04.02.1959
Sameinað þing: 24. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1934 í B-deild Alþingistíðinda. (2365)

Landhelgismál

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég vil mjög taka undir það, að haft verði samráð við utanrmn. og þar með alla flokka um þetta mál. Því miður hafa áður fyrr orðið á því verulegir misbrestir, og skal ég ekki rekja þá sögu nú, en ástæðulaust er að gleyma því. En nú er að gæta þess, að slíkir misbrestir verði ekki í framtíðinni.

Ég vil einnig minna á, að í haust, þegar þessu ekki ósvipað atvik kom fyrir, e.t.v. að sumu leyti alvarlegra, en þannig, að þetta minnir mjög á það, þá lögðum við sjálfstæðismenn til, að á því máli yrði höfð ákveðin meðferð, sem því miður tókst ekki samkomulag um. Ég tel mjög líklegt, að ef þá hefði verið farið að okkar ráðum, hefði ekki komið til þessa atviks nú. Það tjáir ekki að sakast um það, en því meiri ástæða er til að íhuga nú allir í sameiningu, hvað gera þurfi og hvað gera skuli til þess að forða vandræðum í framtíðinni, og tek ég því mjög undir þá áskorun, að allra flokka samráð verði haft um málið, og þá er eðlilegast, að það sé gert í utanríkismálanefnd.