30.01.1959
Efri deild: 60. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í B-deild Alþingistíðinda. (247)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Frsm. 1. minni hl. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Í nál. mínu sem 1. minni hl. fjhn. á þskj. 213 hef ég vikið að meðferð þessa máls með tilliti til þess, hvaða kostur þessari hv. d. er gefinn til að athuga málið sérstaklega.

Hv. Nd. hafði málið til meðferðar í rúma viku. Það mun hafa fyrst verið rætt þar á föstudegi og siðast á næsta föstudegi. En það kemur fyrst til umr. hér í hv. d. í gær á öðrum fundi d. og var tekið á dagskrá strax og Nd. hafði frá því gengið. Og nú er það aftur til 2. umr. Ég sem forseti d. hef talið rétt og skylt, úr því sem komið er, að reyna að flýta málinu sem mest, þar sem frv. ber það með sér, að ef það á að verða að lögum á annað borð, þá þarf það að verða á morgun. Hugsanlegar eru breyt. hér í hv. d., og þá mundi ekki veita af fyrri hluta dagsins á morgun til þess að ljúka málinu, ef breyt. yrðu gerðar hér í hv. deild.

Samkvæmt stjórnarskránni eru báðar d. þingsins jafnréttháar og hafa sama vald í almennum löggjafaratriðum. En það er þó oft og tíðum eins og hv. Nd. áliti sig vera þingið, enda er ekki dæmalaust, að þingmenn þar hafa kallað þá deild aðaldeild þingsins.

Það er ekki þar fyrir, að þetta, að Ed. Alþingis er gefinn lítill tími, hefur oftar komið fyrir en nú og það hefur komið fyrir, það skal ég játa, þegar ég hef stutt hlutaðeigandi ríkisstj., svo að ég er ekkert sérstaklega að deila á þessa hæstv. ríkisstj., sem nú situr, fyrir þetta, heldur vll ég mótmæla því, að það sé gert að sið hér í Alþingi, á meðan deildaskipting helzt, að Ed. sé í raun og veru ekki annað ætlað en segja já og amen til þess, sem Nd. gerir, eða þá fella málið með öllu, því að oft er það, að það er lítið tóm til að gera nema annað hvort þetta.

Hvað sem úrslitum þessa máls í heild sinni líður og þó að það yrði samþykkt, sem ég geri ráð fyrir að sennilega verði, þá verð ég að lýsa sérstaklega óánægju minni yfir einu atriði í frv., sem er það, að það er alveg ómótmælanlegt, að bændastétt landsins verður fyrir misrétti samanborið við aðrar sambærilegar stéttir, eins og t. d. útgerðarmenn og sjómenn.

Hv. þm. Str. (HermJ) vék að þessu í gær, þegar málið var til 1. umr., og ég skal því ekki fara um það mörgum orðum, því að það yrði endurtekning. En í tilefni af þessu hef ég leyft mér að bera fram tvær brtt. á þskj. 216, sem báðar fjalla um að leiðrétta þetta misrétti.

Fyrri brtt. er við 7. gr. frv., og hún er í stuttu máli um það, að hækka beri laun bónda og verkafólks hans í verðlagsgrundvellinum um 3.3% og síðan, þegar þessu hefur verið bætt við, lækka þennan lið í samræmi við það, sem annars staðar er gert. Þetta stafar af því, eins og hefur verið margtekið fram, að þar sem kaup hækkaði hér í Reykjavík svo að segja samtímis því, að verðlagsgrundvöllurinn s. l. haust var gerður, að því er landbúnaðarvörur snertir, þá var ekki í verðlagsgrundvelli landbúnaðarins tekið tillit til þeirrar hækkunar og telja fróðustu menn, að bændur hafi þannig verið sviptir 3.3% af vinnulið þeirra og verkafólks þeirra. Ég álít forsvaranlegt að bera þessa till. fram, því að hér er um mjög lága upphæð að ræða, og till. er borin fram til þess að krefjast jafnréttis, en ekki sökum þess, að ég áliti bændum óbærilegt að standast þetta. Hér er aðeins um að ræða upphæð í eitt skipti fyrir öll, því að þegar verðlagsgrundvöllurinn verður reiknaður í haust, þá kemur samanlagt kaup annarra stétta, grunnkaup og vísitala, til greina. Álíta kunnugir menn, að þessi upphæð sé um það bil sú sama og bændum er ætlað að greiða á fjórum árum til búnaðarmálasjóðs, til þess að hægt sé að byggja það hús, sem allir hafa heyrt um, og ýmsir þeir, sem felldu í hv. Nd. sams konar till. og ég ber hér fram, hafa talið óbærilega kvöð á bændum að greiða svipaða upphæð á fjórum árum og hér á að taka af þeim á hálfu ári og þeir greiða atkvæði með.

