12.05.1959
Sameinað þing: 49. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1813 í B-deild Alþingistíðinda. (2485)

Almennar stjórnmálaumræður

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Háttvirtu áheyrendur fjær og nær. Fyrir kosningarnar 1956 gerðu Alþfl. og Framsfl. með sér bandalag, sem þeir kölluðu Umbótabandalag. Andstæðingum flokkanna leizt ekki á blikuna og kölluðu bandalagið Hræðslubandalag. Þetta bandalag var hugsað til frambúðar. Báðir flokkarnir gerðu ráð fyrir og sögðu, að líklega mundi þurfa fleiri kosningar, áður en bandalagið yrði það þriðja afl í íslenzkum stjórnmálum, er nyti sín sem skyldi og leysti þann vanda að koma upp vel samstæðum meirihluta. Framsóknarmenn brugðust Alþfl.-mönnum hvergi í kosningahríðinni, og svo gott var bróðernið af þeirra hálfu, að þegar þm. Alþfl. hvarf af landi brott, stóð fulltrúi Framsfl. upp úr varamannssæti til þess að rýma fyrir Alþfl.-manni. Hitt var kunnugt, að sums staðar mistókst liðveizla Alþfl.

Umbótabandalagið vantaði eftir kosningarnar tvo menn til þess að hafa meiri hl. þings. Varð þá að ráði að mynda ríkisstj. með Alþb., enda virtust Moskvalínumennirnir þar þá í miklum minni hl.

Vinstri stjórnin var athafnasöm umbótastjórn. Landsfólkið fann þess glöggan vott og man það. En hún varð að hætta störfum í vetur eftir tvö og hálft ár vegna ágreinings um úrlausnir í efnahagsmálum. Fyrir þessum ágreiningi og orsökum hans gerði fyrrv. forsrh.,

Hermann Jónasson, glögga grein í ræðu sinni í gær.

Þótt vinstri stjórnin segði af sér, átti Umbótabandalaginu þar með ekki að vera lokið, eftir því sem í upphafi var til stofnað. Framsóknarmenn lögðu til, að þjóðstjórn yrði mynduð, töldu, að efnahagsmálin, stjórnarskrármálið og þó landhelgismálið sérstaklega gerði það eðlilegt, að allir flokkar tækju nú höndum saman, eins og sakir stóðu. Umbótabandalagið gat haldið áfram innan þjóðstjórnarinnar sem hið þriðja afl. En í stað þess að styðja þjóðstjórnarhugmyndina lét Alþfl. ginnast til þess að rjúfa Umbótabandalagið og mynda augnabliksstjórn minni hl., sem hafði ekki á að skipa nema rúmlega 1/6 af þm. og það mönnum, sem komizt höfðu á þing að verulegu leyti fyrir stuðning annars flokks, Framsfl., er nú skyldi unnið gegn, því að það var Sjálfstfl., sem Alþfl. gekk á hönd og seldi sál sína, um leið og hann myndaði hina veiku stjórn sina með hlutleysi og stuðningi Sjálfstfl. Aldrei fyrr mun það hafa gerzt í veröldinni, að flokkur, sem telur sig verkalýðsflokk, hafi gert slíkan samning við stóratvinnurekenda og auðshyggjumannaflokk. Þetta var auðvitað álíka hyggilegt af Alþfl. og ef rjúpa semdi við fálka að gæta sín og eggja sinna.

Með þessum samningi við Sjálfstfl. var Umbótabandalagið svikið af forustumönnum Alþfl. á hastarlegan hátt. Í gærkvöld leyfði svo einn af þm. Alþfl. sér að segja, að Alþfl. hefði staðið við öll sín orð, og bætti meira að segja við, að Framsfl. hefði fórnað samvinnu við Alþfl. Slík málfærsla er hámark ósvífni. Hins vegar voru svikin alls ekki almenningi í Alþfl. að kenna. Í hans garð er ekki rétt að láta nein ásökunarorð falla og skal ekki heldur gert af mér.

Hvað gekk að þm. Alþfl.? Það væri rannsóknarefni fyrir sálfræðinga. Í desember rétt fyrir jólin komu þeir 8 samtals eins og jólasveinar af fjöllum með poka sína fulla af gjöfum, — nei, nei, ekki gjöfum, en loforðum um gjafir handa þjóðinni: lækkun verðbólgu, niðurgreiðslu verðlags án nýrra álagna, lækkun tilkostnaðar hjá ríki, stóraukið efnahagslegt öryggi o.s.frv. Hugdjarfar hetjur, heyrðist kallað, en það var bergmálið af því, sem þeir sögðu sjálfir í hátíðaboðskap sínum!

