12.05.1959
Sameinað þing: 49. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1879 í B-deild Alþingistíðinda. (2497)

Almennar stjórnmálaumræður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Í dag hitti ég kunnan borgara á götu. Hann hefur aldrei haft nein afskipti af stjórnmálum og mun ekki hafa sérstakan áhuga á þeim efnum, en hann fór að fyrra bragði að tala um útvarpsumræðurnar í gærkvöld. Mér fannst aðalatriði þess, sem hann sagði, mjög athyglisvert. Hann sagði: Mér finnst allt of margir íslenzkir stjórnmálaleiðtogar vanmeta dómgreind íslenzku þjóðarinnar, auk þess sem þeir misbjóða smekk hennar ýmist með stóryrðum eða strákskap í málflutningi sínum. Þegar þess verður vart, að skoðanir og afstaða stjórnmálamanna taka algerum stakkaskiptum eftir því, hvort þeir eru í stjórnaraðstöðu eða stjórnarandstöðu, þá hlýtur að vakna hjá manni sú hugsun, að það sé ekki heill þjóðarinnar, sem borin er fyrir brjósti, heldur ímyndaðir flokkshagsmunir. Það er þess vegna ánægjulegt, sagði hann að síðustu, þegar stjórnmálamenn hika ekki við að beita sér fyrir því og taka á sig ábyrgð af því, sem gera þarf, og ég held, að allir finni í rauninni með sjálfum sér, að það, sem nú hefur verið gert, þurfti að gera.

Svo mörg voru þau orð. — Margt af því, sem sagt var í gærkvöld og sagt hefur verið í kvöld um núv. ríkisstj. og gerðir hennar, hefur í rauninni verið þannig, að það ber ekki vott um djúpa virðingu fyrir dómgreind þjóðarinnar.

Það, sem málsvarar Alþb. og Framsfl. hafa fyrst og fremst deilt á ríkisstj. fyrir, er, að hún skuli hafa verið mynduð með stuðningi Sjálfstfl. Það er talið mikilsverðara að undirstrika þetta, en að ræða hitt, til hvers stjórnin var mynduð og hvað hún hefur gert.

Það eru nú liðin rétt 20 ár, síðan formaður Framsfl., Hermann Jónasson, settist fyrst í stjórn með sjálfstæðismönnum og var þá meira að segja í forsæti, og það eru ekki nema sex ár, síðan hann sat í stjórn með Ólafi Thors, Bjarna Benediktssyni og Birni Ólafssyni. Hinn aðalleiðtogi Framsfl., Eysteinn Jónsson, hefur þó verið í enn nánari tengslum við Sjálfstfl., því að hann hefur setið í ríkisstj. með sjálfstæðismönnum lengst af s.l. tvo áratugi. Er það ekki að misbjóða dómgreind almennings, þegar ræðumenn Framsfl. fordæma það, meira að segja með vandlætingarhreim í röddinni, eins og henti Karl Kristjánsson áðan, að Alþfl. skuli leyfa sér að mynda ríkisstj. og þiggja til þess stuðning Sjálfstfl., rétt eins og málefnin, sem vinna á að, séu aukaatriði?

Eins og vænta mátti, hafa ræðumenn Alþb. þó tekið miklu dýpra í árinni um þetta atriði: fyrst Sjálfstfl. styður ríkisstj., virðist ekki frekari vitna þurfa við um hana. Halda þessir menn, að íslenzka þjóðin sé búin að gleyma því, að það er ekki ýkjalangt síðan Sósfl. sat í ríkisstj. undir forsæti Ólafs Thors? Það eru ekki nema nokkrir mánuðir, síðan fulltrúar Alþb. sátu á fundum með fulltrúum Sjálfstfl. til viðræðu um stjórnarmyndun. Það eru meira að segja ekki nema nokkrar vikur, síðan Alþb. orðaði það, sem skilyrði fyrir stuðningi sínum við kjördæmabreytinguna, að núv. ríkisstj. viki, en við tæki annaðhvort samstjórn Alþfl., Sjálfstfl. og Alþb. eða embættismannastjórn. Er það ekki að misbjóða dómgreind almennings, þegar slíkir menn telja það höfuðsynd hjá Alþfl. að mynda ríkisstj. með stuðningi Sjálfstfl.?

