29.01.1959
Efri deild: 59. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í B-deild Alþingistíðinda. (237)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Eggert Þorsteinsson:

Herra forseti. Af eðlilegum ástæðum hefur mönnum orðið tíðrætt um frv. hæstv. ríkisstj. um niðurfærslu verðlags og launa við þær umr., sem fram hafa nú farið hér á hv. Alþingi. Það væri vart ofmælt, þótt sagt sé, að þjóðin hafi fylgzt með þessum umr. með eftirvæntingu. Er beðið úrslita málsins jafnt af stuðningsmönnum málsins og andstæðingum þess. Öll dagblöð bæjarins hafa undanfarið flutt forsíðufréttir af gangi mála hér og yfir útvarpshlustendur hefur dunið túlkun manna af öllum skoðanategundum.

Menn velta því þá fyrir sér, hvort ekki séu allir reiðubúnir til þess að taka afstöðu til málsins og hvort allir kostir lýðræðisskipulagsins hafi ekki verið að fullu nýttir.

Með ýtarlegum umr. nú verður vart mögulegt að leiða neitt nýtt í ljós, sem ekki hefur verið minnzt á áður. Hvað viðkemur einstökum atriðum sjálfs frv., þá vil ég aðeins vitna til hinnar greinargóðu framsöguræðu hæstv. forsrh.

Höfuðástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs nú við þessa 1. umr. málsins hér í hv. þd., eru ýmis atriði, sem fram hafa komið í umr. almennt um málið.

Eins og fram kom við framsögu málsins í hv. Nd., hafði fulltrúum ýmissa stéttasamtaka verið kynnt efni þessa fr. 4–5 dögum, áður en það var lagt fram og beinlínis eftir því óskað af hæstv. ríkisstj., að þessi samtök létu í ljós álit sitt á stefnu þeirri, sem frv. boðar. Jafnframt var boðað, að ríkisstj. mundi taka til velviljaðrar athugunar þær athugasemdir, sem rúmuðust innan þeirrar stefnu, er í frv. fælist. Flest þessara samtaka svöruðu bréflega, og kom þar fram, að ekki ríkti full eining um afstöðuna til málsins, en svör þessi er að finna í framsöguræðu hæstv. forsrh., er hann flutti fyrir málinu í hv. Nd. og hann minntist hér á áðan. Þessi svör stéttasamtakanna gerðu tveir hæstv. fyrrv. ráðh., Hannibal Valdimarsson og Eysteinn Jónsson, að sérstöku umræðuefni í Nd. og þá sérstaklega till. minni hl. miðstjórnar Alþýðusambands Íslands samkv. því, sem dagblöð hafa eftir þeim.

Höfuðathugasemd þessara ágætu þm. var, að flm. minnihlutaálitsins í miðstjórn Alþýðusambands Íslands væru þeir sömu sem barizt höfðu gegn því á síðasta þingi Alþýðusambands Íslands, að orðið yrði þar við tilmælum hæstv. þáverandi forsrh., Hermanns Jónassonar, um það, að fallið yrði frá 17 stiga vísitöluhækkun á laun í desember, sem þá var sýnilegt að ætti að koma. Þetta töldu þm. þessir og blöð þeirra mikla stefnubreytingu, ef ekki alger skoðanaskipti. En í fyrrnefndu minnihlutaáliti okkar, er skipuðum minni hl. í miðstjórn Alþýðusambandsins, var mælt með framgangi málsins að uppfylltum ákveðnum atriðum, sem nánar eru tilgreind og vikið skal að síðar.

Hæstv. fyrrv. félmrh. kryddaði svo þessa frásögn sína með því að lesa till. frá Múrarafélagi Reykjavíkur, sem fór mjög í sömu átt og forsendur Alþýðusambandsþings fyrir fyrrgreindri neitun á beiðni hæstv. þáverandi forsrh., en var samþykkt í félaginu á þingsetningardaginn með samhljóða atkv., en á Alþýðusambandsþingi daginn eftir með 295 atkv. þingfulltrúa gegn 38 eða um það bil 1/8 hluta þingsins.

