29.01.1959
Efri deild: 59. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í B-deild Alþingistíðinda. (235)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Það er búið að ræða þetta mál allmikið í hv. Nd., og þ. á m. hafa verið um það útvarpsumræður, en þegar þess er gætt, þá skaðar það nú kannske minna, þó að málið sé ekki ýtarlega rætt hér í þessari hv. d., enda til þess lítill tími.

Ég mun ekki heldur eyða miklum tíma í umr. um þetta mál og það er sjálfsagt að taka það til greina að tefja það sem allra minnst, þó að það verði á kostnað þess, sem kannske skaðar lítið, að það verður minna rætt hér en ella hefði ef til vill verið gert, þótt málið hafi verið, eins og ég sagði áðan, rætt í hv. Nd.

Það er í sjálfu sér þýðingarlítið að ræða mjög um forsögu þessa máls og a. m. k. er sjálfsagt að eyða ekki tíma til þess að rekja það langt aftur í tímann eða tildrög þess. En það er þó naumast hægt að komast hjá því vegna þess, hvernig þetta mál er til komið, að rekja það lítils háttar, vegna þess að það stendur í svo nánu sambandi við það, sem hefur verið að gerast núna sérstaklega á s. l. ári.

Það er enginn efi á því, að með myndun fyrrv. ríkisstj. var færzt mjög mikið í fang. Það, sem hún setti sér að takmarki, var mjög erfitt viðfangsefni, þó að ég sé einn af þeim mönnum, sem hafa naumast trú á því, að það sé auðvelt að ná jafnvægi í efnahagsmálum og stjórna efnahagsmálunum sæmilega nema með því að þetta mark, sem fyrrv. ríkisstj. setti sér, takist. Markmiðið, sem ríkisstj. setti sér, var raunverulega það að setja niður vinnudeilur, þannig að verkfallsrétturinn yrði a. m. k. notaður í hófi og ekki þannig, að yrði til skaða fyrir framleiðsluna, en vinnustéttirnar, bændur og launastéttirnar almennt gætu treyst því með því að hafa fulltrúa sína í ríkisstj., að það væru á hverjum tíma greidd þau laun fyrir vinnu, sem framleiðslan og þjóðartekjurnar þyldu frekast og að keppt væri að því með því að hafa stöðuga og vaxandi framleiðslu, að tekjur þessara stétta og annarra í þessu þjóðfélagi gætu aukizt með því móti.

Ég sagði, að þetta væri erfitt viðfangsefni, og það er það, vegna þess að því er ekki að leyna, að á undanförnum árum hefur verkalýðshreyfingin þróazt þannig og verið sterkust í átökum sínum í þá átt að fá fram kaupgjaldshækkanir, enda ekki óeðlilegt þó að verkfallsréttinum hafi verið beitt, þar sem vinnustéttirnar, verkamennirnir, höfðu ekki aðstöðu til þess að fylgjast með því, hvort kaupgjald þeirra væri í samræmi við það, sem atvinnulíf og þjóðartekjur frekast þyldu. Þetta var markmiðið, sem stjórnin setti sér og það má segja, að það hafi raunverulega mistekizt og þar af leiðandi hafi þessi stjórn orðið að segja af sér.

Það voru góð samtök um það haustið 1956 að gera þetta átak, sem gera þurfti, það var fallið frá 6 vísitölustigum, enda stóð þannig á, að þá hefðu, ef þau vísítölustig hefðu verið tekin til greina viðkomandi greiðslu kaups og launa,landbúnaðarvörur hækkað svo að segja sama daginn um það, sem þessu svaraði og ef til vill gerði það þá auðveldara að fá þessa samninga, enda stóðu þá þeir flokkar, sem ríkisstj. studdu, saman um þetta atriði svo að segja sem einn maður. Það var þá, sem voru gerðar ráðstafanir til þess eða samningur um það, að stóreignaskattur skyldi lagður á og lækkuð verulega álagning. Þetta var gert til þess að fullnægja því sjónarmiði, að aðrir væru látnir fórna, ef hægt er að kalla það því nafni, jafnhliða því sem vinnustéttirnar féllu frá þessum 6 vísitölustigum og bændur um leið frá því, sem því samsvaraði, haustið 1956.

Það var eftirtektarvert í þessum umræðum, sem fóru fram um fráfall þessara 6 vísitölustiga, að það varð varla vart nokkurs ágreinings í Alþfl., Alþb. eða Framsfl. um, að þetta væri nauðsynleg, og rökunum, sem færð voru fram fyrir því og útreikningunum, sem verkalýðnum voru sýndir, þeim var trúað, enda voru þeir sannir og réttir og ég hygg, að þegar verkalýðsflokkarnir, sem svo kalla sig og Framsfl. stóðu saman um þetta atriði svo að segja sem einn maður, þá sýnir það greinilega, hvað hægt er að gera til hagsbóta fyrir efnahagsmálin og um leið fyrir launastéttir og þjóðfélagið í heild, ef þessir flokkar standa saman um það, sem gera þarf og segja satt og rétt frá því, sem verið er að gera og um ástæðurnar fyrir því, því að það er vitað mál, að haustið 1956 var þessum 6 vísitölustigum ofaukið, framleiðslan gat ekki greitt það og það var ekki hægt að taka þessi 6 vísitölustig til greina í kaupgjaldi nema leggja álögur á almenning sem því svaraði til þess að greiða framleiðslunni meira með þeim vörum, sem fluttar eru út.

