30.01.1959
Efri deild: 60. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í B-deild Alþingistíðinda. (250)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Forsrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfáar athugasemdir út af þeim ræðum, sem hér hafa verið fluttar.

Hv. 1. þm. N-M. (PZ), sem hér var að enda sitt mál, vildi nú að vísu, þó að hann hefði ýmsar aðfinnslur að gera, ekki færa mér þær til mannvonzku, heldur fávizku og er ég honum út af fyrir sig þakklátur fyrir það. Ég vil heldur vera fávís en illviljaður, því að fávizkuna er þá kannske hægt að laga undir góðri handleiðslu hjá honum eða öðrum.

Hann gerði mikið úr því, að niðurgreiðslurnar gætu haft þær afleiðingar, — niðurgreiðslurnar á landbúnaðarvörunum, — að bændurnir nytu ekki þeirra hlunninda, sem í niðurgreiðslunum felast, vegna þess að með niðurgreiðslunum væru vörurnar í útsölu komnar niður fyrir það verð, sem framleiðandinn fengi fyrir þær. Þetta má vera rétt. En þetta er út af fyrir sig ekkert nýtt. Þetta hefur komið fyrir áður. Ég vil t. d. nefna kartöflurnar. Þær hafa um langan tíma verið greiddar meira niður og lengra niður en ofan í það framleiðsluverð, sem bændur fá fyrir þær og hefur ekki þótt aðfinnsluvert.

Ég nefni þetta aðeins til þess að sýna fram á, að hér er ekki um nýtt atriði að ræða. Og á annað vil ég benda, sem fyllilega má taka tillit til, þegar um þetta er rætt, og það er það, að með lækkuðu verði á þessum vörum eykst áreiðanlega salan. Salan eykst innanlands og sparar þessum framleiðendum að flytja út með lægra verði verulegan hluta af framleiðslunni. Og það er ekki búið að sýna mér fram á það, a. m. k. með rökum enn, að það, sem bændurnir kunna að tapa á því, að þeir á vissan hátt borga meira fyrir vöruna í heimahúsum, en þeir sem fá hana niðurgreidda, vinnist ekki upp með aukinni sölu innanlands og forði þannig sölu til annarra með lægra verði. Þetta er mjög stórt atriði, sem verður að hafa í huga, þegar þessi mál eru athuguð.

Þá sagði hv. þm. og var þar inni á sömu hugsun og hæstv. forseti þessarar deildar, sem flytur hér till. á sérstöku þskj. — á þskj. 216 — um breytingu á 7. gr., að bændurnir nytu ekki jafnréttis við aðra þegna þjóðfélagsins, ef ekki væri leiðrétt í þeirra verðlagsgrundvelli sú skekkja, sem hefði komizt inn s. l. haust, að þeir hefðu ekki þar fengið að fullu upp borna þá hækkun, sem varð á tímakaupi verkamanna hér í Reykjavík, sem talið er að muni nema 3.3%.

Nú vil ég í fyrsta lagi um þetta segja það, að það er fjöldi manna í þessu landi, sem ekki hefur fengið þessa hækkun á sín laun. Hv. 1. þm. N-M, sagði beinlínis, að bændurnir væru með þessu móti látnir bera 6 millj. kr. skatt umfram alla aðra þegna þjóðfélagsins og það væri fávizka mín, ef ég vissi ekki betur.

Fjöldinn allur af þeim samningum, sem gerðir voru s. l. sumar, miðar við minni hækkun. Ég nefni t. d. iðnaðarmannasamningana flesta eða alla og sumir fengu þá ekki meiri hækkun en 1%–2%. Ef ætti að rífa þessa samninga upp alla til samræmis við þá hækkun, sem varð hjá Dagsbrún í haust, þá yrði lítið úr þessum aðgerðum.

