fimm öðrum ríkjum. Þetta tókst þó, enda tóku hin ríkin fimm að ýmsu leyti tillit til sérstakra hagsmuna Frakka. Beittu Þjóðverjar sér mjög fyrir því, að af samningsgerðinni um efnahagssamsteypuna yrði, án efa ekki hvað sízt vegna þess, að þýzka stjórnin hafði áhuga á þessu bandalagi af stjórnmálaástæðum, þ.e.a.s. til þess að treysta almennt samstarf Þýzkalands, Frakklands og Ítalíu. Þjóðverjar, sem eiga mikinn gjaldeyrisforða, hétu því að leggja fram fé til framkvæmdabanka, er lána skyldi til nýrra framkvæmda innan Efnahagsbandalagsins, þ. á m. í Afríkulöndum Frakka.

Þótt stofnun efnahagssamsteypunnar þýddi, að iðnaður hinna fimm landanna gæti fengið bætta aðstöðu til þess að keppa við franskan iðnað í Frakklandi, fékk franski iðnaðurinn líka bætta samkeppnisaðstöðu í hinum löndunum. Ákvæði um viðskipti með landbúnaðarvörur eru þannig, að franskur landbúnaður virðist engu sérstöku þurfa að kvíða, og almennt er aðstaða Frakka innan efnahagssamsteypunnar stjórnmálalega sterk.

Á hinn bóginn munu Frakkar óttast mjög, að aðstaða þeirra verði ekki eins öflug í stærra og lausara bandalagi allra 17 ríkja Efnahagssamvinnustofnunarinnar. Franskur iðnaður er mjög andvígur því, að tollar verði einnig lækkaðir gagnvart hinum 11 ríkjunum og þó fyrst og fremst gagnvart Bretlandi og Norðurlöndum, þar eð hann mun þá sæta stóraukinni samkeppni innan efnahagssamsteypunnar, án þess að tilsvarandi markaðir opnist fyrir hann í hinum 11 löndunum. Þá hafa Frakkar lagt mikla áherzlu á, að vegna hinna sameiginlegu tolla efnahagssamsteypunnar út á við viti þeir, að hverju þeir ganga að þessu leyti með aðild að efnahagssamsteypunni, en vegna þess, að fríverzlunarhugmyndin gerir ráð fyrir ólíkum tollum hinna 11 ríkjanna gagnvart löndum utan fríverzlunarsvæðisins, þá sé erfitt að vita með vissu, hver samkeppnisaðstaðan raunverulega verði, og megi jafnvel búast við óheilbrigðri samkeppni frá löndum utan fríverzlunarsvæðisins um hendur þeirra landa, sem hafa lægri tolla, en efnahagssamsteypan.

Hið ótrygga stjórnmálaástand í Frakklandi á þessu ári hefur og án efa átt mjög ríkan þátt í því, að franska stjórnin hefur átt erfitt með að marka skýra stefnu. Á hinn bóginn má ekki gleyma því, að Frakkar hafa líka hagsmuna að gæta í því, að samstarfið við hin 11 ríkin í Efnahagssamvinnustofnuninni rofni ekki. Ef ekkert samkomulag næst milli efnahagssamsteypu sexveldanna og hinna 11 ríkjanna, má búast við því, að Greiðslubandalag Evrópu verði lagt niður, en það yrði þungt áfall fyrir Frakka, því að þeir eru þar stærsti skuldunauturinn.

Á júlífundinum jukust þó nokkuð vonir manna um, að samkomulag gæti tekizt. Þar lögðu sexveldin fram álitsgerð um eitt aðaldeiluefnið, þ.e.a.s. meðferð landbúnaðarafurða á fyrirhuguðu fríverzlunarsvæði. Lögðu sexveldin til, að tryggð yrðu svipuð milliríkjaviðskipti með landbúnaðarafurðir næstu 4–5 árin og undanfarin ár, en tíminn yrði jafnframt notaður til þess að marka heildarstefnu fríverzlunarsvæðisins í landbúnaðarmálum.

Í október s.l. — s.l. mánuði — var síðan boðað til tveggja funda um málið, og var tilætlunin að gera þar úrslitatilraun til samkomulags um stofnun einhvers konar fríverzlunarsvæðis. Var það almennt talið síðasta tækifærið til samkomulags, ef takast ætti að koma í veg fyrir, að framkvæmd Rómarsamningsins í ársbyrjun 1959 hefði í för með sér misrétti í viðskiptum milli aðildarríkja Efnahagssamvinnustofnunarinnar.

Svo sem kunnugt er af fréttum, tókst ekki að ná slíku samkomulagi, hvorki endanlegu samkomulagi um stofnun fríverzlunarsvæðis né heldur samkomulagi um bráðabirgðaráðstafanir, sem komið gætu í veg fyrir misrétti 1. jan. n.k. Á fundum þessum bar hins vegar tvennt á góma, sem þýðingu hefur fyrir hugsanlega aðild Íslendinga að Efnahagsbandalaginu. N. sú, sem fjallað hefur um málið með tilliti til þeirra fjögurra landa, sem samkomulag hefur verið um að þyrftu að hafa nokkra sérstöðu innan bandalagsins, þ.e. Grikklands, Írlands, Íslands og Tyrklands, hafði orðið sammála um að mæla með því, að tími sá, sem þessum löndum yrði ætlaður til afnáms tolla og innflutningstakmarkana, yrði ekki 12–15 ár, eins og almennt er gert ráð fyrir, heldur helmingi lengri. Féllst ráðherranefndin á þetta. Þá hafði n. einnig mælt með stofnun framkvæmdasjóðs til þess að auðvelda þessum löndum aðlögun að breyttum aðstæðum vegna aðíldar að Efnahagsbandalaginu. Fékk sú till. góðar undirtektir í ráðherranefndinni.

Varðandi aðalmál fundarins er það að segja, að ekki slitnaði upp úr umræðunum, og var ákveðið, að Maudling-nefndin skyldi halda fundi eftir þörfum fram til næstu áramóta, ef leiðir opnuðust til samkomulags. Gert var ráð fyrir, að beinar viðræður færu fram milli þeirra ríkisstjórna, sem fyrst og fremst væru á öndverðum meiði, þ.e. ríkisstjórna Bretlands og Frakklands.