Önnur brtt, mín á þessu sama þskj. er við 8. gr., fyrri málsgr. hennar, a-liður, að 2. málsl, fyrri málsgr. falli niður. En þessi 2. málsl. er um það, að verðhækkun hjá bónda komi því aðeins til greina í byrjun viðkomandi tímabils, að vísitalan hafi hækkað um 2 stig. Eins og frv. var lagt fram, átti þetta að vera 5 stig, en á þessu fékkst þó nokkur leiðrétting í hv. Nd.

Það er ekkert sambærilegt ákvæði um nein önnur laun eða nein önnur kjör annarra stétta. Ef svo væri ákveðið, að kaupgreiðsla samkvæmt vísitölu hækkaði ekki til launþega, nema um 2 stiga vísitöluhækkun væri að ræða, og ef sama gilti um fiskverð og sem sagt annað, sem hliðstætt má telja, þá væri ekkert við þessu að segja. En um þetta er það sama að segja og um fyrri till. mína, að hér er um jafnréttiskröfu að ræða.

Þá er b-liður þessarar sömu till. um umorðun á síðasta málsl. 1. málsgr, þannig, að hafi heimild til hækkunar afurðaverðs samkv. 1. málsl. þessarar greinar ekki verið notuð að einhverju eða öllu leyti, þá er ekki skylt að lækka afurðaverð samkvæmt næsta málsl. hér á undan, nema kaupgreiðsluvísitalan lækki niður fyrir þá vísitölu, sem afurðaverð var síðast ákveðið eftir, í staðinn fyrir það, sem er í frv., en þar er aðeins talað um, að lækki kaupgreiðsluvísitalan niður fyrir 102 stig, þá skal fella niður þá hækkun afurðaverðs, sem leitt hefur af hækkun kaupgreiðsluvísitölunnar umfram eitt stig frá grunnvísitölu samkv. 1. og 2. málsl. þessarar greinar. — Hér er um svipað að ræða. Þetta er jafnréttiskrafa einkum.