Fyrrv. sjútvmrh., Lúðvík Jósefsson, ræddi landhelgismálið í ræðu sinni áðan á þann veg, að allir flokkar aðrir, en flokkur hans hefðu verið reiðubúnir til að svíkja í því máli. Þannig á ekki að ræða mikilvægustu og viðkvæmustu þjóðmál. Sízt ætti Lúðvík Jósefsson að leyfa sér slíkt, því að enginn vafi er á því, að aðstaða Íslendinga í þessu máli væri nú fjarri því að vera jafngóð og hún er, ef utanríkisráðherra hefði ekki haldið jafnvel á málinu gagnvart öðrum þjóðum og raun ber vitni og komið í veg fyrir víxlspor, sem stigin hefðu verið, ef flokkur Lúðvíks Jósefssonar hefði fengið að ráða.

Þá furðaði mig í sannleika sagt mjög á ræðu hv. þm. S-Þ., Karls Kristjánssonar, áðan, á ósmekklegu tali hins hagmælta manns og óyfirveguðum stóryrðum hans. Hann fór mörgum orðum um, að Alþfl. hafi svikið Umbótabandalagið, og lét eins og sumir þingmenn hans væru ekki frjálsir gerða sinna, af því að framsóknarmenn hefðu staðið að kosningu þeirra.

Umbótabandalagið var kosningabandalag. Það náði ekki tilgangi sínum. Má því með nokkrum rétti segja, að því hafi í raun og veru lokið þegar eftir kosningarnar, en endanlega lauk því auðvitað, þegar Hermann Jónasson baðst lausnar fyrir stjórn sína í desember án þess að hafa áður samráð um það við Alþfl. og eftir að hafa virt að vettugi þá tillögu hans að leggja deilumálin í ríkisstj. fyrir Alþingi.

Á síðasta kjörtímabili áttu 6 Alþýðuflokksmenn sæti á Alþingi. Þeim fjölgaði um tvo í síðustu kosningum, án efa m.a. vegna kosningasamvinnunnar við Framsfl. En jafnvíst er hitt, að 4 þm. Framsfl. eiga kjörfylgi Alþýðuflokksmanna þingsæti sín að þakka, þeir Björgvin Jónsson, Eiríkur Þorsteinsson, Halldór E. Sigurðsson og Sigurvin Einarsson. Sú rödd hefur aldrei heyrzt úr röðum Alþfl., að þessir menn séu ekki fullgildir þingmenn Framsfl. fyrir þessa sök. Framsfl. er því sannarlega lítill sómi að hinum ofríkisfulla hugsunarhætti, sem fram kom í málflutningi Karls Kristjánssonar.

Þegar núv. ríkisstj. var mynduð, biðu þrjú stór verkefni úrlausnar Alþingis. í fyrsta lagi varð að tryggja rekstur útflutningsatvinnuveganna, en eins og ástandið var orðið eftir 1. des., vofði stöðvun þeirra yfir. Í öðru lagi þurfti að afgreiða fjárlög. Og í þriðja lagi var nauðsynlegt að gera gagngerar breytingar á kjördæmaskipun landsins.

Alþfl. og Sjálfstfl. höfðu afgreiðslu aðeins eins þessara mála í hendi sinni, þ.e. fjárlaganna. Til afgreiðslu hinna varð að fá stuðning eða hlutleysi annars hvors hinna flokkanna. Efnahagsmálin voru afgreidd með hlutleysi Framsfl., en í andstöðu við Alþb. Kjördæmamálið var hins vegar afgreitt með samvinnu við Alþb., en í andstöðu við Framsfl. Síðan núv. ríkisstj. var mynduð, hafa allir flokkar þingsins því unnið saman beint eða óbeint að lausn hinna stærstu mála, sem við hefur verið að etja. Alþfl. og Sjálfstfl. hafa staðið að lausn þeirra allra, Alþb. ásamt þeim að lausn eins og Framsfl. óbeint að lausn annars. Með hliðsjón af þessu hljóta stóryrði Alþýðubandalagsmanna og framsóknarmanna í garð núv. ríkisstj. að skoðast í nokkuð sérstöku ljósi. Hér er skýringin á tómahljóðinu, sem í þeim er.

Ræðumenn Alþb. hafa farið hörðum orðum um ráðstafanir þær, sem gerðar hafa verið í efnahagsmálum. Ég er samt sannfærður um, að ekki er til sá hugsandi Íslendingur, sem gerir sér ekki fyllilega ljóst, að það ástand, sem skapazt hafði 1. des., er kaupgjaldsvísitalan hækkaði í 202 stig, gat ekki staðizt til frambúðar. Gera varð annað tveggja, að láta kaupgjaldið haldast, en leggja á um 400 millj. kr. nýja skatta og láta síðan verðbólguhjólið halda áfram að snúast, eða færa kaupgjaldið og verðlagið niður í þeim mæli, sem nauðsynlegt var, til þess að hægt væri að koma í veg fyrir halla hjá útflutningsatvinnuvegunum og ríkissjóði án þess að leggja á nýja, almenna skatta.