Stjórnarflokkarnir, Alþfl. og Sjálfstfl., settu eftir nýárið lög um niðurfærslu verðlags og fleira. Þau lög tryggja niðurfærslu kaupgjalds og verðlags aðalframleiðsluvara, en ná alls ekki til alls verðlags. Verðþenslan fer í gegnum net þeirra í mörgum efnum. Nú er nýafstaðin fjárlagaafgreiðsla stjórnarflokkanna. Hún er með eindæmum glannaleg og morar af undanbrögðum, eins og ræðumenn stjórnarandstöðunnar sýndu fram á í gærkvöld, án þess að stjórnarliðið gæti í nokkru hrakið.

Við afgreiðslu fjárl. komst það m.a. upp, að stjórnarflokkarnir hugsa sér, að svikin skuli tíu ára rafvæðingarframkvæmdin, hætt við héraðsveitur á sumum stöðum og mönnum bent á, að þeir geti í staðinn tekið upp dísilstöðvar. Snertir þetta bæði sveitir og kauptún landsbyggðarinnar. Framsóknarmenn báru strax fram þáltill. um, að tíu ára áætluninni skuli haldið áfram. Till. var vísað til fjvn. í gær. Í dag klofnaði n. út af till. Stjórnarliðið í n. vill ekki, að hún verði samþykkt. Sýnir þetta glögglega, hvað fyrir stjórnarflokkunum vakir, það er að níðast á landsbyggðinni, þar sem hún yfirleitt stendur höllustum fæti vegna legu sinnar.

Allar sínar athafnir í fjárhagsmálunum miðar þessi ríkisstj. við fresti og undanbrögð, fresti til að komast fram yfir kosningarnar, sem hún stofnar til. Ríkisstj. á ekki lengur gleði jólasveinanna. Það er af henni jólasvipurinn. Ráðherrarnir fjórir rogast með sinn pokann hver. Pokarnir eru orðnir þungir og síðir. Innihaldið er orðið þyngra, en loforðin voru um jólin. Fjárlög fimmtungi hærri, en í fyrra, þau síga í. Útflutningssjóðsáætlunin er nökkvaþung. Niðurgreiðslurnar eins og blý. Pokarnir þenjast út og þyngjast dag frá degi. Fjórir Alþfl.-menn, fleiri eru ekki til, ganga einn á eftir hverjum ráðh. og reyna af fremsta megni að lyfta undir. Það er nærri því eins erfitt og að bera. Það er svo vont fyrir höfuðið að lúta. Þar á eftir ganga svo fylktu liði 19 Sjálfstfl.-menn. Þeir hotta á áttmenningana og eru glottleitir, stundum ýta þeir með fæti á eða undir poka. Við þá, sem meðfram veginum eru, segja sjálfstæðismennirnir: „Þetta er nú Alþfl., hann á það, sem í pokunum er.“

En síðustu dagana eru sjálfstæðismenn þó að verða dálítið alvarlegri og óstilltari. Þeir eru að verða smeykir um, að Alþfl. komist ekki með byrðarnar fram yfir síðari kosningarnar og það komi þá á þá sjálfa að bera pokana og um leið að taka opinberlega ábyrgð á innihaldinu. Slíkt var aldrei ætlunin að gera. Og svo er kjördæmamálið. Alltaf koma fram fleiri og fleiri, sem mótmæla því máli. Ljóst er, að næstu kosningar snúast fyrst og fremst um kjördæmamálið. Fjárhagsmálunum hefur að vísu verið stefnt út í kviksyndi. En þótt hörmulegt sé til þess að hugsa, að þar verði kafhlaup, er þó sú grundvallarbylting, sem felst í kjördæmabreyt., svo háskaleg, að fjármálin hverfa í skuggann í næstu kosningum. En eftir þær kosningar skulu fjármálin brenna réttum aðilum á baki.

Kjördæmabreytingin er fláráð upplausnartilraun. Með því að leggja núverandi kjördæmi niður og svipta félagsheildir þær, sem þau eru, sínum sérstöku fulltrúum á Alþingi, er verið að lama þessar félagsheildir. Það er verið að skera á afltaugar þeirra.

