30.01.1959
Efri deild: 60. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í B-deild Alþingistíðinda. (254)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég hef nú í sem stytztu máli gert grein fyrir skoðun minni á þessum efnahagsráðstöfunum og mundi ekki hafa tekið til máls að nýju nema vegna þess, að sérstakt tilefni gafst til þess, og ég takmarka mál mitt við það, sem ég tel að ég þurfi að svara.

Hv. 4. landsk. (FRV) sagði með verulegum þunga, að Framsfl. teldi sig enga ábyrgð vilja bera á þessum efnahagsráðstöfunum hæstv. ríkisstj., en þó mundi flokkurinn ekki ætla að beita meirihlutavaldi sinu til þess að fella ráðstafanirnar hér í þessari hv. d., og sagðist ekki vera búinn að sjá það, að við slyppum undan ámæli hjá okkar umbjóðendum fyrir að gera slíkt.

Ég vil náttúrlega þakka hv. 4. landsk. fyrir þessa miklu umhyggju fyrir Framsfl. En það er nú svo, að það verður hver og einn að sjá fyrir því að bera ábyrgð á verkum sínum sjálfur. Það er að vísu alveg rétt og verður ekki of oft sagt, að við erum óánægðir með þær ráðstafanir, sem á að gera í efnahagsmálunum og höfum gert grein fyrir því, en við höfum jafnframt sannprófað það við tilraun til stjórnarmyndana og vegna skoðana, sem eru hér á Alþingi, að Framsfl. hefur engin ráð til þess að koma fram efnahagsmálum eins og hann mundi kjósa. Þetta veit hv. 4. landsk. og það er þess vegna alveg augljóst mál, að það er ekki um annað að velja, eins og nú er komið, heldur en það tvennt að leyfa þessum málum að sigla sinn sjó, þó að ráðstafanirnar séu ófullkomnar, eða fella allar ráðstafanir hér á Alþingi. Það er um þetta að velja.

Ég skal ekki fjölyrða um þetta. Það er nógur tími til þess að gera grein fyrir því á næstu vikum og næstu mánuðum og ég hef engar áhyggjur út af því og ég held, að hv. 4. landsk. geti sparað sér allar áhyggjur út af því líka. Það bæri vitanlega að líta á þessar till. um auknar fjölskyldubætur, þær eru sjálfsagt sanngjarnar, ef hæstv. ríkisstj. gerir grein fyrir því, að hún hefði einhverja peninga til þess að greiða þær. En hingað til hefur verið álitið, að þótt engu væri bætt við það, sem fyrir er og lofað hefur verið, þá mundu tekjur ekki hrökkva til þess að greiða það og því, sem þegar er búið að semja um að greiða af hæstv. ríkisstjórn, muni verða að vísa að verulegu leyti yfir á framtíðina, a. m. k. eru allar líkur til þess, að líta megi svo á, þegar athuguð er sú grg., sem hæstv. forsrh. hefur gert fyrir tekjuöfluninni.