Hverjar voru svo höfuðröksemdir þessara aðila þá, Alþýðusambandsins og Múrarafélagsins, og annarra þeirra, er létu í ljós skoðanir sínar? Er það ekki spurning, sem þessum hv. þm. væri hollt að rifja upp? Ef minnið í þessum efnum skyldi samt sem áður vera farið að sljóvgast um þessi mál, þá er rétt að rifja upp ástæðurnar, er til þessarar afstöðu lágu þá og voru vel rökstuddar.

Ég var vel kunnugur umr. þeim, sem fram fóru, áður en hin fyrrgreinda afstaða var tekin, enda viðstaddur á báðum stöðunum. Það fór ekki dult, að þann dag, 20. nóv. s. l., sem þáverandi forsrh. kvaddi okkur 4 fulltrúa úr alþýðusamtökunum á sinn fund og fór þess á leit, að við mæltum með samþykkt þessari um frestun eða stuðningi við hana á þingi Alþýðusambands Íslands, að þá var ekkert samkomulag innan ríkisstj. um, hvað gera skyldi. Þvert á móti var vitað um mikinn skoðanamun, sérstaklega á milli sjútvmrh. og fjmrh. þeirrar hæstv. stjórnar, ágreining um það grundvallaratriði, hvað háar fjárhæðir þyrfti til þess að leysa vanda útflutningssjóðs og ríkissjóðs. Reynslan frá síðustu ráðstöfunum fyrrv. ríkisstj. var og á þann veg, að það tók 7 mánuði að komast að endanlegri niðurstöðu um till. í efnahagsmálunum.

Alþýðusambandsþing og Múrarafélagið og aðrir þeir, er fjölluðu um þetta mál, tóku því fyrst og fremst afstöðu gegn því að veita slíkan frest án þess, að nokkuð annað fylgdi um framhaldið. Hæstv. þáverandi forsrh. gat af eðlilegum ástæðum ekki gefið nein svör við því, hver yrði endanleg stefna til úrlausnar, því að hann vissi manna bezt, að ekkert samkomulag var orðið um það atriði innan stjórnarinnar og óneitanlega heldur skuggalegt útlít um, að nokkurt samkomulag yrði. Það var undir þessum kringumstæðum, sem alþýðusamtökin neituðu um meðmæli með fresti á greiðslu 17 stiganna 1. des. Alþýðusamtökin neituðu m. ö. o. að skrifa upp á víxil, sem tölurnar vantaði á.

Af þessu, sem ég nú hef sagt, ætla ég það vera ljóst, hvers vegna afstaða alþýðusamtakanna varð sú, sem raun bar vitni.

Í dag liggja hins vegar ákveðnar till. fyrir um, hvernig ætlazt er til, að vandinn verði leystur og sýnist mönnum nokkuð sitt hvað jafnt innan alþýðusamtakanna sem utan þeirra.

Í sambandi við afstöðu verkalýðssamtakanna nú er rétt að minnast þess, að allt frá vinnudeilunni 1952 hefur verið óskorað meirihlutafylgi fyrir því innan verkalýðssamtakanna, að verðbólguþróunin yrði stöðvuð, þar sem vitað væri, að sú óheillaþróun kæmi verst og þyngst niður á launafólki. Allir hugsandi menn hafa og ekki gengið þess duldir, að slíkt átak mundi kosta fórnir. Forustumenn verkalýðssamtakanna hafa og eindregið hvatt til stuðnings við slíka stefnu. Birtar ræður og greinar um þessi efni skipta nú tugum. Ég hirði ekki um að vitna sérstaklega í greinar þessar eða ræður, það hafa dagblöðin gert nógu rækilega undanfarna daga. Á hitt vil ég minna, að einn afkastamesti forustumaður verkalýðssamtakanna um þessi efni er hæstv. núverandi forseti Alþýðusambandsins og fyrrv. félmrh. Hann hefur allt frá 1952 talið sig einn helzta forsvarsmann stöðvunar- og niðurfærsluleiðarinnar. Þau undur hafa nú hins vegar skeð, að í hv. Nd. hefur þessi sami maður farið með dylgjur um skoðanaskipti þess fólks, er skipaði eins atkv. minni hl. í miðstjórn Alþýðusambands Íslands, af því að það vildi styðja að framgangi þessa frv., sem er áreiðanlega stærsta og veigamesta skrefið, sem íslenzk stjórnarvöld hafa stigið til stöðvunar og niðurfærslu verðbólgu allt frá árdögum dýrtíðarflóðsins.