Það verður að muna, að nú orðið er Alþingi aðili, sem skiptir árlega í stórum stíl þjóðartekjunum beint og óbeint milli stétta og atvinnugreina og þar með milli landshluta. Þingmenn þurfa þess vegna að þekkja nákvæmlega hag og þarfir sinna umbjóðenda í hverri byggð, vera í nánu sambandi við þá og gæta réttar þeirra gagnvart ríkisvaldinu og stofnunum þess á stjórnarsetrinu. Vitanlega er slík umboðsmennska óhjákvæmilegust og víðtækust vegna þess fólks, sem ekki er búsett í nánd við stjórnarsetrið. Að ætla að svipta það fólk sínum sérstöku þingmönnum er tilræði við fólkið. Í stað hinna 27 kjördæma, sem nú eru utan Reykjavíkur og afnema skal, á að stofna sjö stór hlutfallskosningakjördæmi með 5–6 þm. Þessi stóru kjördæmi verða engar félagsheildir. Fólkinu þar er aðeins öllu skipað að velja milli sömu framboðslista og atkvæðum allra á því svæði steypt saman. Val til framboðs færist úr höndum heimamanna í hendur flokksstjórna, sem hafa auðvitað aðsetur í höfuðstaðnum og koma fram fyrir hönd flokkanna og ríkisvaldsins. Þm. verða því miklu meira en nokkru sinni áður háðir flokksstjórnarvaldi og ríkisvaldssjónarmiðum, en óháðari en nú umbjóðendum sínum. Og til þess er líka leikurinn gerður.

Flokkunum, sem að kjördæmabreytingunni standa, þykir landsbyggðin of sterk með núverandi kjördæmaskipun og eru henni gramir fyrir að vilja ekki ljá sér fylgi og lúta sér. Þeir bera fram þau falsrök, að Framsfl. hafi forréttindi vegna einmenningskjördæmanna, af því að hann hafi meira fylgi, en þeir úti um landið, þó að þeir keppi þar um fylgi undir nákvæmlega sama skipulaginu og Framsfl. Framsfl. hefur engin forréttindi í þeirri keppni. Þeim þykir þess vegna ekki nóg að fjölga þm. í þéttbýlinu, eins og Framsfl. telur rétt að gert sé vegna fólksfjölgunarinnar þar, heldur vilja þeir líka gera þingmenn landsbyggðarinnar áhrifaminni en þeir eru nú fyrir umbjóðendur sína með því að rjúfa samband þeirra við núverandi kjördæmi og drepa með því umhyggju þeirra og ábyrgð á dreif. Hinir hlutfallskosnu 5–6 þingmenn í kjördæmi verða af ýmsum flokkum og fulltrúar stríðandi hópa í kjördæminu. Þeir hafa því alls ekki sprungulausa samstöðu út á við fyrir hið stóra kjördæmi. Þess gjalda svo málefnin, og þingmennirnir kenna hver öðrum. Þeir verða ábyrgðarlausari en í einmenningskjördæmum og einn skýtur sér bak við annan, rétt eins og ráðh. í samsteypustjórn.

Eitt af því, sem staðið hefur stjórnmálalífi okkar Íslendinga fyrir þrifum, er, að hér hafa verið eintómir minnihlutaflokkar. Nú á að stofna til kerfis, sem leiðir af sér enn fleiri flokka. Hlutfallskosningar í stórum kjördæmum um land allt eru gróðrarstíur smáflokkaþróunar.

Þegar hlutfallskosningafyrirkomulagið kom fyrst til sögunnar, — það var um síðustu aldamót, — héldu margir ágætir menn, að það væri heppilegt. Nú hefur reynsla þjóða sýnt, að það er lýðræðinu hættulegt. Það veikir lýðræðið að hafa skilyrði til að greinast í marga flokka. Lýðveldi hafa hrunið fyrir það. Engin þjóð hefur á allra síðustu árum tekið upp hlutfallskosningar. Reynslan varar þjóðirnar við því. Lítið til Frakklands og gaumgæfið, hvað þar hefur gerzt. Sjáið, hve Finnar berjast í bökkum með sína átta stjórnmálaflokka. Athugið; að Írar eru komnir á fremsta hlunn með að afnema hlutfallskosningar hjá sér.