Það er ákaflega eftirtektarvert, vegna þess að það var þegar á þessum tíma svo háttað, eins og greinilega kemur fram í ummælum blaða og öllum áróðri, sem var beitt í kosningum til stjórna verkalýðsfélaga þá um haustið, að þessir flokkar, sem að ríkisstj. stóðu, voru kallaðir kjaraskerðingarflokkar o. s. frv. og áróðrinum beitt miskunnarlaust af stjórnarandstöðunni þá þegar í þá átt að reyna að espa upp vinnustéttirnar gegn þessum ráðstöfunum, en það hafði — eins og kosningar það haust bera með sér — engan árangur.

Ég minnist sérstaklega á þetta vegna þess, að ég tel þetta vera eftirtektarvert og þess vert, að því sé veitt athygli, hvernig er raunverulega hægt að vinna að þessum málum, ef rétt er unnið.

Því hefur oft verið haldið fram og notað mjög í pólitískum áróðri, að flokkar með ólíkar skoðanir, eins og Framsfl., Alþb. og Alþfl. að sumu leyti, geti ekki unnið saman. Það hefur ákaflega mikið komið fram í umr. í hv. Nd. og í umr. um þetta stjórnarsamstarf einmitt þetta atriði, að það hafi frá upphafi verið vanhugsað, að þessir flokkar gætu í raun og veru unnið saman með svo ólíkar skoðanir, og að það sé útilokað, að slíkt sé framkvæmanlegt.

Ég held, að það sé ástæða til þess að benda á, að þessi áróður er settur fram í alveg ákveðnum tilgangi og það þarf ekki að skýra það fyrir neinum, í hvaða tilgangi honum er haldið á lofti, þessum áróðri. Það er alveg vitað mál, að þegar fyrrv. ríkisstj. var mynduð, stóðu flokkarnir, sem studdu ríkisstj., ekki að henni sem heild. Það var alltaf mikill ágreiningur bæði í Alþfl. og í Alþb., og ýmsir öflugir stjórnarandstæðingar, sem urðu undir í báðum flokkum, þegar ríkisstj. var mynduð og skal ég ekki rekja það atriði nánar. En þetta atriði haustið 1956 og fleiri átök, sem ríkisstj. gerði, sýna, að kenningin um það, að andstæðir flokkar geti ekki unnið saman, er algerlega röng. Hún er vanhugsuð og það er vegna þess, að svona stjórnarsamstarf getur einatt blessazt milli flokka, þó að þeir séu með ólíkar skoðanir, meðan sá meiri hluti ræður í hverjum flokki, sem er hlynntur stjórnarsamstarfinu og vill vinna það til að taka visst tillit til þess, að stjórnarsamstarfið haldi áfram. Þessi tilraun, sem nú var gerð til stjórnarsamstarfs milli þessara flokka, fór forgörðum vegna þess, að það urðu ofan á þau öfl í tveim stjórnarsamstarfsflokkunum, sem voru raunverulega andvíg stjórnarsamstarfinu. Það eru ef til vill sterkustu rökin til þess að hnekkja þessum stöðuga áróðri, sem er settur fram í ákveðnu markmiði um það, að ólíkir flokkar geti ekki unnið saman, ef maður lítur til annarra landa, þó að maður taki ekki nema tvö lönd, England og Bandaríkin. Þar er tveggja flokka kerfi, en í báðum flokkunum í Bandaríkjunum er vitað, að þar eru svo ólíkar skoðanir, að varla getur verið um ólíkari skoðanir að ræða milli tveggja flokka. En þessir flokksmenn vinna saman vegna þess, hvernig kosningakerfið er. Það þarf ekki að rekja þetta mál. Þetta er öllum svo kunnugt, sem hér eru til staðar. Að maður ekki minnist á Bretland, þar sem hafa hvað eftir annað verið það mikil átök í Verkamannaflokknum, vegna þess að þar hafa verið tveir armar, tveir flokkar, — enda er brezki Verkamannaflokkurinn raunverulega samsettur af mörgum flokkum að vissu leyti, — að legið hefur við klofningi, sem núna hefur á seinni árum verið jafnaður og mætti svo rekja víðar. — Þetta set ég hér fram til þess að hnekkja þeim rökblekkingum, sem hvað eftir annað eru bornar fram um það, að flokkar með mismunandi skoðanir geti ekki unnið saman, ef vissum skilyrðum er fullnægt.

Ég skal nú ekki rekja þessa stjórnarsögu frekar. En eins og ég sagði í upphafi máls míns, er ástæða til að gera það, vegna þess að það, sem nú er að gerast, stendur í nánu sambandi við það, sem gerðist í fyrrv. ríkisstj. Ég ætla samt sem áður að sleppa því að rekja það, þangað til kemur að því atviki, sem má telja að sé frumástæðan til þess, að við erum nú að ræða þær ráðstafanir, sem hér liggja fyrir.

