19.02.1959
Sameinað þing: 27. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1963 í B-deild Alþingistíðinda. (2393)

Slysfarir á sjó - minning

Forseti (JPálm):

Háttvirtu alþingismenn.

Helfregnir berast nú dag eftir dag,

dauðans er mikilvirk hönd,

úthafið syngur sitt útfararlag,

öldurnar grenja við strönd.

Íslenzka þjóðin er harminum háð,

hrópar í neyðinni á guðlega náð.

Það munu vera einsdæmi í sögu Alþingis, að stórkostleg sjóslys verði svo hvert á fætur öðru, að nauðsyn beri til að kalla saman sorgarfund í Alþingi dag eftir dag. Þetta ber oss að höndum nú.

Í gær komum við öll hér saman til að lýsa okkar hryggð og samúð í tilefni af því, að 30 sjómenn fórust með togaranum Júlí frá Hafnarfirði. En áður en við gengum til svefns í gærkvöld, var þjóðinni allri sagt frá öðru hörmulegu sjóslysi, því, að vitaskipið Hermóður hafi farizt með allri áhöfn við Reykjanes aðfaranótt gærdagsins, 18. þ.m. Í tilefni af þessum sorgarfréttum komum við hér saman í dag. Ber það nú að höndum okkar fámennu þjóðar, að skammt er stórra högga milli, þar sem í þessu slysi fórust 12 hraustir sjómenn á bezta aldri.

Vitaskipið Hermóður var byggt í Svíþjóð fyrir vitamálastjórnina árið 1947. Það var 200 smálestir að stærð og viðurkennt sem gott sjóskip. Það hefur annazt flutninga fyrir vitana kringum landið, en að öðru leyti stundað landhelgisgæzlu og eftirlit með fiskibátum, þegar hætta var á ferðum, einkum við Vestmannaeyjar. Má því segja, að þetta skip hafi beint og óbeint verið dýrmætt björgunarskip til aðstoðar öðrum meðfram ströndum Íslands. Að missa það frá sinni þýðingarmiklu starfsemi er því mikið áfall fyrir fjölda þeirra manna, sem sjóinn stunda meðfram okkar hættulegu strönd. En missir skipsins hverfur þó í skuggann fyrir þeim hryggilegu örlögum að missa 12 vaska sjómenn í djúp hafsins í viðbót við allt, sem á undan er gengið. 5 ekkjur, 17 börn innan 15 ára aldurs, foreldrar, uppkomin börn, systkini, frændur og annað venzlafólk horfir harmþrungið á eftir þessum ástvinum sínum, sem svo snögglega og óvænt eru burt kallaðir.

Við, sem hér erum saman komin, kveðjum þessar horfnu sjóhetjur í nafni þjóðar vorrar með þakklæti og virðingu fyrir unnin afrek á liðnum árum. Ástvinum þeirra öllum og frændfólki vottum við einlæga samúð og hluttekningu í sorginni. Ég lýsi hér þeirri afdráttarlausu tilfinningu okkar allra. En þó að hún sé flutt af einlægum og hryggum hug, þá vitum við öll, að við stöndum máttvana og varnarlaus gagnvart því harmþrungna fólki, sem hugsar til þeirra ástvina, sem í djúpið eru sokknir, ef eigi væri til önnur þýðingarmeiri huggun en okkar samúð, — sú huggun, sem felst í grundvallaratriðum okkar háleitu trúarbragða. Þess vegna treystum við því, að hið sorgbitna fólk fái að njóta þeirra fornu og nýju fyrirheita, að drottinn leggur líkn með þraut. Og á þessari sorgarstund tengjum við geisla vonarinnar við það, að þeim fjölmenna hópi Íslendinga, kvenna, karla og barna, sem um þessar mundir harmar sína látnu vini, verði sú huggunin bezt, sem felst í þýðingarmestu orðum meistarans sjálfs, sem þannig hljóða: „Ég lifi, og þér munuð lifa.“ Í því trausti, að sú verði huggunin áhrifamest, sendum við öllu hinu harmandi fólki beztu kveðjur og góðar óskir.

Ég bið háttvirta alþingismenn að taka undir mín orð með því að rísa úr sætum. —