Frv., sem hér liggur fyrir, er á því byggt, að þeir, sem hafa gert samninga um sitt verðlag og sín kjör, láti við svo búið standa, á meðan samningurinn stendur, þannig að hann verði ekki rifinn upp, því ef einn fer til þess, þá vitanlega gerir annar það líka. Og bændurnir eru svo sannarlega ekki einir um þetta. Þetta er það, sem mér hefur fundizt hættan við að fara út í það, sem þessi hv. þm. og þeir, sem fyrir þessu máli tala, kalla lagfæringu á kjörum bændanna í þessu efni, þegar svo hitt er athugað líka, að ég hef fullar heimildir fyrir því og vænti ég, að hv. þm. leiðrétti mig, ef ég er svo fákænn að fara þar rangt með, að bæturnar á útflutning landbúnaðarvara hafi orðið meiri, en framleiðsluráðið hafi búizt við að þær yrðu á s. l. hausti vegna hækkaðra bóta á framleiðsluvörum til sjávarútvegsins, sem af sjálfu sér hafa yfirfærzt á landbúnaðinn.

Þetta ætti á vissan hátt að geta jafnað þarna metin, ef um skaða væri að ræða og þá bætt bændunum hann, — ég vil ekki segja fyllilega, mér er ekki kunnugt um það, — en að mjög verulegu leyti að minnsta kosti.

Enn má á það benda, að þegar framleiðsluráð landbúnaðarins kom og ræddi við ríkisstj. um þetta frv., þá lýstu þeir yfir, að þeir féllust á meginhugsun frv.; það var það fyrsta. Í öðru lagi er það rétt, að þeir fóru fram á þessa lagfæringu, sem hér er talin, en þeir fóru líka fram á sem varatill., að þeir fengju ársfjórðungslega leiðréttingu á verðlagsgrundvellinu, og mér skildist það — og það voru það margir menn viðstaddir, sem geta borið það, ef ágreiningur verður um þetta, — að þar væri um að ræða varatill., sem að einhverju eða öllu leyti kæmi í staðinn fyrir hina, ef ekki þætti fært að fara þá leið.

Nú var farið að óskum Stéttarsambandsins með því að taka upp þessa ársfjórðungslegu regúleringu, en ekki þessi 3%, og ég taldi, að með því væri óskum þeirra manna, sem til ríkisstj. komu þá, fullnægt. Það kann að vera, að það sé ekki, en ég skildi það svo, þegar þeir komu til ríkisstj. í fyrsta skipti.

Út í þetta skal ég ekki fara lengra, en aðalatriðið er það, að mér finnst, að hér sé um svipaðan samning að ræða hjá bændastéttinni og er hjá fjöldamörgum öðrum stéttum í landinu, sem hafa gert samninga um sín kjör yfir nokkurn tíma og að skilyrðið fyrir því, að einhver árangur náist af þessari lagasetningu, er það í fyrsta lagi, að þeir, sem slíka samninga hafa gert, uni við þá, á meðan samningstíminn varir og rifti þeim ekki.

Hv. 1. þm. N-M. taldi mig hafa flaskað á því, að árið, sem leið, hefði ekki verið gott ár fyrir bændastéttina. Ég hafði í minni einfeldni haldið, að árið hefði verið nokkuð gott og ég veit það, að veðurblíðan s. l. sumar lék við mikinn hluta landsmanna. Það gerði hún. En að einn og einn hreppur hafi kannske orðið fyrir einhverjum búsifjum af veðráttufarinu, er ekkert óvenjulegt, því að það er nú svo á okkar landi, að það viðrar ekki alls staðar eins og þó að einhver maður hafi farið á skíðum fram eftir vori í einhverjum hreppi, þá sannar það ekki hitt, að það hafi alls staðar eða á öllu landinu verið svo slæmt. Það er frekar undantekning, en aðalregla.

