12.05.1959
Sameinað þing: 49. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1870 í B-deild Alþingistíðinda. (2496)

Almennar stjórnmálaumræður

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Af tilefni tveggja síðustu ræðna, þeirra hv. 1, og 2. þm. S-M., og ánægju þeirra með vinstri stjórnina sálugu mætti spyrja: Hvernig stóð á því, að vinstri stjórnin gafst upp og fór frá, fyrst allt var í svona góðu lagi, eins og Eysteinn Jónsson og Lúðvík Jósefsson voru að segja þjóðinni hér rétt í þessu? Var fjárhagur ríkisins of góður? Stóð útflutningsframleiðslan of vel að vígi? Var verðbólgan á of hröðu undanhaldi? Nei, ástæðurnar fyrir uppgjöf vinstri stjórnarinnar voru ekki þessar, heldur þvert á móti þær, að ríkisbúskapurinn var kominn í þrot, að framleiðslan var að stöðvast, að ný verðbólgualda var skollin yfir. Allt eru þetta staðreyndir, sem alþjóð þekkir. Gort þessara tveggja hv. fyrrv. ráðh. vinstri stjórnarinnar er því beinlínis hlægilegt.

Hv. 1. þm. S-M. kvartaði einnig yfir því, að fiskveiðisjóði væri ekki ætlað neitt af væntanlegu erlendu láni, sem verið er að taka, en áformað hefur verið að verja 45 millj. kr. af því til raforkuframkvæmda, 28 millj. kr. til hafnargerða og 25 millj. kr. til ræktunarsjóðs Búnaðarbankans. Vildi hv. 1. þm. S-M. draga úr þessum framlögum til fyrrgreindra framkvæmda? Það er rétt, að hann svari því. Eftir er að ráðstafa rúmlega 50 millj. kr. af fyrrgreindu láni, og væntanlega verður hægt að veita fiskveiðisjóði einhverja úrlausn af því, áður en lýkur.

Hv. 2. þm. S-M., Lúðvík Jósefsson, sagði, að vestræn samvinna hefði ekki viljað, að Íslendingar keyptu 15 togara, sem vinstri stjórnin hafði lofað, þess vegna hefði ekki orðið úr kaupunum. En þessi sami hv. þm. lýsti því þó yfir hér á Alþ. haustið 1957, að hann væri búinn að senda menn til útlanda til þess að semja um smíði togaranna. Hann fullyrti þá, að málið væri að komast í höfn. En togararnir eru ekki enn þá komnir í höfn. Svona mikið var að marka yfirlýsingar þessa hv. þm., meðan hann var í ráðherrastól.

Hv. 1. þm. Eyf. sagði hér í ræðu sinni í kvöld, að fólksflutningarnir til Reykjavíkur utan af landi hefðu stöðvazt í tíð vinstri stjórnarinnar. Sannleikurinn er sá, að aðstreymi til Reykjavíkur var sízt minna á þessum árum en áður. Undanfarinn áratug hefur fólksfjölgun í Reykjavík verið 1.400–1.900 manns á ári. Á árinu 1957, fyrsta heila starfsári vinstri stjórnarinnar, er fólksfjölgunin í hámarki, 1.900 manns. Árið 1958 er fólksfjölgunin í Reykjavík yfir 2.000 manns. Tölvísi Framsfl. hefur því enn sagt til sín.

Hv. þm. S-Þ., Karl Kristjánsson, og hv. 1. þm. S-M., Eysteinn Jónsson, endurtóku margtuggnar staðhæfingar framsóknarmanna hér áðan um það, að leggja eigi niður öll gömlu kjördæmin nema Reykjavík. Minna mátti nú ekki gagn gera!

