14.05.1959
Sameinað þing: 52. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1983 í B-deild Alþingistíðinda. (2474)

Þinglausnir

forseti ( JPálm ):

Það Alþingi, sem nú er að ljúka störfum, hefur orðið meðal lengri þinga. Liggja til þess orsakir, sem þjóðinni eru kunnar. Það hefur starfað á órólegu tímabili. Það var stjórnarskiptaþing og þing nýrra, vandasamra úrræða, sem alltaf valda deilum. Það hefur orðið þing stjórnlagabreytinga og þingrofs, sem ævinlega kosta langan tíma og harðar deilur.

Um það, hvort starfsemi þessa þings verður til gæfu eða ekki fyrir okkar þjóð, er ekki mitt að dæma. Þar sker framtíðin og reynslan úr.

En að leiðarlokum þessa Alþingis vil ég láta í ljós þá ósk og von, að starfsemi og afgreiðslur þessa þings verði til gagns og hamingju fyrir okkar þjóð.

Ég þakka hv. alþm. góða og vinsamlega samvinnu við mig sem forseta. Þar hefur málefnislegur ágreiningur ekki verið til hindrunar.

Ég þakka varaforsetum og skrifurum mikilsverða aðstoð. Skrifstofustjóra Alþingis og öllu starfsfólki þakka ég góða starfsemi og ánægjulega samvinnu.

Við alþm. stöndum nú á vegamótum. Við erum eins og það lið, sem til þess er dæmt að leggja út í orustu. Hverjir þaðan koma heilir og hverjir hverfa, er álíka óvíst eins og það, hvernig veðrið verður á morgun eða hinn daginn.

Nú þegar er þó vitað, að nokkrir af eldri og reyndari alþm. ætla að draga sig í hlé og halla sér að friðsamlegri og kyrrlátari störfum. Ég vil alveg sérstaklega þakka þessum mönnum langa og góða samvinnu og heilladrjúga starfsemi, og ég óska þeim allrar hamingju á komandi tíð.

Um okkur hina, sem í óvissuna leggjum, er sú bót í máli, að orustan er annars eðlis en vopnaviðskipti fyrri alda. Hún varðar ekki líf og dauða í bókstaflegum, líkamlegum skilningi, heldur hitt, hverjir eiga afturkvæmt í fylkingu alþm. og hverjir ekki, og hvort sem við hittumst fleiri eða færri sem alþm. að loknum kosningum, þá vil ég nú óska öllum hv. alþm. og þeirra fjölskyldum góðrar heilsu og persónulegrar hamingju. Hinar sömu óskir flyt ég öllu starfsfólki Alþingis.