Þegar efnahagsráðstafanirnar voru gerðar vorið 1958, þá var enginn efi á því, að það var rétt stefnt, þessar ráðstafanir gengu í rétta átt. Það var rétt stefnt, og bezti vitnisburðurinn um þessar ráðstafanir er — án þess að ég nefni sérstök nöfn — frá þeim mönnum hér í þessu landi, sem mest hafa fengizt við það að reyna að skýra fyrir þjóðinni, hvað gera þyrfti í efnahagsmálunum til þess að ná eðlilegu jafnvægi. Það var engin dul dregin á það af þessum sérfræðingum, sem skrifuðu um ráðstafanirnar vorið 1958, að svo var og það, sem var eitt meðal annars, sem var eðlilegt og skynsamlegt í þessum ráðstöfunum, var 55% yfirfærslugjaldið. Þessar ráðstafanir, þó að þær væru ekki gerðar að öllu leyti eins og þessir efnahagssérfræðingar, sem reiknuðu fyrir okkur dæmið og aðrir, sem að þeim stóðu, höfðu ráðlagt, þá var það samt í höfuðatriðum og það, sem var eitt af stærstu atriðunum í þessu máli, var það, að auk þess sem náðist jafnvægi, þá voru í þessum efnahagsráðstöfunum sett ákvæði, sem leiðréttu misræmi á erlendu og innlendu verðlagi og leiðréttu misræmi á þeim vörum, sem við kaupum til landsins. Menn eru svo uppteknir af því að ræða um það, hvort þetta eða hitt hækki, hvort vinnustéttir og bændur eigi að fá þessa eða þessa hækkun, að mönnum sést meira og minna yfir þessar ráðstafanir, þessi ákvæði frv., sem voru meginatriði þess til þess að ná jafnvægi í efnahagsmálum og gjaldeyrismálum. En þessi spor í rétta átt ollu eðlilega hækkunum, um leið og var leiðrétt misræmi á vörum, sem við flytjum til landsins. Ég get nefnt dæmi sem enginn vænir mig um að ég sé sérstaklega að nefna í hlutdrægum tilgangi, — við skulum segja fóðurbætir. Við skulum líka nefna alls konar vélar til lands og sjávar, svo að nokkur dæmi séu nefnd. Það er vitað mál, það duldist engum og enginn veit það betur en hæstv. forsrh., að gjaldeyriseftirspurnin eftir þessum vörum á frjálsum markaði var orðin svo geysileg, að það var alveg bersýnilegt, að fjármálakerfið gat ekki staðizt. Ég fer ekki nánar inn á þetta, en afleiðingin af þessu var sú, að um leið og þetta var rétt og stórt spor, þá var jafnframt auðvelt vegna þessara hækkana og fyrir þá, sem vildu beita sér gegn ríkisstj., að hefja áróður, sem var líklegur til þess að fá eyru fjöldamargra í þessu landi, þar sem þetta er allt í hækkunarátt, o. s. frv.

Það var enginn efi á því, að þessar ráðstafanir gerðu það auðvelt, þó að þær væru réttar, að koma við áróðri í þessa átt og hann var sannarlega ekki sparaður. Það er enginn efi á því, að þessi áróður hafði djúptæk áhrif og þau áhrif, sem ég er ekki farinn að sjá að núverandi hæstv. ríkisstj. sé alls kostar laus við. Það er vonandi, að svo sé. En það var bersýnilegt, að ástæðurnar til þessa áróðurs voru tvenns konar. Hann var vegna stöðugs áróðurs Sjálfstfl. um kauphækkanir og stöðugs áróðurs vegna hækkana, sem urðu, og kauphækkana, sem þyrftu að verða. Það þarf ekki að ræða það mál. Það er allri þjóðinni kunnugt. Þessi áróður olli því, að það greip hræðsla um sig bæði í Alþfl. og í Alþb. um sitt verkamannafylgi, því að hvað sem hver segir, þá er það nú svo, að það er auðveldara að segja við verkalýðinn eða hvern sem er: Ég býð þér 20 kr., ja, ég býð þér 30 kr., þegar annar býður 20. — Það er auðveldara að bjóða 30 og ef það er sagt hvað eftir annað og mönnum sagt hvað eftir annað, að fyrir því sé grundvöllur, þá er nokkurn veginn víst, hvorum megin fylgið fellur. Sérstaklega er það alveg augljóst, ef bilar sá meginþáttur þeirra flokka, sem stóðu með stjórninni, að standa að því sem einn maður og sýna mönnum fram á sannleikann í þessum málum, enda er enginn efi á því, að þegar atkvgr. fór fram um efnahagsráðstafanirnar vorið 1958, þá hafði þessi áróður og þessi hræðsla að sumu leyti borið þann árangur, að ráðstafanirnar voru samþ. með eins atkv. mun og margir af þeim mönnum, sem hafa mikil áhrif í verkalýðshreyfingunni, jafnvel meginhluti þeirra, voru andvígir ráðstöfununum frá 1958.

