22.12.1958
Neðri deild: 46. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1975 í B-deild Alþingistíðinda. (2441)

Þinghé - árnaðaróskir

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Það var vegna yfirlýsingar hæstv. forseta um það að, ef ekkert sérstakt breyttist, yrði þetta síðasti fundur fyrir hátíðisdagana. Nú vitum við allir, hvernig á stendur í þinginu, að svo miklu leyti sem nokkur veit það. Verið er að reyna að mynda ríkisstjórn og ekki víst, hvernig eða hvenær því lýkur.

Hins vegar er einnig vitað, að nokkrir þm. eru ýmist þegar farnir eða munu fara heim til sín næstu daga til að halda jól á heimilum sínum. Innan Sjálfstfl. hefur orðið samkomulag um það, að þeir þm., sem færu, gæfu félögum sínum fullt umboð til að semja um þau mál, sem nauðsynleg eru, í þeirra fjarveru. Þeir geta að sjálfsögðu ekki greitt atkv. á þingfundi, það þarf ekki að taka fram, en að svo miklu leyti sem um samninga um mál á milli þingflokkanna er að ræða, er þess vegna þingflokkurinn fyllilega starfhæfur, jafnvel þótt þessir þm. fari burt.

Einmitt vegna þess, að vitað er, að nokkrir þm. a.m.k. úr Sjálfstfl. — og ég hef örugga vissu einnig úr öðrum flokkum — munu hverfa burt, kann að vera óþægilegt að þurfa að hafa þingfundi milli jóla og nýárs. Þess vegna vil ég skjóta því til forseta, — ég veit, að hann ræður því ekki, en hann athugi það í sambandi við aðra fyrirmenn þingsins og ráðamenn hér, hvort ekki mundi skynsamlegt að afgreiða nú þegar í dag það mál, sem ég tel víst að engum ágreiningi geti valdið að afgreiða þurfi, en það er heimild til fjárgreiðslna úr ríkissjóði.

Hversu vel sem stjórnarmyndun kann að ganga og hversu vel sem henni kann að takast, þá vita þó allir, að fjárlög verða ekki héðan af afgr. fyrir desemberlok. Og eins er vitað, að engum þm. getur komið til hugar að neita um heimild til nauðsynlegra fjárgreiðslna, hver sem stjórnin verður.

Þess vegna sýnist mér einsætt, að það séu skynsamleg vinnubrögð að afgreiða þetta frv. nú í dag, á meðan þm. eru ekki farnir fleiri en enn er, og síðan hafi forsetar það auðvitað í hendi sér í samráði við núv. hæstv. ríkisstj. eða aðra, hvort sem það verður ein eða tvær, sem koma í hennar stað á þeim dögum, sem fram undan eru, að kveðja þingið saman til formlegs fundar, strax og nauðsyn krefur. En ég vildi í allri vinsemd og án þess að gagnrýna nokkuð þá starfshætti, sem við eru hafðir, benda á og bera fram tilmæli um það, að fjárgreiðslufrv. yrði afgreitt út úr þinginu í dag, og vil lýsa því yfir, að þótt við sjálfstæðismenn séum í eindreginni andstöðu við núv. hæstv. ríkisstj., þá skulum við afgreiða það umræðulaust hér í Nd., þannig að engin töf verði af okkar hálfu.