En þessi staðhæfing á sér enga stoð í raunveruleikanum. Ekki eitt einasta kjördæmi verður lagt niður. Enda þótt fulltrúum Austurlands verði fækkað um einn, verður hlutur fámennasta kjördæmisins þar, Seyðisfjarðar, síður en svo fyrir borð borinn. Íbúar þess byggðarlags eiga samkv. hinni nýju kjördæmaskipun rétt á að taka þátt í kjöri fimm þingmanna. Vitanlega gæta þessir fimm þm. Austfirðinga ekki verr hagsmuna Seyðfirðinga, en einn þm. gerði áður. Eða er það ætlun Eysteins Jónssonar að hafa Seyðfirðinga algerlega út undan, ef hann yrði kjörinn þingmaður hins nýja Austfjarðakjördæmis? Í öðrum landshlutum er þingmönnum strjálbýlisins hvergi fækkað, en sums staðar fjölgað, eins og t.d. á Vesturlandi og Norðausturlandi, þar sem veruleg fólksfjölgun hefur orðið.

Þá lét og hv. 1. þm. Eyf., Bernharð Stefánsson, liggja að því hér áðan, að hlutfallskosningar mundu hafa í för með sér stórkostlega fólksflutninga úr strjálbýlinu til þéttbýlisins. En hefur fólkinu því miður ekki stöðugt verið að fækka í íslenzkum sveitum á undanförnum áratugum þrátt fyrir okkar litlu kjördæmi, þrátt fyrir þá kjördæmaskipun, sem Framsfl. heldur dauðahaldi í? Það sést greinilega, þegar litið er í hagtíðindin. Árið 1930 vinna 39 þús. manns að landbúnaðarstörfum, árið 1940 37 þús. manns, árið 1950 rúmlega 28 þús., og árið 1960 er gert ráð fyrir, að aðeins 20 þús. manns muni vinna að landbúnaðarstörfum. Það er vissulega ástæða til að harma þessa þróun, en hún hefur gerzt þrátt fyrir það, að sveitirnar bjuggu við þá kjördæmaskipun, sem Framsfl. telur eina samræmast hagsmunum strjálbýlisins. Aðeins stóraukin tækni hefur gert íslenzkum landbúnaði mögulegt að gegna sínu mikilvæga hlutverki þrátt fyrir mannfæðina í sveitunum.

Margt bendir til þess, að með stækkun kjördæmanna verði aðstaða strjálbýlisins betri til alhliða uppbyggingar. Með því fæst aukin yfirsýn yfir aðstöðu landshlutanna og samvinna héraðanna sjálfra og fulltrúa þeirra á Alþ. og heima fyrir verður nánari og síður háð pólitískri togstreitu, eins og hv. þm. Borgf., Pétur Ottesen, benti á í hinni merku ræðu sinni hér í gærkvöld. En þetta skilja hinir þröngsýnu og afturhaldssömu leiðtogar Framsfl. ekki, jafnvel ekki hv. þm. S-Þ., sem skýrði þjóðinni frá því hér áðan, að hann hefði þó „hjartað á réttum stað“!

Þegar Framsfl. hafði forustu um myndun vinstri stjórnarinnar og tók kommúnista í stjórn, var það meginröksemd hans fyrir þeirri ráðabreytni, að það væri óhjákvæmilegt, vegna þess að þeir réðu verkalýðssamtökunum og stefnu þeirra, en án náinnar samvinnu við verkalýðssamtökin væri ekki hægt að leysa vanda efnahagsmálanna. Sjálfstfl. væri hins vegar gersamlega fylgislaus innan verkalýðshreyfingarinnar og samvinna við hann um efnahagsmálin ekki aðeins gagnslaus, heldur beinlínis skaðleg. Þetta sögðu framsóknarmenn, áður en þeir mynduðu vinstri stjórnina. En í útvarpsumræðunum í gærkvöld og oft áður var það meginhaldreipi þessara sömu manna, að Sjálfstfl. hefði haft forustu um það innan verkalýðshreyfingarinnar að brjóta niður efnahagsmálaráðstafanir vinstri stjórnarinnar. Flokkurinn, sem fyrir tæpum þremur árum var að áliti framsóknarmanna gersamlega fylgislaus og áhrifalaus í verkalýðshreyfingunni, var nú allt í einu orðinn þar alls ráðandi og þess megnugur að brjóta niður þær ráðstafanir, sem bæði Alþfl. og kommúnistar stóðu að með framsóknarmönnum.