Nú gerðist það fyrir rúmri viku, að ákveðið var að fresta öllum frekari fundum í Maudling-nefndinni og öllum fundum í öðrum n., sem um fríverzlunarmálið fjalla, vegna afstöðu þeirrar, sem franska stjórnin hafði tekið og kom fram í yfirlýsingu Soustelles, upplýsingamálaráðherra Frakka. Yfirlýsing Soustelles fól það í sér, að Frakkar mundu ekki fallast á annað, en að öll aðildarríkin að fríverzlunarsvæðinu hefðu sameiginlega tolla út á við og samræmdu stefnu sína í efnahagsmálum, eins og ráðgert er innan sexveldanna. Slík skilyrði hafa þau 11 ríki, sem eru ekki þátttakendur í sexveldasamsteypunni, frá öndverðu talið óaðgengileg.

Þessir atburðir þýða þó ekki, að allar umræður um fríverzlunarmálið hafi fallið niður. Gert er ráð fyrir, að de Gaulle og dr. Adenauer muni ræða málið á fundi, sem einmitt mun hefjast í dag, og allmiklar viðræður munu einnig hafa farið fram eftir diplomatískum leiðum. Sem stendur er megináherzla lögð á það af hálfu þeirra ríkja, sem standa utan sexveldabandalagsins, að tollar gagnvart þeim verði ekki hækkaðir né innflutningshöft aukin, þegar sexveldasamningurinn gengur í gildi um næstu áramót.

Það er augljóst mál, að náist ekkert samkomulag, mun Vestur-Evrópa klofna í tvær viðskiptaheildir, sem takast mundu á í viðskiptamálum á ýmsum sviðum. Einkum og sér í lagi Bretland, Sviss, Austurríki og skandinavísku löndin þrjú munu ekki geta setið aðgerðalaus, ef sexveldin lækka verulega tolla sína hvert gagnvart öðru og afnema viðskiptahömlur innbyrðis, en halda viðskiptahömlum og tollum út á við.

Ef þessi lönd Efnahagssamvinnustofnunarinnar grípa til gagnráðstafana gegn efnahagssamsteypulöndunum sex, má búast við því, að sú þjóð, sem harðast yrði fyrir barðinu á þeim, yrði Vestur-Þjóðverjar, þ.e. þýzki iðnaðurinn, sem selur mikið til þessara landa. M.a. af þessari ástæðu eru án efa tengdar nokkrar vonir við, að þýzk stjórnarvöld leggi sig öll fram um að stuðla að einhverju samkomulagi; þótt ekki væri nema til algerra bráðabirgða að sinni. Það, sem menn munu helzt gera sér vonir um að samkomulag geti náðst um, er, að sexveldin fallist á, að tollalækkanir þeirra og afnám á viðskiptahömlum nái einnig til hinna 11 ríkjanna og að engar tollahækkanir verði framkvæmdar gagnvart þeim né heldur nokkrar nýjar viðskiptatakmarkanir, en hins vegar geri hin 11 ríkin ráðstafanir til þess, að hvorki iðnaður né landbúnaður efnahagssamsteypulandanna verði fyrir óeðlilegri samkeppni, hvorki frá hinum 11 ríkjunum né heldur og alveg sérstaklega ekki frá ríkjum utan Efnahagssamvinnustofnunarinnar.

Þess er rétt að geta í þessu sambandi, að sexveldin hafa nú nýlega ákveðið, að fyrst um sinn skuli engar breyt. verða á tollum þeirra og innflutningshöftum, að því er snertir landbúnaðar- og fiskafurðir. Mun því t.d. ekki verða hækkun á tollum á fiski í Ítalíu um næstu áramót, jafnvel þótt almennt samkomulag milli sexveldanna og annarra aðildarríkja Efnahagssamvinnustofnunarinnar takist ekki. Hins vegar gæti hækkun á tollum og breyting á innflutningshöftum komið til framkvæmda, að því er landbúnaðar- og sjávarafurðir snertir, um áramótin 1959 og 1960.

Þótt ekkert samkomulag sé enn orðið um grundvallaratriði fríverzlunarmálsins, þ.e. hvort gera eigi tilraun til að koma á tolla- og haftalausri verzlun með helztu vörur milli aðildarríkja Efnahagssamvinnustofnunarinnar án þess að tengja þau mjög sterkum efnahagsog stjórnmálaböndum, hefur geysimikið undirbúningsstarf verið unnið í sambandi við væntanlegan milliríkjasamning um stofnun slíks fríverzlunarsvæðis eða efnahagsbandalags, ef samkomulag næðist um sjálf grundvallaratriðin. Allar viðræður um einstaka þætti slíks samnings hafa að sjálfsögðu farið þannig fram, að ekkert ríki hefur skuldbundið sig til aðildar að samningnum í heild, þótt það hafi látið í ljós óskir um, hvernig einstakir þættir hans ættu að vera frá þess sjónarmiði, og um það hafi náðst samkomulag. Jafnvel þótt fulltrúarríkis hefðu samþykkt hvert einstakt atriði, sem um hefði verið rætt út af fyrir sig, þegar það bar á góma, væri það jafnfrjálst að því eftir sem áður að samþykkja eða hafna aðild að samningnum í heild. Með hliðsjón af þessu hafa farið fram mjög ýtarlegar umræður um öll atriðl, sem vera þyrftu í slíkum fríverzlunarsamningi. Skal ég nú gera grein fyrir helztu atriðunum, sem máli skipta og rædd hafa verið.

Rómarsamningurinn gerir ráð fyrir því, að tollalækkanir og afnám hafta á viðskiptum fari fram á 12–15 ára tímabili og skuli skiptast í þrjá áfanga, sem verði svipaðir að lengd. Samkomulag hefur verið um það, að sami háttur skuli hafður í Efnahagsbandalaginu. Flest löndin hafa lagt áherzlu á, að tollar verði lækkaðir samtímis samkvæmt báðum samningunum. Í nýjustu tillögum sínum gera sexveldin þó einnig ráð fyrir þeim möguleika, að framkvæmd fríverzlunarsamningsins verði nokkru hægari, en Rómarsamningsins, þó verði Efnahagsbandalagið fullstofnað ekki síðar, en þrem árum á eftir efnahagssamsteypunni. Að því er snertir tollalækkanirnar sjálfar hefur verið gert ráð fyrir, að fylgt verði sömu reglum og Rómarsamningurinn gerir ráð fyrir, en þær eru í stuttu máli sem hér segir:

1) Engar tollahækkanir fari fram eftir gildistöku samningsins á milli þátttökuríkja.