Eins og ég hef tekið fram í nál. mínu, þá virðist mér, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, enda mun það vera viðurkennt, sé ekki nema einn þáttur efnahagsmálanna, það sé í raun og veru þríþætt, það mikla vandamál og ég tel, að það sé mjög erfitt að taka ákvörðun um einn þátt þessara mála eingöngu, heldur væri nauðsynlegt, að allt málið lægi fyrir í einu, eins og oftast hefur verið, þegar þessi mál hafa verið til meðferðar í Alþingi og síðast í maí s. l., að þá var allt þetta mál lagt fyrir í einu frv. Og sá þátturinn, sem mjög lítið er vitað um, en er þó undirstaða undir því, að þetta frv. og það frv. um útflutningssjóð, sem nú er búið að leggja fyrir þingið, fái staðizt, það er fjármálahliðin, hvernig ríkisstj. hugsar sér og getur framkvæmt það að hafa til fé til þess að standast þær ráðstafanir, sem hún ráðgerir í heild. Það kostar að vísu ekki fé beinlínis að lækka vísitöluna úr 185 stigum í 175. En það kostar mikið fé, sem að einhverju leyti hefur þegar verið lagt fram, að lækka vísitöluna með niðurgreiðslum, svo að hægt sé að miða við 185 stig og hér sé aðeins um 10 stiga eftirgjöf að ræða til þess að koma vísitölunni ofan í 175. Það er hugsanlegt, að hæstv. ríkisstj. geti um tíma velt þessu á einhvern hátt á undan sér með lánum og með því að eyða því, sem nú er til, en það kemur að skuldadögunum. Mér virðist réttmætur sá grunur, að hæstv. ríkisstj. hugsi ekki til langra lífdaga, en hún hugsar þá kannske eins og einn fornkonungur, að til „frægðar skal konung hafa, en ekki til langlífis,“ og væri þá óskandi, að hún gæti unnið sér eitthvað til frægðar á þeim stutta ævitíma, sem hún augsjáanlega býst við, og skal ég ekki vera með neinar hrakspár um það, þó að ég sjái nú ekkert enn, sem gefi mér von um það, að hæstv. ríkisstj. vinni sér sérstaklega mikið til frægðar. Vildi ég þó gjarnan óska þess, því að allir eru hæstv. ráðh. góðir vinir mínir, ef svo má að orði kveða, eða a. m. k. góðkunningjar, vildi ég því gjarnan unna þeim sem bezts hlutskiptis.

Ég get ekki betur séð en hæstv. ríkisstj. hugsi eitthvað töluvert svipað því, sem sagt er að Lúðvík 15. Frakkakonungur hafi sagt, þegar allt var í ólestri undir stjórn hans í Frakklandi og ýmsir voru að spá því, að þjóðin mundi rísa upp og velta honum, þá sagði hann: Nei, það er engin hætta á því, þetta draslast allt, á meðan ég lifi, en eftirmaður minn fær að vita af því. — Og ætli það verði ekki þannig, að sú stjórn, sem á eftir þessari hæstv. stjórn kemur, fái að vita af því að sjá fyrir fjármagni, sem þá verður sumpart eytt af því, sem nú er til, og sumpart verður skuldað? (Gripið fram í.) Ég held, að fyrrv. stjórn hafi enga ástæðu haft til að segja þetta, því að það, sem núv. hæstv, stjórn byggir á og er eitt af því, sem hún telur til, að hægt sé að standast þessar ráðstafanir, er einmitt það, hvað fyrrverandi ríkisstj. skildi vel við, skildi við tekjuafgang í ríkissjóði og fleira, sem mér virðist nú að sé talið henni til lasts.

Í mínu ungdæmi var það ekki talin búmennska, ef bóndi eyddi öllum heyfyrningum eftir gott sumar og setti svo á næsta haust í trausti þess, að veturinn yrði sérstaklega góður og gjafmildur. En mér virðist eins og hæstv. ríkisstj. stefni töluvert í þá átt, sem líkja má við þess konar ásetning bónda og þess konar búskaparlag. Þetta er kannske orðin búmennska nú á þessum miklu framfaratímum, sem við lifum nú á, en það fór oftast þannig í gamla daga, að þeir, sem þetta búskaparlag höfðu, enduðu með því að drepa úr hor.

Mér finnst það ekki beinlínis góður grundvöllur að byggja á, sem hæstv. forsrh, hefur hvað eftir annað tekið fram um þetta atriði, nefnilega að það muni nægja að hækka tekjuáætlun fjárlaganna, mig minnir, að ég hafi heyrt hann nefna um 80 millj. kr. eða þar yfir í því sambandi, og einnig megi skera niður á útgjaldahlið fjárlaganna um háa upphæð, ég hef heyrt nefndar 40 millj. kr. í því sambandi.