Ég vænti, að allur landslýður sjái, hversu mótsagnakenndur þessi málflutningur framsóknarmanna er, enda er það mála sannast, að í honum er engin heil brú. Sú staðreynd, að verkalýðssamtökin snerust gegn vinstri stjórninni og ráðstöfunum hennar, rakti rætur sínar fyrst og fremst til almennrar andúðar og vantrúar fólks í öllum stjórnmálaflokkum á stefnu hennar og aðgerðum. Stjórnin hafði lofað því að stöðva verðbólguna og kapphlaupið milli kaupgjalds og verðlags, sem kommúnistar höfðu skapað árið 1955, með „nýjum leiðum“ og „varanlegum úrræðum“. En niðurstaðan varð sú, að hún gerði ekkert nema leggja nýja skatta og tolla á allan almenning í landinu. Hún byrjaði að vísu á því haustið 1956 að binda kaupgjald og skerða vísitölu um 6 stig. En næsta skref hennar var stórkostlegar skattaálögur strax fyrir jólin 1956. En það er athyglisvert, að þá fannst kommúnistum ekkert athugavert við það að lækka kaupgjald.

Þá var það allt í lagi með að skerða kaupgjald verkamanna og launþega almennt, ef það gat tryggt tveimur kommúnistum áframhaldandi sæti í ráðherrastól. Þetta hefði hv. 7. þm. Reykv., Hannibal Valdimarsson, átt að muna hér áðan, er hann deildi hart á síðustu ráðstafanir í efnahagsmálum og niðurfærslu kaupgjalds og verðlags.

Meðan kommúnistar sátu í ráðherrastólum, var það líka sjálfsagt að hafa her í landi, og taumlaust brask með olíu og fleira á Keflavíkurflugvelli var þá engin goðgá, hvað þá heldur „hermang“. Hv. 1. landsk. þm., Alfreð Gíslason, hældi vinstri stjórninni mjög fyrir afrek hennar í upphafi ræðu sinnar í gær. En í síðari hluta hennar lagði hann áherzlu á, að þar hefði einn svikið þetta og annar hitt. Mynd hans af vinstra samstarfinu var því heldur ógæfusamleg útlits. Framsóknarmönnum má svo benda á það, að það var Samband ísl. samvinnufélaga, sem reið á vaðið um almenna kauphækkun til starfsfólks síns fyrir áramótin 1956, meðan kaupbindingarlögin voru enn þá í gildi, og það er ekki lengra síðan en s.l. haust, að hv. 1. þm. S-M., Eysteinn Jónsson, sendi deildarstjóra ráðuneytis síns á fund í bæjarstjórn Reykjavíkur til þess að krefjast 12% kauphækkunar til handa Dagsbrúnarmönnum, þegar vitað var, að verkamennirnir sjálfir ætluðu sér að semja um 9–10% kauphækkun, eins og einnig varð lokaniðurstaðan að þeir gerðu. Enn má á það benda í sambandi við kauphækkanir til flugmanna og yfirmanna á kaupskipaflotanum, að það var vinstri stjórnin sjálf, sem leysti þær kaupdeilur, sumpart með beinum kauphækkunum, sumpart með stórauknum gjaldeyrisfríðindum, sem höfðu í för með sér 30–40% kauphækkun að því er snertir flugmennina. Kauphækkun farmanna var síðan velt yfir á almenning með hækkuðum farmgjöldum, sem síðan komu fram í vöruverðinu.

Loks má á það benda, að með sjálfum bjargráðum vinstri stjórnarinnar vorið 1958 ákvað vinstri stjórnin 5% kauphækkun og hóf um leið sjálf það lokakapphlaup milli kaupgjalds og verðlags, sem hleypti af stað stórfelldri, nýrri verðbólguskriðu, sem síðan varð stjórninni að aldurtila.