Hér var rætt um það af hv. 4. landsk., að unnt mundi hafa verið að mynda ríkisstj. með öðrum hætti, en gert hefur verið, stjórn sem hefði meiri hl. í báðum deildum og gæti komið fram skynsamlegri ráðstöfunum í efnahagsmálum en þeim, er lítur út fyrir að nú verði að lögum. Ég hef nú lítið gert að því að vitna um þau samtöl, sem átt hafa sér stað við stjórnarmyndanir, eða um ágreining, sem hefur verið í minni ríkisstj., nema samkvæmt þeim gögnum, sem opinberlega hafa legið fyrir og ég skal ekki heldur gera það í sambandi við þetta mál að öðru leyti en því, sem þegar hefur verið sagt opinberlega, að við lögðum áherzlu á það við hæstv. forsrh., þegar hann var að reyna að mynda stjórn og ég veit, að hann minnist þess, að ég áskildi mér rétt til þess, þegar ég lét þau orð falla og færði rök fyrir máli mínu, að mér væri leyfilegt að skýra frá því samtali opinberlega, — ég veit, að hann minnist þess og ég álít og minn flokkur áleit, að eins og þessum málum var komið núna í haust, eftir að unnin höfðu verið í sumar ég vil segja þau skemmdarverk, sem unnin höfðu verið á þeim ráðstöfunum, sem gerðar voru s. l. vor, að þá væri eðlilegast, að hann reyndi að mynda þjóðstjórn. Það hefur oft verið sagt opinberlega: Hvers vegna reyndi Hermann Jónasson þetta ekki sjálfur? — Það er hægt að svara því hér, að það liggur ekki eins á lausu fyrir stjórn og er ekki eins eðlilegt fyrir stjórn, sem er að fara, eða stjórnarformann, sem er að fara, eins og einhvern annan og við lýstum því yfir, að við mundum hiklaust styðja hæstv. forsrh. í þessari tilraun. Við álítum þetta skynsamlegast, vegna þess að það er búið að sýna sig, það er sannað mál, að í þeim erfiðleikum, sem hafa verið í efnahagsmálunum, hefur þurft furðulítinn vindblæ frá andstöðunni, furðulítinn áróður og ekki sízt, ef hann hefur nú verið mikill, þá hefur hann dugað vel til þess að gereyðileggja þær ráðstafanir, sem gerðar eru á hverjum tíma. Þetta er reynslan, bláköld reynsla og þess vegna álítum við, að það væri skynsamlegt, að þjóðin í bili sameinaði krafta sína, flokkarnir reyndu að láta deilur niður falla, sameinuðust um það, að enginn stæði utan við, heldur væri reynt að leysa efnahagsmálin á þennan hátt. Við töldum, að það sýndi jafnframt styrkleika út á við í deilu okkar við Breta og við töldum, að með þessu móti væri hægt að taka til rólegrar yfirvegunar kjördæmamálið — kjördæmaskipunina, sem við viðurkennum að þarf að gera breytingar á og við bentum á, að það væri engu að tapa fyrir þá flokka, sem vilja breyta kjördæmaskipuninni, því að þeir höfðu þetta vald 1960 í lok kjörtímabilsins, nákvæmlega eins og þeir hafa valdið núna í dag, ef þeir standa saman um málið.

Það er alveg rétt og hefur verið skýrt frá því áður, það er hægt að staðfesta það, að það var rætt um myndun vinstri stjórnar undir forsæti núverandi hæstv. forsrh., og Framsfl. var reiðubúinn til þess að styðja það, ef samkomulag næðist um efnahagsmálin. En um það skal ég ekkert fullyrða, hvort það samkomulag hefði náðst. Hér skýrði hv. 4. landsk. rétt frá, öðruvísi en hefur verið sagt frá þessu máli áður. Hann sagðist fullyrða, að það hefði verið hægt að brúa bilið til samkomulags í efnahagsmálunum, meðan stjórnarkreppan stóð yfir, þ. e. a. s. eftir að ríkisstj. sagði af sér. Ég skal ekkert fullyrða um það, hvort það hefði tekizt að brúa þetta bil, en það er vitað mál og hefur verið yfirlýst, að það strandaði á því, að núverandi hv. stjórnarflokkar voru báðir sammála um, að það bæri að taka breytingar á kjördæmaskipuninni fram yfir öll önnur mál og það yrði þess vegna að mynda bráðabirgðastjórn til þess að leysa kjördæmamálið. Þegar af þessari ástæðu var ráðizt í þessa stjórnarmyndun, eins og kunnugt er og frá hefur verið skýrt. En ég er þeirrar skoðunar og sú skoðun kom fram í þessum samtölum og hún hefur komið fram opinberlega af hálfu okkar framsóknarmanna, að við álitum, að þegar það er nú sannað, margsannað og reynt hér á Alþingi, að það er mjög erfitt að fá afgreidd ábyrg fjárlög oft og einatt vegna yfirboða rétt fyrir kosningar, — það vitum við, sem erum búnir að vera hér lengi, þetta vita allir hv. þm., — þá höfðum við ekki trú á því og höfum ekki trú á því, að það sé hægt með bráðabirgðastjórn rétt fyrir kosningar, rétt fyrir tvennar kosningar, að leysa efnahagsmálin — meira að segja efnahagsmálin, sem er enn þá meiri vandi, en afgreiða þó venjuleg fjárl. rétt fyrir tvennar kosningar, og þess vegna lögðum við þetta til. En því var hafnað, eins og kunnugt er og þar af leiðandi liggur það fyrir, að það var ekki sú lausn til staðar á efnahagsmálunum, sem við hefðum kosið, og ekki heldur þeir kraftar á Alþingi, sem við hefðum kosið að helzt stæðu að þessum efnahagsmálaaðgerðum.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta atriði. En hér komu fram í ræðu hæstv. forsrh. nokkur ummæli, sem hv. 1. þm. N-M. (PZ) hefur að vísu í höfuðatriðum leiðrétt, en ég sé ástæðu til að árétta með örfáum orðum.

