04.02.1959
Sameinað þing: 24. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1933 í B-deild Alþingistíðinda. (2363)

Landhelgismál

Dómsmrh. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. spyrst fyrir um það, hvað íslenzka ríkisstj. hyggist gera út af atviki því, sem gerðist nú á dögunum fyrir Austurlandi, þegar brezk herskip hindruðu íslenzkt varðskip við gæzlustörf, og skipin öll þrjú, þ.e.a.s. brezki togarinn, sem þarna var um að ræða, ásamt brezku herskipi og íslenzku varðskipi, bíða enn átekta á þeim sjóðum.

Ég get ekki svarað þessu á aðra lund en þá að, að svo komnu sýnist ekki um að ræða annað í bili, en að bíða átekta. Það er gert ráð fyrir, að úr þessu verði skorið alveg á næstunni, — er e.t.v. búið á þessari stundu, ég veit það ekki, það var ekki búið um hádegisbil. Úr því verður skorið á næstunni, hversu með þetta mál fer, hvort herskipið sleppir togaranum við varðskipið ellegar það hindrar, að íslenzk lög nái yfir hann að ganga. Að svo komnu hafa ekki verið teknar ákvarðanir um aðgerðir í þessu máli, heldur bíða átekta og sjá, hvernig þessum þætti málsins lyktar, sem hlýtur að verða innan mjög skamms tíma og væntanlega í dag.