Þarna blandaðist saman þessi geigur og jafnframt það, að andstæðingarnir, sem höfðu alltaf verið í tveimur flokkum, sem stóðu að ríkisstj., sáu sér þarna færi, þeir sáu sér þarna leik á borði. Og enginn þekkir það betur en ég, að það gengur á ýmsu í stjórnmálum og þeir hafa sjálfsagt talið það hyggilegt og rétt að nota sér þetta tækifæri, — ég skal ekkert um það dæma — og sjálfsagt að einhverju leyti talið eða öllu leyti talið, að þó að þeir vissu, hvað þeir voru að fara og þeir voru í raun og veru að segja fólkinu það, sem þeir vissu sjálfir að var ekki satt, — ég leyfi mér að segja svo mikið og ætla mér að rökstyðja það hér strax á eftir, — þá hafa þeir talið sér það leyfilegt, vegna þess að góður tilgangur hefur helgað í þeirra augum það meðal. En það var enginn vafi á því, að hér var slíkt á ferðinni, að ekki var þetta sagt öðruvísi, en gegn betri vitund, a. m. k. af sumum, því að í hinni margumtöluðu grg. stóð það, sem er vert að veita athygli, vegna þess að það er ekki undirskrifað af einum ráðh. eða tveim ráðherrum, það er undirskrifað af allri ríkisstj., öllum ráðherrunum sex, — það er sagt í grg. beinlínis, að kaupið megi ekki hækka meira en um 5%. Ef það gerist, þá er það rökstutt svo greinilega sem verða má, að af því leiði það, að aftur komist á jafnvægisleysi, leiði af sér hækkanir, vísitöluhækkanir o. s. frv., sem leiði af sér, að það þurfi að afla frekari tekna,og þarf ég ekki að tefja á því að lesa þessa grg., því að hún hefur verið lesin það oft hér á hv. Alþ. og birt í blöðum. Og það er sagt meira heldur en þetta, allir ráðherrarnir segja sem einn maður: Við gerum okkur ljóst, að vísitöluna þarf að endurskoða fyrir 1. des. næsta ár. Ef það er ekki gert, þá er hætta á ferðum. — Þetta undirskrifuðu allir ráðherrarnir og þetta var samkv. útreikningum þess hagfræðings, sem hafði gengið frá grundvallarútreikningum, sem efnahagsráðstafanirnar byggðust á og voru margendurskoðaðir í fleiri vikur af þeim ráðherrum, sem að lokum skrifuðu undir þetta efni grg.

En það er nú einu sinni svo, að þegar andstæðingarnir vissu, að þarna var Akkilleusarhællinn, þarna var hægt að vinna á stjórnarsamstarfinu, þá var það beinlínis notað í þeim tilgangi, sem við vitum og með þeim árangri, að sá tilgangur náðist.

Ég ætla ekki að rekja þetta atriði hér, því að ég lofaði að fara sem fljótast yfir sögu. En afleiðingarnar urðu þær, sem margtekið hefur verið fram hér á Alþ., þvert á það, sem efnahagsráðstafanirnar gerðu ráð fyrir að mætti koma fyrir.

Kauphækkanirnar fram yfir þetta urðu miklar og þegar efnahagssérfræðingur ríkisstj., Jónas Haralz, endurskoðaði þessar ráðstafanir s. l. haust, þá komst hann að þeirri niðurstöðu í höfuðatriðum, að ef kauphækkanirnar væru í meginatriðum teknar til baka, þá væri hægt að halda jafnvæginu, — það væri hægt að halda jafnvæginu, vegna þess að þau vísitölustig, sem þyrfti þá að greiða niður, fyrir því þyrfti það lítilla tekna að afla, að það mundi vera hægt að gera það án þess að íþyngja almenningi. Og þegar Sjálfstfl. fékk þessi skjöl og lét sinn sérfræðing endurskoða þetta í fleiri daga, viku eða tíu daga, það hefur verið sagt hér, það er ástæða til að leiðrétta það, ég hef ekki nennt að vera að leiðrétta það, — ég sagði Sjálfstfl., þegar hann bað um þessi skjöl, að það væri alveg sjálfsagður hlutur, bara einhver dráttur á því, að efnahagssérfræðingarnir hefðu þetta til og forsetinn hringdi til mín og spurði, hvort það væri ekki hægt að reka á eftir því, ég gerði það. Það lá alveg í hlutarins eðli, að flokkur, sem ætlaði að mynda stjórn, fengi þessi skjöl, svo að það var ekki á því nein tregða. En þegar þessi skjöl voru skoðuð og nýir útreikningar gerðir, þá komst Sjálfstfl. að þeirri niðurstöðu, að það, sem þyrfti að gera, væri það að taka aftur kauphækkanirnar, sem flokkurinn ásamt stjórnarandstöðunni í hinum flokkunum hafði beitt sér fyrir s. l. sumar. Og hann segir meira í þessum yfirlýsingum sínum, hann segir, að þá sé hægt að ná jafnvægi, að vísu segir hann: fyrst um sinn eða til bráðabirgða, svo þurfi að gera, eins og hann orðar það síðar í tillögunum, gengisbreytingu síðar.

Það getur vel verið, að það sé hægt að fara með almenning á þennan hátt. Það getur vel verið, að það sé hægt, og það getur vel verið, að það borgi sig. Ég þekki ekki svo til, að ég ætli að fullyrða neitt um það, hverjar afleiðingar slíkt hefur. En einkennilegt má það vera, ef það á ekki eftir að draga dilk á eftir sér, þegar búið er að segja mönnum það í allt sumar við kosningar fulltrúa til Alþýðusambandsþings, að það, sem nú sé um að gera að framkvæma það, sem mestu skipti fyrir verkalýðinn, sé að hækka kaupið og koma svo til sömu manna og segja við þá: Nei, þetta var allt saman tóm vitleysa, þetta var allt ósatt, sem ég sagði ykkur. Einasta ráðið til þess að ná jafnvægi og forða ykkur frá atvinnuleysi er að taka allt til baka, sem við sögðum ykkur í sumar að þið ættuð að fá. — Og þegar það er tekið til baka, þá er ekkert undarlegt, þó að fólk, sem farið er með á þennan hátt, eigi erfitt með að trúa því, sem er sagt núna, fyrst þeim var sagt í allt sumar, að það væri nauðsynlegt að hækka kaupið, sem var vitanlega gert í ákveðnum tilgangi, pólitískum tilgangi, en núna er sagt, að það, sem mest á ríður fyrir hag þess, sé að taka það allt saman aftur. Hvernig er raunverulega hægt að ætlast til þess af þeim vinnustéttum, að þær trúi þessu? Ég veit það ekki. Það getur vel verið, að það lánist, en ekki þætti mér það einkennilegt, þó að það ætti eftir að draga dilk á eftir sér.