2) Allir tollar lækki um 10% við gildistöku samningsins.

3) Þær tollalækkanir, sem framkvæmdar eru eftir þetta, skulu ákveðnar þannig, að heildartolltekjur lækki hverju sinni um 10%, miðað við innflutning ársins 1956. Þó skulu tollar á hverri vörutegund aldrei lækka um minna en 5%, en um a.m.k. 10% á vörum, sem þá hafa enn hærri grunntoll en 30%.

4) Tollalækkanir skv. þessum reglum skulu á fyrsta áfanga fara fram 18 mánuðum og 30 mánuðum eftir fyrstu lækkunina. Alls verði því tollalækkun á fyrsta áfanga 30%.

5) Á öðrum áfanga skulu tollalækkanir fara fram á sama hátt, 12, 18 og 30 mánuðum eftir upphaf áfangans. Tollalækkanir verða því samtals einnig 30% á öðrum áfanga.

6) Engar reglur hafa verið settar um það, hvernig tollalækkanir skuli fara fram á síðasta áfanga, en við lok hans verða þær allar að vera komnar til framkvæmda.

Rómarsamningurinn gerir ráð fyrir því, að framkvæmdastjórn efnahagssamsteypunnar ákveði reglur fyrir síðasta áfangann, en á honum eiga tollar alls að lækka um síðustu 40%. Aðildarríkin skulu reyna að tryggja, að tollalækkanir á fyrsta áfanga nemi a.m.k. 25% á hverja vörutegund og hafi náð a.m.k. 50% á hverja vörutegund í lok annars áfanga.

Eins og ég gat um áðan, hefur náðst samkomulag um það í ráðherranefndinni, að þessar reglur taki ekki til fjögurra landa, þ.e.a.s. Grikklands, Írlands, Íslands og Tyrklands, heldur megi þau nota helmingi lengri tíma til þessara tollalækkana. Í Rómarsamningnum er ákveðið, að grunntollar þeir, sem lagðir skuli til grundvallar, skuli vera tollarnir 1. jan.1957. Nokkrar þjóðir hafa farið fram á að hafa aðra grunntolla, t.d. vegna þess, að þær eru að endurskoða tollskrá sína. Af Íslands hálfu hefur verið bent á, að Íslendingar kunni að þurfa að fara fram á breyt. á grunntollum með tilliti til þess, að skoða megi þann hluta hinna sérstöku aðflutningsgjalda samkv. l. um útflutningssjóð, er rann í ríkissjóð, sem tolla. Engin till. hefur þó enn verið lögð fram um þetta af Íslands hálfu.

Ákvæði Rómarsamningsins um tollalækkanir ná til allra tolla. Hins vegar er aðildarríkjunum heimilt að leggja á innlenda skatta í staðinn fyrir fjáröflunartolla, enda séu þeir þá innheimtir jafnt af innfluttum vörum sem vörum framleiddum í landinu sjálfu. Í umr. hafa flest lönd utan efnahagssamsteypu sexveldanna haldið því fram, að tollalækkanir ættu aðeins að ná til verndartolla, en aðildarríkjunum að vera heimilt að halda fjáröflunartollum í óbreyttu formi, enda leggi þeir þá samsvarandi gjöld á innlenda framleiðslu, svo að samkeppnisaðstaða haldist jöfn. Líklegast verður að telja, að aðildarríkjunum yrði leyft að halda fjáröflunartollum óbreyttum. Verði breyt. á þessu, má telja víst, að hún verði fólgin í því, að allir tollar verði afnumdir, en innheimta megi innlendan söluskatt af erlendum vörum, um leið og þær eru fluttar inn. Mundi þá í raun og veru ekki vera um annað að ræða, en að skipt yrði um nafn á núverandi tollum.

Gert er ráð fyrir, að í fríverzlunarsamningnum gildi svipaðar reglur um afnám innflutningshafta og eru í Rómarsamningnum. Helztu ákvæði hans um þetta efni eru sem hér segir:

1) Innflutningshöft verði afnumin að fullu í lok 12–15 ára tímabilsins.

2) Höft verði ekki aukin eftir gildistöku samningsins og sé þá miðað við þær reglur um frjáls viðskipti, sem Efnahagssamvinnustofnunin setti í janúar 1955.

3) Allir kvótar verði gerðir almennir, þ.e. einn kvóti látinn ná til allra þátttökuríkja.

4) Á fyrsta áfanga verði kvótar auknir um 20% á ári.

5) Stefnt verði að því, að á tíunda ári 12 -15 ára tímabilsins verði allir samanlagðir kvótar orðnir a.m.k. 20% af innlendu framleiðslunni.

Ýmis atriði eru enn þá óútkljáð á þessu sviði, þ. á m. sá fyrirvari, sem gerður hefur verið af hálfu Íslands og fleiri ríkja um nauðsyn undanþágu í þessum efnum, og mun ég síðar víkja að því.

Í Rómarsamningnum eru ákvæði um afnám útflutningshafta í lok fyrsta áfanga, og má gera ráð fyrir, að sams konar ákvæði yrðu í fríverzlunarsamningnum. Þá hefur verið rætt um ýmsar tímabundnar undanþágur frá þessu ákvæði, er sérstaklega stendur á. Einnig hefur verið gert ráð fyrir algerum undanþágum varðandi útflutningshöft, sem sett hafa verið af siðferðisástæðum, öryggisástæðum, til verndar lífi manna, dýra og jurta, til verndar gegn útflutningi listaverka og þjóðardýrgripa og til verndar á viðskiptalegum eignum.

Þar eð lönd Efnahagsbandalagsins eða fríverzlunarsvæðisins munu hafa misháa tolla út á við, þótt lönd efnahagssamsteypunnar hafi sameiginlega tolla út á við, kemur að sjálfsögðu ekki til mála, að þær gagnkvæmu tollalækkanir nái til annarra vörutegunda en þeirra, sem framleiddar eru á sjálfu fríverzlunarsvæðinu, ella væri hægt að flytja vörur frá löndum utan svæðisins um hendur þeirra landa, sem hafa lága tolla, til hinna, sem hafa hærri tolla, og eru allir sammála um, að forðast beri slíkt misræmi í viðskiptum.