Alþfl., Sjálfstfl. og Framsfl. voru í raun og veru sammála um að fara síðari leiðina. Ástæðan til þess, að Framsfl. hefur hætt að mæla með henni, er eingöngu sú, að hann er nú utan ríkisstj. Og því fer fjarri, að Alþb. sé hún jafnleið sem það lætur. Í samningaviðræðunum um endurreisn fyrrv. ríkisstj. kom það skýrt fram af hálfu fulltrúa Alþb., að þeir voru alls ekki andvígir því í sjálfu sér, að launþegar gæfu eftir bótalaust nokkur vísitölustig, og voru allt að 6 stig nefnd í því sambandi, þótt slíkt sé nú talið glæpur gagnvart verkalýðshreyfingunni, einungis af því að Alþb. er nú ekki lengur aðili að ríkisstj. og á ekki í samningum um aðild sína að stjórn.

Mig langar enn fremur til þess að vekja athygli á einu atriði í sambandi við þá stefnu í efnahagsmálunum, sem tekin var, en mér virðist menn ekki hafa gefið nógu mikinn gaum. Þegar menn ræða áhrif ráðstafananna, bera menn gjarnan saman þá lækkun, sem orðið hefur á kaupi þeirra, og lækkunina, sem orðið hefur á verðlagi síðan um áramót. Með þessu er alls ekki nema hálfsögð sagan. Kauphækkunin, sem varð á síðari helmingi s.l. árs, var nefnilega nær engin áhrif farin að hafa á verðlagið um áramótin. Niðurfærsla verðlagsins og launanna var því ekki nema annar þáttur þessara ráðstafana. Hinn þátturinn var að koma í veg fyrir þá hækkun, sem að öðrum kosti hefði hlotið að verða á öllum nauðsynjum almennings, en sá þátturinn gleymist of oft, þegar um þetta er rætt.

Þegar menn eru að bera saman verðlækkunina og kauplækkunina, er rangt að láta við það sitja að minnast þess, að t.d. kjötkílóið, sem kostaði kr. 29.80 fyrir síðustu áramót, kostar nú 21 kr. Sagan er ekki fullsögð, fyrr en þess er getið, að það hefði í haust verið komið upp í kr.40.30, eða verið orðið nærri helmingi dýrara, en það er nú, ef ekki hefði verið tekin upp sú stefna, sem ofan á varð. Og mjólkurlítrinn, sem kostaði kr.4.10 fyrir áramót, en nú kostar kr.2.95, hefði fljótlega hækkað upp í kr. 5.60.

Það, sem bera á saman við niðurfærslu kaupsins, er ekki aðeins verðlækkunin, sem orðið hefur, heldur einnig verðhækkunin, sem mönnum var forðað frá, og þá auðvitað allar hinar óbeinu og stórskaðlegu afleiðingar jafngífurlegrar verðbólgu og yfir vofði. Aldrei verður of oft á það minnt, að heildartekjur alls vinnandi fólks verða nú í ár ekki minni, heldur meiri en í fyrra, og þá auðvitað um leið meðallaunin á mánuði og viku.

Ég skal að síðustu drepa á það örfáum orðum, sem ég tel brýnustu verkefni íslenzkra þjóðmála að kjördæmabreytingunni samþykktri.

Í fyrsta lagi þarf að fara fram gagnger endurskoðun á uppbótar- og innflutningsgjaldakerfinu og stefna að afnámi þess að mestu leyti. Hins vegar er heilbrigt að halda niður- greiðslum á helztu innlendum landbúnaðarafurðum, sérstaklega mjólk, því að það er liður í réttlátri stefnu í félagsmálum, að jafnmikilvæg og holl neyzluvara og mjólk sé sem ódýrust, auk þess sem það er heilbrigðasti stuðningurinn við landbúnaðinn að stuðla að því, að eftirspurnin eftir afurðum hans sé sem mest.

Í öðru lagi á að vinna að því, að samtök launþega og atvinnurekenda taki upp heildarsamninga til lengri tíma, en nú á sér stað um kaup og kjör, þannig að óheilbrigð togstreita og skæruhernaður á vinnumarkaðinum hverfi úr sögunni og vinnufriður verði tryggari.

Í þriðja lagi ber brýna nauðsyn til þess að taka upp samningu heildaráætlana til nokkurra ára í senn um helztu framkvæmdir í landinu til þess að koma í veg fyrir hvort tveggja jöfnum höndum, atvinnuleysi og skaðlegan skort á vinnuafli, og stuðla þannig að stöðugu verðlagi.

