13.01.1959
Efri deild: 48. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1972 í B-deild Alþingistíðinda. (2532)

Fulltrúar í Norðurlandaráð

Forseti (BSt):

Ég setti þetta mál á dagskrá til þess a.m.k. að minna á það, því að samkv. reglunum um Norðurlandaráð, sem gilda sérstaklega fyrir Ísland, ber að kjósa fulltrúa í ráðið á hverju reglulegu Alþingi.

Nú hefur sá boðskapur að vísu komið frá hæstv. forsrh., að kosningar til Alþingis muni fara fram í vor, hvað sem afgreiðslu mála á Alþingi líði. Má því búast við, að á þessu þingi geti orðið kosnir menn, sem verða ekki kjörgengir, þegar næsta Norðurlandaráð kemur saman, sem á að vera í október. En ég sé ekki annað, en kosning verði samt sem áður að fara fram á þessu þingi. Samt sem áður býst ég við, að hv. þd. sé ekki við því búin að ganga til kosninganna nú, en menn vita þá, að þetta stendur til einhvern tíma síðar, áður en þingi lýkur. Er því kosningunni frestað og málið tekið út af dagskrá.