Það hefur verið eitt meginvandamál umræðnanna um fríverzlunina að ná samkomulagi um viðunandi skilgreiningu á því, hvaða vörur skuli taldar framleiddar á svæðinu og hverjar ekki. Athugaðir hafa verið möguleikar á því að leysa úr þessum vanda með því t.d. að telja þær vörur framleiddar á fríverzlunarsvæðinu, sem í eru ekki hráefni framleidd utan svæðisins nema að ákveðnum hundraðshluta. Augljóst er, að þetta er allt annað en auðvelt, og hafa farið fram um þetta miklar umræður. Má segja, að sá ágreiningur, sem er um fríverzlunarmálið, einkum milli Frakka annars vegar og landanna utan sexveldanna hins vegar, stafi af mismunandi skoðunum á þessu atriði. En eins og ég gat um áðan, halda Frakkar því fram, að nauðsynlegt sé að samræma tolla út á við að meira eða minna leyti, ef forðast eigi misræmi í samkeppnisaðstöðu milli aðildarríkjanna m.a. af þessum ástæðum.

Hvernig úr þessu mikla vandamáli verður leyst, skiptir Ísendinga ekki miklu máli, þar eð allar útflutningsvörur Íslendinga munu skilyrðislaust vera taldar framleiddar á svæðinu og lítil líkindi eru til, að komið verði á fót á næstunni útflutningsiðnaði hér á landi, sem noti svo mikið af hráefnum keyptum utan svæðisins, að hætta verði á, að framleiðsluvörur hans njóti ekki tollfríðindanna. Hitt er svo annað mál, að Íslendingar hljóta að beita sér gegn öllum tilraunum til þess að samræma tolla efnahagsbandalagslandanna út á við, og eiga þeir í því máli samleið með flestum ríkjum utan sexveldasvæðisins.

Frá upphafi hefur það verið meginforsenda viðræðnanna um fríverzlunarsvæðið, að löndin utan efnahagssamsteypunnar héldu frelsi sínu til þess að ákveða tolla sína út á við. Ef Frakkar gera það að skilyrði fyrir samþykki sínu um fríverzlunarhugmyndina og halda fast við það, að þessu verði breytt, munu samningar eflaust stranda og ekkert verða úr stofnun fríverzlunarsvæðisins.

Sum ríki hafa lagt mikla áherzlu á, að frjáls flutningur vinnuafls milli landa væri nauðsynlegt skilyrði fyrir þátttöku af þeirra hálfu, og á þetta fyrst og fremst við um Ítali og Grikki. Önnur ríki hafa bent á, að slík regla verði ekki aðgengileg fyrir þau. Er málið til athugunar, og er líklegast, að það verði leyst með sérákvæðum, en ekki með almennri reglu um frjálsa fólksflutninga milli landa.

Rómarsamningurinn gerir ráð fyrir því, að á 12–15 ára aðlögunartímabilinu verði smám saman afnumdar allar hömlur innan svæðisins á því að stofnsetja fyrirtæki og reka atvinnu. Má búast við, að í fríverzlunarsamningnum verði einnig ákvæði um slíkt frelsi á tilteknum sviðum. Er tilgangurinn sá, að innlendir og erlendir aðilar fái jafna samkeppnisaðstöðu að þessu leyti. Þó hefur verið gert ráð fyrir sérstökum undanþágum með þetta til þess að koma í veg fyrir í fyrsta lagi, að erlendir aðilar eignist auðlindir, sem eru hlutaðeigandi þjóð lífsnauðsynlegar, í öðru lagi, að erlendir aðilar geti náð einokun í ákveðnum greinum atvinnulífsins, og í þriðja lagi til að koma í veg fyrir félagslegt jafnvægisleysi. Ráð er fyrir því gert, að í samningnum verði ákvæði, er komi á frelsi til þess að reka fyrirtæki, er annist hvers konar fjárhagslega þjónustu, svo sem tryggingarstarfsemi og bankastarfsemi og yfirfærslur í því sambandi. Einnig mun verða í samningnum ákvæði um frjálsa fjármagnsflutninga milli aðildarríkjanna, að svo miklu leyti sem þeir eru nauðsynlegir til þess, að Efnahagsbandalagið nái tilgangi sínum. Í þessu mun fyrst og fremst felast frelsi til þess að festa fjármagn í fyrirtækjum eða verðbréfum annarra aðildarríkja og einnig réttur til þess að fá slíkt fé ásamt arði af því yfirfært til heimalandsins á ný. Ég mun síðar ræða það nánar, hvernig líklegt er að þessi atriði fríverzlunarsamningsins muni snerta Íslendinga.

Mikilvægur þáttur umræðnanna hefur fjallað um ákvæði, er hafa þann tilgang að koma í veg fyrir einokunaraðstöðu og aðrar takmarkanir og samkeppni innan fríverzlunarsvæðisins. Er gert ráð fyrir, að í samningnum verði ákvæði, sem í fyrsta lagi banni aðgerðir, er miði að því að koma í veg fyrir eðlilega samkeppni, í öðru lagi tryggi eftirlit með starfsemi einokunarfyrirtækja, hvort sem þau eru í opinberri eign eða ekki, í þriðja lagi komi í veg fyrir „dumping“ og í fjórða lagi tryggi það, að afskipti af styrkjum af hálfu ríkisvaldsins hafi ekki í för með sér misræmi í samkeppnisaðstöðu milli ríkja. Í Rómarsamningnum eru ákvæði um samræmingu á félagsmálastefnu aðildarríkjanna, þar sem sexveldin líta svo á, að mismunandi lengd vinnuviku og mishá félagsleg útgjöld, sem framleiðslan verður að greiða, skapi misræmi í samkeppnisaðstöðu. Um þetta atriði hefur ekki náðst samkomulag í fríverzlunarumræðunum, en lagt hefur verið til, að þau ríki, sem teldu sig verða fyrir tjóni af þessum orsökum, geti skotið máli sínu til úrskurðar.