Það er vitanlega rétt, að sú aðferð að greiða niður vörur hefur verið notuð lengi af öllum ríkisstj., og getur þar ekki ein ríkisstj. láð annarri svo mjög og benti hæstv. forsrh. á það, að svo hefði verið um kartöflur, þær hefðu verið greiddar langt niður fyrir það verð, sem bændur fá og eiga að fá fyrir þær og það hafi borgað sig að flytja þær í kaupstað, eins og hefur verið gert, leggja þær inn í verzlanir í nálægum kaupstað og flytja þær síðan til baka. Þetta hefur vitanlega alltaf verið galli. Og það er dálítið vafasamt um þessa aðferð með kartöflurnar, að það sé hægt að nota það sem fordæmi fyrir því að taka upp aðra miklu stærri liði, eins og kjöt og mjólk, og gera það sama með það. En sleppum því. Ég get upplýst, að núna er því þannig háttað, að kjöt í heildsölu kostar kr. 18.30 eftir þessar ráðstafanir, en í grundvellinum kr. 21.34. Það er þriggja króna munur á hverju kg, það er svona 45 kr. munur á hverjum venjulegum dilksskrokk, sem menn fá meira fyrir hann með því að flytja hann og leggja hann inn og taka hann síðan aftur, — kaupa hann aftur í heildsölu, eins og menn kaupa heila skrokka. Mismunurinn á mjólkurverðinu er eins og hv. 1. þm. N-M. skýrði frá. Það eru vitanlega engin rök, sem hæstv. ráðh. seildist til, að það seldist meira, sem hann færði sem rök fyrir því, að ekki er hægt að taka til greina þessi 3.5% m. a., og niðurgreiðslurnar lækkuðu einnig verðið til neytenda. Það er vitanlegt, að verðið á landbúnaðarvörum er raunverulega kaup bóndans og eftir þessum rökum mætti endalaust færa það fram, að það væri rétt fyrir vinnustéttirnar og verkamennina að lækka kaupið, til þess að betur seldist þeirra vinnuafl, ef um það væri að ræða, að eftirspurn væri ekki næg, til þess að menn hefðu vinnu. Og það er ekki hægt að neita því, að niðurgreiðslurnar eru mjög hættulegar, vegna þess að hættan er sú, að ríkið gefist upp við þessar niðurgreiðslur, því lengra sem þær ganga, að það verði að hætta við þær á einhverju tímabili og þá verður vitanlega afleiðingin sú, að landbúnaðarverð hækkar svo stórkostlega, að það er hætt við ákaflega tregri sölu, þegar mikil skyndihækkun verður.

Hér eru enn færð fram þau rök fyrir því, að ekki megi láta bændur sitja við sama borð í þessum lögum og aðrar stéttir, að ef það væri gert, ef það væri tekið til greina, sem við höfum borið hér fram í brtt., að bændur fengju leiðrétt um 3.5%, sem þeir eru núna lægri en verkamenn í Dagsbrún, að aðrar stéttir mundu koma í kjölfarið, því þó að Dagsbrúnarmenn hafi fengið þetta meiri hækkun en aðrir, þá sé ekki hægt að miða við það, að aðrir mundu koma í kjölfarið. Þetta er ekki rétt. Það er rétt, að Dagsbrúnarmenn hafa fengið nokkru meiri hækkun eða sem nemur 3.5% meiri en aðrir og þykir engum nema eðlilegt, því að það er yfirleitt sú þróun, bæði hér og annars staðar, að lægst launuðu stéttirnar hækka hlutfallslega við þær, sem hafa hærra kaup. En ég vænti þess, að hæstv. ríkisstj., hæstv. forsrh. viti það, að í þeim grundvelli, sem samþ. hefur verið og bændurnir eiga rétt á að farið sé eftir, er gert ráð fyrir því, að þeir hafi sams konar árstekjur og Dagsbrúnarmenn. Það getur þess vegna engin stétt komið og sagt: Við gerum kröfur um kauphækkanir, — þó að bændur fái það sama og Dagsbrúnarmenn. Ef um þær kröfur væri að ræða, væri það þá vegna þess, að Dagsbrúnarmenn hafa fengið nokkru meiri kauphækkun núna, en sú hækkun, sem orðið hefur hjá öðrum.

