19.11.1958
Sameinað þing: 10. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1918 í B-deild Alþingistíðinda. (2347)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Það er vegna þess, að í málgagni stærsta stjórnarflokksins er í morgun í aðalgrein skýrt svo frá sem ég skal nú greina, með leyfi hæstv. forseta:

„Eins og Þjóðviljinn skýrði frá s.l. sunnudag, hafa sendiherrar NATO-ríkjanna hér á landi haft sig mjög í frammi undanfarna daga og lagt fast að íslenzkum stjórnmálamönnum að fallast á tillögu Olafs Thors um ráðherrafund Atlantshafsbandalagsins. Meðal þeirra var brezki sendiherrann Mr. Gilchrist. Hafa sendiherrarnir að sjálfsögðu fyrirmæli stjórna sinna um að beita sér í málinu.“

Og síðar í greininni segir:

„Væri vissulega ástæða fyrir stjórnarvöldin til að rannsaka nákvæmlega, hvernig því máli er háttað.“ Og er þar vikið að því sama, sem ég las hér upp.

Nú vildi ég skýra frá því, svo að enginn efi væri á því, að við sjálfstæðismenn höfum ekki orðið varir við þennan áhuga hinna erlendu sendimanna, enda er það ekki nema að vonum, að við verðum ekki hans varir, því að erlendir sendimenn hafa að eðlilegum hætti fyrst og fremst samband við ríkisstj. En samkvæmt þeim upplýsingum, sem stjórnarblaðið hér skýrir frá, hafa sendiherrarnir veitt stjórninni, að því er ætla verður, slíkan aðgang í þessu máli, að með ólíkindum er. Annars mundi ekki frá þessu skýrt í blaðinu, allra sízt með þeim hætti, sem gert er.

Það hefur ekkert annað blað að vísu en Þjóðviljinn birt þessar fregnir. Þess vegna er það sennilegast, að það sé hæstv. sjútvmrh. og hæstv. félmrh., sem sendiherrarnir hafa leitað til, og vildi ég því biðja hæstv. sjútvmrh. um að skýra þingheimi og þar með þjóðinni frá því, sem í þessu hefur gerzt, og ef ekki hefur verið leitað til hans, þá hvaða fregnir hann hafi af umleitunum þessara manna til sinna samstarfsmanna. Nú sé ég að vísu ekki aðra úr ríkisstj. en hæstv. fjmrh. E.t.v. hafa þeir leitað til hans, og mundi þá ekki á honum standa að skýra okkur frá því. Hér er um einfaldar spurningar að ræða, og efast ég ekki um, að hæstv. ráðh. er ánægja að því að láta hið rétta koma fram. Ef þeir hins vegar hafa ekki orðið fyrir þeirri ásókn, sem Þjóðviljinn hér skýrir frá, þá tek ég fyllilega undir það, að ástæða er til, að þetta mál verði rannsakað, eins og Þjóðviljinn stingur upp á, og vil ég skora á ríkisstj. að láta ekki dragast deginum lengur að hefja þá rannsókn.