12.05.1959
Sameinað þing: 49. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1840 í B-deild Alþingistíðinda. (2489)

Almennar stjórnmálaumræður

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Hv. fulltrúar stjórnarflokkanna, Alþfl. og Sjálfstfl., virtust vera mjög ánægðir með afrek þessa þings eftir því að dæma, hvernig þeir töluðu hér í gærkvöld. Mun ég hér á eftir víkja að ýmsum þeim málum, sem þeir minntust á, án þess þó að rekja einstakar ræður þeirra.

Þegar hæstv. forseti Sþ. tók við því starfi 15. jan. s.l., þá lét hann þá ósk í ljós við þingið, að vandamálum þjóðarinnar yrði framvegis ráðið til lykta í þingsölunum, í Alþingi sjálfu, en ekki utan þings. Honum hefur ekki orðið að ósk sinni, því að aldrei hafa stærri ákvarðanir verið teknar utan þingsalanna, heldur en nú. Sem kunnugt er, hefur hæstv. ríkisstj. varið stórfé til að greiða niður vöruverð og talið sig með því vera að stöðva dýrtíðina. Auk þess hefur ríkisstj. samið um auknar útflutningsbætur, sem nema tugum millj. kr., án þess að bera þetta undir Alþingi, og hefur þó Alþingi setið á rökstólum, svo að það hefðu verið hæg heimatökin.

Það má að vísu vera, að hæstv. ríkisstj. hafi borið þessar aðgerðir undir stuðningsflokka sína, Alþfl. og Sjálfstfl. En undir Alþingi sem slíkt hefur hún ekki borið neitt í þessu efni, nema telja skyldi frv. um breytingu á útflutningssjóðslögunum, sem hefur lengst af legið í salti í hv. Nd. og er ekki orðið að lögum enn. Það má því heita, að því er snertir stærstu fjármál þjóðarinnar, að hér hafi verið einræðisstjórn, síðan hæstv. núverandi ríkisstj. tók við völdum, og þó telja þeir menn, sem að þessu standa, sig vera hina mestu lýðræðissinna. Þessum aðferðum verður að mótmæla.

Ég er nú búinn að sitja nokkuð lengi á Alþingi, því að þetta er 43. þingið, sem ég sit á, en ég fullyrði, að ég hef aldrei séð annað eins ábyrgðarleysi við afgreiðslu fjárlaga og fjármála yfirleitt og nú á þessu Alþingi. Tekjuliðir fjárlaganna eru hækkaðir, flestir án þess að hægt sé að gera ráð fyrir, að þeir standist. Lækkaðar hafa verið áætlanir um lögboðin gjöld, án þess að nokkrar líkur séu til, að sú lækkun verði raunveruleg. Þannig er fenginn svokallaður jöfnuður tekna og gjalda. Get ég ekki betur séð en fjárlögin séu hreint og beint fölsuð. Hæstv. ríkisstj. ætlar að lækka dýrtíðina án þess að leggja ný gjöld á þjóðina. En dettur nokkrum óvitlausum manni í hug, að ekki komi að skuldadögunum? Allt þetta ráðslag er raunverulega víxill, sem hæstv. ríkisstj. tekur, en framtíðin er í ábyrgð fyrir og verður að greiða. Skattarnir hljóta því að koma með tvöföldum þunga, vegna þess að þá þarf bæði að sinna þörfum líðandi stundar og greiða víxllinn.

Raunverulegur sparnaður er sáralítill í fjárlögunum, þó helzt á þeim ýmsu verklegu framkvæmdum, sem fólkinu á landsbyggðinni er til stórbaga að dregið sé úr. Í þessu sambandi minni ég á raforkuframkvæmdirnar. Ég sé ekki betur, en það eigi beinlínis að svíkja fólkið um þær raforkuframkvæmdir, sem lofað var 1953. Svikin eru í fyrsta lagi fólgin í því, að skornar hafa verið niður á fjárlögum yfir 10 millj. kr. til raforkuframkvæmda. Í öðru lagi hefur verið svikizt um að ganga eftir 14 millj. kr. láni frá íslenzkum bönkum til þessara framkvæmda, sem koma átti á þessu ári til þeirra samkvæmt samningi, sem stjórn Steingríms Steinþórssonar gerði við bankana og má segja að væri grundvöllur undir áætluninni. Í þriðja lagi virðist 10 ára áætlunin um rafvæðingu dreifbýlisins hreinlega vera numin úr gildi. Hætt er við byggingu vatnsaflsstöðva og hætt við að tengja héruðin saman með háspennulínum, en tjasla á þess í stað upp dísilstöðvum til bráðabirgða, en með þessu er grundvöllurinn undir dreifingu rafmagns í framtíðinni um sveitir og til sjávarþorpa með háspennulínum hruninn. Þetta verður til kostnaðarauka, nema ætlunin sé hreinlega sú að búa við dísilstöðvar til frambúðar, en það telja sérfræðingar um rafmagnsmál ekki hægt að treysta á til frambúðar. Ætlunin virðist blátt áfram vera sú, að 1963, þegar 10 ára áætluninni átti að vera lokið, verði eftir að framkvæma af henni fyrir meira en 100 millj. kr. með óbreyttu verðlagi. Þær framkvæmdir, sem þá verða eftir, koma svo kannske eftir þann tíma eða þá aldrei.