Þá sagði þessi hv. þm., að ríkisstj. væri að reyna að lækka, en aðrir hækkuðu. Á það er nú ekki reynt til fulls enn, vil ég segja, en náttúrlega byggist árangur þessara ráðstafana á því, að ekki einasta ríkisstj. lækki, heldur verði fleiri og helzt allir til þess að fara sömu leiðina, því að ef einn hækkar eða sker sig út úr, þá er ósköp hætt við, að lítið verði úr þessum aðgerðum. Það skal ég viðurkenna. En þetta er tilraun af hálfu ríkisins og Alþingis, ef samþykkt verður, til þess að ganga á undan og sýna viðleitni í lækkunarátt og tilraunin er gerð til þess að freista þess að fá aðra til þess að koma á eftir. Ef þeir ekki vilja gera það og ef landsmenn vilja ekki una við þessar ráðstafanir, þá vitanlega verða þeir að ráða því. Hér er ekki um nein þvingunarlög að ræða, alls ekki, heldur verður hver og einn að ráða því, hvernig þessum aðgerðum verður tekið og niðurstaðan fer svo vitanlega eftir því, hvernig þeim verður tekið. Ef það tekst með ábyrgðarlausu tali, eins og hv. 8. landsk. þm. var að reyna að viðhafa hér áðan, að æsa menn upp til gagnráðstafana gegn ákvæðum frv., þá vitanlega renna þau út í sandinn, ég geri mér það alveg ljóst. En þá verða þeir herrar, sem að þeirra „agitasjón“ standa, að taka á sig þunga ábyrgð. Og þá verða þeir að sjá um, að til einhverra annarra ráðstafana verði gripið, sem að þeirra dómi sjálfsagt eru léttbærari. Ég ætla þeim ekki, að þeir séu með þessu með vilja að leiða harðari aðgerðir yfir landsfólkið, en verða mundi með þessu frv. En ég er alveg viss um það, að þeir fara villir vegar, því að það, sem kemur í staðinn fyrir þetta, ef þetta mislukkast, verður verra og kemur harðar niður, en þó þessar aðgerðir.

Hv. 8. landsk. þm. var að gera lítið úr því, að það er sannað mál, að kaupmáttur launanna verður ekki á þennan hátt rýrður meira en svo, að hann verður þó ögn meiri ,en hann var í októbermánuði s. l.

Nú þótti honum það vera að fara í felur með sannleikann, skildist mér, eða reyna að gera á villandi hátt grein fyrir málinu að miða þessa kaupmáttarbreytingu við októbermánuð s. l. og taldi, að þá hefðu verið ókomnar inn hækkanirnar og það er rétt. Um þetta má segja sitt hvað fram og til baka. Í okt. og nóv. eru ekki fram komnar þær hækkanir á kaupi, sem leiðir af hækkuðu vöruverði. En á alveg sama hátt má segja nú, að í des. og jan. séu ekki fram komnar þær hækkanir á verðlagi, sem leiðir af hinu hækkaða kaupi. Þessi víxlverkun heldur alltaf áfram. Og af hverju miðaði Alþýðusamband Íslands á sínu þingi sínar till. við það, að kaupmáttur launa lækkaði ekki frá því, sem hann var á þeim tíma, þegar þingið var haldið, sem var einmitt með októbervísitölu? (BjörnJ: Þingið stóð fram í des.) Já, það gerði það að vísu, en þegar þessi ályktun um efnahagsmál var gerð, þá segir þar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Nú þegar verði hafizt handa um að stöðva verðbólguna. 26. þing. A. S. Í. lýsir því yfir: Til þess að auðvelda frekari aðgerðir getur það fallizt á, að vísitalan verði greidd niður, þannig að hún hækki ekki frá því, sem nú er (þ. e. vísitalan 185 og framfærsluvísitala 202), með þeim hætti, að það valdi engri rýrnun á kaupmætti launa.“ Það er sem sagt Alþýðusambandsþingið, sem hefur orðið á sú sama skyssa og höfundum þessa frv., að miða kaupmáttinn við þennan mánuð, við októbervísitöluna eða nóvembervísitöluna, sem var sú sama, 185 stig. Hv. þm. vill halda því fram, að þetta gefi ranga mynd. Og það er rétt, það gefur ranga mynd að því leyti til, að kauphækkunin er ekki komin fram, sem leiddi af vöruverðshækkuninni. En á alveg sama hátt má segja, að verðlagshækkunin sé nú ekki komin fram af þeirri kauphækkun, sem varð 1. des. Þessi víxlverkun heldur alltaf áfram og það má náttúrlega segja, að eitt sé kannske rangara, en annað eða annað réttara en hitt, — um þetta má deila, — en þessi viðmiðun frv. er þó ekki verri en það, að það er nákvæmlega sama viðmiðunin og höfð var í ályktun Alþýðusambandsþingsins.

