16.01.1959
Efri deild: 50. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1960 í B-deild Alþingistíðinda. (2388)

Aldarminning fyrrverandi þingmanna

forseti (BSt):

Í dag eru hundrað ár liðin frá fæðingu Jóns Magnússonar fyrrum forsætisráðherra. Ég ætla ekki í tilefni af þessu hundrað ára afmæli að fara að rekja æviatriði þessa merka manns, því að allir hafa aðgang að þeim á ýmsum stöðum. Ég vil aðeins minna á tvennt. í fyrsta lagi það, að Jón Magnússon var fyrsti forsætisráðherra Íslands, eftir að ráðuneyti var hér stofnað með fleiri en einum ráðherra. Og í öðru lagi á það, að hann var forsætisráðherra 1918, þegar viðurkennt var fullveldi Íslands, og mun hann í þeirri stöðu hafa átt mjög mikinn þátt í þeim málalokum. Mér finnst, að í tilefni af þessu hundrað ára afmæli þessa merkismanns sé ástæða til þess, og vil leggja það til, að hv. þdm, heiðri minningu hans með því að rísa úr sætum. — (Dm. risu úr sætum.)