12.05.1959
Sameinað þing: 49. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1857 í B-deild Alþingistíðinda. (2493)

Almennar stjórnmálaumræður

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh., Friðjón Skarphéðinsson, vék hér að kjördæmamálinu í ræðu sinni. Hann sagði, að Alþb. hefði neitað að styðja kjördæmabreytinguna, ef þingmenn yrðu fleiri en 60. Hér er um staðlausa fullyrðingu að ræða. Um það var ekki að ræða, að hægt væri að ná samkomulagi um fjölgun þingmanna í einstökum kjördæmum. Sú eina till., sem lá fyrir Alþb. í þessum efnum, var um að fjölga þingmönnum a.m.k. upp í 65. Það var kunnugt í samningunum um kjördæmamálið, að till. bárust um fjölgun þingmanna í ýmsum einstökum kjördæmum, og það var auðvitað Alþfl. einn allra flokka, sem gat samþykkt það fyrir sitt leyti að hafa þingmenn hvarvetna sem allra flesta í þeirri veiku von, að hrynjandi flokkur gæti með þeim hætti komið manni á þing.

Hæstv. dómsmrh. sagði hér, að Alþb. hefði krafizt greiðslu fyrir stuðning sinn við kjördæmamálið. Þetta er nokkuð furðuleg yfirlýsing, á sama tíma og þess er gætt, að verndari Alþfl. nú, Sjálfstfl., lýsir því yfir, að hann hafi beinlínis samið við Alþfl. um það, að hann skuli fylgja kjördæmamálinu með því skilyrði, að Sjálfstfl. sjái um, að Alþfl. fái að tolla í stjórnarstólunum á meðan. Þegar Alþb. setti fram þá réttlátu kröfu, að mynduð yrði hlutlaus utanþingsstjórn, á meðan verið væri að framkvæma kjördæmamálið, þá svaraði Alþfl. því hiklaust neitandi, slíkt kæmi ekki til mála, þá léti hann heldur sjálft réttlætismálið daga uppi, en hann tæki ráðherra sína upp úr stólunum. Hvaða flokkur ætli hafi krafizt greiðslu fyrir stuðning sinn við kjördæmamálið annar en Alþfl.? — Vill fá borgað fyrir að fylgja málinu, sagði hæstv. ráðherra. Og þetta er ráðherra Alþfl. Er þarna ekki höggvið nokkuð nærri Alþfl.?

Og svo reyndi hæstv. dómsmrh. að koma hér fram með sérstakar getsakir í garð Alþb. um það, að svo kynni að vera, að vart væri á Alþb. að treysta um framgang kjördæmamálsins. Og svo er vitnað til þess, að ef tryggja ætti framgang kjördæmamálsins, þá væri vissast að efla Alþfl. Þá átti að efla þann flokk, sem hóf kjörtímabilið síðasta, með því að svíkja gildandi kosningalög, að brjóta raunverulega eðli kjördæmaskipunarinnar í landinu og svindla þannig inn á þing nokkrum aukaþingmönnum. Nú í lokin þykist þessi flokkur vera réttlátastur allra flokka og líklegastur til þess að sjá um, að komið verði í veg fyrir svona svik síðar. Nei, hið sanna er það, að Alþfl. er ekki hægt að treysta í þessu máli fremur en öðrum. Þar hefur hann snúizt úr einu í annað allan tímann, eins og ég skal nú víkja örlítið að í sambandi m.a. við það, sem hv. síðasti ræðumaður vék hér að, hv. 4. þm. Reykv., Eggert Þorsteinsson.

Hann ræddi hér nokkuð um samstarf Alþfl. við sjálfstæðismenn í verkalýðsfélögunum og kvartaði sáran undan því, hvernig Framsfl. hefði brugðizt Alþfl. í þeim efnum. Nei, sannleikur málsins var sá, að þó að Alþfl, hafi samið á sínum tíma um það við Framsfl., að Framsfl. ætti að veita honum lið til þingsetu, þá sveik Alþfl. strax á eftir Framsfl. með beinum samningum við íhaldið í verkalýðshreyfingunni. En það var ekki einasti snarsnúningur Alþfl. Alþfl. hafði á Alþýðusambandsþingi lýst því hátíðlega yfir og þá alveg sérstaklega hv. 4. þm. Reykv., Eggert Þorsteinsson, að vitanlega kæmi ekki til mála að samþykkja neina kauplækkun á umsömdu kaupi. En svo gekk þessi hv. þm, beint af þingi Alþýðusambandsins niður á flokksþing Alþfl. sama dag eða daginn eftir og samþykkti þar að standa að kauplækkun.