Þar sem hv. þm. hefur ekki aðstöðu til andsvara hér í þessari hv. þd., þá mun ég láta sögunni eftir að dæma, hvor aðilinn, hann eða við fjórmenningarnir í miðstjórn Alþýðusambands Íslands, hafi haft skoðanaskipti. Ég er óhræddur fyrir okkar hönd um þann dóm.

Í ágústmánuði 1956 fór hæstv. fyrrv. ríkisstj. fram á það við verkalýðssamtökin, að þau gæfu eftir 6 stig af vísitöluuppbótum, sem þá áttu að koma. Undantekningarlítið var þeirri ráðstöfun vel tekið, eins og hæstv. fyrrv. forsrh. gat um í ræðu sinni áðan og verkalýðssamtökin stóðu sem ein fylking um það atriði, fyrst og fremst vegna þess, að almenningur vildi, að þá þegar væri snúizt hart gegn verðbólguskrúfuganginum og hann stöðvaður. Þessi vísitöluskerðing var framkvæmd og meðlimir verkalýðssamtakanna ólu þá von með sér, að nú væri a. m. k. spyrnt við fótum og hlé yrði á árásum verðbólguvofunnar.

Á s. l. vori tel ég persónulega, að brugðizt hafi þessar vonir fólksins með stefnubreytingu þeirri, er frv. um útflutningssjóð tók. Eftir setningu þeirra laga töldu verkalýðsfélögin, að horfið hefði verið frá þeirri stöðvunarstefnu, sem verkalýðssamtökin hafa sífellt klifað á og margendurtekið frá 1952 og var aðalástæðan til þess, að samtökin studdu að ráðstöfununum í ágúst 1956.

Ég var af þessum ástæðum andvígur frv. um útflutningssjóð á s. l. vori, en er af sömu ástæðu meðmæltur samþykkt þessa frv., sem hér er til umr.

Höfuðröksemdir þær, sem fulltrúar kommúnista hafa beitt nú gegn frv. þessu eru tvenns konar:

1) Frv. boðar svo og svo mikla kauplækkun, sem þeim ber ekki alveg saman um, hve mikil er.

2) Frv. er skerðing á samningafrelsi verkalýðssamtakanna.

Hvað viðkemur fyrri ásökuninni, þá hefur enginn af stuðningsmönnum frv. farið dult með það, að með ráðstöfunum þeim, sem frv. gerir ráð fyrir, er reiknað með 5.4% launalækkun, miðað við núgildandi vísitölu. Það er niðurfelling 10 vísitölustigahækkunar bótalaust. Það væru ósannindi og óheilt að reyna að dylja slíkar afleiðingar, enda hefur enginn reynt það. Hins vegar hefur ekki staðið á fulltrúum kommúnista að reyna til við alls konar loðnar fullyrðingar og óskhyggjublandnar um, að ríkisstj, kynni ekki að takast jafnvel við niðurfærslu verðlagsins og hún hyggur, þ. e. lækkun álagningar í heildsölu og smásölu.

Ég vona launafólksins vegna, að þessi óskhyggja kommúnista um hrakfarir í baráttunni við verðlagið reynist röng, jafnvel þótt ég viti, að það yrði kommúnistum þungt áfall.

Á síðasta þingi Alþýðusambandsins stóðu upp fulltrúar hvaðanæva af landinu og fullyrtu, að umbjóðendur þeirra væru fúsir til að fórna, ef horfið yrði að því að stöðva verðbólguna. Það sama hef ég reynt. Ég viðurkenni, að mikið veltur á um framkvæmd þessara mála, hvernig til tekst. En jafnóviturlegt er að láta pólitískan fjandskap einan saman ráða afstöðunni til máls, sem óvefengjanlega nýtur stuðnings almennings þrátt fyrir þær launaskerðingar, sem í bili leiðir af frv. Eða hver yrði launaskerðing fólks, ef ekkert væri að gert?