Með þessu er í örfáum orðum svarað þeim rakalausu fullyrðingum, sem hv. þm. Str. og aðrir framsóknarmenn héldu fram í umr. í gærkvöld um, að Sjálfstfl. hafi á valdatíma vinstri stjórnarinnar haft forustu um stórfellt kapphlaup milli kaupgjalds og verðlags. Þessar fullyrðingar afsannast líka enn þá greinilegar með því, að um leið og vinstri stjórnin er oltin frá völdum, er það Sjálfstfl., sem á drýgstan þáttinn í því að afstýra þeim voða, sem verðbólguflóð vinstri stjórnarinnar hafði leitt yfir þjóðina, með því að beita sér fyrir nokkurri niðurfærslu kaupgjalds og verðlags, sem almenningur hefur tekið af skilningi og ábyrgðartilfinningu. En nú telja framsóknarmenn og kommúnistar slíkar ráðstafanir svívirðilegar árásir á launþega og bændur. Mennirnir, sem ekkert gerðu annað, en að leggja á skatta og skerða kjör alls almennings í landinu í 21/2 ár og hleyptu verðbólgunni eins og óargadýri lausbeizlaðri á fólkið, veigra sér nú ekki við að koma fram fyrir það og rógbera Sjálfstfl. fyrir að hafa gert raunhæfa ráðstöfun til að forða því, að vísitalan kæmist á þessu ári upp yfir 270 stig og að allt atvinnulíf þjóðarinnar stöðvaðist. Halda framsóknarmenn og kommúnistar virkilega, að íslenzkur almenningur sé svo heimskur, að hann sjái ekki í gegnum þennan loddaraleik?

Önnur meginásökun framsóknarmanna í þessum umr. var sú, að núverandi valdhafar hefðu beitt sér fyrir stórfelldum niðurskurði á verklegum framkvæmdum og þá fyrst og fremst þeim, sem væru í þágu sveitanna. En staðreyndir fjárl. svara þessari staðhæfingu bezt. Framlög til vega- og brúagerða hafa ekki verið lækkuð um einn eyri. Þvert á móti hefur framlagið til millibyggðavega af benzínfé hækkað um 2 millj. kr., og aukin áherzla verður á það lögð að koma þeim landshlutum í akvegasamband, sem enn þá eru án sambands við meginakvegakerfl landsins. Það er og skoðun okkar sjálfstæðismanna, að samgöngurnar séu lífæð framleiðslunnar, ekki aðeins í sveitunum, heldur og í sjávarbyggðum landsins. Þess vegna munum við leggja á það höfuðáherzlu að bæta samgöngur við alla landshluta á landi, sjó og í lofti. Og að því höfum við unnið af kappi og forsjá, þegar við höfum haft aðstöðu til þess, það veit fólkið úti um allt land. í þessu sambandi má svo minna á það, að á síðasta valdaári vinstri stjórnarinnar lá fjöldi stórvirkra vegagerðavéla ónothæfur, vegna þess að ekki fengust fluttir inn varahlutir í þær. Bitnaði þessi ræfildómur vinstri stjórnarinnar einnig mjög á ræktun og framkvæmdum bænda.

Það er táknrænt um rökþrot framsóknarmanna í útvarpsumræðunum í gærkvöld, að ein helzta hneykslunarhella þeirra í fjárlagaafgreiðslunni var niðurfelling 1 millj. kr. framlags til byggingar nýs stjórnarráðshúss. Hvað finnst nú fólki í sveitum landsins um þá baráttu Framsfl. fyrir strjálbýlið, sem birtist í þessu? Þegar fjármálaóreiða Eysteins Jónssonar er að sliga þjóðarbúið og með harmkvælum er hægt að halda uppi nauðsynlegum verklegum framkvæmdum í þágu framleiðslunnar, þá er það glæpur að áliti framsóknarmanna að fella niður 1 millj. kr. framlag til nýs stjórnarráðshúss, sem ekki er byrjað á, en á þó 6 millj. kr. geymdar í sjóði! Þetta er ekki ónýt barátta fyrir hagsmuni strjálbýlisins — eða hitt þó heldur.

Í sambandi við niðurskurðartal framsóknarmanna má svo enn benda á það, að framlög til hafnargerða og lendingarbóta eru hækkuð og auk þess aflað verulegs lánsfjár til þess að vinna í stærri stíl að því að fullgera nokkrar hafnir en unnt hefur verið undanfarin ár. Til raforkuframkvæmdanna hefur einnig verið tryggt fjármagn, þannig að hvergi verður dregið úr raforkuframkvæmdum eða úr þeirri þjónustu, sem áformað er að veita almenningi með rafvæðingaráætluninni, sem sjálfstæðismenn beittu sér fyrir að gerð var, síðast er þeir höfðu stjórnarforustu, undir forustu formanns sins, Ólafs Thors.