Þessi hv. þm. og flokksbræður hans höfðu staðið að því að heimta kauphækkun í stéttarfélögum sínum. Þeir höfðu staðið að því að segja upp kaupgjaldssamningum, fara jafnvel í verkföll, skora í Alþýðublaðinu á önnur stéttarfélög að segja upp kjarasamningum sínum, en svo kemur þessi hv. þm, hér og flokksbræður hans og segja: Alþfl. er ábyrgur flokkur, sem miðar afstöðu sina til mála eftir því, hvernig málefnin liggja fyrir. — Þessi ábyrgi flokkur, sem stóð fyrir því að segja upp kjarasamningum, heimta kauphækkun, hann telur það nú fulla ábyrgð á framhaldi þess máls að samþykkja á eftir beina kauplækkun á Alþingi. Þannig hefur Alþfl. snúizt úr einu í annað. Hann þjónar ýmist Framsfl. eða íhaldinu, og hann boðar ýmist kauphækkun eða kauplækkun. Hann flytur á Alþingi frv. um orlof verkamanna, en hann flytur líka á Alþingi rétt á eftir frv. um það að eyðileggja þessi sömu lög.

Það getur enginn kjósandi, sem vill tryggja það með atkvæði sínu, að kjördæmabreytingin nái fram að ganga, kastað atkvæði sínu á slíkan óvissuflokk eins og Alþfl. Að kasta atkvæði sínu á hann, er eins og að kasta atkvæði sínu í glæfraspilshjól, þar sem enginn veit, hvað upp kemur, því að það veit enginn um afstöðu Alþfl. Þó að hann lofi einu í dag, þá getur niðurstaðan hjá honum orðið önnur á morgun.

Almennar alþingiskosningar eru nú ákveðnar 28. júní í sumar. Þá verða liðin þrjú ár frá síðustu alþingiskosningum. Á þessu tímabili var mynduð vinstri stjórn, sem fór með völd tæplega 21/2 ár, og á þessu tímabili var einnig mynduð stjórn Sjálfstfl. með ráðherrum Alþfl., sú stjórn, sem nú fer með völd í landinu. Það er skylda kjósenda að glöggva sig sem allra bezt á því, hvað verið hefur að gerast á þessu tímabili, hver hefur raunverulega verið afstaða manna og flokka til þeirra málefna, sem legið hafa fyrir til úrlausnar. Dómur kjósenda á svo að ráða úrslitum í næstu kosningum.

Víkjum fyrst að valdatímabili vinstri stjórnarinnar. Þá var Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu. Dómar hans um vinstri stjórnina eru þungir. Hann hefur einbeitt sínum mikla blaðakosti og allri sinni áróðurstækni að því að sakfella stjórnina og bera henni á brýn hin verstu ódæði. Vinstri stjórnin sveik allt, segja sjálfstæðismenn. Vinstri stjórnin var ein óþarfasta stjórn, sem setið hefur að völdum í landinu, bæta þeir við. Dómar þeirra sjálfstæðismanna eru stórorðir. En þeir eru ekki rökstuddir. Þeir eru fyrirferðarmiklir í Morgunblaðinu, en ósköp eru þeir innihaldslitlir. Því verður aldrei neitað með réttu, að vinstri stjórnin vann stórvirki í ýmsum málum. Þar ber hæst stækkun landhelginnar, uppbyggingu atvinnulífsins úti um land og stóraukna framleiðslu. Hitt er rétt, að vinstri stjórnin stóð ekki við öll sín fyrirheit, og ber að sakfella þá fyrir það, sem bera ábyrgð á því, að svo fór.