Varðandi síðari mótrökin, um skerðingu samningsréttar og samningsréttarfrelsisins, þá er það rétt, að ýmis félög eða hlutar þeirra hafa talið, að svo væri. Persónulega er ég á annarri skoðun. Ég tel, að réttur verkalýðsfélaga til þess að semja um allt, sem þau hafa samið um áður eða vildu semja um, sé óskertur. Ég held, að fullyrðing þessi blandist skoðun manna á þeirri kjarafórn, sem í frv. felst með niðurfellingu 10 vísitölustiga, eða vil a. m. k. ætla það, að svo sé.

Hvað hefðu þessir sömu menn sagt, ef hreyft hefði verið víð beinu ákvæði í samningum verkalýðsfélaganna, eins og t. d. umsömdu grunnkaupi?

Þessi tvö atriði, sem notuð eru í áróðrinum gegn frv., verða þó léttvæg, þegar nú hefur verið upplýst, að þeir, sem fremstir standa fyrir slíkum ummælum, voru vel til viðtals um einmitt sömu leiðir, ef þeir ættu sjálfir að sjá um framkvæmdina, þ. e. sitja í ráðherrastólunum.

Persónulega hef ég alltaf verið þeirrar skoðunar, að það eigi ekki að dæma verk ríkisstj. eftir því, hverjir skipi ráðherrastólana hverju sinni, heldur eftir því, hver niðurstaðan eða sjálfar staðreyndirnar verða um verk þeirra, er þar sitja,

Mistakist þær góðu fyrirætlanir, er að baki þessu frv. liggja, verður það að sjálfsögðu skylda verkalýðshreyfingarinnar að meta og vega það raunverulega tjón, sem hún hefur orðið fyrir um kaupmátt launa sinna. Og þá mun ekki standa á mér eða flokksbræðrum mínum um að fá fram sanngjarnar leiðréttingar þar á, þegar full reynsla er fengin á þessari niðurfærslutilraun til þess að leysa hinn ógnarlega vanda allrar þjóðarinnar.

Ég minntist í upphafi þessara orða minna á, að miðstjórn Alþýðusambands Íslands hefði ekki orðið sammála í afstöðu sinni til málsins og fram hefðu komið tvö álit, annað stutt af 5, en hitt 4 miðstjórnarmönnum. Þetta gat hæstv. forsrh. einnig um nú í sinni framsöguræðu og í útvarpsumræðunum frá hv. Nd. í gær um málið. Var áliti meiri hl. gerð á þeirra vísu góð skil. Ég vil því, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér till. okkar, er minni hl. skipuðum, en hún er svo hljóðandi:

„Miðstjórn Alþýðusambands Íslands hefur átt þess kost að kynna sér till. ríkisstj. um fyrirhugaðar ráðstafanir í efnahagsmálum og ályktar í því sambandi eftirfarandi:

Síðasta þing Alþýðusambands Íslands taldi höfuðnauðsyn, að þegar yrðu gerðar ráðstafanir til þess að stöðva verðbólguna. Jafnframt lýsti þingið sig samþykkt því, að vísitalan yrði stöðvuð við 185 stig, enda leiddi það ekki til rýrnunar á kaupmætti launa og fjár til niðurgreiðslna yrði ekki aflað með nýjum sköttum á verkalýðsstéttina.

Í till. þeim, sem núv. ríkisstj. hyggst leggja fram til lausnar aðsteðjandi vanda efnahagsmálanna, er gert ráð fyrir, að auk þess sem verðbólgan verði stöðvuð, verði verðlag og kaupgjald fært niður til baka, þannig að kaup verði greitt frá 1. febr. samkvæmt vísitölu 175. Er þetta talið nauðsynlegt vegna þeirrar þróunar, sem orðið hefur í kaupgjaldsmálum og verðlagsmálum, svo sem vegna nýrra samninga við bátasjómenn og útvegsmenn, ef unnt á að vera að komast hjá hækkun yfirfærslu- og innflutningsgjalda, sem mundi koma harðast niður á launþegum.

Miðstjórninni er ljóst, að ef ekki verða nú þegar gerðar ráðstafanir til lausnar efnahagsmálunum, vofir yfir stöðvun atvinnulífsins og alger upplausn, sem hvort tveggja mundi leiða til stórfelldrar kjaraskerðingar fyrir alla launþega.