Efnahagssamvinnustofnunin hefur frá stofnun sinni fyrir 10 árum reynt að vinna að því, að aðildarríkin samræmi stefnu sína í efnahagsmálum í því skyni að koma í veg fyrir hagsveiflur og aðrar truflanir í efnahagsmálum. Ef af stofnun fríverzlunarsvæðisins verður, er augljóst, að enn þá meiri nauðsyn er á slíkri samræmingu á efnahagsmálastefnunni. Jafnvel þótt það tækist í mun ríkara mæli, en það hefur tekizt innan Efnahagsstofnunarinnar, er þó ekki líklegt, að hjá því yrði komizt, að oft sköpuðust tímabundnir gjaldeyrisörðugleikar hjá einstökum aðildarríkjum að fríverzlunarsvæðinu. Það er því nauðsynlegt, að til sé sem fullkomnast greiðslujöfnunarkerfi og helzt skilyrði til þess, að einstök lönd geti fengið tímabundna fjárhagslega fyrirgreiðslu. Þetta mál hefur verið til athugunar hjá stjórn Greiðslubandalags Evrópu. Í álitsgerð hennar er rætt um tvo möguleika, annars vegar að halda Greiðslubandalaginu áfram í því formi, sem það hefur nú, og breyta því smám saman, eftir því sem þörf gerist, og hins vegar að koma á fót nýjum Evrópusjóði, er veiti þeim ríkjum lán til skamms tíma, er lenda í greiðsluvandræðum, en beiti sér jafnframt fyrir því, að þessar þjóðir geri sjálfar ráðstafanir til að sigrast á erfiðleikum.

Frá upphafi hefur verið gert ráð fyrir því, að í fríverzlunarsamningnum verði ákvæði, er geri aðildarríkjum kleift að fá undanþágu í lengri og skemmri tíma frá ákvæðum samningsins, einkum varðandi tollalækkanir og afnám hafta. Samkomulag er um, að slíkar undanþágur verði hægt að fá annars vegar vegna greiðsluhalla og gjaldeyriserfiðleika og hins vegar vegna erfiðleika einstakra framleiðslugreina. Einnig hafa sexveldin og fleiriríki lagt á það áherzlu, að hægt yrði að fá undanþágu eða grípa til gagnráðstafana, ef um er að ræða „dumping“ á heimamarkaði þeirra eða ef önnur ríki reka á einhvern hátt óeðlilega viðskiptastefnu, er skaði hagsmuni þeirra. Gert hefur verið ráð fyrir því, að aðildarríki skuli hafa samráð við stjórn Efnahagsbandalagsins eða fríverzlunarsvæðisins, áður en gripið er til slíkra undanþáguaðgerða, en allmikill skoðanamunur er enn þá um það, að hversu miklu leyti aðildarríki skuli hafa rétt til þess að grípa til slíkra ráðstafana innbyrðis. Leggja sexveldin og þó einkum Frakkar mikla áherzlu á, að einhliða aðgerðir verði leyfilegar.

Í umræðunum hefur yfirleitt verið samkomulag um það, að stjórn Efnahagsbandalagsins skuli vera innan vébanda Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu. Gert hefur verið ráð fyrir því, að yfirstjórnin yrði í höndum ráðherranefndar aðildarríkjanna, en auk þessi yrði sérstök framkvæmdastjórn embættismanna. Rætt hefur verið um, hvort æskilegt sé að hafa einnig ráðgjafarþing, skipað fulltrúum löggjafarþinga aðildarríkjanna, og hvort nauðsynlegt sé að setja upp dómstól til þess að úrskurða ágreiningsmál, en ákvæði um slíkar stofnanir eru í Rómarsamningnum. Engin ákvörðun hefur þó verið tekin um þessi efni.

Helzta ágreiningsefnið á þessu sviði er, á hvern hátt skuli greiða atkvæði innan Efnahagsbandalagsins. Í Efnahagssamvinnustofnuninni skulu allar ákvarðanir teknar samhljóða, og hafa flestir verið á þeirri skoðun, að sama regla skuli gilda um allar meiri háttar ákvarðanir innan Efnahagsbandalagsins, sérstaklega þær, er varða breytingar á starfsreglum. Hins vegar er það skoðun flestra ríkja utan sexveldanna, að vafasamt sé, hvort Efnahagsbandalagið yrði starfhæft, ef einróma samþykki þyrfti um öll atriði, t.d. varðandi undanþágur og önnur samsvarandi framkvæmdaratriði. Hefur sú till. komið fram af hálfu Breta, að um slík mál nægi 2/3 hlutar atkvæða til samþykkis.

Í upphaflegu till. um fríverzlunarsvæði í Evrópu var ráð fyrir því gert, að viðskiptareglur fríverzlunarsvæðisins tækju ekki til landbúnaðarafurða. Til þess lágu tvær ástæður. Önnur var sú, að í Rómarsamningnum eru sérreglur um viðskipti með landbúnaðarvörur. Hin var sú, að Bretar vildu ekki, að fríverzlunin tæki til landbúnaðarafurða. Samkvæmt skilgreiningu Rómarsamningsins teljast sjávarafurðir til flokks landbúnaðarafurða, og þýddi því sú tillaga, að reglur fríverzlunarsvæðisins skyldu ekki taka til landbúnaðarafurða, einnig, að þær skyldu ekki taka til sjávarafurða.

Till. um, að fríverzlunarreglurnar næðu ekki til landbúnaðarafurða, mættu þegar í upphafi mjög harðri mótspyrnu frá þeim þjóðum, sem flytja út landbúnaðarafurðir í stórum stíl. Töldu þær vera um mikið misrétti að ræða innan fríverzlunarsvæðisins, ef svo mikilvægar útflutningsafurðir þeirra yrðu undanskildar reglunum um fríverzlun. Hafa farið fram miklar umræður um þetta mál, og er orðið samkomulag um, að nauðsynlegt sé að tryggja hag þeirra þjóða, sem eiga afkomu sína að verulegu leyti undir útflutningi landbúnaðarafurða, en hins vegar telja flest aðildarríkin óumflýjanlegt, að hægt verði í framtíðinni að halda uppi verulegri vernd á sviði landbúnaðar.

Bretar lögðu fram tillögu um þessi mál í byrjun þessa árs. Var þar gert ráð fyrir, að reynt yrði að samræma stefnu aðildarríkjanna í landbúnaðarmálum í því skyni að auka frjáls viðskipti á þessu sviði. Jafnframt yrði smám saman dregið úr höftum og leitazt við að koma í veg fyrir óhagstæð áhrif framleiðslustyrkja í öðrum aðildarríkjum. Varðandi tolla gerðu Bretar engar tillögur, en ef til þess kæmi, að samþykkt yrði afnám tolla, kváðust þeir mundu þurfa undanþágu frá því ákvæði vegna samninga sinna um tollaívilnanir innan Brezka samveldisins.