Í fjórða lagi er orðið bráðnauðsynlegt að endurskoða skatta- og útsvarskerfið og helzt af öllu að afnema skatta og útsvör á tekjur í núgildandi formi og það mikla ranglæti, sem af því hlýzt.

Í fimmta og síðasta lagi þarf að vinda bráðan bug að því að koma á fót lífeyrissjóði fyrir alla landsmenn, sameina hina mörgu lífeyrissjóði, sem fyrir eru, og láta hinn nýja lífeyrissjóð ná til allra stétta og hagnýta síðan þá fjármagnsmyndun, sem þar á sér stað, til eflingar framleiðslunni í landinu.

Í þessum fimm atriðum felst raunhæf stefna, sem ég er viss um að fær hljómgrunn hjá hugsandi mönnum.

Alþfl. gengur bjartsýnn til þeirrar baráttu, sem fram undan er. Ekki aðeins Alþýðuflokksmönnum, heldur mörgum fleiri finnst Alþfl. hafa verið og vera að gera rétt, hann hafi komið vel fram og heiðarlega á vandasömum tímamótum í íslenzkum stjórnmálum. Á því er nú áreiðanlega vaxandi skilningur meðal þjóðarinnar, að Alþfl. hafi mikilsverðu hlutverki að gegna. Hann er eini íslenzki stjórnmálaflokkurinn, sem sameinar það að berjast fyrir víðsýnni og öfgalausri umbótastefnu í innanlandsmálum og aðhyllast stefnu lýðræðis og frelsis í alþjóðamálum.

Það er mjög mikilvægt, að menn geri sér grein fyrir því, að þau lífskjör, sem íslenzka þjóðin hefur náð, og það öryggi í atvinnu- og félagsmálum, sem hún býr við, er byggt á stefnu í þjóðfélagsmálum, sem í öllum aðalatriðum er sprottin af hugmyndum lýðræðisjafnaðarmanna. Að þessu leyti svipar ástandinu hér til aðstæðna á hinum Norðurlöndunum. Enda þótt ég sé þeirrar skoðunar, að breyta þurfi efnahagskerfi okkar í ýmsum mikilvægum atriðum, má ekki hverfa frá þessum grundvelli. Ríkisvaldið verður að halda áfram að hafa forustu um eflingu atvinnulífsins, og það verður að standa á verði um hagsmuni þeirra þjóðfélagsstétta, sem minnst mega sín.

Grundvallarstefna Sjálfstfl. er andstæð þessum sjónarmiðum, þótt hann hafi lagað sig verulega eftir þeim á síðari árum. Fyrirmyndarþjóðfélag hans virðist vera miklu líkara Þýzkalandi þeirra Adenauers og Erhards, en Norðurlöndunum, eins og þjóðfélagið þar hefur mótazt undir forustu lýðræðisjafnaðarmanna.

Enginn vafi er þó á því, að okkur Íslendingum er og verður farsælast að halda áfram að byggja upp frjálst og réttlátt þjóðfélag í líkingu við það, sem gerist á Norðurlöndum, þar sem ríkisvaldið hefur forustu í atvinnumálum án þess þó að hefta með óeðlilegum hætti heilbrigða framtakssemi og tryggir almenningi atvinnuöryggi og félagslegt réttlæti. Við því er eðlilega ekki að búast, að Sjálfstfl. beiti sér fyrir þessu, og hið sama á við um bæði Framsfl. og Alþb. Framsfl. hefur ætíð, þegar til kastanna hefur komið, reynzt of einsýnn formælandi þröngra stéttarhagsmuna bænda, og Alþb. er að sjálfsögðu víðs fjarri því að geta tekið slíkt hlutverk að sér, þar eð því er stjórnað af kommúnistum, sem aðhyllast gerólík grundvallarsjónarmið. Alþfl. hefur þess vegna því mikilvæga hlutverki að gegna í íslenzkum stjórnmálum að vera merkisberi þeirrar lýðræðislegu umbótastefnu, sem móta verður þróun íslenzkra þjóðfélagsmála á næstu áratugum. Alþfl. er staðráðinn í því að fylgja þeirri stefnu án tillits til stundarhagsmuna og láta áróðurshróp andstæðinganna eins og vind um eyru þjóta. Hann er staðráðinn í því að segja það eitt, sem hann álítur satt, og gera það eitt, sem hann álítur rétt. Hann trúir því, að með því móti vinni hann þjóð sinni mest gagn. — Góða nótt.