15.04.1959
Sameinað þing: 38. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1953 í B-deild Alþingistíðinda. (2378)

Dagskrá ríkisútvarpsins 1. maí

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir að hafa komið og þvegið hendur sínar frammi fyrir þingheimi. Það er algengt, að svo sé gert, og hans afsökun er sú, að hann sé ekki skyldugur til að skipta sér af þessu. Hitt mundi þó vera nær sanni, að hann mun hafa vitað af því, að útvarpsráð hafði þetta mál til meðferðar á þremur fundum, og þá hefði skoðun hans getað komið til greina sem valdamanns, ef hann hefði verið á bandi alþýðusamtakanna.

Hv. 5. landsk. þm. (BG) var mikið niðri fyrir, talaði um, að ég hefði flutt á sig ásakanir og svívirðingar og fyrir mér hefði eingöngu vakað að svívirða Alþfl.-menn. Það er fjarri lagi. Það er einungis sú staðreynd, sem liggur til grundvallar, að það er Alþfl.-maður, sem er formaður útvarpsráðs, og þess vegna kemst ég ekki hjá því að beina því að honum, að hann gat ráðið úrslitum um afgreiðslu á erindi Alþýðusambandsins, en gerði það ekki. Þetta eru engar svívirðingar, og það er ekki gert til þess að hengja neinn saklausan. Þarna er sökudólgurinn, og hann verður að taka því, hann er Benedikt Gröndal, Alþýðuflokksmaður, formaður útvarpsráðs.

Deilan spratt í fyrra, sagði hann. Ég upplýsti, að það hefði verið venja áður, að Alþýðusambandið hefði fengið að ráða dagskrá 1. maí, ekki aðeins kvölddagskrá, heldur einnig síðdegisdagskrá. En svo komst sú venja á, að Alþýðusambandið var látið deila dagskránni með tveimur öðrum aðilum. Við það vildi það ekki fúslega sætta síg, taldi von um leiðréttingu á þessu, þegar Benedikt Gröndal var orðinn formaður útvarpsráðs, og bar þá fram sitt mál um það og fékk synjun, endurnýjar þetta nú, þegar Alþýðusambandsþing hafði vítt fyrri afstöðu útvarpsráðs, skoraði á útvarpsráð að heimila alþýðusamtökunum að hafa dagskrá þennan dag, og Alþýðuflokksmaðurinn Óskar Hallgrímsson bar þetta mál fram í mjög hæversklegu bréfi, sem bauð upp á það, að ef við fengjum játandi svar, þá skyldu drög að dagskránni send útvarpsráði,svo að útvarpsráð gæti lagt blessun sína yfir málið.

Hér kemur svo formaður útvarpsráðs og segir: Samtökum verzlunarmanna var heimilað í fyrra að hafa dagskrá, og þau brutu hlutleysi útvarpsins gagnvart mér. — Ég hef aldrei orðið þess var, ekki hef ég kvartað undan því. Ég tel, að það væri alveg sams konar vanvirða og svívirða af útvarpsráði að synja verzlunarmannasamtökunum í landinu um að hafa dagskrá einu sinni á ári, þegar það getur leyft hverjum öðrum félagssamtökum sem er að hafa slíka dagskrá.

Þá var formaður útvarpsráðs gramur yfir því, að ég hefði ekki nefnt till., sem hann hefði kastað inn í þetta mál. Mér er sagt, að sú till. hafi aldrei komið til atkvæða. Formaður útvarpsráðs hefur áreiðanlega gert sér grein fyrir því, í hvaða röð þessar till. kæmu til atkvæða.

Ég skýrði frá meginniðurstöðu málsins. Hún var sú, að erindi Alþýðusambands Íslands var borið undir atkvæði. Það var fellt með 2 atkv. gegn 2. Formaður útvarpsráðs var fjarverandi, en gat og hefði helzt átt að vera nærverandi og hefði getað lagt atkvæði sitt á vogarskálina með Alþýðusambandinu, ef hann hefði verið maðurinn til, en það var hann ekki. Þetta er meginatriði málsins.