Það hefur verið rakið svo greinilega hér, hvernig þetta stóð s. l. haust, að ég sé ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um það. En vekja má athygli á því einu sinni enn, að fyrrv. ríkisstj. fékk loforð fyrir því, margendurtekið loforð, og á því var byggt, að Alþýðusambandsþingið kæmi saman óvenjulega snemma og hefði lokið störfum svo snemma eða það tímanlega í nóvembermánuði, að það væri hægt að semja við Alþýðusambandsstjórnina, áður en vísitöluskrúfan færi af stað 1. des. Þetta var beint loforð og samningar. Okkur var tjáð, að vegna veikinda forseta Alþýðusambands Íslands, Hannibals Valdimarssonar, hefði ekki verið hægt að semja þá skýrslu, sem hann þurfti að leggja fyrir Alþýðusambandsþing, aðrir hefðu ekki getað gengið í það verk heldur en hann og þess vegna hefði Alþýðusambandsþingið ekki verið kallað saman fyrr en 25. nóv. eða svo seint, að fyrirsjáanlegt var, að útilokað var að ræða við Alþýðusambandsþingið og nýja stjórn Alþýðusambandsins um vandamálið.

Það hefur oft verið talað um, að það hefði í sjálfu sér kannske verið fráleitt að biðja Alþýðusambandsþingið um þann frest, sem ég óskaði eftir. Í mínum augum var ekki aðeins sjálfsagt, heldur skylt að gera það, þar sem þeir flokkar, sem stóðu að ríkisstj., sumir, settu það fyrst og fremst að skilyrði og þar sem þeir settu það að skilyrði, þá varð vitanlega ekki hjá því komizt, enda hafði verið lofað að vinna með alþýðusamtökunum og vinnustéttunum í heild, þannig að ríkisstj. ráðfærði sig við þau um þau hagsmunamál, sem verkalýðinn snertu og vinnustéttirnar.

En ég get sagt það hér, að það var enginn efi, að mér virtist, í hugum nokkurs af meðráðherrum mínum um það, að það yrði auðsótt mál hjá Alþýðusambandsþingi að fá þann frest, sem beðið var um, ekki sízt þar sem það lá fyrir, að það loforð, sem hafði verið gefið um að halda Alþýðusambandsþingið fyrr, hafði ekki verið hægt að standa við, og það var ekki talinn neinn vafi á því hjá neinum í ríkisstj. að, að sjálfsögðu yrði þessi frestur veittur.

Ég skal svo ekki rekja það nánar. Það hefur sjálfsagt skort ýmislegt á, að ég gerði Alþýðusambandsþinginu grein fyrir því, hve nauðsynlegt var að fá þennan frest og hve mikils var um vert, að það væri hægt að tala saman, áður en nýja dýrtíðaraldan skylli yfir. En ef það hefur eitthvað skort á það hjá mér, þá er ég viss um, að það hefur ekkert skort á það hjá Jónasi Haralz, efnahagssérfræðingi ríkisstj., því að hann flutti þar mjög ýtarlega ræðu fyrir Alþýðusambandsþinginu um nauðsyn þess, að þessi frestur væri veittur og það væri til hagsmuna fyrir vinnustéttirnar fyrst og fremst.

Það þarf ekki að rekja það, að þessu var neitað, vegna þess að þeir töldu sig ekki hafa umboð á Alþýðusambandsþingi. En það er náttúrlega dálítið einkennilegt að hafa umboð til að neita, en hafa ekki umboð til að samþykkja, hafa umboð til þess að gera tillögur rétt á eftir í efnahagsmálunum, sem eru það bindandi, að útilokað var, að ríkisstj. gæti setið, eftir að þær till. voru samþ., til þess höfðu þeir umboð.

Það hefur verið talað um það og var mikið talað um það í umr. hér í hv. Nd., og þess vegna minnist ég á það, að það sé furðulegt, að ekki skyldu vera lagðar tillögur fyrir Alþýðusambandsþingið af ríkisstj. — Fyrst og fremst var það nú þannig, að þeir flokkar, sem unnu með Framsfl. í ríkisstj., vildu ekki fallast á þær till., sem hann bar fram og þess vegna var ekki hægt að bera þær till. fram, en samstarfsflokkarnir vildu ekki leggja fram neinar till., fyrr en þeir hefðu fengið að vita, að hin nýja sambandsstjórn hefði verið kosin og þeir gætu ráðfært sig við hana um það, hvaða efnahagstillögur yrðu samþ.

Ég get aðeins skotið því hér inn í, að ég heyrði í umr. í gær, ég held, að það hafi verið í útvarpsumræðunum, hv. 1. þm. Reykv. (BBen), sem talaði um, að það væri alveg furðulegt einmitt, að þessar till. skyldu ekki vera lagðar fyrir Alþýðusambandsþingið. Ég hef nú gert grein fyrir því, vegna hvers það var ekki hægt. En svo að segja í sömu andránni eða rétt síðar minntist hann á tillögurnar, sem Alþýðusambandsþingið hefur gert, og segir, að það megi nú nærri geta, hvaða vit hafi verið í þessum till., sem svona fjölmenn samkunda hafi samþ. og ekki haft ástæðu til þess að kynna sér málin.