Sannleikurinn er sá, að hrópyrði framsóknarmanna um niðurskurð verklegra framkvæmda sýna, hversu þessi flokkur hefur nú glatað ráði og rænu eftir hið stórfellda skipbrot vinstri stjórnarinnar.

Hv. þm. Str. þuldi ófagra lýsingu á Sjálfstfl. í ræðu sinni hér í gærkvöld, en allir Íslendingar vita, að þessi sami hv. þm. átti það úrræði eitt, eftir að vinstri stjórnin var hrokkin upp af klakknum, eftir að verkalýðssamtökin höfðu neitað honum að framlengja valdaferil hans um einn einasta mánuð, að koma á hnjánum grátklökkur til Sjálfstfl. og biðja hann að koma með sér í ríkisstj. til þess að bjarga því, sem bjargað yrði. Sjálfstfl. var ekki vondur flokkur, ef hann vildi framlengja valdaferil Hermanns Jónassonar. En hann vildi það ekki, hann vildi gefa þjóðinni kost á að gera upp við skrumstjörnina.

Það er vissulega kaldhæðni örlaganna, að allir þeir stjórnmálaflokkar, sem á sínum tíma mynduðu vinstri stjórnina og lýstu sjálfstæðismönnum sem „óvinum alþýðunnar og þjóðfélagsins“, skuli, síðan stjórn þeirra gafst upp, hafa átt þá ósk heitasta að komast í ríkisstj. með Sjálfstfl. og njóta stuðnings hans og ráða til þess að leysa þau vandkvæði, er þeir sjálfir hafa átt mestan þátt í að skapa. Mun sú staðreynd vissulega verða íslenzkum kjósendum áhrifameiri leiðbeining, en máttvana óhróður kommúnista og framsóknarmanna um Sjálfstfl. í þessum umr.

Sá af þm. Framsfl., sem talaði af hvað minnstri rökvísi hér í gærkvöld, spurði að því, hvers vegna sjálfstæðismenn beittu sér nú ekki fyrir breytingum á hinum og þessum lögum. Svarið við þeirri fyrirspurn getur verið stutt. Sjálfstfl. er í minni hl. á Alþ. Hann hefur aðeins samið um örfá tiltekin atriði við Alþfl., og kommúnistar og framsóknarmenn eru í meiri hluta í efri deild. Þess vegna er ekki mögulegt að koma fram margvíslegum, nauðsynlegum lagabreytingum, sem sjálfstæðismenn hafa áhuga á.

Því Alþingi, sem nú er að ljúka, má skipta í þrjú tímabil. Hið fyrsta stóð frá upphafi þingsins til 4. des., meðan vinstri stjórnin var að veslast upp og átta sig á því, að hún átti engin sameiginleg úrræði til lausnar vandamálanna. Annað tímabilið markaðist af undirbúningi hinna nýju valdhafa og bráðabirgðaráðstöfunum til að tryggja rekstur útflutningsframleiðslunnar og standa við loforð sín um nýja og réttlátari kjördæmaskipun. Á þriðja tímabilinu og hinu síðasta hafa málin svo fengið lokaafgreiðslu, eins og lýst hefur verið í þessum umr. Við sjálfstæðismenn höldum því ekki fram, að allur vandi hafi þegar verið leystur. Þvert á móti segjum við þjóðinni þann sannleika, að aðeins hafi verið stigin fyrstu skrefin með bráðabirgðaráðstöfunum til þess að halda atvinnutækjum þjóðarinnar í gangi og firra því yfirvofandi hruni, sem leitt hafði af verðbólgustefnu vinstri stjórnarinnar.