En svo ósvífinn er málflutningur þeirra, sem að þessu standa, eins og t.d. í ræðu hæstv. fjmrh, í gærkvöld, að þeir gefa jafnvel í skyn, að með þessu, sé verið að koma í veg fyrir, að 500 þús. kr. hafi átt að verja til að koma rafmagni á einstök sveitabýli eftir áætluninni. Slíkt hefur aldrei staðið til samkvæmt henni.

Flestir þeir, sem hafa ekki enn fengið rafmagn úti um landið, hafa gert sér von um að fá það á næstu árum og í síðasta lagi árið 1963. Nú bregðast þessar vonir, hver veit, hvað lengi, kannske fyrir fullt og allt.

Eins og flestir muna, var ástandið þannig fyrir nokkrum árum, að fólk flykktist mjög utan af landsbyggðinni, bæði úr sveitum og sjávarplássum, hingað til Reykjavíkur og til Suðurnesja. Nú hefur þessi straumur stöðvazt í bili og mikið vegna aðgerða fyrrv. ríkisstj.

Hv. stjórnarflokkar stefna nú, að því er virðist, vitandi vits að því, að þeir fólksflutningar hefjist á ný. Það er kominn sá tími, að fólk unir ekki annars staðar en þar, sem það hefur svipaða lífsafkomu og lífsþægindi og það veit að aðrir hafa. Eitt það veigamesta, sem varð til að draga úr fólksstraumnum úr kaupstöðum úti um land og sjávarplássum, var atvinnuaukningarféð. Fyrir það hafa verið fengin ný atvinnutæki, byggðar hafnir, frystihús og margt fleira. Veit ég t.d., að atvinnuaukningarféð kom í svo góðar þarfir í sjávarplássum í mínu kjördæmi, að án þess hefði sennilega skapazt hreint neyðarástand þar og fólksflótti. Nú á stórlega að skerða þetta framlag, en af því mun án efa leiða minnkandi framkvæmdir á þessum stöðum. Þetta er kveðja hv. stjórnarflokka til fólksins í kaupstöðum og öðrum sjávarplássum úti um land.

Þegar búið er að skerða atvinnuaukningarféð, hætta við raforkuframkvæmdir, draga úr vegaviðhaldinu, svo að sumir þjóðvegir verða sennilega ófærir, ef framfylgja á ákvæðum fjárlaga, — þegar allt þetta verður gert, gæti ég haldið, að þá færi að losna um ýmsa úti á landsbyggðinni og fólkið þar liti á höfuðborgina og næsta nágrenni hennar sem hið fyrirheitna land. En mundi Reykjavík hafa hag af því, að fólkið færi að flykkjast hingað aftur í stríðum straumum og keppa um atvinnu og húsnæði? Ég held ekki. Ég held, að það sé allra hagur, Reykvíkinga líka, að jafnvægi haldist í byggð landsins. En núverandi stjórnarstefna virðist ganga í þveröfuga átt við það.

Ég kem þá að því, sem mestu máli skiptir um þessar mundir, en það er kjördæmamálið. Stefna Framsfl. var skýrt mörkuð í kjördæmamálinu á þingi flokksins í vetur. Flokkurinn vill byggja á héraðaskiptingunni og einmenningskjördæmum sem aðalreglu, en hlutfallskosningum í stærstu kaupstöðum sem undantekningu vegna þess, hvað erfitt er að finna þar eðlileg takmörk fyrir skiptingu í mörg kjördæmi, enda hver kaupstaður félagsheild fyrir sig. Þessari skipan fylgja engin uppbótarsæti.