Ætlun okkar var vitanlega sú og það eðlilega, að Alþýðusambandsþingið kysi sína fulltrúa, hvort sem það hefði nú verið nýja Alþýðusambandsstjórnin ein eða með allmörgum öðrum, eins og hafði tíðkazt áður, því að nítján manna nefndin hafði einmitt verið kosin til þess að ræða þessi mál og gat þá hið nýja Alþýðusambandsþing kosið nægilega marga fulltrúa með Alþýðusambandsstjórninni til þess að ræða efnahagsmálin við ríkisstj., á sama hátt og gert hafði verið áður. Það var vitanlega eina leiðin. En það er vitað mál, að þessar till., sem voru samþ. á Alþýðusambandsþingi og þegar vitað er, hverjir að þeim stóðu, hverjir sömdu þær, því að þær eru samdar löngu fyrir Alþýðusambandsþing, svo mikið fylgdumst við með, þær voru samdar af stjórnarandstæðingunum í báðum flokkunum, Alþfl. og Alþb., þeim mönnum, sem höfðu verið mest á móti ráðstöfununum s. l. vor og þannig voru þær barðar í gegn.

Það var þess vegna komið á daginn, að þeir menn, er voru í meiri hl., höfðu náð undirtökunum í þessum flokkum, sem voru andstæðir ríkisstj., og samþ. till., sem lokuðu öllum leiðum fyrir henni í þessu máli, eins og komið hefur greinilega fram í þessum umr. og þarf ekki að rekja nánar. Ágreiningurinn, sem fyrir lá, hefur komið svo greinilega fram m. a. í umr. í hv. Nd., í blöðum og í útvarpsumræðunum í gær, að það er alveg óþarfi að vera að rekja það, en skiptir náttúrlega ekki máli, þó að það hafi jafnframt komið í ljós, að sumir af þeim mönnum, sem voru með því á Alþýðusambandsþingi að loka öllum leiðum til samkomulags um nokkra minnstu eftirgjöf á vísitölu og grunnkaupi, þeir voru frakkastir í því að samþ. það, eftir að ríkisstj. er farin. Það sýnir náttúrlega greinilega og svo að ekki verður villzt um, af hvaða toga þessi vinnubrögð á Alþýðusambandsþingi af þeirra hálfu a. m. k. eru.

En það, sem nú á að gera, — ég ætla að sleppa hér hugleiðingunum um tilraunir til stjórnarmyndunar, — það, sem núna á að gera, er bersýnilega það að taka aftur svo að segja alla kauphækkunina, sem barizt var fyrir af þessum flokkum s. l. sumar og þannig á að ná jafnvæginu. Þetta eru nú út af fyrir sig einstök vinnubrögð, sem þjóðin á sjálfsagt eftir að dæma. Það hefur að visu verið sagt í þessum umr., að Sjálfstfl. hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að útlitið sé nú verra, en þegar hann gaf út efnahagsmálaályktun sína um, að 6% kauplækkun, sem var barizt fyrir í sumar, það væri nóg að taka hana aftur, því að þá næðist jafnvægi fyrst um sinn. Hann segir, að útlitið hafi verið lakara, þegar hann hafi farið að athuga það. En heldur verður nú lítið úr þessari röksemdafærslu, þegar þess er gætt, að síðan hafa þeir uppgötvað, að hjá þessum óreiðumönnum, sem eru óreiðumenn eitthvað nýrrar tegundar, eftir því sem var litið á þetta í minni sveit, þegar ég var að alast upp, og reyndar síðan hjá fólki almennt, óreiðan er sú, að það munu finnast 50–70 millj. í tekjuafgang, — þetta hefur nú fundizt, síðan þeir komust að þeirri niðurstöðu, að það þyrfti ekki að falla frá nema kaupgjaldinu, sem þeir spenntu upp í sumar, þá væri hægt að ná jafnvægi. Síðan hefur það komið í ljós, að það er tekjuafgangur, eftir því sem þeir álíta, frá 50–70 millj. Að vísu er það ekki upplýst enn þá, tekjuafgangurinn er nokkur, en hvort hann er það, það er náttúrlega óupplýst mál, en því reikna þeir þó með og það sé hægt að nota eðlilega mikið af þessum tekjuafgangi til þess að greiða niður dýrtíðina. Enn fremur hafa þeir komizt að þeirri niðurstöðu, að hjá þessum sömu óreiðumönnum, sem mér skilst nú að sé aðallega fjmrh., að vísu hygg ég, að ég hafi hlotið þá sæmd að vera talinn með annað slagið, — þá hafa þeir fundið það, að það sé hjá þessum óreiðumönnum svo varlega áætlað, að það sé hreinasta vanvirða, hvernig mennirnir hafa áætlað, þeir hafa áætlað svo varlega, að það sé hreinasta vanvirða, því að það muni muna allt að 80 millj., sem þeir hafa áætlað of varlega. Og það seinasta, sem hefur fundizt, er það, að það séu svo miklar fiskbirgðir, að þær séu um 70 millj. meiri, að mér skilst, heldur en í fyrra, og það standi meira að segja þannig af sér, eftir því sem manni skilst á umr., að þessi fiskur sé allur seldur, svo að það stendur ekki á því að fá fyrir hann andvirðið.