Till. Breta fullnægðu ekki kröfum þeirra þjóða, er flytja út landbúnaðarafurðir, og miðaði ekkert í samkomulagsátt, m.a. vegna þess, að sexveldin komu sér ekki saman um sameiginlega afstöðu til þessa máls. Í lok júlímánaðar s.l. sendu þau loks frá sér till., sem eru nú til umræðu, og nefndi ég það áðan.

Meginatriði till. sexveldanna er, að á fyrsta áfanga verði gerðar ráðstafanir, m.a. með tollaívilnunum og rýmkun hafta, til þess að tryggja þeim þjóðum, sem flytja út landbúnaðarafurðir, þá markaði, sem þær hafa haft að undanförnu. Jafnframt verði tíminn notaður til þess að komast að samkomulagi um sameiginlega stefnu í landbúnaðarmálum fyrir upphaf annars áfanga, þ. á m. um afnám tolla og hafta. Í þessu felst í raun og veru frestun á ákvörðun um framtíðarskipulag á þessu sviði, en jafnframt trygging til handa ríkjunum utan efnahagssamsteypu sexveldanna þess efnis, að Rómarsamningurinn verði á fyrsta áfanga ekki framkvæmdur þannig, að önnur aðildarríki verði svipt útflutningsmöguleikum sínum. Horfur eru á, að takist að ná samkomulagi, er grundvallist á þessum till. sexveldanna. Helztu vandamálin, sem enn þarf að finna lausn á, eru annars vegar, í hverju tryggingar sexveldanna á fyrsta áfanga verði fólgnar, og hins vegar, hvaða lausn er hugsanleg á þeim vanda, er leiðir af tollaívilnunum Brezka samveldisins.

Fram að þessu hef ég rætt um hin almennu atriði fríverzlunarmálsins. Nú skal ég hins vegar ræða þau atriði, er varða Ísland sérstaklega, og þær hliðar málsins, þar sem Ísland að ýmsu leyti hefur sérstöðu.

Er þá fyrst og fremst um að ræða þær reglur, sem rætt hefur verið um að giltu um verzlun með fisk og fiskafurðir. Íslendingar og Norðmenn hafa frá upphafi fríverzlunarumræðnanna haldið fram, að algerlega óeðlilegt væri, að landbúnaðarafurðir og fiskur séu taldar til sama flokks, svo sem gert er í Rómarsamningnum. Hefur því verið haldið fram af hálfu þessara þjóða, að þær röksemdir, sem færa mætti fram gegn frjálsri verzlun með landbúnaðarafurðir, ættu alls ekki við um sjávarafurðir. Snemma í umræðunum lögðu Norðmenn til, að fríverzlunarreglurnar skyldu ná til svonefnds iðnaðarfisks, þ.e. mjöls, lýsis, niðursuðuvöru og freðfisks, hins vegar skyldu sérákvæði gilda um aðrar sjávarafurðir. Af hálfu Íslands hefur hins vegar verið haldið fram frá upphafi, að eðlilegt væri, að fríverzlunarreglurnar tækju yfirleitt til allra fiskafurða, þótt ekki væri óeðlilegt, að einhverjar takmarkanir yrðu á löndunum á nýjum fiski. Tillaga Norðmanna tók hvorki til saltfisks né skreiðar, sem hvort tveggja eru mikilvægar útflutningsafurðir Íslendinga til aðildarríkjanna. Hugmynd Norðmanna gæti í framkvæmd orðið óhagstæð Íslendingum, ef hún yrði til þess, að hagsmunum útflytjenda þessara afurða yrði að einhverju leyti fórnað fyrir hagsmuni útflytjenda iðnaðarfisks. Aðalhagsmunir Norðmanna í þessum efnum eru á sviði lýsis, mjöls og niðursuðuvarnings. Frá þeirra sjónarmiði er frjáls verzlun með þessar afurðir miklu mikilvægari, en frjáls verzlun með freðfisk. Þau sjónarmið Íslendinga og Norðmanna, að sömu reglur megi með engu móti gilda um viðskipti með sjávarafurðir og landbúnaðarafurðir, hafa mætt skilningi hjá mörgum þjóðum, án þess að þær hafi fallizt á þær í einstökum atriðum.

Eins og ég gat um áðan, samþykkti ráðherranefndin á s.l. vori að koma á fót sérstakri nefnd til þess að fjalla um stöðu sjávarafurða innan fríverzlunarsvæðisins og kanna leiðir til þess að koma á eins frjálsum viðskiptum og unnt væri með þessar afurðir, eins og segir í ályktuninni. Fékkst þannig viðurkenning á því mikilvæga atriði, að sömu reglur hljóti ekki að gilda um landbúnaðarafurðir og sjávarafurðir. Þess verður þó að geta, að vegna þess að fiskafurðir og landbúnaðarafurðir koma undir sömu ákvæði Rómarsamningsins, má búast við, að sexveldunum veitist erfitt að fallast á reglur um sjávarafurðir, er séu ekki að einhverju leyti hliðstæðar reglunum um landbúnaðarafurðir.

Er till. sexveldanna komu fram í sumar, var rætt um það við Norðmenn, hvort ekki væri æskilegt, að Norðmenn og Íslendingar kæmu sér saman um sameiginlegar till. eða greinargerð um reglur þær, sem gilda skyldu um verzlun með sjávarafurðir í væntanlegum fríverzlunarsamningi, með hliðsjón af tillögu sexveldanna. Í byrjun október s.l. komu tveir þeirra sérfræðinga, sem mest hafa fjallað um þessa hlið fríverzlunarmálsins fyrir norsku ríkisstj., hingað til Reykjavíkur og héldu fund um þetta mál með íslenzkum sérfræðingum, en æskilegt var talið, að Íslendingar og Norðmenn hefðu rætt þetta mál fyrir fundi þá í ráðherranefndinni, sem haldnir voru í október s.l., ef málið kynni að bera sérstaklega á góma þar, en það varð þó ekki. Eftir Parísarfundina fór dr. Jóhannes Nordal til Oslóar til áframhaldandi viðræðna við norska sérfræðinga um málið, og hefur það síðan verið rætt hér við íslenzka sérfræðinga. Bendir allt til, að samstaða geti orðið með Íslendingum og Norðmönnum í umræðunum um, hvaða reglur eigi að gilda um viðskipti með sjávarafurðir í væntanlegum fríverzlunarsamningi. Verða einnig kannaðir möguleikar á því, að Danir og Svíar gerist aðilar að þessu samstarfi, en að því mundi verða verulegur styrkur.