„Snjórinn er að bráðna, þokan að hverfa. Fyrir oss er land, sem vill grænka.“ Mér koma þessi orð rithöfundarins og hugsjónamannsins Kaj Munks í hug í þann mund, sem við erum að ganga af þessu viðburðaríka þingi. Þoku vinstri stjórnarinnar hefur létt af Alþingi. Þjóðin sér nú aftur handa sinna skil, gerir sér ljóst, hvar hún er á vegi stödd, hvernig þau loforð hafa verið efnd, sem henni voru gefin fyrir tæpum þremur árum, þegar hún gekk að kjörborðinu. Þessi 3 ár hafa verið einn lærdómsríkasti tími í íslenzkri stjórnmálasögu. Nú vita allir Íslendingar, hvað vinstri stjórn er og hver áhrif stefna hennar hefur á lífskjör þeirra. Hvert einasta heimili á Íslandi, í sveit og við sjó, hefur orðið þeirra vart. Aldrei hefur nokkur ríkisstj. í þessu landi reynzt jafnúrræðalaus, sundurþykk og lánlaus og þessi stjórn, sem þó hafði lofað því hátíðlegar, en nokkur önnur, að leysa öll vandkvæði og miða allt sitt starf við hagsmuni alþýðu manna. En einmitt það fólk, sem mestu var lofað, varð harðast úti í gjörningaþoku vinstri stjórnarinnar. Fátækasta fólkið hefur tapað mestu í því verðbólguflóði, sem síðasta stjórn Hermanns Jónassonar hellti yfir íslenzkt efnahagslíf og bjargræðisvegi. Það er gamla fólkið, sem lifir á lágum ellistyrk, sparsamt fólk, sem lagt hafði upp nokkrar krónur til efri áranna, bændur og aðrir framleiðendur, sem þurftu að kaupa vélar og tæki, unga fólkið í sveitum og sjávarbyggðum, er var að stofna til búskapar og heimilishalds, sem sárast er leikið af eyðileggjandi áhrifum hinnar stjórnlausu dýrtíðar, sem vinstra ævintýrið leiddi yfir almenning.

En „fyrir oss er land, sem vill grænka“. Íslenzka þjóðin lætur ekki við það eitt sitja að gera sér ljóst, hvernig vinstri stjórnin lék hana og hversu hrapallega hún brást vonum þess fólks, sem trúði því í einlægni, að slík stjórn mundi verða því skjól og skjöldur. Allur almenningur hugsar lengra. Fólkið dregur sínar ályktanir af reynslunni, ekki sízt, ef hún er beisk, og hefur valdið því tjóni og vonbrigðum. Og þegar að því er komið að draga ályktanir af ferli og falli vinstri stjórnarinnar, kemur þetta fyrst og fremst upp í huga hvers manns með heilbrigðri dómgreind:

Vinstri stjórnin og flokkar hennar hafa fengið sitt tækifæri. Þeir féllu á prófinu eftir 21/2 árs valdaferil. Nú verðum við að ráða á bátinn að nýju. Við verðum að fá nýjum mönnum forustuna, freista nýrra úrræða til þess að komast út úr verðbólguöngþveitinu, létta af þjóðinni hlutdrægu og spilltu haftakerfi ásamt sligandi skattabyrði og marka nýja, raunhæfa viðreisnar- og uppbyggingarstefnu. Við skulum fela Sjálfstfl. þetta mikilvæga starf, stærsta flokki þjóðarinnar, sem á sterkar rætur í öllum stéttum og starfshópum þjóðfélags okkar og hefur sýnt það, að hann þorir að segja okkur satt um eðli vandamálanna, og hefur á liðnum tíma haft forgöngu um flestar þýðingarmestu umbæturnar á kjörum og allri aðstöðu landsmanna.

Þessi hugsun hefur áreiðanlega verið ríkust í huga mikils fjölda Íslendinga, einnig margra þeirra, er á sínum tíma treystu vinstri stjórninni, þegar hún sagði af sér. Sjálfstfl. lofar því ekki að fullnægja allra óskum í einu. En hann mun taka á vandamálunum af festu og ábyrgðartilfinningu með alþjóðarhag fyrir augum.

