16.10.1958
Neðri deild: 4. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1916 í B-deild Alþingistíðinda. (2345)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég vildi hér aðeins utan dagskrár mega vekja athygli á sérstöku máli, og það er í sambandi við skattheimtu ríkisins. Eins og kunnugt er, hefur skattheimtu eða innheimtu ríkisskattanna verið hagað þannig, að eftir skattalögunum var gjalddagi þeirra á manntalsþingum áður fyrr, en hins vegar heimild í lögunum til þess að setja önnur ákvæði um skattheimtuna. Um nokkuð langt árabil hefur það tíðkazt svo, a.m.k. hér í Reykjavík, um innheimtu útsvara, að notuð hefur verið heimild útsvarslaga til þess að innheimta útsvörin á fleiri gjalddögum og þá þannig, að fyrst í stað er beitt svokallaðri fyrirframinnheimtu, fyrri hluta ársins er mönnum áætlað að borga í fjórum áföngum frá því í marzmánuði mánaðarlega sem svarar helmingi af útsvari s.l. árs. Síðan er útsvarið, eftir að álagningin liggur fyrir, innheimt, og hefur það verið innheimt á 4 gjalddögum, í ágúst, september, október og nóvember, og notuð heimild, sem er í lögunum, til þess að a.m.k. launafólk, sem greiðir af launum sínum, megi ljúka skattgreiðslunni í tveimur áföngum í viðbót, í janúar og febrúar. Þannig hefur myndazt sú venja um innheimtu útsvaranna, að þau eru innheimt á gjalddögum í 10 skipti, og falla þá úr mánuðirnir desember, jólamánuðurinn, og júlímánuður, sem hins vegar er sá mánuður, sem meginhluti af föstu launafólki a.m.k. er í sumarfríum. Það verður að teljast mjög hentugt að innheimta skattana á þennan hátt í fleiri áföngum, bæði útsvar og einnig skatta ríkisins.

Með reglugerð í fyrra, sem fjmrn. setti eða hæstv. fjmrh., var tekinn upp sá háttur að innheimta ríkisskattana á mörgum gjalddögum. Sú reglugerð er ekki sett fyrr en í júlímánuði, og þá er gert ráð fyrir að innheimta skatta þess gjaldárs í sex áföngum, þ.e.a.s. frá 1. ágúst til 1. nóvember og svo aftur í janúar og febrúar, svipað og verið hefur um útsvör þess gjaldárs.

En aðalreglan í reglugerðinni, sem heitir: Reglugerð um fyrirframgreiðslu skatta, nr. 103 1. júlí 1957, er sú, að skattarnir innheimtast í fjórum áföngum, 1. marz, apríl, maí og júní, og þá er miðað við áætlaðan helming af sköttum ársins á undan, og síðan eru eftirstöðvarnar innheimtar í fjórum áföngum frá því í ágústmánuði, 1. ágúst, september, október og nóvember. Sem sagt er tollstjóranum í Reykjavík heimilt að innheimta á þennan hátt, og þessi heimild hefur verið notuð.

Nú vík ég að þessu vegna þess, eins og ég sagði áðan, að þótt ég telji mjög eðlilegt og til mikilla bóta að innheimta skattana, bæði ríkisskatta og útsvör, í fleiri áföngum, þá finnst mér að vissu leyti óeðlilegt að herða einmitt svo mjög á skattheimtunni nú að innheimta ríkisskattana í átta áföngum á ári, tvisvar sinnum á fjórum mánuðum með millibili, sem verður um mitt árið, og þeim mun fremur sem aðstæður eru nú þannig, að launafólk mun eiga erfiðara, en oft endranær að bregðast við þessum aukna hraða, sem er á skattheimtunni, vegna mikilla verðhækkana, sem átt hafa sér stað og launafólk fær nú ekki uppi bornar fyrr, en með hækkaðri vísitölu í desembermánuði. Það má að vísu segja, að það sé nokkuð langt komið í þessari skattheimtu nú þegar, en ég held, að niðurstaðan muni verða sú, að hjá ýmsum þeim atvinnurekendum, sem taka skatta af launum, hafi tæplega að öllu leyti þessu verið framfylgt, og vildi ég þess vegna mega víkja því til hæstv. fjmrh., því að mér sýnist, að málið muni vera í höndum hans og þyrfti reglugerðarbreytingu, hvort ekki væri eðlilegt, eins og aðstæður allar eru, að heimila, að skattgreiðslunni ljúki ekki 1. nóv., eins og gert hefur verið ráð fyrir, heldur úr þessu nú í þremur áföngum, 1. nóv. og svo 2. jan. og 1. febr. Með því móti mundi falla í sama farveg innheimta á ríkissköttunum og innheimta á útsvörunum, þar sem notuð er heimildin til þess að innheimta á fleiri gjalddögum, og yrðu í framtíðinni með þessu móti skattar og útsvör innheimt á 10 gjalddögum mánaðarlega, en úr féllu desembermánuður, sem er mjög eðlilegt, og einnig júlímánuður, sem virðist vera líka að sínu leyti eðlilegt.

Ég vildi leyfa mér að hreyfa þessu nú. Það er lítill tími til stefnu, en ég þykist mega vænta þess, að hæstv. fjmrh. muni vilja taka þetta mál til vinsamlegrar athugunar og e.t.v. gera þá breytingu á þessu, sem ég nú sting upp á og tel að væri nokkuð til bóta.