09.05.1959
Sameinað þing: 46. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1923 í B-deild Alþingistíðinda. (2352)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af niðurlagsorðum hæstv. forsrh. Við töldum alveg sjálfsagðan hlut í Alþýðusambandinu fyrstu vikurnar og mánuðina, eftir að málið hafði verið kært til sambandsins, að fram færi rannsókn á öllum málavöxtum. Það var gert. Síðan hófust bréfaskipti milli lögfræðings Alþýðusambandsins og varnarmálanefndar, og varnarmálanefnd hafði síðan, þegar hún kom málinu ekki fram, samband við hæstv. utanrrh. þáv., þann sama og nú. Hann taldi, að málið þyrfti að komast í harðari hnút ,en það væri þá komið, til þess að hann gæti gripið til róttækra ráðstafana til þess að rétta þetta mál. En nú tel ég málið vera komið í það óefni, að einmitt utanrrh. þurfi að horfast í augu við það, að annaðhvort verði gerðar af verkalýðsfélögunum ráðstafanir til stöðvunar á aðflutningi til vallarins eða — sem ég teldi æskilegra — að málinu yrði kippt í lag, t.d. af ambassador Bandaríkjanna hér á landi, sem stundum hefur gripið inn í mál, þegar yfirmenn vallarins hafa synjað um íslenzkan rétt að lögum. Málið hefur verið sem sé á döfinni nú til skamms tíma, og aðaluppgjörið í varnarmálanefnd hefur farið fram nú fyrir skemmstu og okkur fyrir fáum dögum borizt vitneskja um niðurstöðuna, sem er synjun af hendi ameríska hluta n., en full afstaða tekin með Jóni Magnússyni og áðurnefndum stúlkum af hinum íslenzka hluta varnarmálanefndar.