Víkjum nokkru nánar að störfum vinstri stjórnarinnar. Það er fyrst og fremst þrennt, sem stjórnin stóð ekki við af því, sem hún hafði lofað að framkvæma. Hið fyrsta og stærsta var það, að ameríski herinn var ekki látinn fara úr landinu. Vissulega var hér um svik að ræða. En það liggur svo ljóst fyrir sem verða má, hverjir hér hafa brugðizt. Tveir stjórnarflokkarnir, Alþfl. og Framsfl., brugðust hér loforðum sínum. Þeir létu undan áróðri íhaldsins og ágangi erlendra yfirgangsmanna. Sú málamyndaafsökun þessara flokka, að árás Breta og Frakka á Súez og óeirðirnar í Ungverjalandi í nóvember 1956 hafi valdið sinnaskiptum þeirra, er fánýt. Þessir atburðir voru löngu liðnir hjá á árinu 1957 og 1958, en samt neituðu þeir að standa við fyrirheit sin í þessum efnum. Alþb. krafðist þess allan tímann, að staðið yrði við loforðið um brottför hersins. Það margítrekaði kröfur sínar með bréfum til samstarfsflokkanna, með skriflegri kröfu ráðh. flokksins til annarra ráðh. og með upptöku málsins með venjulegum hætti í ríkisstj. Málið liggur því ljóst fyrir þjóðinni, hverjir það voru, sem sviku í þessu sjálfstæðis- og öryggismáli þjóðarinnar.

Annað stórmál, sem vinstri stjórnin stóð ekki við, var að kaupa til landsins 15 stóra togara. Hér gegndi sama máli og um brottför hersins. Alþfl. og Framsfl. neituðu að standa við loforð sín. Lán til skipakaupanna mátti ekki taka þar, sem hægt var að fá lánið, en þess í stað staðið fast á því, að lán yrði aðeins tekið hjá vestrænum þjóðum, sem allar neituðu svo um nauðsynlegt lánsfé. Fyrir ríkisstj. lá hagstætt lánstilboð, en af pólitískum fordómum mátti ekki taka það lán. Alþb. sá um, að allur nauðsynlegur undirbúningur að togarakaupunum færi fram. Færustu sérfræðingar voru fengnir til ráðuneytis um stærð og gerð skipanna, og tryggð var aðstaða í beztu skipabyggingarstöð til smíðanna. En allt kom fyrir ekki, því að Framsfl, og Alþfl. stöðvuðu nauðsynlega lántöku. Hér var auðvitað um bein svik þessara flokka að ræða, — svik, sem þeir eiga að dæmast fyrir í komandi kosningum.

Þriðja stórmálið, sem vinstri stjórnin gat ekki komið sér saman um að leysa, var dýrtíðarvandamálið eða efnahagsmálin svonefndu. Það er rétt, að um þau mál ríkti jafnan mikill ágreiningur á milli þeirra flokka, sem að stjórninni stóðu. Framsfl, vildi allan tímann nota hin gamalkunnu íhaldsráð til lausnar í efnahagsmálunum. Hann vildi gengislækkun og þar með kauplækkun. Við þessa kröfu sína streittist hann allan tímann. Alþfl. studdi gengislækkunarkröfu Framsóknar í ríkisstj., þó að hann léti öðruvísi opinberlega. Alþb. lagði höfuðáherzlu á það frá upphafi, að ráðstafanir ríkisstj. í efnahagsmálunum miðuðust við það að auka framleiðslu, að spara í rekstri ríkisins og vernda kaupmátt launa. Sparnaður í rekstri ríkisins var eins og bannorð hjá Framsfl., og aðalforingjar hans virtust blátt áfram trúa á nauðsyn kauplækkunar, bæði verkamanna og bænda. Ágreiningur í efnahagsmálunum var því víssulega mikill, og verður e.t.v. vikið nánar að honum síðar í þessum umræðum.