Hinir flokkarnir allir hafa tekið afstöðu gegn þessari stefnu og halda því fram jafnvel, að þeir hafi orðið að grípa til gerbyltingar á kjördæmaskipuninni, vegna þess að Framsfl. hafi ekki viljað hlusta á neitt nema þessa stefnu sína í kjördæmamálinu. Framsfl. var þessi afstaða hinna flokkanna vel ljós, og flokknum var vel ljóst, að honum bar að gera allt, sem í hans valdi stóð, til þess að hafa áhrif á, hvað gert yrði í kjördæmamálinu, og reyna að afstýra því versta, en það versta var að flokksins dómi, afnám héraðskjördæmanna. Fyrir þessu var ráð gert á flokksþingi framsóknarmanna og í miðstjórn hans og þingflokki. Flokkurinn ákvað að gera allt, sem í hans valdi stæði, til að koma á miðlun í málinu á Alþingi. Till. flokksins til breytinga á stjórnarskrárfrv. hafa því allar verið við þetta miðaðar og byggðar á því, að hægt er að jafna kosningarréttinn með því að fjölga kjördæmaþm. í þéttbýlinu, en héraðskjördæmin standi. Ef á þetta yrði fallizt til miðlunar, þá yrði að sætta sig við uppbótarsæti áfram og hlutfallskjör í tvímenningskjördæmum til þess að koma í veg fyrir, að kjördæmin yrðu lögð niður.

Stefna Framsfl. í kjördæmamálinu, miðlunartilraunir hans og starfsaðferðir til þess að koma í veg fyrir árásina á kjördæmin, allt er þetta miklu ljósara og skýrara og nýtur meiri vinsælda meðal almennings en andstæðingunum

þykir gott, og þar af stafar allt það moldviðri, sem þeir reyna að þyrla upp um málið.

Kjarni þessa mikla máls er sá, að þríflokkarnir vilja ekki á annað hlusta, en að leggja niður núverandi kjördæmi, enda þótt á því sé engin þörf til þess að jafna kosningarréttinn meira, en nú er í þéttbýli og strjálbýli. Það er hægt að gera eftir miðlunarleið Framsfl. Sá réttur manna og héraða að kjósa sérstaka fulltrúa fyrir hvert byggðarlag á Alþingi hefur frá upphafi hins nýja Alþingis beinlínis verið grundvöllurinn að þeim miklu, almennu framförum, sem orðið hafa víðs vegar um landið. Kunnugleiki þm., náið samband við kjósendur, bein ábyrgð þeirra hvers um sig á málefnum héraðsins hefur orðið grundvöllur að þeirri sókn í framfaramálum héraðanna hvers um sig og fleiri saman, sem þm. hafa haldið uppi á Alþingi. En þau öfl, sem fyrir kjördæmabreytingunni standa nú, kalla þetta aðhald, sem kjördæmin veita þm. til þess að vinna að málum héraðanna, pólitíska spillingu. Svo langt er gengið, að talað er um, að kjördæmin séu sett upp á þjóðina af dönskum konungi. Það var forustumaður Íslendinga, einn fyrsti í frelsisbaráttu þjóðarinnar, sem fyrstur stakk upp á svipaðri kjördæmaskipun og haldizt hefur. Það var Baldvin Einarsson.

Tveir hv. þm. Sjálfstfl., þeir hv. þm. Borgf. og hv. 2. þm. Skagf., hafa haldið því fram hér á Alþingi í útvarpsumr., annar í umr. um stjórnarskrána sjálfa, hinn í gærkvöld í þessum eldhúsdagsumr., að það væri miklu betra fyrir kjósendur, að kjördæmunum væri steypt saman í stærri heildir, þá gæti hver kjósandi snúið sér til flokksbróður síns á Alþingi o.s.frv. Ég hef aldrei orðið þess var, að kjósendur í mínu kjördæmi hafi ekki getað snúið sér til mín, hvar í flokki sem þeir hafa staðið, og sama veit ég að er um báða þessa hv. þm. og raunar flesta þm. ég held t.d., að hv. þm. Borgf., Pétur Ottesen, sé alveg talandi tákn um það, hvers virði þingmaður einmenningskjördæmis getur verið héraði sínu. Borgarfjarðarsýsla og Akraneskaupstaður bera ljóst vitni um það, og framfarir þar afsanna alveg þau ummæli þessa þm., að héraðið hafi nokkurn tíma verið látið gjalda pólitískrar afstöðu hans. Ég er alveg viss um, að þessi þm. hefði komið minna til leiðar, ef hann hefði verið einn af fimm þm. hins stóra svæðis frá Hvalfjarðarbotni og í Gilsfjarðarbotn, sem nú á að verða kjördæmi. Það hefði dreift áhuga hans og kröftum.