Það, sem um hefur verið rætt milli Norðmanna og Íslendinga, er í aðalatriðum það, að gert verði sérstakt samkomulag um meðferð fisks og fiskafurða innan fríverzlunarsvæðisins, og yrði það hliðstætt landbúnaðarsamningnum, en þó mun frjálsara. Þetta samkomulag fæli það í sér, að á fyrsta áfanga fríverzlunartímabilsins giltu sérstakar reglur um verzlun með fisk og fiskafurðir. Þessar reglur fælu ekki í sér jafnmikið viðskiptafrelsi og þær reglur, sem giltu um iðnaðarvörur, en tækju þó fullt tillit til þarfa fiskútflutningslandanna á því að halda mörkuðum sínum og auka þá, og verði samkeppnisaðstaða þeirra í engu rýrð. Fyrsti áfanginn yrði síðan notaður til þess að vinna að því að koma á samræmdri stefnu í fisksölumálum hjá aðildarríkjunum, enda skuldbindi samningurinn þau til þess að afnema alla tolla og höft á öðrum og þriðja áfanga innan vébanda hinnar samræmdu stefnu. Ef tækist að komast að viðunandi samkomulagi, mundu sérákvæðin ná til sömu fiskafurða og nefndar eru í landbúnaðarkafla sexveldasamningsins. Mundu Norðmenn þá falla frá till. sinni um, að fríverzlunin skuli eingöngu taka til iðnaðarfisks, en sérreglur gilda um aðrar sjávarafurðir.

Það er ljóst, að Ísland hefur sérstöðu meðal efnahagssamvinnulandanna, ekki aðeins að því leyti, hve útflutningur fiskafurða er því þýðingarmikill, heldur einnig að því leyti, hve iðnþróunin hér á landi er skammt á veg komin, samanborið við flest hin aðildarríkin. Að þessu leyti svipar aðstöðu Íslands til aðstöðu þriggja annarra landa, er tekið hafa þátt í efnahagssamvinnu Evrópu, þ.e. Grikklands, Írlands og Tyrklands.

Þegar í upphafi umr. um fríverzlunarmálið tilkynntu þessi þrjú lönd ásamt Íslandi, að þau teldu sig þurfa að hafa nokkra sérstöðu innan fríverzlunarsvæðisins, ef um aðild ætti að vera að ræða. Þessi lönd lögðu á það áherzlu, að fríverzlun mundi hafa í för með sér miklar breytingar í atvinnumálum þeirra. Ef þær breytingar ættu að verða, án þess að af hlytust alvarlegar truflanir eða vandræði, yrðu þau að fá undanþágu til þess að geta verndað ákveðnar atvinnugreinar fyrir erlendri samkeppni og bætta möguleika til þess að afla fjármagns erlendis til þess að koma á fót nýjum útflutningsatvinnugreinum. Sérstök n. innan Efnahagssamvinnustofnunarinnar hefur fjallað um þau vandamál, sem hljótast af sérstöðu þessara fjögurra ríkja. Hefur hún unnið allmikið starf.

Ég gat þess áðan, að n. hefði orðið sammála um að mæla með því við ráðherranefndina, að þessi fjögur lönd fengju helmingi lengri tíma til þess að lækka tolla sína og afnema höft sín, en önnur ríki, og ráðherranefndin hefði fallizt á þessa till. Aðlögunartíminn fyrir þessi fjögur ríki gæti þá orðið allt að 30 ár. Fyrstu 10 árin mundu þau þurfa að lækka tolla um 5% að meðaltali í lok fyrsta árs og önnur 5% í lok sjötta árs. Eftir lok fyrsta 10 ára tímabilsins mundu þau lækka tolla um jafna hundraðstölu árlega, unz hinum tvöfalda aðlögunartíma væri lokið. Löndin mundu hafa rétt til þess á þessu tímabili að leggja á nýja verndartolla með vissum skilyrðum. En verði þróunin í þessum löndum hagstæð, er gert ráð fyrir, að stjórn Efnahagsbandalagsins geti ráðlagt þeim að lækka tolla sína örar, en hér er gert ráð fyrir.

Í þessari n. hefur einnig verið rætt mikið um fjárhagslegar aðgerðir til þess að örva efnahagsþróunina í þessum löndum. Hefur málið verið athugað af sérfræðingum og þeir lagt til, að stofnaður yrði sérstakur framkvæmdasjóður, er veiti lán til þessara ríkja og aðstoði þau við útvegun fjármagns með ábyrgðum, þátttöku í lánum o.s.frv. Endanleg ákvörðun um skipulag og starfssvið slíks sjóðs hefur ekki verið tekin. Þó er óhætt að segja, að nauðsyn þessara landa á því að fá erlent fjármagn í allstórum stíl hafi verið viðurkennd af flestum aðildarríkjunum. Hins vegar er nokkur ágreiningur um, hvernig þessum málum skuli fyrir komið, t.d. hvort setja skuli á fót sérstaka stofnun til þess að annast þau eða hvort með þau skuli farið af sérstakri n. innan stjórnarkerfis Efnahagsbandalagsins. Löndin fjögur, sem hér eiga hlut að máli, hafa öll lagt áherzlu á, að komið yrði á fót sérstakri stofnun, er hafi vald og skilyrði til þess að afla fjár á fjármagnsmörkuðum heimsins. Ekki hafa enn verið nefndar ákveðnar fjárhæðir sem stofnfé slíks framkvæmdasjóðs, en óhjákvæmilegt er, að hér yrði um allsterka stofnun að ræða, og hlyti fjármagn hennar að verða a.m.k. 1.000–2.000 millj. dollarar. Geta hennar til útlána mundi hins vegar fara mjög eftir því, hversu frjálsar hendur hún hefði um útvegun fjármagns með sölu verðbréfa.

