29.12.1958
Neðri deild: 47. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1955 í B-deild Alþingistíðinda. (2380)

Stjórnarskipti

Eysteinn Jónsson:

Það hefur verið venja undanfarið, þegar stjórnir hafa verið myndaðar og Alþingi hefur setið, að það hefur verið tilkynnt Alþingi formlega á fundi í sameinuðu þingi, og hafa þá a.m.k. oftast nær komið fram yfirlýsingar af hálfu þeirra flokka, sem ekki hafa átt þátt að stjórnarmynduninni. Nú sé ég á því, hvernig til er hagað, að ætlunin er að hafa á þessu annan hátt. Ég tel, að þessari venju hefði átt að halda. En þar sem það hefur ekki verið gert, vil ég koma hér á framfæri nokkrum orðum af hálfu Framsóknarflokksins út af stjórnarmynduninni, með leyfi hæstv. forseta.

Af hálfu framsóknarmanna hefur ekki verið farið dult með það, að þeir hefðu viljað halda áfram stjórnarsamstarfi því, sem til var efnt eftir kosningarnar 1956. Þess reyndist þó enginn kostur vegna ágreinings um efnahagsmálin.

Forseti sameinaðs Alþingis, núverandi hæstv. forsrh., átti viðræður við okkur þm. Str., eftir að honum hafði verið falið að gera tilraun til stjórnarmyndunar. Við fluttum honum þá skoðun þingflokks framsóknarmanna, að eðlilegast væri, eins og þá var komið, að gera tilraun til að koma á þjóðstjórnarsamtökum allra flokka, fyrst ókleift hefði reynzt, að fyrrv. ríkisstj. héldi áfram að starfa. Væri það okkar skoðun, að slíka tilraun bæri að gera til þess að ganga úr skugga um, hvort ekki væri mögulegt með því að eyða tortryggni þeirri og yfirboðum, sem mjög ættu sök á því, að eigi hefðu náðst nægilega sterk samtök um efnahagsmálin. Enn fremur væri slík stjórnarmyndun augljóst tákn þjóðareiningar gegn ofbeldi Breta í landhelgismálinu. Þá yrði einnig leitað samkomulags um kjördæmamálið, en átökum um það mál frestað, ef til þeirra þyrfti að koma, þangað til í lok kjörtímabilsins.

Eigi var þessi leið reynd, en eftir því gengið, hvort Framsfl. vildi ljá flokksstjórn Alþfl. stuðning.

Með tilliti til bandalags þess og nána samstarfs, sem verið hefur á milli flokkanna, taldi Framsfl. rétt að ljá máls á því að styðja stjórn, sem form. Alþfl. myndaði, en þó því aðeins, að samstaða næðist um efnahagsmálin og þingstyrkur yrði til þess að leysa þau á viðunandi hátt og að leitað yrði samkomulags um kjördæmamálið og afgreiðslu þess frestað til loka kjörtímabilsins.

Framsfl. telur, að nú hafi verið tækifæri til þess að gera þýðingarmiklar ráðstafanir í efnahagsmálum og byggja á þeim grunni, sem lagður var með löggjöfinni um þau í vor. Jafnframt hefur flokkurinn verið þess fullviss, að yrði þjóðinni þess í stað nú kastað út í deilur um stjórnskipun landsins og tvennar kosningar, mundi hljótast af því ófyrirsjáanlegt tjón.

Þessum sjónarmiðum og samstarfstilboðum Framsfl. hefur í engu verið sinnt, en þess í stað nú mynduð ríkisstj., sem samkvæmt þegar gerðum yfirlýsingum ætlar að haga störfum sínum þveröfugt við það, sem Framsfl. telur hyggilegt.

Ríkisstj. hefur ekki meiri hluta á Alþingi til þess að koma fram annarri löggjöf en fjárlögum. Kjördæmamálið er sett á oddinn og kosningar ákveðnar í vor, hvað sem öðru líður. Ríkisstj. er sem sé ekki mynduð fyrst og fremst til þess að leysa vandamál framleiðslu- og efnahagslífs, heldur til þess að efna til stórfelldra átaka um stjórnarskipunina og tvennra kosninga. Ríkisstjórnarsamtök þau, sem nú hafa orðið, geta því að okkar dómi tæpast nokkurn vanda leyst, en skapað mörg ný vandamál. Flestum mönnum munu hulin þau rök, sem knýja til þessara tiltekta.

Það er svo kafli út af fyrir sig, að þegar litið er til þess, hvernig síðustu kosningar fóru fram, hljóta þessar ráðstafanir, stjórnarmyndunin og yfirlýsingin um það, hvað stjórnin hefur í huga, að koma mönnum vægast sagt undarlega fyrir sjónir. Skal ekki meira um það rætt að sinni.

Það leiðir af þeim orðum, sem ég hef sagt, að Framsfl. er andvígur þessari ríkisstj., hvorki styður hana né veitir henni hlutleysi. Ef stjórnin á hinn bóginn ber fram einhver mál, sem Framsfl. telur að verða megi að gagni fyrir þjóðina, mun hann að sjálfsögðu veita þeim lið.