Eitt fyrsta verkefni, sem Sjálfstfl. mun snúa sér að því að leysa, er landhelgismálið, sem nú er á háskalegra stigi, en menn gera sér almennt ljóst. Í því verki verður að beita nýjum, raunhæfum og ábyrgum vinnubrögðum, stóraukinni kynningu á málstað okkar og rétti þjóðarinnar til fiskimiðanna umhverfis landið. Við munum kalla á allan heiminn, alla réttlætisunnandi menn, til stuðnings við minnsta lýðveldi veraldar í baráttu þess gegn nýlendustefnu og hernaðaraðgerðum Breta, sem hvenær sem er geta leitt til mannvíga og stórslysa. Gegn slíku atferli duga ekki nótusendingar, sem enginn tekur mark á. Það er alþjóðlegt hneyksli, að einu mesta herveldi heimsins skuli haldast uppi mánuð eftir mánuð að beita vopnlausa smáþjóð jafnsvívirðilegum ofbeldisaðgerðum og Bretar hafa undanfarið beitt íslenzku þjóðina, sem jafnframt er bandalagsþjóð þeirra. Þetta verður að segjast hreint út, og þess verður að krefjast, að varnarsamtök frjálsra þjóða taki í taumana, áður en það er orðið of seint, áður en stórslys hafa af orðið, sem haft gætu ófyrirsjáanlegar afleiðingar. En til þess að þau geti það, verðum við að hafa manndóm til þess að kæra Breta fyrir þeim og nota aðstöðu okkar til þess að kynna hinn íslenzka málstað, en á það brestur mjög til þessa.

Annað þýðingarmesta verkefnið verður að gera raunhæfar ráðstafanir til þess að stöðva verðbólguna og koma efnahagslífi þjóðarinnar á heilbrigðan grundvöll. Við sjálfstæðismenn lofum því ekki að gera þetta með neinum töfrabrögðum, heldur með vandlega undirbúnum samræmdum aðgerðum, sem geta tekið nokkurn tíma og kosta sjálfsafneitun og stundarfórnir. Við segjum þjóðinni sannleikann um ástandið, eins og það er, og treystum því, að hún vilji hlusta á hann, þó að hann sé sagður umbúðalaus. Við viljum ekki falla í sömu gryfju og vinstri stjórnin að reyna að telja fólkinu trú um, að við eigum varanleg úrræði, sem hægt sé að beita, án þess að nokkur finni til þeirra nema hinir örfáu efnamenn þjóðfélagsins. Raunhæfasta úrræðið verður að stuðla að aukinni framleiðslu, stóraukinni þátttöku í útflutningsframleiðslunni og þar með vaxandi gjaldeyristekjum. Á þeim grundvelli einum er mögulegt að afnema hið spillta haftakerfi og margs konar hlutdrægni og misrétti. En til þess að hallarekstri gamalla og nýrra framleiðslutækja verði með tímanum útrýmt, verður þjóðin að miða lífskjör sín og eyðslu, fjárfestingu og framkvæmdir við arðinn af starfi sínu á hverjum tíma, á sama hátt og hygginn heimilisfaðir miðar útgjöld fjölskyldu sinnar við tekjur sínar. Það er þess vegna ekki nóg, eins og kommúnistar vilja vera láta, að kaupa ný framleiðslutæki til lands og sjávar. Við verðum að tryggja rekstur þeirra, því að því aðeins geta þau aukið arðinn af starfi þjóðarinnar og myndað traustan afkomugrundvöll. Við munum stuðla að því eftir fremsta megni að sætta vinnu og fjármagn, koma á samstarfi milli verkalýðs og vinnuveitenda um uppbyggingu atvinnutækjanna og heilbrigðan rekstur þeirra, um leið og við vinnum að því að gera hlutdeild fólksins í sveitum og við sjó í þeim arði, sem það skapar, eins mikla og greiðslugeta þeirra leyfir.

Sjálfstfl. mun leggja áherzlu á það að skapa sem mest jafnræði milli fólksins í strjálbýli og þéttbýli, þannig að enginn þurfi að flýja frá þjóðnýtum framleiðslustörfum úti um land vegna þess, að hlutur hans sé verri, en höfuðborgarbúa eða annarra íbúa þéttbýlisins. Það jafnvægi í byggð landsins, sem við berjumst fyrir, er, að góðir möguleikar til þróttmikilla framleiðslustarfa séu hagnýttir og að þeim hlúð, hvar sem er á Íslandi, hvort sem er í sveit eða sjávarbyggð.