Þeir hafa fundið þá þarna, eftir því sem mér skilst, eitthvað á þriðja hundrað milljóna, síðan þeir komust að þeirri niðurstöðu, að allt væri í bezta lagi, ef það væru teknar aftur kauphækkanirnar, sem þeir spenntu upp í sumar og þá væri náð jafnvægi, — en síðan hafa þeir fundið eitthvað á þriðja hundrað milljóna, eftir því sem þeir lýsa sjálfir. Það er hvorki meira né minna.

Það má kannske telja, að það sé tiltölulega meinlaus pólitískur leikur að nota fólkið í landinu, sérstaklega launastéttirnar, sem leiksopp á þennan hátt, sem gert er og gert hefur verið í sumar og gert er með því framhaldi, sem við höfum síðan horft á og það sé sagt: Ja, það gerir ekkert til, þó að það sé dansaður þessi Óla skans-dans, að hækka kaupið og hlaupa svo til baka aftur og taka það af þeim, það getur vel verið, að það sé meinlaust og vinnustéttirnar taki því öllu með þögn og þolinmæði og trúi þeim mönnum, sem segja núna: Við sögðum ykkur ósatt í sumar, það byggist allt á því, við sögðum ykkur ósatt í sumar og þess vegna þarf að taka það til baka. — En er þá ekki hugsanlegt, að sá sami verkalýður láti sér detta í hug, að það sé eins sagt ósatt núna, eins og þeir játa, að þeir hafi sagt ósatt s. l. sumar? Og leikurinn er alls ekki eins meinlaus og menn halda. Það eru taldir upp 26 liðir, það eru aðeins fáir liðir af þeim, sem þarf að lækka, 26 liðir eru taldir upp nýlega í Alþýðublaðinu, sem á að lækka núna vegna lækkananna. Það eru aðeins örfáir liðir fjöldamargra í þjónustu og vöruverði, sem á að lækka.

Mér er sem ég sjái það, þó að stjórnin væri öll af bezta vilja gerð, þegar hún er búin að snúa þessum 26 hjólum og óteljandi hjólum öðrum, snúa þeim á þann hátt, sem mjög erfitt er að gera, gegn sjálfshyggju hvers og eins, sem lækkunin snertir. Það verður erfitt verk. En í þessu atriði er einmitt það alvarlega, að það er ekki hægt að hlaupa upp með verðlag, spana fólk til þess að hækka kaup og verðlag og segja svo við það: Ja, bara ef það er tekið aftur af ykkur allt saman, þá er allt í lagi. — Það er ekki í lagi. Ég fullyrði það og er viss um, að hæstv. forsrh. gerir sér það fyllilega ljóst af þeirri reynslu, sem hann hefur af þessum málum og raunverulega hver einasti þm. hér á Alþingi gerir sér það ljóst, að þetta eru erfiðleikarnir við að hækka og lækka síðan aftur kaupið. Hækkanirnar eru komnar inn í fjöldamargt, að því er snertir verðlag á þjónustu og vörum, og það er erfitt að ná því til baka. Fólkið verður verr sett, en ef það hefði aldrei hækkað. Það er það alvarlega.

Í því sambandi ætla ég ekki að nefna nein sérstök dæmi, enda þarf þess ekki, því að þetta atriði gerir hver einasti maður sér ljóst, bæði utan þings og innan, sem hugsar um þessi mál.

Ég vil svo benda á annan megingallann í þessu öllu saman og sá galli er, auk þess sem ég hef nú nefnt, að það er hætt við því, að til þess að uppfylla þessi loforð um niðurgreiðslu á vísitölustigum, loforð um greiðslur úr útflutningssjóði, loforð um greiðslu á nokkrum stigum enn, það er að vísu ekki vitað, hvað þau verða mörg, hæstv. forsrh. segir, að þau séu 1–3, það er undir því komið, hvað tekst að koma vöruverði og þjónustu niður til 1. marz, hvað þau verða mörg, allt þetta bendir til þess, að þó að hæstv. ríkisstj. reikni, eftir því sem mér skilst, með 170–180 millj., það er það, sem niðurgreiðslurnar og greiðslur úr útflutningssjóði kosta, þá eru margir póstar enn þá duldir, sem enginn veit enn þá hvað kosta, t. d. það, sem ég minntist á áðan, niðurgreiðslurnar og ýmislegt fleira, sem hefur verið nefnt í þessum umr., og gallinn á þessu öllu saman er náttúrlega sá, að botninn í þessu öllu saman er suður í Borgarfirði. Það er ákaflega auðvelt mál og það auðveldasta, sem til er í heiminum, að lofa svo og svo miklum greiðslum úr útflutningssjóði og semja um það, lofa niðurgreiðslum, greiða niður og lofa niðurgreiðslum á dýrtíð, en enn þá hefur ekki verið tekið á neinum vanda nema þeim, sem hér liggur fyrir, því að það má segja, að fráfall af tíu vísitölustigum er sparnaður á útgjöldum. En að öðru leyti er alveg eftir að fást við það, sem er meginatriði málsins og það er það, hvernig á að standa við þessar skuldbindingar. Það hafa alltaf verið erfiðleikarnir í þessum efnahagsmálum og ég held, að það séu engar ýkjur, að það hafi a. m. k. alls ekki verið sannað eða færðar að því nægilegar líkur, að það hafi verið séð fyrir þessari hlið. En það er raunverulega meginmálið og því miður finnst mér þetta benda til þess að hafa þann keim, að hér eigi að leysa málin álíka og 1942 og geti farið með þau eitthvað svipað og 1942, þótt að ýmsu leyti sé öðruvísi að þessu farið, það eigi að veita þessu á framtíðina og fram yfir tvennar kosningar. Það sýnist mér vera öll einkennin á þessu máli. Þetta kemur vitanlega betur í ljós, þegar önnur atriði málsins verða rædd og skal ég ekki fjölyrða frekar um það, þó að þetta sé í mínum augum og náttúrlega allra, sem athuga þessi mál, meginatriðið.