Þá hefur Ísland enn sérstöðu í því efni, hve viðskipti þess eru mikilvæg við lönd, sem reka viðskipti á jafnvirðisgrundvelli, einkum við lönd í Austur-Evrópu. Til þess að vernda þessi viðskipti gætu Íslendingar lækkað tolla á vörum þeirra jafnmikið og tollar eru lækkaðir innan fríverzlunarsvæðisins. Þetta mundi Íslendingum frjálst og til þess þyrfti engar undanþágur. Hins vegar gæti svo farið, að slíkar tollalækkanir væru ekki nægilegar til þess að halda uppi innflutningi frá jafnkeypislöndum, heldur þyrfti einnig að beita innflutningshöftum í þessu skyni. Hefur verið tekið fram af Íslands hálfu, að nauðsynlegt geti orðið að fá undanþágu til þess að halda innflutningshöftum á þeim vörum, sem að mestu eru fluttar inn frá jafnkeypislöndum.

Þá hefur einnig verið tekið fram, að Ísland kunni að verða að fara fram á undanþágur frá ákvæðum varðandi rétt erlendra fyrirtækja til starfsemi í landinu og frelsi þeirra til að yfirfæra fjármagn og arð af fjármagni. Hverjar þær undanþágur þyrftu að vera, er þó ekki hægt að segja til um, fyrr en ljóst er, hver ákvæði samningsins í þessu efni verða.

Á það er og rétt að benda í þessu sambandi, að eins og nú standa sakir, eru litlar eða engar líkur til þess, að erlend fyrirtæki mundu vilja setja upp atvinnurekstur á Íslandi, þótt til þess væri fullt frelsi, vegna þess, hve skattar og sér í lagi útsvör eru há á atvinnufyrirtækjum. Á meðan þannig háttar, er atvinnurekstur erlendra fyrirtækja hér ekki hugsanlegur, nema þá stóriðja, er sérstakir samningar væru gerðir um, og mundi þátttaka í fríverzlunarsvæðinu engu um það breyta.

Svo sem ég gat um áðan, eru umr. um fríverzlunarmálið nú á úrslitastigi. Skal engu um það spáð hér, hvernig þeim kunni að lykta. Það vil ég þó segja, að fari þær algerlega út um þúfur og komi Rómarsamningurinn til framkvæmda 1. jan, n.k., getur ekki hjá því farið, að nokkur hinna 11 ríkjanna í Efnahagssamvinnustofnuninni geri með sér önnur samtök til þess að treysta aðstöðu sína gagnvart sexveldunum. Í Evrópu hefðu þá myndazt tvær voldugar viðskiptaheildir. Íslendingum yrði þá eflaust mikill vandi á höndum. Það eru áreiðanlega hagsmunir Íslendinga, að Vestur-Evrópa klofni ekki með þessum hætti í tvennt í viðskiptalegu tilliti. Íslendingar ættu mikilvæga markaði í löndum innan beggja heildanna og keyptu verulegan hluta innflutnings síns frá þeim báðum.

Sem heild eru efnahagssamvinnulöndin stærsti viðskiptaaðili Íslendinga, og það er þeim tvímælalaust hagkvæmast, að þau séu sem heilsteyptast markaðssvæði. Ef til stofnunar tveggja viðskiptasvæða kæmi og Íslendingar stæðu utan þeirra beggja, yrðu áhrif þess fyrir íslenzk utanríkisviðskipti svipuð því, að Ísland stæði utan við fríverzlunarsvæðið allt. Ef fríverzlunarsvæðið verður stofnað og tæki til sjávarafurða og Íslendingar stæðu utan svæðisins, hefði það í för með sér mikla erfiðleika fyrir íslenzka útflutningsframleiðslu, eins og sjá má af því, að keppinautar okkar við sölu afurða, sem nema 40–50% af heildarútflutningi okkar, mundu fá betri aðstöðu, en við í samkeppninni á fríverzlunarsvæðinu.

Hið sama yrði upp á teningnum, þótt viðskiptasvæðin yrðu tvö, ef Ísland stæði utan þeirra beggja. En ef þau verða tvö, gæti svo farið, að ekki væri hægt að njóta hagnaðar af því að vera aðili að öðru nema fórna hagsmunum varðandi viðskipti við hitt. Fyrst á annað borð er um að ræða viðleitni í þá átt að koma á stóru markaðssvæði í Vestur-Evrópu, eru það tvímælalaust hagsmunir Íslendinga, að það markaðssvæði verði sem stærst, því að þá verður hagræði þeirra af því að gerast aðíli að því mest, ef önnur atriði gera það ekki andstætt hagsmunum Íslendinga að taka þátt í slíku samstarfi.

Í umræðunum um fríverzlunarmálið hefur hingað til ekkert komið fram, sem bendir til þess, að ekki yrði svo mikið tillit tekið til sérstöðu og sérhagsmuna Íslendinga, að það gæti talizt andstætt hagsmunum þeirra í nokkru mikilsverðu atriði að gerast aðili að fríverzlunarsamningi, eins og rætt hefur verið um að hann yrði og ég hef lýst. Á hinn bóginn er rétt, að ekki er enn fengin nein vissa fyrir því, að reglurnar um viðskipti með sjávarafurðir yrðu svo frjálslegar, að það væri mikilvægt hagsmunamál fyrir Íslendinga að gerast aðili að slíku fríverzlunarsvæði. En það tel ég liggja alveg ljóst fyrir, að verði reglurnar um fiskverzlunina frjálslegar, þá verður hér um að ræða markað, þar sem búa nær 300 millj. manna, svo stóran markað, að það er lífshagsmunamál fyrir Íslendinga að eiga frjálsan aðgang að honum, ekki aðeins til þess að geta selt þar útflutningsvörur okkar, — við gætum e.t.v. fengið markað fyrir þær annars staðar, — heldur til þess að afla okkur gjaldeyris til kaupa á vörum, sem við erum orðnir vanir að nota og megum ekki missa, ef lífskjör eiga að geta haldið áfram að batna í þessu landi og við eigum að geta lifað hér sams konar menningarlífi og við höfum lifað og viljum geta lifað áfram. Af þessum sökum hljóta Íslendingar að fylgjast af mikilli athygli með því, sem gerist nú alveg á næstunni í fríverzlunarmálinu.