Þá sagði þessi hv. þm. og hafði eftir mér, að nýi vísitölugrundvöllurinn hefði verið settur inn í lögin samkvæmt ósk minni hluta Alþýðusambands Ísland, og vildi telja það til furðulegra aðgerða, að mér skildist, að það skyldi vera farið eftir óskum minni hlutans að einhverju leyti eða eitthvert tillit tekið til hans. Ég held, að ég hafi sagt þannig frá, þegar ég skýrði frá þessu, að þetta hafi verið gert samkvæmt ósk Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, því að það kemur beinlínis fram í þeirra bréfi og minni hluta stjórnar Alþýðusambands íslands, þannig að það voru fleiri, en minni hlutinn í stjórn Alþýðusambands Íslands, sem báru fram þessa ósk. Og þó að það hefði verið minni hluti stjórnar Alþýðusambands Íslands einn, sem hefði borið fram óskina, þá teldi ég það enga goðgá að fara eftir því, þegar engin mótmæli komu fram frá hinum hlutanum, því að einhvern rétt hlýtur minni hluti í stjórn að hafa og alveg sérstaklega, þegar sá minni hluti nálgast það að vera helmingur, eins og í þessu tilfelli.

Þá ræddi hv. þm. allmikið um 10. gr. frv. Hann var í vandræðum með að skilja niðurlag fyrri mgr. gr., þar sem segir, að ákvæði þessarar mgr. taki ekki til vörutegunda, sem verðlagðar eru samkvæmt sérstökum lögum, né heldur vöru, sem seld er úr landi eða launa fyrir verk, sem ákveðin hafa verið með samningum stéttarfélaga. Þetta er til þess sett inn að forðast, að ákvæðin verði tvítekin. Síðasti setningarhlutinn á við verðlagningu þeirra vara, sem stéttarfélagasamningarnir ná til og búið er að færa niður annars staðar.

Um greinina almennt og verðlags- eða álagningarreglur, sem í gildi hafa verið og þær breyt., sem á þeim verða samkvæmt þessu frv., skal ég leyfa mér að fara nokkrum orðum.

Hv. þm. taldi, að með þessari gr. væri mjög lítið unnið og álagningin samkvæmt henni yrði ekki lækkuð nema að mjög óverulegu leyti, miðað við a. m. k. þá stóru og miklu hækkun, sem orðið hefði í tíð fyrrv. ríkisstj. Sá kattarþvottur á hæstv. fyrrv. félmrh. og verðlagsstjóra, sem hann taldi að hefðu verið á móti hækkuninni, sem varð á álagningu í tíð fyrrv. hæstv. ríkisstj., var næsta undarlegur, því að hvers vegna lét verðlagsstjóri og ráðh., sem þessi mál heyra undir, ef hann virkilega var á móti aðgerðinni, hafa sig til þess að sitja undir því, að þessum verðlagsákvæðum eða verðlagningarákvæðum væri breytt algerlega á móti þeirra vilja? Ef það hefði verið nokkur alvara í hans bréfi, sem hv. þm. las hér upp, þá átti hann vitaskuld ekki að una því, að álagningin væri hækkuð svona mikið umfram það, sem hann vildi vera láta og sérstaklega ekki, þegar málið heyrði raunverulega algerlega undir hann. Ég held þess vegna, að það sannfærist enginn af því, sem hv. þm. sagði um það, að þessir aðilar, sem hann nefndi, hafi verið alsaklausir af þeirri miklu hækkun, sem hann nú segir að hafi farið fram í tíð fyrrv. ríkisstj. á álagningarprósentunum.

En þá er hitt atriðið, að það sé með þessari lækkun, sem hér er verið að gera, ekki náð nema tiltölulega litlum og auvirðilegum árangri. Út af því vil ég segja, að það hefur þó þegar fyrir einum eða tveimur dögum tekizt að ná samkomulagi við félag stórkaupmanna, við smásalasamtökin og við Samband ísl. samvinnufélaga einnig um það að færa niður álagninguna meira, en gert er ráð fyrir í frv.