Ég vil ekki ljúka þessari umr. án þess að minnast á það misrétti, sem landbúnaðurinn verður fyrir í þessu frv. Það má að vísu segja, eins og hefur verið sagt í þessum umr. réttilega, að landbúnaðurinn hefur ekki fengið þær hækkanir, er snerta kaupgjald bóndans, nema einu sinni á ári. Það var sett inn í lög hér fyrir sjö árum, ef ég man rétt og átti þá að vera eins konar hamla, það var sett inn, þegar gengisbreyting var gerð, átti að vera hömlur á hækkun á vexti dýrtíðarinnar. Við þetta hafa þeir búið, — það er alveg rétt, sem hefur komið fram í þessum umr., — við þetta hafa þeir búið og það hefði engum dottið í hug, a. m. k. hefði ég ekki álitið það rétt, að þessu yrði hreyft, ef ekki væru hreyfðar aðrar stéttir, sem bjuggu áður við sama kost og landbúnaðurinn. Fiskverðið var óhreyfanlegt frá hausti yfir allt árið. Nú eiga samningar, að því er skilja má, að falla úr gildi og endurskoðast, ef það hækkar grunnkaup eða vísitala og það á náttúrlega að takmarka það, og jafnframt eru ákvæðin, sem ekki hafa verið áður, um breytingar á fiskverði eftir vísitölu. Þá er vitanlega ekkert eðlilegra, fyrst sjómenn og útgerðarmenn eru látnir búa við þessar reglur, en landbúnaðurinn sé látinn búa við þær líka. Ef hvorugt hefði verið gert og útgerðarmenn búið við það sama og þeir hafa búið við áður og fiskimenn búið við það sama sem þeir hafa búið við áður, þ. e. a. s. sama og landbúnaðurinn, þá hefði ekki verið ástæða til þess að hreyfa þessu. En það er alveg fráleitt að ætla að láta eina stétt búa við annan kost, en hinar stéttirnar og má þá minnast þess, sem einhverju sinni hefur verið sagt, að misrétti er alltaf versta ranglætið.

Eins er það, þegar byrjað er á því að hafa vísitölu 100 sem eins konar grunn 1. marz, þá er alveg eðlilegt, að menn séu, þegar sá grundvöllur er myndaður, eins settir. En það er vitað mál, að það var gert, — ég er ekki að segja, að það hafi verið gert af hrekk, en sá óvanalegi atburður gerðist, þegar Dagsbrún hækkaði s. l. haust, þá hækkaði hún þvert á móti því, sem venjulega hefur verið, beið þangað til landbúnaðarverðið var ákveðið og hækkaði um á fjórða prósent meira, en gert var ráð fyrir í landbúnaðarverðinu.

Það eru að sjálfsögðu bornar fram brtt. um þau atriði, sem nauðsynlegt er, til þess að landbúnaðurinn standi eins að vígi og hinar stéttirnar og geri ég ráð fyrir því, að það fari öðruvísi atkvgr. um það en í hv. Nd., því að ég get ekki skilið, hvernig menn geta varið það að láta eina stétt vera verr setta en aðra, vegna þess að það má líka fullyrða það, án þess að ég sé að nokkru leyti að telja það eftir og fara inn á röksemdir um það, sem þó væri að ýmsu leyti þess vert, að við framsóknarmenn höfum alltaf viðurkennt, að niðurgreiðslur geti verið þarflegar, réttlátar og eðlilegt að nota þær, en við höfum hins vegar alltaf bent á það, að þegar þær eru komnar yfir visst magn, þá eru þær af mörgum ástæðum mjög hættulegar, af mörgum ástæðu, og þar á meðal er það, að því er svo háttað núna í þessum niðurfærslum og niðurgreiðslum, að t. d. er kjötverð komið langt niður fyrir það, sem er í grundvellinum og bændurnir eru þess vegna þeir, sem neyta langdýrasta kjötsins, dýrustu mjólkurinnar og dýrustu kartaflnanna, þeir fá ekki tekið til greina nema það, sem þeir nota af saltfiski og smjörlíki. Ég ætla ekki að gera þetta sérstaklega að umtalsefni, en ég bendi á það, að þeir verða öllu verr úti, en aðrir. Látum svo vera, en þá er óþarfi að bæta því ofan á að láta þá að öðru leyti vera verr setta, en allar aðrar stéttir í þessu frv., fyrst leiðrétting er á þessu gerð gagnvart útgerðarmönnum og sjómönnum.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál að þessu sinni og reyna í umr. að vera það stuttorður sem ég sé mér frekast hægt, til þess að þetta mál geti orðið afgreitt fyrir þann tíma, sem hæstv. forsrh. benti á og gert er ráð fyrir í frv.