Lýðræðið stendur föstustum fótum, þar sem einmenningskjördæmi eru aðalregla. Þeir einir hafa ástæðu til þess að vera með hlutfallskosningum um land allt, sem vilja efla glundroðann, sem er þó ærinn fyrir á Íslandi.

Mér fannst í gærkvöld raunalegt að heyra heiðurskempuna, hv. þm. Borgf., sem nú er að hætta þingmennsku, strika yfir skjalfestar fyrri skoðanir sinar á kjördæmaskipuninni og taka ekkert tillit til síðustu tíma reynslu annarra þjóða, sem styður hans fyrri skoðanir. Heyra hann mæla með stóru kjördæmunum vegna þess, að nú væri stúdentafélag á Miðvesturlandi. Sameiginlegur byggingarfulltrúi þar. Rétt fyrir bændur, eins og þeirra högum væri komið, að hafa hægt um sig. Gott fyrir stóra svæðið að mega vænta þess, að líklega yrði þar alltaf einhver fulltrúi, er væri í náðinni hjá ríkisstj., hver sem hún yrði hverju sinni. Þetta voru svo lágkúruleg rök, að mér fundust þau alls ekki samboðin hinum merka manni, en að vísu samboðin málstaðnum og flokknum. Við bættist svo, að hann lagði áherzlu á, hvað tvímenningskjördæmi hefðu reynzt vel, þar sem sinn maður væri kjörinn af hvorum flokki. Dagamunur hygg ég að sé að því. Horft hef ég á slíka þingmenn greiða atkv. hvorn móti öðrum í þýðingarmestu málum. Þannig hefur minni hl. orðið jafnvígur meiri hl. kjördæmis þvert á móti aðalundirstöðureglum lýðræðisins. Undir slíkum kringumstæðum er sama sem slíkt kjördæmi sé þingmannslaust, þ.e. við slíkar atkvgr. Eitthvað er bogið við þetta. En með þau kjördæmi er komið sem komið er, og þau hafa það fram yfir hin stóru fyrirhuguðu kjördæmi, að þau eru félagsheildir eða hafa verið það til skamms tíma.

Þríflokkarnir, sem við köllum nú hér á Alþingi, Alþfl., Sjálfstfl. og Alþb., samþykktu á laugardaginn var með meirihlutavaldi sínu á Alþingi frv. sitt til kjördæmabreyt. Alþb. gerðist stjórnarstuðningsflokkur í þessu máli eftir mikla eftirgangsmuni frá stjórnarflokkunum. Ekki mun þó hafa staðið á kommúnistum þar, heldur munu hinir í þeim skrýtilega samsetta flokki hafa talið málefnið mjög vafasamt.

Stjórnarskráin hefur verið í endurskoðun, síðan lýðveldið var stofnað 1944. Allir viðurkenna, að það sé margt, sem breyta þurfi. Fulltrúar Sjálfstfl. töluðu á sínum tíma um 20 atriði, og aðrir nefna fleiri og önnur. Nú hafa þriflokkarnir tekið eitt þessara efnisatriða út úr og ætla með því að búa sér í haginn sem flokkar og umturna til þess grundvelli lýðræðisins, hvað sem öllu öðru líður, er breyta þarf í stjórnarskránni. Með því eru þeir að þjóna flokkshyggju sinni, hringla með stjórnarskrána, laga hana eftir flokkum sínum í stað þess að laga flokkana eftir henni. Þannig setja þeir flokkana ofar stjórnarskrá lýðveldisins.

Við framsóknarmenn bárum fram till. um, að mþn., sem er til síðan 1947 vegna stjórnarskrárendurskoðunarinnar, yrði falið að ljúka endurskoðuninni á þessu ári og reyna af ýtrasta megni að ná samstöðu allra flokkanna, svo sem til var ætlazt, er lýðveldið var endurreist, og málið falið n. allra flokkanna. Við lögðum til, að þá yrði sérstaklega athugað, hvort ekki væri rétt að fela sérstaklega kjörnu stjórnlagaþingi að setja stjórnarskrána og taka þannig málið úr sambandi við önnur deilumál líðandi stundar, ef bein samkomulagslausn þess næðist ekki í stjórnarskrárnefndinni. Þetta var stráfellt.