Þó að tekjuáætlun fjárlaganna sé hækkuð, þá get ég ekki séð, að fjármunir í ríkissjóð vaxi neitt við það. Það er áætlun, sem hugsanlegt er kannske að standist, ef það verður sérstaklega gott tekjuár, en vitanlega stenzt ekki með nokkru móti, ef árið verður að því leyti slæmt. Er ekki skynsamlegt, þegar gerð er áætlun um tekjur ríkissjóðs, að miða við meðalár? Mér finnst ekki mega áætla óvarlegar, en miða við það.

Hvað niðurskurð á fjárlögum snertir, þá er það algert nýmæli nú um áratugi a. m. k., að það hafi tekizt að lækka útgjaldahlið fjárlaga í meðförum þingsins. Venjulega hefur það öfuga skeð, að þingið hefur hækkað útgjöld fjárlaganna frá því, sem er í stjórnarfrv., og meira að segja er komið beinlínis fram, að sá flokkur, sem hefur lofað að verja stjórnina fyrir vondum mönnum, þó að hann segist ekki vera beint stjórnarflokkur, nefnilega Sjálfstfl., hefur alls ekki viðurkennt, að hann hafi gengið að þeim samningum að skera niður margar millj. á fjárlögum, og ætli hv. þm. N-Ísf. t. d. vilji ekki fá aukin fjárframlög í einhverja vegi við Djúpið ? Ég gæti haldið það. Og þar sem hann er áhrifamikill þingmaður, þá efast ég ekki um, að honum tekst að fá einhverja slíka upphæð hækkaða.

Ég skal játa, að þetta, sem ég hef nú sagt um tíma, á ekki beinlínis við þetta frv., en er því þó viðkomandi á þann hátt, sem ég hef gert grein fyrir.

Þetta frv. er borið fram í þeim tilgangi að lækka dýrtíðina og segja má, að í því felist tilraun til þess, hvort sem hún tekst eða ekki. En á því tel ég hina mestu nauðsyn að lækka dýrtíðina og ég vildi óska þess, að þetta tækist. En dýrtíðina á samkvæmt frv. að lækka með því að nema úr gildi 10 vísitölustig, en greiða vísitöluna niður að öðru leyti, eins og á þarf að halda, til þess að vísitalan geti orðið 175 stig. Með þessu er í raun og veru það gert, að kauphækkanirnar, sem knúðar voru fram á s. l. sumri og hausti, eru um það bil teknar aftur. Ég álít, að það hefði verið betra fyrir alla aðila, að þessar kauphækkanir hefðu ekki orðið og ekki hefði nú þurft að taka til þessara ráða þar af leiðandi, því að það er alltaf erfiðara að snúa til baka heldur, en leggja ekki út á vafasama braut.

Í gærdag deildu tveir hv. þm., sem sæti eiga í fjhn., töluvert um sína afstöðu til málsins í verkalýðsfélögunum. Í raun og veru höfðu báðir þessir þm. verið sjálfum sér samkvæmir. Hv. 8. landsk. þm. (BjörnJ) fylgdi þeim efnahagsráðstöfunum, sem gerðar voru í vor sem leið, ásamt sínum flokksbræðrum í þinginu flestum og þetta var samkvæmt meirihlutasamþykkt trúnaðarmanna, sem verkalýðurinn hafði kosið til þess að vera fyrir sína hönd í þessum málum. Hann gerir það sama enn. Nú eru það trúnaðarmenn, þ. e. a. s. Alþýðusambandsstjórnin, meiri hluti hennar, að vísu með litlum meiri hl., sem samþykkir að mótmæla þessum ráðstöfunum. Hann gerir nákvæmlega það sama og í fyrra, hv. 8. landsk. Hann er á móti þessu frv. samkvæmt því.

Sama má segja um hv. 4. þm. Reykv. (EggÞ). Hann laut ekki þessari meirihlutasamþykkt trúnaðarmanna verkalýðsins í fyrra, heldur fylgdi hann þar minni hl. alveg eins og nú og í Alþingi varð hann í minni hl. En skoðanabræður hans innan verkalýðsflokkanna, því að það voru skoðanabræður hans þá, bæði í Alþfl. og í Alþb. og með mikilli aðstoð sjálfstæðismanna og Sjálfstfl. knúðu fram þessar kauphækkanir í sumar sem leið og í haust.