Þrátt fyrir yfirlýsingu síðasta þings Alþýðusambands Íslands um að stöðva við vísitölu 185 verður að telja, að þingið hafi ekkí tekið afstöðu gegn þeirri leið, sem felst í umræddum till. ríkisstj., ef tryggt er, að kaupmáttur launa verði ekki rýrður frá því, sem hann var í október, miðað við vísitöluna 185. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem fyrir liggja og staðfest hefur verið hér á fundinum (þ. e. miðstjórnarfundinum), verður að telja þetta tryggt.

Í sambandi við fram lagðar till. ríkisstj. telur miðstjórnin nauðsynlegt að eftirfarandi verði tryggt:

1) Fjár til niðurgreiðslna og fyrirhugaðra ráðstafana verði aflað með sparnaði í rekstri ríkisins og frestun á þýðingarminni fjárfestingarframkvæmdum svo og með því að verja til niðurgreiðslna greiðsluafgangi ríkissjóðs.

2) Niðurgreiðslur verði auknar, þannig að tryggt sé, að framfærsluvísitala verði ekki hærri en 2022 stig 1. marz n. k,

3) Síðari liður 1. gr. verði einnig látinn taka til bóta samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

4) 4. gr. verði við það miðuð, að hinn nýi vísitölugrundvöllur verði látinn koma til framkvæmda frá gildistöku fyrirhugaðra laga.

5) Niður verði felld 2. málsgr. 6. gr. frv. Auk þess telur miðstjórnin nauðsynlegt, að bæjar- og sveitarfélög leggi vísitöluna 175 til grundvallar við álagningu útsvara ársins 1959.“

Undir þessa tillögu miðstjórnarhlutans í Alþýðusambandinu skrifuðu auk mín og fluttu: Magnús Ástmarsson, Sigurrós Sveinsdóttir og Óskar Hallgrímsson.

Af þessu er ljóst, að um allverulegan skoðanamun var að ræða í forustuliði samtakanna. Við í minni hl. höfum að vísu ekki fengið fram einn lið af fimm af því, sem upp er talið meðal þess, er við töldum nauðsynlegt að tryggt yrði, sem eðlilega kemur til af því, að leita hefur þurft þingstyrks til að koma þessum málum fram.

Við valdatöku núverandi ríkisstj, tók hæstv. forsrh. og formaður Alþfl. það skýrt fram, að um hreinar flokkstill., til lausnar efnahagsmálunum gæti vart orðið að ræða, þar sem ríkisstj. væri minnihlutastjórn.

Þrátt fyrir þessi smærri atriði þykir mér sjálft höfuðmálið, niðurfærsla verðbólgunnar, svo mikið hagsmunamál almennings, að ég mun fylgja frv. óbreyttu, eins og það er komið frá Nd.

Auk fyrrgreinds álits minni hluta sambandsstjórnar hefur Bandalag starfsmanna ríkis og bæja sagt m. a.:

„Fyrirhugaðar aðgerðir ríkisstj., sem oss hafa verið kynntar, miða vissulega að því að stöðva þessa óheillaþróun“ — þ. e. verðbólguna.

Landssamband íslenzkra verzlunarmanna segir m. a. í ályktun sinni, með leyfi hæstv. forseta:

„En L. Í. Ú. telur, að ef sjávarútvegurinn raunverulega þarf þær lagfæringar á rekstrargrundvelli sínum, sem honum eru ætlaðar með aðgerðum þessum, þá hafi sú leið, sem valin er, niðurfærsluleiðin, ótvíræða kosti fram yfir ýmsar aðrar leiðir, sem farnar hafa verið í þessu skyni á undanförnum árum.“

Ég tek þessi atriði fram hér, af því að af einhverjum ástæðum féllu þau niður hjá þeim hv. þm., sem reyndu þó að færa sér aðra kafla ályktananna í nyt í útvarpsumr. frá Nd. í gærkvöld.

Ég hef hér reynt að minna á ýmis almenn atriði málsins, sumpart til þess að leiðrétta missagnir og svo til þess að koma á framfæri skoðunum þeirra, sem enn þá trúa því, að hægt sé að komast frá voða atvinnuleysis og hörmungum verðbólgu, — þeirra, sem trúa því, að hægt sé að lifa mannsæmandi lífi í þessu þjóðfélagi án þess að brjóta það allt í rúst og koma öllu í efnahagslegan voða fyrst.