Launaliðurinn í álagningunni, sem gert er ráð fyrir að lækki samkvæmt ákvæðum frv. hjá verzlunarstéttinni, er talinn vera, eftir því sem mér er sagt, um 60% af öllum tilkostnaði. Ef launaliðurinn yrði færður niður eins og hjá öðrum launastéttum í landinu, þá þýddi það samkvæmt þessu, að álagningarupphæðin gæti lækkað um 3.2%. En í staðinn fyrir þessi 3.2% hefur náðst samkomulag um það við þessa aðila að færa álagninguna niður um 5% og þegar í stað. Ég veit, að það hafa farið fram svipuð viðtöl við iðnrekendur og ég hef hugmynd um það eða a. m. k. ég vona það, þó að ekki liggi fyrir enn, að svipaður árangur náist einnig þar. Og ég er ekki í vafa um, að þó að hv. 8. landsk. þm. vildi gera lítið úr þeim árangri, sem á þennan hátt mætti ná í lækkunarátt, þá verður hann það mikill, ef þetta verður svona, eins og ég segi, með 5% lækkun, að það munar verulega um það og kemur mjög greinilega fram í vísitölu.

Það er ástæðulaust, að ég fari að ræða málið almennt. Hæstv. forseti þessarar d., 1. þm. Eyf., minntist á meðferð málsins og virtist telja það öðruvísi, en vera ætti, að þessi hv. d. fengi ekki nema 3 daga til þess að fjalla um málið, þegar Nd. hefði fengið viku. Nú verð ég fyrst að segja, að þetta er ekki á valdi ríkisstj. Það er náttúrlega Nd., sem skammtar sér sinn tíma, ef málið er lagt fram þar, alveg eins og ég geri ráð fyrir því, að þessi hv. d. mundi skammta sér sinn tíma til þess að fara með málið, ef málið væri lagt fram hér. Hér er ekki á neinn hátt af hálfu ríkisstj. eða neins aðila verið að gera upp á milli deildanna. Mér er ljóst, að þær eru jafnréttháar og eiga sjálfsagt kröfu til jafnmikils tíma til þess að meðhöndla málin. En þó held ég, að það sé nú ekki auðvelt að mótmæla því, að í fyrri d. verður málið náttúrlega tímafrekara, — þá er málið nýrra, fleira kemur fram nýtt og þess vegna ætti að vera auðveldara og fljótlegra að taka málið til afgreiðslu í seinni d., heldur en í þeirri fyrri. En þetta er mál, sem ekki snertir ríkisstj. að neinu leyti, vegna þess að það er hæstv. Alþingi sjálft og deildirnar, sem taka ákvörðun um þetta. Tíminn, sem ætlaður var til afgreiðslu málsins í heild, er náttúrlega það, sem sker úr í þessu efni og til þess voru að vísu ekki nema 10 dagar, sem sjálfsagt er í stytzta lagi. En því er til að svara, að það var ekki hægt að setja þetta mál fram, fyrr en nokkurn veginn var endanlega vitað um árangur þeirra samninga, sem verið var að gera við útvegsmenn. Á þeim samningum var byrjað strax á annan jóladag. Þessi ríkisstj., sem nú situr, tók við 23. des. — 24. des. eða á aðfangadag — skipaði hún nefnd til samninga við útvegsmennina. 26. des. — eða annan í jólum — hóf sú nefnd störf og hún vann að málinu sleitulaust, þangað til því var lokið um miðjan mánuðinn. Og ég verð að segja það, að þessi nefnd vann virkilega mikið verk og ég vil segja gott verk. Hún lagði í það svo mikla vinnu, að hún var margar nætur heilar að samningagerð. En það var við marga aðila að semja, og heildarniðurstaðan náðist ekki, eins og ég segi, fyrr en um miðjan jan. og þá þegar var málið lagt fram eða upp úr því, — einn eða tveir dagar urðu að vera þar á milli til þess að ganga frá frv.