Ja, nú er hv. 4. þm. Reykv. aftur í minni hl. í Alþýðusambandsstjórninni, og hann framfylgir áliti þess minni hl. hér í Alþingi og mælir nú með till. um að taka aftur þessar kauphækkanir. Mér finnst, að hann hefði staðið í skemmtilegri sporum, ef hann hefði í vor sem leið fylgt mestum hluta síns þingflokks og samþykkt þær ráðstafanir, sem gerðar voru í vor. Þá hefðu hans spor nú verið léttari, en þau hljóta að vera.

Ég vildi óska, að þessi tilraun, sem hér er gerð til þess að lækka dýrtíðina tækist, og þess vegna mun ég ekki leggjast á móti þessu frv. En það, hvort þetta tekst, mun fara mjög mikið eftir hinum þáttum þessa máls og þá sérstaklega eftir því, hvaða fjárhagsgrundvöllur verður til að standa undir þessum ráðstöfunum. Ef ekki verða til fjármunir til þess að standa undir niðurgreiðslunum og útflutningsuppbótunum og tekin verða einhver bráðabirgðalán til þess, þá kemur að skuldadögunum og þegar þar að kemur, að þarf að fara að greiða skuldirnar, sem af þessu stafa, þá fæ ég ekki séð, að það geti orðið með öðru móti en því, að einhverjar byrðar verði lagðar á þjóðina, og þá kynni sagan að endurtaka sig um það, að það væri tekið úr einum vasanum og látið í hinn og ekki tækist að halda dýrtíðinni í skefjum.

Það er sem sagt óvissa um heildarmálið, um efnahagsmálið í heild sinni. Þess vegna er það skemmst frá minni afstöðu að segja, eins og ég hef reyndar áður tekið fram, að ég tek ekki frekari ákvörðun um málið og get ekki gefið sem nm. hv. deild ráð um afgreiðslu þess, nema þá ef undir þessari umr. frekari upplýsingar kæmu um þetta meginatriði, hvernig á undir þessu að standa. Mér er t. d. ekki nóg að heyra það nefnt, að það megi e. t. v. hækka tekjuáætlun fjárl. um 80 millj. kr. og skera niður á fjárl. um 40 millj. kr. Ég vil fá að vita, hvaða liðir það eru á tekjuáætluninni, sem óhætt er að hækka svo sem orð hafa verið látin liggja að og ég vildi helzt fá að vita, hvaða liðir það eru í niðurstöðu fjárl., sem fært þykir að lækka.

Það er nú svo með fjárl., að mestur hluti útgjaldanna er bundinn af ýmiss konar lögum. Það, sem laust er, er aðallega ýmiss konar framkvæmdir, sem ríkið lætur gera úti um land til hagsbóta fyrir almenning, — ég segi: áreiðanlega til hagsbóta fyrir almenning. Og ef það er þetta, sem sérstaklega á að skera niður, þá efast ég um hagsmunina af því. Það er enginn vafi á því, þó að það sé talað um, að of mikil fjárfesting hafi verið og þá sérstaklega úti um land, að ef engin höfn hefði verið byggð nema Reykjavíkurhöfn, þá hefði komið minni fiskur á land, en kemur. Ef enginn vegur hefði verið lagður um landið og gömlu reiðgöturnar látnar nægja og engin brú verið byggð, þá mundi heldur minna vera framleitt í landinu, en er. Það er ekki nóg að tala um það með óákveðnum orðum, að fjárfesting hafi verið of mikil, heldur verður að greina þar á milli, hvaða fjárfesting beinlínis eflir atvinnuvegi landsins og hver ekki. Ég efast um, að það sé búmennska að draga úr fjárfestingu, sem eflir framleiðsluna, til þess að lækka dýrtíðina.