Það má vel segja það og er sagt hér, að þetta sé ekki mikil upphæð. Þetta er, eftir því sem ég fæ upplýst, eitthvað um 6 millj., sem bændur tapa á hálfu ári við það, að þeir eru settir skör lægra en aðrir. Þessi upphæð er sama upphæðin og hefur verið rifizt um með stærstum orðum í hv. Nd., að bændur ætluðu sjálfir að leggja á sínar vörur til þess að byggja hús. Það á að taka það á fjórum árum, þessir sömu bændur ætla að taka af sínu vöruverði á fjórum árum þessa upphæð til þess að byggja sitt eigið hús, en með einu pennastriki á hér að taka sömu upphæðina af bændum, án þess að þeir fái nokkurt endurgjald þar fyrir, og það er ekki mikið samræmi í því að halda því fram, að bændur megi ekki leggja það á sig að taka af vöruverði sínu þessa upphæð á fjórum árum, 6 millj., en rétt á eftir er þessi upphæð tekin af bændum endurgjaldslaust.

Hér kom fram enn fremur hjá hæstv. forsrh., að vörur, sem seldar hefðu verið úr landi, hefðu bændur fengið meira fyrir, en reiknað var með. Ég get upplýst þetta atriði. Þetta er einnig rökblekking. Það er rétt, að þeir fengu hærra útflutningsgjald. Þeir reiknuðu með 83% í útflutningsgjald, en fengu 95%. Þeir lögðu verðjöfnunargjald á vörur seldar innanlands, sem nam 85 aurum á hvert kg, en þurftu kr. 1.50, það vantaði 65 aura, til þess að það næði grundvellinum og þó að þeir fái þessar prósentur, þessi 95%, í uppbætur á útfluttar vörur, þá ná þær ekki grundvellinum fyrir því, þeir ná ekki þessum 65 aurum, sem þeir reiknuðu með að þeir yrðu að taka sem tap á bændur, vegna þess að grundvöllurinn næðist ekki. Þarna er ekki um gróða að ræða, heldur um minnkað tap frá því, sem þeir höfðu gert ráð fyrir, því að þeir vildu ekki í haust leggja meira en 85 aura verð á það kjöt, sem þeir selja innanlands, og tóku áhættuna af því, að 65 aurar yrðu lagðir á bændur sjálfa. Það er því um minna tap að ræða, en ekki gróða.

Hér var jafnframt sagt frá því af hæstv. forsrh., og hann sagði, að ef það færi milli mála, þá væri sjálfsagt að leiðrétta það, að framleiðsluráð hefði farið fram á það að fá að leiðrétta þessi 3.5% eða til vara ársfjórðungslega hækkun.

Ég hef þau ummæli eftir fleiri en einum, manni úr framleiðsluráði, að þegar þeir ræddu þessi mál við ríkisstj. þá vissu þeir ekki um það, að útgerðarmenn ættu að fá leiðréttingu, ef það yrði hækkun á grunnkaupi eða vísitölu, — vissu ekki um það, þeim var ekki sagt frá því og þeir hefðu aldrei gert þá kröfu að fá leiðréttingar, þannig að þeir fengju ársfjórðungslegar hækkanir, ef aðrar stéttir hefðu ekki fengið þær, svo sem nú er hjá sjómönnum og útgerðarmönnum.

En ég endurtek það og lengi ekki mál mitt meira til þess að eltast við þessar aths., að það hefur engin skynsamleg ástæða verið færð fram fyrir því, að það ætti að setja bændur á annan bekk en aðra. Fyrst þetta er hreyft á annað borð, fyrst það er hreyfanlegt hjá útgerðarmönnum, hvers vegna ættu bændur að stunda sína útgerð, sinn landbúnað undir öðrum kringumstæðum en sjávarútvegurinn stundar sína atvinnu. Og þar sem þetta er þó ekki meira en 6 millj., sem er að vísu nokkur upphæð, þá sé ég satt að segja ekki, hvernig í ósköpunum stendur á því, að núv. ríkisstj. heldur fast við þetta ranglæti, sem hún græðir þó ekki meira á í allri súpunni en 6 milljónir króna.

Ég vil nú vænta þess, að þær brtt., sem við framsóknarmenn berum fram hér í hv. þd., verði samþ. og leiðrétting fáist á þessu máli, því að eins og ég sagði áðan og endurtek: Það hafa engin skynsamleg rök komið fram fyrir því, að bændur eigi að vera öðruvísi settir, en aðrar stéttir í þessu máli. Það er hreint ranglæti.