30.01.1959
Efri deild: 61. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í B-deild Alþingistíðinda. (261)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það er gott að vita mikið. Það er gott að vita, hvert meðalkaup verkamanna í Reykjavík hefur verið 1958. Ráðh. veit það, að það á að leggjast til grundvallar kaupi bænda nú og þeir að fá sama kaup og er hjá Dagsbrúnarmanni í Reykjavík.

Menn eru ekki búnir að telja fram enn þá fyrir árið 1958. Það er verið að skila framtölunum núna og það er ekki byrjað að taka úrtakið, sem kaup bóndans á að miðast við.

En ráðh. veit, hvað það muni verða og getur reiknað það. Það er gott að vera svona fróður. En er ekki varasamt að gera ágizkanir að fullyrðingum?