Við gerðum enn fremur til vara beinar brtt. við frv. þríflokkanna. Þær voru um eðlilega fjölgun þm. í þéttbýlinu á þeim grundvelli, sem frá öndverðu hefur verið byggt á. Þær till. voru einnig felldar alveg hiklaust. Hinar beinu brtt. okkar við stjórnarskrána, varatillögurnar, voru tilboð um samkomulag. Þær voru í samræmi við vilja síðasta flokksþings okkar: grundvöllur þeirra sjálfstæði héraða og aðalregla einmenningskjördæmi, og á milli bar ekkert nema þetta til samkomulags. Önnur atriði, sem á milli ber, létum við kyrr liggja. Við fórum þess að lokum einnig á leit við meiri hl. í stjskrn. í Ed., að þríflokkarnir féllust á, að lögin yrðu ekki látin taka gildi að meira eða minna leyti, nema kjósendur samþykktu það við almenna atkvgr. Eftir að hafa athugað þetta í sínum hópi lét formaður n. okkur vita, að á slíkan fyrirvara um almenna atkvgr. til gildistöku yrði ekki fallizt af þríflokkunum. Var þá í ljós leitt, að þeir treystu ekki málstað sínum svo vel, að þeir þyrðu að leggja hann til staðfestingar eða synjunar undir atkvæði landsmanna.

Hins vegar hafa þríflokkarnir gert sér vonir um að fá kjörna nægilega marga flokkshlýðna menn í næstu kosningum til þess að samþykkja þessa skyndibreytingu á kjördæmagrein stjórnarskrárinnar á sumarþinginu væntanlega. Þetta er það, sem þjóðin þarf að vera á verði gegn. Flokkarnir, sem þora ekki að leggja málið eitt sér undir hennar dóm til úrskurðar, mega ekki á óbeinan hátt komast með það fram hjá dómi hennar að takmarki sínu.

Næstu kosningar eiga að snúast um kjördæmamálið eitt. Aldrei í sögu Íslands hefur verið stofnað til örlagaríkari kosninga. Þær eru um það, hvort Íslendingar vilja halda áfram að byggja land sitt eða láta það fara í meiri og meiri auðn. Þríflokkarnir telja, að of mikið hafi verið gert á síðustu árum til að viðhalda jafnvægi í byggð landsins, en geta þó ekki sýnt fram á, að þéttbýlið hafi verið fyrir borð borið í þjóðfélagslegum athöfnum, nema síður sé. Þeir segja fólkinu í Reykjavík og þéttbýlinu við Faxaflóa, að það hafi of fáa fulltrúa á Alþ., en hafna þó till. um fjölgun þeirra á grundvelli sögulegrar þróunar. Þeir segja fólkinu úti um land, að fulltrúum þess verði yfirleitt ekki fækkað, en þeir aðeins gerðir sameiginlegir fyrir stór svæði. Á bak við liggur sú hugsun að taka fulltrúana úr því nána persónulega sambandi, sem þeir eru í við hverja sveit nú, og ná undir flokkana vali þeirra. Hér er ofurvald flokkshyggjunnar að svíkjast að þjóðinni. Hér er sú samstefna þríflokkahyggjunnar á ferð, sem er ósárt um, þótt hún í verki eyði núverandi byggð á stórum svæðum landsins og mæli þvert um hug sinn, meðan hún er að ná tökum til að gera þetta.

Framkoma stjórnarflokkanna í efnahagsmál

unum í vetur gagnvart bændastéttinni sýnir, hvað í huganum býr. Rafvæðingarskerðingin, sem þeir hugsa sér, er hættumerki. Fullyrðingar, sem fallið hafa um, að fjárfestingin úti um land á undanförnum árum hafi verið vitleysa eða pólitísk fjárfesting, eru engar dulrúnir. Bátafiskinn, sem sjómenn veiða á heimamiðum víðs vegar með ströndum fram og fá greiddan sæmilegu verði, kalla þessir flokkshyggjumenn „Framsóknarýsu“ og „Eysteinsstútung“. Út úr þeim nafngiftum skín lítilsvirðingin á fólkinu, sem að þessum afla vinnur. Þeir líta á það sem eins konar bónbjargarlýð, og svo kemur þar fram kuldinn til þeirra, sem staðið hafa vörð um hagsmuni þessa fólks.