Ég hef oft hugsað um það undanfarnar vikur, hvað því gæti valdið, að hæstv. ríkisstj., sem skipuð er góðum og gegnum mönnum, sem ég hef persónulega mætur á, skuli láta sér verri menn hafa sig til þess að koma fjármálum þjóðarinnar í slíkt öngþveiti sem fyrirsjáanlegt er, þegar á þessu ári eða a.m.k. á næsta ári og það vegna þessa máls, sem ég hef rætt um stund. Ég held, að svarið við þessu geti ekki verið nema eitt. Hæstv. ríkisstj. leggur út á þessa glæfrabraut vegna tilfinningar, sem margir hafa fyrr og síðar þjáðst af, tilfinningar, sem hrundið hefur af stað styrjöldum á milli þjóða og verið orsök margra óhæfu- og jafnvel glæpaverka, og þessi tilfinning er óttinn. Flokkur ríkisstj., Alþfl., er hreint og beint hræddur við dauða sinn og hyggur, að kjördæmabreytingin geti tryggt honum lífið. Þessi flokkur var þó fyrir tiltölulega fáum árum töluvert öflugur bæði á Alþingi og utan þings. Þannig hafði hann t.d. eitt sinn tíu þingmenn: Nú er hann hræddur um, að hann komi engum manni á þing hjálparlaust nema með breyttri kjördæmaskipun og hlutfallskosningum. En það er ekki kjördæmaskipuninni að kenna, að flokkurinn er nú í hættu sem þingflokkur. Það sýnir fyrri saga flokksins. Hann var t.d. töluvert öflugur flokkur, áður en uppbótarþingmennirnir komu til sögunnar. Orsökin er sú, að flokkurinn hefur tapað fylgi meðal þjóðarinnar, og haldi sú þróun áfram, gagnar honum ekkert nein kjördæmabreyting nema e.t.v. í bili. Sjálfstfl. aftur á móti hyggst auka völd sín með kjördæmabreyt. og hnekkja Framsfl.

Hvort tveggja þetta er þó næsta óvíst að takist. Stjórnarskráin kveður svo á, að þegar stjórnarskrárbreyt. er samþykkt á Alþ., skuli þingið rofið og kosningar fara fram, og öðlast stjórnarskrárbreytingin ekki gildi, nema næsta þing eftir kosningar samþykki breytinguna aftur. Þetta ákvæði er sett til tryggingar kjósendum, til þess að þjóðin geti tekið í taumana, ef hún er óánægð með breytinguna, og sent þá meiri hl. á þing, sem vill fella slíka breyt. Ráðgert er að hafa aukaþing í sumar. Ekki er ætlazt til, að það þing geri annað, en að endursamþykkja stjórnarskrárbreytinguna og setja kosningalög í samræmi við hana. Í haust á svo venjulegt þing að koma saman að loknum nýjum kosningum. Kosningar í vor snúast því og eiga að snúast eingöngu um kjördæmamálið, því að aukaþingið, sem kosið er til, fjallar ekki um annað. Þeir, sem vilja afnema núverandi kjördæmi, sem mundi leiða til áframhaldandi glæfrastefnu núverandi stjórnarflokka í fjármálum, kjósa að sjálfsögðu Sjálfstfl. eða Alþfl. Hinir, sem vilja halda við núverandi kjördæmum, sem eru undirstaða þess, að jafnvægi haldist í byggðum landsins og að stjórn og þing sinni þörfum þess fólks, sem býr á landsbyggðinni, í sveitum landsins og kaupstöðum þar og öðrum sjávarplássum, þeir kjósa að sjálfsögðu þann elna stjórnmálaflokk, sem berst á móti þessum ófögnuði, þeir kjósa Framsfl. við kosningarnar í vor. Hvert atkv. sem Framsfl. verður greitt í vor, kemur að gagni sem mótmæli gegn afnámi kjördæmanna. Ykkur verður að vísu sagt, kjósendur góðir, að það þýði ekki að kjósa Framsfl. vegna kjördæmamálsins, það mál sé þegar útkljáð og flokkurinn geti ekki fengið meiri hl. né stöðvunarvald á aukaþinginu. En jafnvel þó að svo færi, mun það sýna sig, að ef Framsfl. fær stóraukið fylgi í kosningunum í vor, bæði að kjósendafjölda og þingmannatölu, þá mun koma hik á hina flokkana. Þeir kæra sig nefnilega ekkert um að hrinda frá sér fjölda kjósenda úti um land. Þá kynni svo að fara, að hætt yrði við að keyra þetta mál í gegn á aukaþinginu, en í stað þess yrði setzt að samningaborðinu og sanngjörn lausn fundin í kjördæmamálinu án þess að leggja núverandi kjördæmi niður, svipað og gert var eftir kosningarnar 1931. Veitið því Framsfl. öruggt fylgi í kosningunum í vor, kjósendur góðir.