Hann vék að Sverri Kristjánssyni sagnfræðingi og sagði, að hann hefði átt að flytja þætti um sögu verkalýðshreyfingarinnar. Þetta er rétt. Hann vildi ekki gera það, eftir að Alþýðusambandið hafði verið smánað með synjun. Svo segir formaður útvarpsráðs, að menn vilji ekki taka þátt í þessu, nema þeir fái, að taka þátt í pólitísku brölti. Þeir vilja ekki taka þátt í því með því að vera að hjálpa útvarpsráði til að smána verkalýðssamtökin. Það verða menn að skilja.

Eina játningu gerði hv. formaður útvarpsráðs. Það var, að þeir hafa verið að reyna að draga úr því, að einstök félög og félagasamtök fengju að hafa dagskrá, en það hefði ósköp lítið gengið með það. En þetta var rökstuðningurinn fyrir synjuninni í fyrra, og var ekkert annað en fyrirsláttur.

Ég lýsi það svo alger ósannindi og líklega vísvitandi ósannindi hjá vini mínum, Sigurði Bjarnasyni, hv. þm. N-Ísf., að í fyrra hafi ríkt ágreiningur milli mín og Eðvarðs Sigurðssonar um það, hvað ætti að túlka í 1. maí dagskránni. Það er alger tilbúningur hans. Ef það er ekki hans eigin tilbúningur, þá hefur hann fengið það frá einhverri Gróu á Leiti.

Þá sagði hv. þm. N-Ísf. í sinni ræðu, sem hann fékk ekki að hafa eins langa og hann vildi, að hann væri allur af vilja gerður, að verkalýðssamtökin fengju að hafa virðulega dagskrá 1. maí. Ég tek þetta svo, að það hafi verið alveg í misgripum, að hann rétti upp höndina á móti erindi Alþýðusambands Íslands, og vænti ég þá, að það standi ekki á honum að gera það á annan veg næst, þegar hann á kost á því. — Svo þakka ég forseta fyrir.

Forsrh. (Hermann Jónasson): Herra forseti. Ég hef á ríkisráðsfundi í dag beðizt lausnar fyrir mig og ráðuneyti mitt. Forseti Íslands hefur beðið ráðuneytið að gegna störfum fyrst um sinn, og hafa ráðherrar að venju orðið við þeirri beiðni.

Fyrir lá, að hinn 1. des. átti að taka gildi ný kaupgreiðsluvísitala, sem fól í sér 17 stiga hækkun. Til þess að koma í veg fyrir nýja verðbólguöldu, sem af þessu hlaut að rísa, óskaði ég þess við samráðherra mína, að ríkisstj. beitti sér fyrir setningu laga um frestun á framkvæmd hinnar nýju vísitölu til loka mánaðarins, enda yrðu hin fyrrgreindu 17 vísitölustig þá greidd eftir á fyrir desember, nema samkomulag yrði um annað.

Leitað var umsagnar Alþýðusambandsþings um lagasetningu þessa samkvæmt skilyrði, sem sett var fram um það í ríkisstj. Alþýðusambandsþing neitaði fyrir sitt leyti beiðni minni um frestun. Boðaði ég þá ráðherrafund að morgni laugardags 29. nóv., en þar náðist ekki samkomulag um stuðning við frv. Af þessu leiddi, að hin nýja kaupgreiðsluvísitala kom til framkvæmda um mánaðamótin, og ný verðbólgualda er þar með skollin yfir.

Við þessu er svo því að bæta, að í ríkisstj. er ekki samstaða um nein úrræði í þessum málum, sem að mínu áliti geti stöðvað hina háskalegu verðbólguþróun, sem verður óviðráðanleg, ef ekki næst samkomulag um þær raunhæfu ráðstafanir, sem lýst var yfir að gera þyrfti, þegar efnahagsfrumvarp ríkisstj. var lagt fyrir Alþingi á t.d. vori.