Við sjálfstæðismenn munum nota hina nýju kjördæmaskipun til þess að laða krafta fólksins í öllum landshlutum til samvinnu um nauðsynlegar umbætur, hvort heldur er á sviði atvinnumála, samgöngu- og raforkumála eða félags- og menningarmála. Við viljum, að fólkið í hinum nýju kjördæmum til sjávar og sveita rétti hvert öðru bróður- og systurhönd í baráttu þess að sameiginlegu marki, velferð þess sjálfs, uppbyggingu og framförum.

Engu er líkara en framsóknarmenn hyggist snúast gegn hagsmunamálum strjálbýlisins, ef þeir verða kjörnir í stærri kjördæmum, en þeir hafa áður verið fulltrúar fyrir. Við sjálfstæðismenn lýsum því hins vegar yfir, að við munum eftir sem áður vinna af alefli fyrir okkar gömlu kjördæmi og kjósendur, um leið og við teljum okkur skylt að gæta hagsmuna okkar nýju kjósenda í hinum stækkuðu kjördæmum.

Við munum beita okkur fyrir hagnýtingu auðlinda landsins, áframhaldandi virkjun vatnsafls og jarðhita og nota hina nýju orku til uppbyggingar nýrra atvinnugreina og eflingar þeirra, sem fyrir eru. Meiri ræktun landsins, aukinn fiskiðnaður og stækkandi fiskiskipafloti, fjölbreyttari iðnaður og bætt hafnar- og lendingarskilyrði er að okkar hyggju hyrningarsteinar þeirrar framleiðsluaukningar, sem verður að fylgja í kjölfar óhjákvæmilegra ráðstafana til sköpunar jafnvægis í efnahagsmálum. Okkur duga engar pappírsráðstafanir til þess að skapa slíkt jafnvægi. Ef við viljum tryggja hin góðu lífskjör og halda áfram að bæta þau, dugir ekkert annað, en að auka arðinn af starfi okkar, stækka kökuna, sem við verðum að skipta á milli landsins barna. Við sköpum aldrei frið í þjóðfélagi okkar, sættir milli vinnu og fjármagns, með því einu að smækka skammtinn til hvers einstaks starfshóps eða vinnustéttar. Það er leiðin til illdeilna og átaka. Þess vegna ríður okkur lífið á að sameina kraftana í baráttunni fyrir nýjum mörkuðum, fyrir meiri framleiðslu, fjölbreyttari framleiðslu og verðmeiri framleiðslu.

Sjálfstfl. býður þjóðinni forustu sína í því mikla uppbyggingar- og viðreisnarstarfi, sem fram undan er. Hann lofar því ekki að gera allt það, sem gera þarf, í einu. Því getur enginn ábyrgur stjórnmálaflokkur lofað. Við heitum því hins vegar, sem Íslendingar verða að krefjast af öllum stjórnmálaflokkum sínum, að segja þjóðinni satt um getu hennar á hverjum tíma og miða framkvæmdirnar við hana.

Herra forseti. Góðir hlustendur. „Snjórinn er að bráðna, þokan að hverfa. Fyrir oss er land, sem vill grænka.“ Þoku vinstri stjórnarinnar, sem brást allra vonum, er á hana treystu, er létt af Alþingi. Látum hana aldrei framar sveipast um okkar ungu og framsæknu þjóð. Ísland vill grænka með nýju vori, heilbrigðu efnahagslífi og stjórnarfari, og almenningur í öllum stjórnmálaflokkum vill leggja hönd á plóginn með gróandanum. Íslendingar skiptast ekki í illviljaða menn og góðviljaða. Við erum aðeins fólk með mismunandi skoðanir og viðhorf til lífsins, gæða þess og möguleika. Við sjálfstæðismenn treystum því, að sú heilbrigða dómgreind þessa fólks, sem alltaf hefur sameinað það á hinum stóru stundum sjálfstæðisbaráttu þess, muni einnig nú á mikilli örlagastundu þoka því saman í órofafylkingu og sókn fyrir efnahagslegri viðreisn, fyrir blómlegum þjóðarhag og fyrir fjárhagslegu og menningarlegu sjálfstæði. — Góða nótt og gleðilegt sumar.