Hér hefur þá verið drepið á þau þrjú mál, sem vinstri stjórnin lofaði að beita sér fyrir, en hún gat ekki leyst eða stóð ekki við. Öll liggja mál þessi ljóslega fyrir, og auðvitað ber kjósendum að dæma þá, sem sannanlega eru brotlegir. En hvað þá um önnur mál, sem vinstri stjórnin vann að? Vegna tímaskorts mun ég aðeins ræða hér tvö hin stærri. Hið fyrra er landhelgisstækkunin og hið síðara uppbygging atvinnulífsins og aukning framleiðslunnar.

Stækkun fiskveiðilandhelginnar úr 4 í 12 sjómílur er mesta hagsmunamál Íslendinga, sem hrundið hefur verið fram á þessu kjörtímabili. Það er undirbygging að efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar og skapar trú og von um batnandi lífskjör. Íslendingar höfðu barizt fyrir framgangi þessa máls á erlendum vettvangi í tíu ár. Þeir höfðu sótt ráðstefnu eftir ráðstefnu og reynt að sannfæra aðrar þjóðir um þá lífsnauðsyn, sem landsmönnum væri á því að vernda fiskimiðin í kringum landið gegn ofveiði útlendinga. En málið sóttist seint, vegna þess að við stórar og sterkar andstöðuþjóðir var að eiga. Bretar og aðrar Vestur-Evrópuþjóðir notuðu sér sterka aðstöðu sína á viðskipta- og stjórnmálasviði til þess að halda niðri réttmætri og nauðsynlegri sókn Íslendinga í málinu. Vinstri stjórnin hafði lofað stækkun landhelginnar. Það tók hana samt tvö ár að ná samkomulagi um framkvæmdir í málinu, og minnstu munaði, eins og allir vita, að stjórnin spryngi vegna erlendrar pressu, sem enn lagðist á þá sveif að vilja knýja Íslendinga til þess að fresta málinu og taka upp um það samninga við þá, sem jafnan höfðu reynzt okkur verstir. Allir Íslendingar voru sammála um nauðsyn þess og réttmæti að stækka fiskveiðilandhelgina. En það voru annarleg sjónarmið, sem á tímabili rugluðu vissa stjórnmálamenn í framkvæmd málsins. Andstæðingar okkar erlendis í málinu héldu því fram, að stækkun fiskveiðilandhelginnar við Ísland gæti hrundið um koll allri vestrænni samvinnu, og í krafti þess var okkur ýmist hótað eða boðin víss gylliboð, ef við aðeins létum af málstað þjóðarinnar.

Vestræn samvinna var það dulmagnaða orð, sem lengi hafði dugað til að halda aftur af foringjum stjórnmálaflokkanna á Íslandi, bæði í þessu máli og öðrum. Það var í nafni vestrænnar samvinnu, sem þess var óskað, að Íslendingar létu lífshagsmunamál sitt, stækkun landhelginnar, í hendur Atlantshafsbandalaginu og þar með auðvitað Bretum sjálfum. Það var líka vegna vestrænnar samvinnu, sem heilir stjórnmálaflokkar sviku gefin loforð um að láta herinn víkja úr landinu. Og togarana 15 gátum við ekki keypt af þeirri einföldu ástæðu, að vestræn samvinna vildi það ekki. Og nú átti landhelgismálið líka að biða vegna vestrænnar samvinnu. Vissir stjórnmálaforingjar Íslendinga rugluðust svo af áhrifum þessa dulmagnaða orðs, að þeir höfðu jafnvel á tímabili ákveðið að slíta stjórnarsamstarfinu, ef landhelgin yrði stækkuð, eins og samningar voru þó gerðir um. Og svo kemur hæstv. dómsmrh. hér fyrr í þessum umr. og hæðist þannig að flokksbróður sínum, þeim sem mest ruglaðist í landhelgismálinu, þegar vestrænir vinir hans ýttu svolítið á hann, að hann heldur því fram, að þessi flokksbróðir hans hafi kúgað mig til framkvæmda í málinu. Hvílík háðung að haga orðum sínum þannig, þegar flokksbróðir hans á í hlut með jafnveikan málstað og hann á í þessu máli! Og aðrir stjórnmálaleiðtogar, t.d. Sjálfstfl., hirtu þann boðskap opinberlega á örlagaríkustu augnablikum ákvörðunarinnar um stækkun landhelginnar, að þeir vildu, að málinu yrði frestað, auðvitað að beiðni vestrænnar samvinnu, og svo málið tekið til samninga innan NATO. En gæfa Íslands varð hér yfirsterkari. Fólk úr öllum flokkum frá ólíkum stöðum á landinu tók af skarið og studdi þá, sem stóðu fast á rétti Íslands, og þar með var stækkun landhelginnar framkvæmd.