Þá lét þessi sami hv. þm. í ljós áhyggjur yfir því, að það mundi nú sennilega verða eitt helzta afrek þessarar ríkisstj. að eyða þessu litla, sem til væri og skila svo af sér öllu í ólagi, þegar þeir næstu þyrftu að taka við, það væri lítil búmennska, sem væri í því fólgin að eyða öllum fyrningum í góðæri og við þessu þyrfti að gjalda mikinn varhug.

Út af þessu vil ég segja það, að þó að ríkisstjórnir hafi verið undirbúnar með öðrum hætti, en þessi ríkisstjórn, sem nú situr og eins og ég hef lýst áður, er eingöngu til bráðabirgða og eingöngu út úr vandræðum, vegna þess að á annan hátt tókst ekki að koma saman neinni þingræðislegri stjórn, þá hefur það skeð áður, þó að öðruvísi væri til stofnað, að viðskilnaðurinn væri ekki sem beztur. Eitthvað hef ég heyrt um það, að þegar fyrrv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum 1956, þá hafi henni ekki þótt aðkoman góð. Og þó að nú séu nokkrir peningar í sjóði, afgangur hjá ríkissjóði og ekki tómir kassar, þá er ástandið í efnahagsmálunum yfirleitt þannig, að til stórra vandræða horfir, ef ekki verður gripið til aðgerða eins og þessara, sem hér er verið að fara fram á, þannig að um viðskilnað ríkisstj. bæði fyrr og síðar má alltaf sitt hvað segja.

Fjárlög hafa venjulega hækkað í meðförum þings, sagði hv. þm. Það er rétt. En hér er gert ráð fyrir því að brjóta nú blað og reyna í staðinn að lækka. Það er ekki um margar leiðir að ræða til þess að leysa þetta dæmi. Það er ekki leysanlegt nema á tvo vegu eftir mínu viti. Það er ekki leysanlegt nema annaðhvort með því að draga úr útgjöldum ríkisins eða með því að leggja á nýja skatta. Og núverandi ríkisstj. vildi reyna að fara þá leiðina að draga úr útgjöldunum, en leggja ekki á nýja skatta, fyrr en það væri algerlega óumflýjanlegt. Hún miðar þessa niðurfærslu á vísitölunni líka við þessa hugsun. Það var enginn vandi að borga út þessi 10 vísitölustig á venjulegan hátt, ef það væri farið út í það að leggja á nýja skatta fyrir þeim upphæðum, sem útflutningssjóður þyrfti þá að bera meira. En það hefur bara verið talið af þeim sérfræðingum, sem um málið hafa fjallað og af ríkisstj., sem með málið fer nú, heppilegri leið að reyna niðurfærsluleiðina og útgjaldalækkunarleiðina hjá ríkissjóði, heldur en leggja þessa nýju skatta á. Hins vegar fá þeir, sem heldur vilja skattana, þá ósk sína áreiðanlega uppfyllta, ef ekki tekst að komast áfram með niðurfærsluna hjá launþegunum, ef ekkert verður gert úr henni með nýjum uppsögnum eða nýjum hækkunum og ef ekki tekst að komast niður með gjaldahlið fjárlaga.

Ég tók það fram, held ég, í minni stuttu frumræðu hér í þessari hv. d., að ég viðurkenndi það hiklaust, að hér væri teflt á tæpt vað og það væri óvíst, hvort væri hægt að ná endunum saman alveg til fulls á þennan hátt og með þeirri niðurfærslu, sem frv., sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir. En ég sagði líka, að það væri teflt á tæpt vað til þess að sanna landslýðnum, að hér væri ekki farið lengra, en skemmst þyrfti að fara eða stytzt til þess að ná árangri. Ef fullt öryggi ætti að vera í aðgerðunum og einhver varasjóður upp á að hlaupa, þá þyrfti annað hvort að gera til viðbótar, gera niðurfærsluna meiri eða þá að afla ríkissjóði aukinna tekna eða draga meira úr útgjöldum.

Ég held, að það sé svo ekki miklu meira, sem ég þarf um þetta að segja. Það voru a. m. k. ekki nein meginatriði, held ég, sem ég hef gleymt, en annars kemur það þá fram síðar.