13.11.1958
Efri deild: 18. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í B-deild Alþingistíðinda. (25)

40. mál, þingsköp Alþingis

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Þetta frv. er stjórnarfrv. og hefur þingflokkur Alþb. samþykkt að standa að framgangi þess. Ég hef hins vegar ekki getað komið auga á neina sérstaka ástæðu til þess nú að hraða meðferð þess og gangi gegnum þingið sérstaklega í dag með afbrigðilegum hætti. Ég tek þó ekki til máls til þess að eyða tíma þessarar hv. deildar lengi í meðferð þessa máls og því síður til þess að hindra framgang þess nú í dag, eins og ætlazt er til.

Ég get ekki séð, að utanrmn., eins og hún er nú skipuð, geti ekki verið fullkomlega starfhæf, hvort sem þetta frv. verður fyrr eða síðar að lögum. Ég álit, að nefndin sé fullkomlega starfhæf í dag og geti tekið afstöðu til hverra þeirra mála, sem hæstv. ríkisstj. kynni að óska að leggja fyrir hana. En fyrst það er nú ósk hæstv. utanrrh., eins og komið hefur fram hér, að þetta frv. verði afgreitt hér í dag með sérstökum hraða, þá er ég ekki á móti því.

Þetta frv. er, eins og öllum er kunnugt, flutt til þess að nema úr gildi ákvæði varðandi utanrmn., sem sett voru á Alþingi 1951, þá í alveg sérstökum tilgangi. Það var sem sé yfirlýst þá, af þeim flokkum, sem stóðu að þeirri lagasetningu, að hún væri gerð til þess að útiloka ákveðinn þingflokk frá öllum áhrifum um meðferð sérstakra mála, utanríkismála, og lék ekki á tveim tungum, að það væri flutt til þess að afnema með lögum þann rétt, sem ákveðinn þingflokkur hafði unnið sér með fylgi meðal kjósenda landsins. Ég benti á það þá, að það væri alveg ósæmandi lýðræðisflokkum, sem svo vildu nefna sig, að standa að slíkri lagasetningu og það gæti komið í koll þeim sjálfum síðar að fremja slík verk, enda er það komið á daginn.

Lagasetning um stjórnskipuleg málefni má aldrei miðast við hagsmuni flokka í augnablikinu, en það hefur því miður orðið oftar en einu sinni, hér á landi. Reglur, sem eiga að tryggja lýðræði, mega ekki nokkurn tíma miðast við sérstaka hagsmuni flokka á líðandi stund. Þær eiga að vera til þess að tryggja það í nútíð og framtíð, að vilji þjóðarinnar fái að koma fram hér á hv. Alþingi. En lagasetningin 1951 var, eins og yfirlýst var af flutningsmönnum hennar, gerð í þeim tilgangi að afnema og gera að engu þann vilja þjóðarinnar um skipun Alþingis, sem hafði komið fram þá í kosningum.

Það vissu allir þá, 1951, að þetta var þó ekki aðalatriðið fyrir þeim öflum, sem stóðu að lagasetningunni um utanrmn., heldur hitt að setja utanrmn. frá störfum innan Alþingis. Það hafði þá um sex ára skeið viðgengizt, að utanrmn. fengi ekki að starfa samkvæmt lögum um þingsköp Alþingis, vegna þess að það hentaði ekki þeim, sem þá fóru með stjórn landsins, að utanrmn. fengi að starfa. Ég benti á það 1951, að með lögunum, sem þá voru sett um kosningu 3 manna nefndar úr utanrmn., yrði engin breyting á þessu, af því að utanrmn. hafði þá lengi ekki verið sýndur neinn trúnaður af þeim, sem höfðu á hendi meðferð utanríkismála í landinu. Það hefur ekki heldur verið gert síðan, hvorki við utanrmn. né þá þriggja manna n., sem stofnuð var með lögunum 1951. Henni var heldur enginn trúnaður sýndur. Þessum þremur mönnum, útvöldum af hv. lýðræðisflokkum, sem svo kölluðu sig þá og gera stundum enn, var ekki heldur sýndur neinn trúnaður. Það er nú upplýst af sjálfum hæstv. utanrrh., að hvergi séu finnanleg nokkur skjöl eða skilríki fyrir því, að nokkurt samráð hafi verið haft við þessa útvöldu þriggja manna n. Það finnst engin fundabók, engin skilríki fyrir því, að þeir 3 útvöldu menn hafi nokkurn tíma komið saman og fengið að hafa nokkur ráð um utanríkismál fremur en sjálf utanrmn., kosin af Alþ.

Máltæki segir, að batnandi manni sé bezt að lifa og það gildir einnig um stjórnmálaflokka. Ég fagna því þess vegna nú, að nú er nokkuð bætt fyrir það ofstækisfulla tilræði gegn lýðræði og þingræði í landinu, sem gert var með lögunum frá 1951.

Ég vona, að setning þessara l., — en með henni er afturkallað það, sem gert var 1951, og allt, sem sagt var 1951 af hálfu þeirra flokka, sem stóðu að lagasetningunni þá, ég fagna því, að nú er þessu aftur kippt í það horf, sem vera ber, að allir þingflokkar eigi jafnan rétt á fulltrúa í utanrmn., eftir því sem þeir hafa til þess fengið styrk á Alþingi. En ég vona, að það verði einnig sú breyt. á, að utanrmn. í heild sinni — þar með fulltrúum stjórnarandstöðunnar hér á hv. Alþ. — verði sýndur sá trúnaður, sem ætlazt er til í l. um þingsköp Alþingis, að undir utanrmn. verði jafnan borin utanríkismál, jafnt þegar Alþ. á setu og utan þess.

Lagaákvæði um meðferð þingmála verða ekki sízt að tryggja það, að stjórnarandstöðunni, hvernig sem hún er skipuð á hverjum tíma, sé veittur réttur til þess að fylgjast með öllum málum, ekki sízt hinum allra þýðingarmestu málum fyrir þjóðina alla.

Því miður verð ég að játa, að eftir að núv. ríkisstj. tók við árið 1956, varð ekki sú breyt. á afstöðu hæstv. ríkisstj. til utanrmn., sem rétt hefði verið. Þau tvö ár, sem síðan hafa liðið, hefur utanrmn. ekki verið kölluð til samráðs við ríkisstj. um utanríkismál. Hún hefur verið kölluð saman á síðasta þingi — held ég einu sinni og á undanförnum þingum eitthvað svipað og varla afgreitt þau mál, sem til hennar hafa komið.

Um leið og ég fagna því, að þeir tveir stjórnarflokkar, sem standa að flutningi þessa frv. ásamt þingflokki Alþb., hafa breytt um afstöðu sína í þessum málefnum síðan 1951 — og Sjálfstfl. líka — því að hann er nú ekki andstæður því að afturkalla með þessari lagasetningu það, sem hann gerði og sagði 1951 í þessu máli, — um leið og ég fagna því, þá vil ég aðeins láta í ljós þá von, að allt starf utanrmn. verði framvegis í meira samræmi við lagaákvæði um starf n., eins og þau verða nú með setningu þessara laga.