Vinstri stjórnin vann fullan sigur í landhelgismálinu. Hin aukna friðun á 12 mílna beltinu er orðin staðreynd. Nart Breta á smáblettum í landhelginni breytir þar engu um. Þeir stunda engar venjulegar veiðar innan 12 mílna svæðisins, því að slíkt er ekki hægt að gera á einhverjum afmörkuðum herskipabásum. Framferði Breta hefur ekki áhrif á fiskfriðunarmál okkar. En framferði Breta er móðgun við sjálfstæði Íslands. Það er brot á íslenzkum lögum, og það er freklegt brot á samningi Íslands við Atlantshafsbandalagið.

Yfirgangur Breta hitar mörgum Íslendingi, eins og vonlegt er. En þó er það öllum landsmönnum sárast að sjá þau vettlingatök og heyra þann vesældartón, sem er í framkomu forustumanna íslenzka ríkisins þessa dagana í deilunni við Breta. Það vita nefnilega allir Íslendingar, að við getum rekið Breta lafhrædda heim með herskip sín af Íslandsmiðum, ef við aðeins tilkynnum þeim með jafnmikilli festu og einbeitni og við tilkynntum þeim á sínum tíma um útfærsluna í 12 mílur, að við munum fara úr Atlantshafsbandalaginu og það geti hypjað sig með herstöðina sína, ef Bretar láta ekki tafarlaust af lögbrotum og yfirtroðslum í íslenzkri landhelgi. En þegar kemur að hinu dulræna orði, vestrænni samvinnu, þá er eins og allt hringsnúist fyrir vissum stjórnmálamönnum, þá fallast þeim hendur, og af því geta Bretar haldið áfram sínum óþokkaleik í íslenzku landhelginni, þeim leik, sem þeir leika nú.

Ég vík þá að öðru stórmáli vinstri stjórnarinnar, en það er atvinnuuppbyggingin og aukin framleiðsla. Í þeim efnum vann stjórnin stórmikið verk og gerbreytti um stefnu frá því, sem var í stjórnartíð íhalds og Framsóknar árin á undan. Við skulum athuga hér nokkur dæmi.

Í tíð vinstri stjórnarinnar átti sér aldrei stað nein framleiðslustöðvun. Samningar við framleiðsluna voru alltaf gerðir fyrir hverja vertíð. En í stjórnartíð íhaldsins rak hver framleiðslustöðvunin aðra. Svo langt gekk óstjórnin í þessum efnum hjá íhaldinu, að jafnvel á hávetrarvertíðinni lá allur bátafloti landsmanna vegna deilna við ríkisvaldið. Á þessum árum tapaði þjóðin tugum milljóna í framleiðslustöðvunum. Í tíð vinstri stjórnarinnar jókst þátttaka báta í útgerð til mikilla muna frá því, sem áður var. Þannig var 20% meiri þátttaka báta í vetrarútgerð 1957, en árið áður, og þó var þátttakan enn meiri árið 1958. Þessi aukna þátttaka 1957 stafaði af því, að kjör framleiðslunnar voru bætt og samið um þau í tíma. Árið 1958 var heildarársaflinn meiri, en nokkru sinni áður að magni og verðmæti. Gjaldeyrisverðmæti framleiðslunnar hækkaði um 200 millj. kr. í erlendum gjaldeyri.