Nú fara frambjóðendur þessara flokka innan stundar út um land til framboðs og áróðurs fyrir flokka sína. Þeir munu varla segja þar: „Við erum komnir til að leggja kjördæmi þetta niður. Við höfum engan áhuga á því, að veidd sé „Framsóknarýsa“ né verið sé að rafvæða þetta strjálbýli.“ Nei, nei. Þeir munu segja eins og Mbl.: Þéttbýlið réttir ykkur nú með kjördæmamálinu bróðurhönd sína. — Varið ykkur á þessari hönd þríflokkavaldhyggjunnar. Hún er loðin hönd og óhrein. Takið ekki í hana. Þetta er alls ekki bróðurhönd þéttbýlisfólksins, sem hugsar áreiðanlega yfirleitt hlýtt til landsbyggðarinnar og vill henni vel.

Allir muna frásögnina um það, þegar Ólafur Haraldsson Noregskonungur sendi Íslendingum kveðju guðs og sína og kvaðst vilja vera þeirra drottinn, ef þeir vildu vera hans þegnar, og hvorir skyldu vera annars vinir og fulltingismenn. Þar var ísmeygilegt vald að seilast eftir yfirráðum, eins og nú. Til voru þá menn eins og núna, sem vildu, að tekið væri í höndina, jafnvel ekki ómerkari maður en Guðmundur ríki á Möðruvöllum flaskaði á því. En Einar Þveræingur reis gegn beiðni konungs og mótmælti kröftuglega, — „því að þann órétt gerum vér ekki oss einum, heldur allri ætt vorri, er þetta land byggir,“ sagði hann. Svo er enn, málið snertir komandi kynslóðir, ekki aðeins okkur.

Takið nú, góðir Íslendingar, upp afstöðu Einars Þveræings og eyðið þessu máli. Greiðið engum frambjóðanda atkv. við næstu kosningar, sem lofar ekki að fella þessi lög og stuðla þess í stað að heilbrigðri endurskoðun stjórnarskrárinnar í heild með eðlilegum hraða. Ég mæli þetta líka til fólksins í þéttbýlinu, vegna þess að auðvitað fara hagsmunir þess og landsbyggðarfólksins saman, ef rétt er á litið. Ég mæli þetta líka til fólksins í þéttbýlinu, vegna þess að ég veit, að það skilur þessi mál, ef það hugsar um þau. Það verður sífellt í fullu gildi, sem Einar skáld Benediktsson kvað um Reykjavík, að „af bóndans auð hún auðgast, verður stærri og auðgar hann, þau hafa sama mið“. Það er þéttbýlisfólkinu hagur, að landsbyggðarfólkinu líði vel og byggð haldist þar við. Öll þjóðin á líka að vaka yfir því, að land hennar allt sé sem bezt setið og þannig, að það taki á móti fjölgun hennar og sívaxandi, staðbundin verðmæti hagnýtist frá kynslóð til kynslóðar, en séu ekki yfirgefin. Í Reykjavík og víðar í þéttbýlinu er margt fólk, sem flutzt hefur þangað úr sveitum, sjávarþorpum og smærri kaupstöðum landsins. Þetta fólk ann fyrri átthögum sínum af miklum heilindum. Það fer margt sí og æ hugförum „heim í gamla hópinn sinn, heim á fornar slóðir“. Þetta fólk finnur eins og Væringinn, að „þess þroski er skuldaður bernskunnar byggð“. Það hefur víða með sér átthagafélög, sem votta, hvað býr því í hug og hjarta. Nú er tækifæri fyrir þetta fólk að gera átthögum sínum ómetanlegan greiða á auðveldan hátt. Það er með því að kjósa að þessu sinni aðeins þá frambjóðendur, sem treysta má til þess að fella þá kjördæmabreytingu, sem fyrir liggur og felur það í sér að svipta hina fornu átthaga fólksins sínum sérstöku fulltrúum á Alþingi. Foringjavald þriflokkanna, sem haldið er af kaldhyggju flokkshagsmuna og drottnunargirni, er ekki vílar fyrir sér að gera í skyndi stjórnarskrá þjóðarinnar að hraklegu kaupskaparmáli, heyr í næstu kosningum stríð við þjóðrækni og átthagatryggð um undirstöðuatriði framtíðarhamingju íslenzkra byggða og Íslands alls. Það er ekki að þessu sinni vandi fyrir þá, sem hafa hjartað á réttum stað, að vita, hvorn málstaðinn á að styðja. — Góðar stundir.