Í stjórnartið íhalds og Framsóknar 1950–56 stórminnkaði bátafloti landsmanna, þegar tillit er tekið til eðlilegra fyrninga. Árið 1951 nam brúttóaukning bátaflotans aðeins 300 smálestum, en hefði þurft að nema a. m. k. 1.500 smálestum til þess að mæta fyrningu ársins. Árið 1952 minnkaði bátaflotinn brúttó um 466 lestir, og vantaði auk þess auðvitað fyrir allri fyrningu. Árið 1953 minnkaði flotinn enn brúttó um 174 lestir og rýrnaði því um 1600-1700 lestir það ár, ef litið er á fyrningu. Árið 1954 jókst brúttólestatalan um 456 lestir eða enn langt undir fyrningu. Árið 1955 nam brúttóaukningin 1.133 lestum og náði enn ekki lágmarksfyrningu. Og árið 1956 nam brúttóaukningin 1.434 lestum og því tæplega árlegri fyrningu. Þannig rýrnaði fiskibátaflotinn í stjórnartíð íhalds og Framsóknar. Þetta var á þeim tíma, sem þessir flokkar töluðu fagurlega um jafnvægisbúskap og sögðu þá, að aðeins þyrfti að lækka kaupið eilítið og þá væri allt í lagi.

Í tíð vinstri stjórnarinnar var þessari óheillaþróun gersamlega snúið við. Á tveggja og hálfs árs starfstíma hennar gerði hún ráðstafanir til þess að kaupa og veitti leyfi til innflutnings á nýjum fiskibátum, sem námu um 8.115 rúmlestum. Í tíð vinstri stjórnarinnar voru launakjör sjómanna stórlega bætt, mun kauphækkun bátasjómanna nema um 30%. Í tíð íhaldsstjórnarinnar sópuðust sjómenn í land af fiskiflotanum vegna síversnandi kjara borið saman við aðra. Og hvernig var háttað hag útgerðarinnar í landinu í valdatíð Sjálfstfl.? Togaraútgerðin var á vonarvöl, þegar vinstri stjórnin tók við, og bátaútgerðin var rekin með stórtapi, Útgerðin átti þó inni bátagjaldeyrisbætur, sem námu á annað hundrað millj., en í tíð vinstri stjórnarinnar var þessu snúið við. S.l. ár var togaraútgerðin almennt rekin með hagnaði, og forustumenn útgerðarinnar í landinu urðu að lýsa því yfir, að í meðalárferði yrði að telja rekstrargrundvöll útgerðarinnar orðinn sæmilegan.

Þannig var um gerbreytta stefnu að ræða í framleiðslumálum þjóðarinnar. Uppbyggingu atvinnulífsins úti á landi miðaði vel áfram, og framleiðsla þar jókst til mikilla muna. Árin 1957 og 1958 eru mestu og beztu atvinnuár í sögu þjóðarinnar. Þessi ár urðu hæstu meðaltekjurnar í framleiðslubæjum landsins í stað hernáms- og verzlunarplássanna áður. Í þessum efnum var stefnt í rétta átt af vinstri ríkisstj. Það var dregið úr hernaðarvinnu, en ýtt undir framleiðsluatvinnuvegina.

Sjálfstfl. hamrar í sífellu á því, að vinstri stjórnin hafi svikið allt. En ég spyr: Voru það svik við þjóðina að stækka landhelgina? Voru það svik við þjóðina að stórauka framleiðsluna? Voru það svik við atvinnulaust fólk úti á landi að útvega því framleiðslutæki? Voru það svik að greiða upp vanskilaskuldir íhaldsins við framleiðsluna? Voru það svik að endurnýja fiskibátaflotann? Voru það svik við þjóðina að skapa betra atvinnuástand í landinu, en áður hafði þekkzt? Nei, ég er hræddur um, að Sjálfstfl. fái fátt alþýðufólk í landinu til þess að sakfella vinstri stjórnina í þessum efnum.

Við Alþb.-menn skorumst ekki undan dómi kjósenda í sambandi við störf okkar í vinstri stjórninni, og við ætlumst til þess, að þjóðin kveði upp sinn dóm, jafnt yfir þeim, sem í þeirri stjórn voru, og eins yfir hinum, sem þá voru í stjórnarandstöðu. En ég mun í síðari tíma mínum víkja nokkuð að starfi þeirra í stjórnarandstöðunni.